Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Frjósemisdansinn um jólatréð
21.12.2007 | 14:04
Mynd hinnar heilögu guðsmóður með jesúbarnið í fangi er órjúfanlegur hluti jólanna í hugum kristinna manna. Um hana hafa verið sungnir sálmar og lofsöngvar um aldir. Í forkristnum trúarbrögðum sem sum hver tíðkast enn, til dæmis í Afríku og á Indlandi, er það þó önnur móðir sem tignuð er í tilefni af hækkandi sól. Það er móðir jörð.
Þó að fæstir átti sig á því, má vart á milli sjá hvor er meira áberandi í jólahaldi okkar nútímamanna, María mey eða móðir jörð. Tákn þeirrar fyrrnefndu blasir við í trúarlegum skreytingum, tákn þeirrar síðarnefndu breiðir út ilmandi arma inni á heimilum landsmanna um hver einustu jól - það er nefnilega jólatréð.
Jólin marka komu nýrrar tíðar, þau eru endaskeið skammdegisins, boðberar um bjartari og lengri daga. Er því vel við hæfi að kalla þau hátíð ljóssins". Þessi tímamót, sem norrænir menn nefna jól" (yule á ensku) hafa verið haldin hátíðleg frá því í árdaga, löngu áður en kristnir menn gerðu þau að fæðingarhátíð frelsara síns. Þess vegna er margt í jólahaldi okkar sem á rætur að rekja til ævafornra trúarbragða og frjósemissiða. Á það ekki síst við um þá venju að skreyta jólatré og dansa í kringum það.
Kona verður tré
Í fornum arfsögnum eru þess ýmis dæmi að manneskjur ummyndast í tré. Af einhverjum ástæðum á þetta einkum við um konur. Ein þeirra var veiðigyðjan Daphne, dóttir vatnaguðsins Nereusar, sem var sonur jarðargyðjunnar Gæju. Daphne heillaði guðinn Appolló svo mjög að hann varð frávita af ást til hennar. En hún vildi ekki þýðast fegurðar- og skáldskaparguðinn og lagði á flótta. Hann elti að sjálfsögðu og gekk svo hart fram að um síðir leitaði hún á náðir föður síns og bað hann að afmá kvenleika sinn og fegurð.
Nereus breytti henni í lárviðartré. Hár hennar varð að laufskrúði, armar hennar að greinum og húðin að trjáberki. Fæturnir urðu rætur. En Appolló var í álögum ástarinnar og þrá hans dvínaði ekki við þessi umskipti. Hann féll að trénu, faðmaði stofn þess og kyssti laufgreinarnar.
Í norrænni goðafræði höfum við hliðstæðu þessarar sögu. Þar er sagt frá Iðunni sem gætti yngingareplanna. Eitt afbrigði goðsögunnar greinir svo frá að Iðunn hafi haldið til í laufkrónu Yggdrasils en fallið þaðan niður í Niflheim. Maður hennar, skáldskaparguðinn Bragi, unni henni svo mjög að þegar hann fann hana í undirheimum ákvað hann að verða eftir hjá henni. Á meðan Bragi beið með Iðunni í myrkri og kulda Niflheims hljóðnaði söngur hans, og ekki þarf að taka fram að æsir tóku að hrörna og eldast, þegar þeir nutu ekki lengur eplanna. Hér má líta svo á að dvali Iðunnar og þögn Braga tákni vetrarsvefn náttúrunnar. Á meðan gyðjan er fjarverandi ómar enginn söngur, hvorki fugla né fallvatna og náttúran verður hrum" líkt og hin öldnu goð.
Í báðum sögum eru hin kvenlegu mögn undirstaða lífs og gróandi. Það eru skáldskaparguðir sem leita gyðjanna og báðar renna þær saman við tré. Báðar sjá þær fyrir fæðu, Daphne er veiðigyðja en Iðunn gætir eplanna sem viðhalda æsku og þrótti guðanna. Þannig hafa þær í hendi sér frumskilyrði vaxtar og viðgangs, þær eru uppspretta lífsorku og þar með tákn eða fulltrúar móður jarðar.
Fornir frjósemissiðir
Tré hafa frá fornu fari verið einkennandi í sköpunar- og goðsögum þjóða. Hér nægir að nefna ask Yggdrasils í norrænni goðafræði og skilningstré góðs og ills í kristnum fræðum. Að sama skapi gegna tré víða veigamiklu hlutverki í frjósemis- og helgisiðum margra trúarbragða. Á Indlandi tíðkast að brenna tré í ársbyrjun og marka þar með endalok og nýtt upphaf. Sambærilegur siður eru áramótabrennur norrænna þjóða.
