Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Fjölmiðlar hafa brugðist
4.5.2009 | 21:45
Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í því að upplýsa fólk og útskýra fyrir því þau úrræði sem skuldurum bjóðast sem aðstoð í greiðsluvanda. Það er furðulegt að fjölmiðlar skuli eyða meira púðri í að ýta undir þá falsvon hjá örvingluðu fólki að það geti bara hætt að borga skuldir sínar - að greiðsluverkfall sé valkostur - heldur en að greina frá þeirri aðstoð sem fólki stendur til boða.
Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á. Það gæti hinsvegar leitt af sér annað hrun. Hver er bættari með því?
Nú þegar stendur fólki til boða margvísleg aðstoð í greiðsluvanda, eins og sjá má á listanum hér neðar. Margt mætti auðvitað gera betur og meira af. Til dæmis mætti stórauka frá því sem nú er ráðgjöf til fólks í skuldavanda. Er ekki landið fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum sem ráða mætti til þeirra starfa að hlusta á fólk í greiðsluvanda, setja sig inn í stöðu þess og aðstoða það við að ráða fram úr honum? Ég veit að það er verið að vinna að heilmikilli ráðgjöf nú þegar - en slíka ráðgjöf tel ég að mætti margfalda að umfangi. (Þetta er nú svona vinsamleg ábending).
Já, svo mætti auðvitað laga löggjöfina þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.
Margt fleira mætti auðvitað betur fara. En lítum nánar á þau úrræði sem í boði eru nú þegar:
- Skuldajöfnun verðtryggðra lána sem þýða 10-20% lægri greiðslubyrði en ella.
- Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána sem þýðir 40-50% lægri greiðslubyrði.
- 66% hækkun vaxtabóta.
- Útgreiðsla séreignasparnaðar sem nemur 1 mkr á einstakling og 2 mkr á hjón.
- Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa verið stórefld og samið við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig, þ.e: a)Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður. b)Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár. c) Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár. d) Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir.
- Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf.
- Lögum breytt um ábyrgðarmenn þannig að ekki má lengur ganga að húseign ábyrgðarmanns.
- Ekki má lengur skuldfæra barnabætur upp í skattaskuldir
- Ekki má lengur skuldfæra hvers konar inneignir hjá ríkinu upp í afborganir Íbúðalánasjóðs.
- Frestun nauðungaruppboða fram í ágúst, sé þess óskað.
- Aðfararfrestur lengdur úr 15 dögum í 40.
- Aukinn stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota.
- Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
- Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.
Nú er mér ljóst að þessi úrræði eru engin töfralausn sem leysir hvers manns vanda. En þau létta álagið mjög og skapa skuldaranum svigrúm til þess að láta enda ná saman og komast af í kreppunni, þar til eðlilegri forsendur skapast í efnahagslífinu.
Fjölmiðlum væri nær að kynna þessi úrræði betur en gert hefur verið heldur en að ýta undir að örvinglað fólk hætti að borga. Þeim væri nær að skýra fyrir fólki hvaða lög gilda í landinu um afleiðingar slíkra aðgerða, heldur en að elta hasarinn og skemmta skrattanum.
Nóg er nú samt í okkar hrjáða landi.
Varar við örþrifaráðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Frjálshyggjumenn undir fölsku flaggi
23.4.2009 | 22:09
Hópur sem nefnir sig Félag ungs fólks í sjávarútvegi hefur sent hefur frá sér ályktunina "Fyrning aflaheimilda er aðför að 32.000 fjölskyldum". Glöggir menn hafa veitt því athygli hvað þessi ályktun er keimlík blaðagrein bæjarstjóranna þriggja sem ég hef áður gert að umtalsefni hér. Tilgangur ályktunarinnar er augljóslega sá að hræða fólk frá því að kjósa Samfylkingu og Vinstri græn með hræðsluáróðri og heimsendaspám nái tillögur þessara flokka fram að ganga um leiðréttingu á óréttlæti kvótakerfisins. Ekki í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra aðferða rétt fyrir kosningar.