Samkvæmt fornu tímatali voru áramótin í marsmánuði og víða mörkuðu þau því einnig vorkomuna. Þess vegna eru sumir siðir sem tengjast vorinu og sáningunni keimlíkir jóla- og áramótasiðum. Sem dæmi má nefna þá venju að höggva tré, skreyta það og stilla því miðsvæðis þar sem fólk getur dansað umhverfis það. Í sveitum Englands hefur það verið all útbreiddur siður að fagna sumri með því að skreyta hús með greinum. Maístöngin eða blómastöngin sem sett er upp miðsumars í Svíþjóð hefur svipað tákngildi og jólatréð; Jónsmessubrennan er sambærileg áramótabrennunni. Hugmyndaþræði þessara athafna má rekja til jarðardýrkunar.
Á forsögulegum tíma greina goðsögur svo frá að jarðargyðjan hafi frjóvgast af samræði við sólarguðinn. Mannkynið er ávöxtur þessarar frjóvgunar, en jörðin móðir alls þess sem grær og lifir. Af henni fæðist allt, á henni nærist allt og til hennar hverfur allt. Af tignun jarðarinnar hafa skapast fjölmargir siðir og venjur einkum tengd fæðingum og frjósemi kvenna, sáningar- og uppskerutíma jarðyrkjunnar eða greftrunarsiðum og lækningum. Þess eru jafnvel dæmi meðal ættbálka í Afríku að ekki megi yrkja jörðina til þess að særa hana ekki í bókstaflegum og yfirfærðum skilningi. Í Úganda þykir heillavænlegt fyrir uppskeruna að það sé þunguð kona sem sái í akurinn. Enn í dag þekkjast frjósemissiðir á borð við þann að ung hjón hafi sínar fyrstu samfarir í nýju plógfari og á það ýmist að tryggja frjósemi jarðar og góða uppskeru eða frjósemi hjónanna og barnalán í framtíðinni.
Flestir þeir helgisiðir sem tengjast komu ljóss og vors eru því frjósemissiðir framdir til heilla samfélaginu með tignun jarðarinnar. Helgiathafnir þessar geta tekið á sig ýmsar myndir. Stundum er um að ræða ærslafullar orgíur sem eiga að storka máttarvöldunum og örva þau til þess að veita ríkulega af regni og sól. Um leið er verið að fremja táknrænan líkingargaldur þar sem kynlífinu er ætlað að hleypa af stað heilögum endurnýjunarkrafti lífsins.
Dönsum við í kringum ..."
Frumkrafturinn sem þessum siðum er ætlað að laða fram tilheyrir hvarvetna hinni miklu móður" sem gengur undir ýmsum nöfnum meðal ólíkra samfélaga. Við helgiathafnir af þessu tagi er jarðargyðjan hlut- eða persónugerð á einhvern hátt. Stundum er manneskja hulin stráum eða laufi og hún ávörpuð með nafni gyðjunnar. Einnig er til í dæminu að gerðar séu eftirmyndir úr hálmi, greinum eða heyi. Í Svíþjóð var ungum stúlkum ætlað að dansa við slíkar hálmbrúður fyrr á tíð meðan sáning stóð yfir.
Ein skýrasta hliðstæðan sem við höfum um tengsl frjósemis- og jólasiða er forn shamanísk sögn um það hvernig ættbálkur einn endurheimti þrótt og lífsorku með svokölluðum sólardansi. Þann dans átti að fremja með tiltekinni viðhöfn og umbúnaði sem ekki mátti bregða út af. Lykilatriði þessarar athafnar var hið helga tré". Það var valið í skóginum af mikilli kostgæfni, höggvið af sérstakri varúð og helgað með vel völdum orðum og athöfnum. Loks var það sett niður miðsvæðis fyrir sjálfa athöfnina. Hún fór fram með söngvum og dansi á vígðum reit við angan af reykelsi og friðarpípum og með áköllum til móður jarðar. Fólkið gekk að trénu og hengdi litlar gjafir á greinar þess en tók svo til við að dansa mót höfuðáttunum fjórum, þ.e. hringinn í kringum tréð.