Grunsemdir um að ætt og uppruna ályktunarinnar megi rekja til Sjálfstæðisflokksins fá byr undir báða vængi þegar farið er inn á heimasíðu félagsins http://www.fufs.is/ . Þá kemur nefnilega í ljós að stjórnin er skipuð tveimur stjórnarmönnum og einum fyrrverandi stjórnarmanni Frjálshyggjufélagsins http://www.frjalshyggja.is/
Einar H. Björnsson bloggari hefur veitt þessu athygli. Hann veltir fyrir sér í þessari bloggfærslu hvaða hagsmuna sumir stjórnarmanna FUFS hafi að gæta í sjávarútvegi. Þar er um að ræða:
- Friðbjörn Orra Ketilsson, eiganda Vefmiðlunar ehf, og einn helsti talsmann frjálshyggjufélagsins;
- Gísla Frey Valdórsson, eigandi Viðskiptablaðsins, talsmann frjálshyggjufélagsins og kosningastjóra í prófkjörum Birgis Ármannssonar; og
- Fannar Hjálmarsson, framkvæmdastjóra kjördæmisráðs og kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Það var Fannar sem var að svara fyrir auglýsingar Sjálfstæðismanna í garð Steingríms J. Sigfússonar sem VG hefur kært í NV-kjördæmi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 24.4.2009 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bæjarstjórar í slorvinnu
22.4.2009 | 13:45
Þrír bæjarstjórar birtu grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar hóta þeir endalokum sjávarútvegsins ef Samfylkingin fær framgengt löngu tímabærri leiðréttingu á óréttlátu kvótakerfi sem mikill meirihluti landsmanna er sammála um að þurfi að breyta.
Þetta er kerfi sem hefur með tímanum þróast yfir í leiguliðakerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni.
Fyrir um tvöhundruð árum lagðist af illræmt leiguliðakerfi meðal íslenskra bænda. Enginn vill taka það upp aftur. Hví ættum við að sætta okkur við ósanngjarnt leiguliðakerfi í sjávarútvegi á 21. öld?
Bæjarstjórarnir þrír, láta sem þeir séu að skrifa fyrir byggðarlögin þrjú þar sem þeir hafa verið ráðnir til starfa. Þeir saka andstæðinga kvótakerfisins um mannfyrirlitningu, gera þeim upp það viðhorf að sjávarútvegurinn sé ekkert annað en slorvinna" í augum elítunnar" svo notuð séu þeirra orð.
Hvaðan kemur þetta orðbragð spyr ég? Jú, það kemur frá þremur hálaunamönnum sem eiga það sameiginlegt, auk þess að vera Sjálfstæðismenn, að vinna allir þægilega innivinnu á vel innréttuðum skrifstofum. Þeir eru elítan og "slorvinnan" sem þeir tala um er ekki rétt lýsing á störfum fiskvinnslufólks. Það orð mætti mun frekar nota um þeirra eigin vinnuaðferðir nú rétt fyrir kosningar.
Bæjarstjórarnir þrír virðast hafa gleymt hruni byggðanna undanfarna áratugi, eftir að núverandi kvótakerfi var komið á. Þeir gleyma líka úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um kerfið brjóti mannréttindi og hindri eðlilega nýliðun. Þeir horfast heldur ekki í augu við það að í núverandi kerfi er innbyggð sama meinsemd og sú sem olli efnahagshruninu í haust. Þá sátu menn í aftursætinu aðgerðarlausir. Það má ekki gerast aftur.
Ég er frambjóðandi fyrir þessar kosningar og verð vonandi alþingismaður að þeim loknum. Ég get ekki setið þegjandi og horft á kvótakerfið með allri sinni leiguáþján, veð- og skuldsetningu hrynja yfir þjóðina.
Tillaga Samfylkingarinnar um árlega innköllun 5% aflaheimilda á 20 árum er sanngjörn leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.
----
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er endurbirt hér.
Sjálfstæðisflokkur í panik
20.4.2009 | 23:01
Ætlaði virkilega einhver að gleypa við þeirri barbabrellu Sjálfstæðisflokksins að við Íslendingar ættum að taka upp evru með milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Sú hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega óraunhæf enda varpað fram undir lok kosningabaráttunnar til þess eins að breiða yfir innbyrðis klofning Sjálfstæðisflokksins og andstöðu hans við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda sem vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar.
Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.
Sjálfstæðisflokkurinn er í einhverri panik þessa dagana. Það kemur bara ekkert af viti frá honum.
AGS getur ekki haft milligöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 23.4.2009 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum
19.4.2009 | 00:43
Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.
Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og taka allt upp á borðið án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.
Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?
Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?
Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.
Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.
----------
PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
17.4.2009 | 09:59
Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:
Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.
Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.
Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.
Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.
Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.
Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
Kjarkur og siðbót
14.4.2009 | 11:41
Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.
Þetta hógværa orð er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.
Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.
Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.
Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.
Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar. Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.
- Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.
- Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
- Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
- Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
- Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.
Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.