Hið helga tré"
Í nútímasamfélögum má finna margvíslega hjátrú sem tengist trénu. Flestir þekkja þann sið að snerta tré eða banka í það og þylja sjö-níu-þrettán" til að storka ekki forsjóninni með óvarlegu tali. Hefur þessi siður jafnvel verið skýrður með tilvísan til kross Krists; að snerting við tréð sé ígildi þess að snerta krossinn sjálfan og feli þannig í sér bæn til Guðs. Önnur skýring á uppruna þessa siðar er sú að með því að snerta tréð sé verið að koma illum öflum fyrir inni í trénu. Sú skýring byggir á ævafornri og útbreiddri þjóðtrú sem víða er enn við lýði í heiðnum sértrúariðkunum og wicca-göldrum. Eru þess þekkt dæmi að sjúklingum sé komið fyrir inni í holum trjábol eða gilskorningi til þess að hreinsa þá af sjúkleika eða illum öndum. Í sama tilgangi er fólk grafið í jörð, nýfædd börn lögð á grasið eða sængurkona látin stíga á torfu, svo nefndir séu fáeinir siðir tengdir jarðartignun.
Í ljósi þessa má segja að krossins helga tré" hafi yfir sér dýpri margræðni en margan grunar sem einungis hefur lesið biblíusögurnar í æsku. Sú margræðni hefur lítið að segja í hugum kristinna manna sem tigna táknið, fyrst og fremst vegna þjáningargöngu Krists og upprisu. En jafnvel í kristnum trúarbrögðum hefur um aldir þrifist margvíslegt helgikukl tengt helgum gripum, ekki síst krossinum sjálfum. Sú iðja hefur verið iðkuð af lærðum og leikum í gegnum tíðina og á vitanlega rætur að rekja til forkristinna hugmynda sem við sjáum í svokölluðum frumstæðum" trúarbrögðum.
Það gildir því um hið helga tré líkt og jólahaldið sjálft, mestu fagnaðarhátíð kristinna manna, að hinir upphaflegu hugmyndaþræðir liggja langt aftur fyrir kristið tímatal; allt aftur til fornra frjósemistrúarbragða sem byggðu á frumstæðustu hugmyndum mannsins um líf og dauða, árvissa upprisu náttúrunnar og endurlífgun jarðar. Þannig hafa siðirnir lifað af trúskipti og nýja hugmyndastrauma um aldir þótt flestir hafi gleymt uppruna þeirra.
Enn um hríð munu kristnir menn því stíga frjósemisdansinn í kringum jólatréð, staðgengil hinnar miklu móður, en lofsyngja föðurinn í upphæðum fyrir fæðingu frelsarans.
Heimildir:
Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík.
Eliade, Mircea, 1965: Patterns in Comparative Religion. London.
Gunnar Dal, 1997: Í dag varð ég kona. Reykjavík.
Eddukvæði (Ólafur Briem annaðist útgáfuna), 1968. Reykjavík.
Ólína Þorvarðardóttir, 2001: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík.
Ringgren, Helmar & Ström, Åke, V, 1954: Religionerna i historia och nutid.
Símon Jón Jóhannsson 1993: Sjö, níu, þrettán. Reykjavík.
Snorra Edda (Árni Björnsson bjó til útgáfu) 1975. Reykjavík.
Friggjarspuni í skýjum
18.11.2007 | 12:17
Sólin er horfin úr firðinum - við sjáum hana ekki aftur fyrr en 25. janúar. En í dag hefur gyðjan Frigg spunnið gullþræði sína í nóvemberhimininn. Sólgyllt ský svífa yfir fjöllum og ljómi þeirra speglast í lognkyrrum haffletinum. Þetta er fallegur dagur - verst hvað myndavélin mín er lúin. Ég veit ekki hvort hún nær að fanga þessa sjón - skelli samt inn mynd sem ég tók áðan út um stofugluggann minn. Tek þó fram að litirnir eru mun skærari og bjartari en þessi mynd ber með sér.
Í dag er mikið um að vera. Menningardagskrá um Vestfirsku skáldin í Holti í Önundarfirði hefst kl. 16:00. Við í Vestfjarðaakademíunni höfum verið að undirbúa þessa dagskrá í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar. Ég verð með yfirlitserindi um vestfirsku skáldin, en auk þess verða flutt erindi um Guðmund Inga Kristjánsson, Jón úr Vör, Jakobínu Sigurðardóttur og Steingerði Guðmundsdóttur. Sungin verða vestfirsk lög, kveðnar þulur og vísur og Grasa-Gudda úr Skugga-Sveini mun mæta til leiks, kaffiveitingar o.fl.
Já þetta er fallegur dagur til þess að mæra menningararfinn - svo sannarlega. Guð láti gott á vita.