-----------------
PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ríkisendurskoðun gefur ekki út siðferðisvottorð til stjórnmálamanna
14.4.2009 | 00:22
Ætlast Guðlaugur Þór til þess að Ríkisendurskoðun gefi honum siðferðisvottorð í REI málinu? Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að túlka athafnir manna sem sitja við pólitíska kjötkatla.
Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hún endurskoðar ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana.
Hvað ætti Ríkisendurskoðun að geta lagt til málanna varðandi risastyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins í stjórnarformannstíð Guðlaugs Þórs hjá OR?
Svar: Ekki neitt. Nákvæmlega ekkert.
Mér er til efs að stofnunin taki það í mál að fara að gefa út vottorð í siðferðilegu álitamáli sem þessu. Máli sem snýst ekki um reikningshald Orkuveitur Reykjavíkur, heldur himinháa peningagreiðslu frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins á sama tíma og samningar stóðu yfir um eignatilfærslu á gífurlegum almenningsverðmætum frá OR í hendur einkaaðila. Já, einkaaðilans sem greiddi risastyrkinn inn á reikning Sjálfstæðisflokksins sem fór með málið á þessum tíma og hafði sinn fulltrúa sem stjórnarformann í OR.
Óskar úttektar á störfum sínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geta skal þess sem gott er ...
13.4.2009 | 15:00
Mér hefur að undanförnu orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hlífa þeim sem hlífa skyldi í þeim sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðum sem grípa þarf til í kjölfar efnahagskreppunnar. Það er á slíkum tímum sem það skiptir máli að forgangsraða í þágu velferðarhugsunar.
Sé litið til árangurs af stjórnarsetu Samfylkingarinnar undanfarin tæp tvö ár, má sjá hvers virði það er að hafa jafnaðarmannaflokk við stjórnvölinn þegar á reynir. Lítum á lífeyrismál aldraðra og öryrkja til dæmis.
Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur aldrei hækkað jafn mikið og á þeim tíma sem liðinn er frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru óskertar bætur lífeyrisþega færðar undir láhgmarkslaunm á vinnumarkaði og þeim haldið þar, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára.
Eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu Samfylkingarinnar hefur tekist að snúa þróuninni við. Greiðslur til lífeyrisþega hafa vaxið um 42% eða 19,2 milljarða milli áranna 2007-2008.
Óskertar bætur lífeyristrygginga eru nú 13% hærri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og hafa aldrei áður erið hærri. Þær munu hafa hækkað um 43% í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar.
Í reynd má segja að kjör lífeyrisþega hafi verið varin mun betur en kjör almennra launþega eftir hrun bankanna. Það er í samræmi við þá eindregnu velferðaráherslu Safmylkingarinnar að standa vörð um kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna.
Það skiptir máli hverjir stjórna.
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.4.2009 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Samfylking gerir hreint fyrir dyrum
10.4.2009 | 20:16
Þá hefur Samfylkingin gert hreint fyrir sínum dyrum og opnað bókhald sitt fyrir árið 2006 þannig að nú má sjá hverjir greiddu flokknum styrki. Það er vel.
Á þessu ári eru 14 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka. Slík lög tóku loks gildi í ársbyrjun 2007. Fram til þess hafa ársreikningar Samfylkingarinnar verið aðgengilegir á vef hennar - og svo hefur verið allt frá stofnun flokksins. Þar má sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafa hinsvegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.
En þó að Samfylkingunni beri ekki lagaleg skylda til þess að opna bókhald ársins 2006 með þeim hætti sem nú hefur verið gert, var hárrétt ákvörðun að gera það engu að síður í ljósi síðustu atburða.
Yfirlitið ber með sér að Samfylkingin hefur ekkert að fela. Þarna kemur fram að ennfremur er verið að taka saman styrki kjördæmis- og fulltrúaráða og einstakra félaga fyrir árið, og verða þeir einnig birtir opinberlega þegar tölur liggja fyrir. Slíkar upplýsingar virðist enginn annar flokkur ætla að veita.
Fram kemur í þessari frétt á eyjan.is að styrkir frá bönkunum hafi skv. almennum reglum bankaráðanna verið farnir að nema fjórum til fimm milljónum kr. árið 2006. Það er há upphæð - en virðist hafa verið það sem aðrir stjórnmálaflokkarnir fengu. Hins vegar er eftirtektarvert að hæsti einstaki styrkur til Samfylkingarinnar er 6 sinnum lægri en sá sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá FL Group.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aðrir stjórnmálaflokkar munu opna bókhald sitt fyrir árið 2006 með þessu hætti.
Samfylking opnar bókhaldið 2006 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.4.2009 kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)