Illa launuð háskólakennsla
31.10.2007 | 10:55
Við hverju er að búast þegar laun stundakennara eru svo lág að menn veigra sér við því að segja frá því hvað þeir fá greitt fyrir framlag sitt. Sjálf var ég stundakennari við Háskóla Íslands árum saman. Framlag mitt og annarra stundakennara var ekki meira metið en svo á þeim tíma að ég fyrirvarð mig fyrir að taka við því - hvað þá að segja frá því. Ég huggaði mig við það að þetta væri þegnskylda mín gagnvart fræðasviðinu sjálfu - og á þeirri forsendu innti ég kennsluna af hendi. Gerði það eins samviskusamlega og mér var unnt. Ég er þó ekki viss um að hver einasti fræðimaður sem til er leitað líti þannig á - get a.m.k. vel skilið ef þeir gera það ekki.
Eins og aðrir stundakennarar varð ég að sinna kennslunni með öðrum störfum. Þannig varð það nú bara - og er trúlega enn, án þess ég hafi beinlínis spurt um það nýlega.
Þetta er hárrétt ábending hjá Hákoni Hrafni Sigurðssyni. Þegar stór hluti háskólakennslu er komin í hendur undirborgaðra stundakennara, hlýtur það að hafa afleiðingar fyrir gæðastaðalinn í kennslunni. Það hlýtur hver maður að sjá.
Of margir án fullnægjandi menntunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"
7.10.2007 | 20:32
Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.
Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.
Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð".
Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):
- Er það satt þig velgi við
- vinur, íslenskunni,
- og haldir lítinn herrasið
- hana að bera í munni?
Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:
- Íslenskan er eitt það mál
- sem allir lærðir hæla
- og aldrei mun þín auma sál
- annað fegra mæla.
Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.
Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...
- móðurmálið mitt góða,
- hið mjúka og ríka,
- orð áttu enn eins og forðum
- mér yndið að veita.
Vituð ér enn - eða hvað?
Verzló vill fá enska námsbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Skottulækningar og ömmusálfræði
2.10.2007 | 11:42
Pétur Tyrfingsson sálfræðingur fór mikinn í Kastljósþætti sjónvarpsins í gærkvöldi. Umfjöllunarefnið var höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun sem hann kallar "skottulækningar" og "hindurvitni".
Iðkendur þessarar meðferðar telja hana gagnlega við ýmsum kvillum, m.a. einhverfu. Kvöldið áður hafði verið talað við mann að nafni Stanley Robinson sem nú er staddur hér á landi að kynna meðferðina. Einnig var rætt við móður einhverfs barns sem sýndi batamerki eftir slíka meðferð.
Það sem virðist helst hafa farið fyrir brjóstið á Pétri Tyrfingssyni er grein Gunnars Gunnarssonar sálfræðings þar sem hann mælir með höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun fyrir einhverfa. Röksemd Péturs er sú að rannsóknir skorti til þess að mæla með þessari meðferð eða heita árangri af henni og því geti sálfræðingur - sem telst til viðurkenndrar heilbrigðisstéttar - ekki mælt með slíkum aðferðum.
Gott og vel. Pétur svaraði því hinsvegar ekki hvernig stendur á því að starfsfólk hinna svokölluðu "viðurkenndu" læknavísinda - sálfræðingar þar á meðal - skuli taka við einhverfusjúklingum og veita þeim meðferð eða ráð af einhverju tagi þegar engar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á "lækningu" við þessum kvilla. Í framhaldinu vakna fleiri spurningar:
1) Sé krafan um vísindalegar rannsóknir að baki læknismeðferð virt til fulls - hvað má þá segja um tilraunalækningar hinna viðurkenndu læknavísinda í gegnum tíðina, t.d. við krabbameinum ýmiskonar, HIV veirunni og fleiri skæðum og erfiðum sjúkdómum? Ætlar Pétur að halda því fram að þær meðferðir sem veittar hafa verið við þessum sjúkdómum séu allar vísindalega viðurkennd "lækning" við þeim?
2) Pétur kvaðst sjálfur nota "ömmusálfræði" þegar allt annað bregst gagnvart sjúklingum sem leita til hans sem sálfræðings. Hvað er "ömmusálfræði" - og hvaða rannsóknir liggja að baki gagnsemi hennar?
3) Hvað skilur á milli ömmusálfræðinnar og til dæmis höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar?
4) Skiptir máli hvort það er sálfræðingur með starfsréttindi eða hómópati sem veitir ráð við kvillum án þess að sýnt hafi verið fram á með vísindalegum hætti að þau ráð geri gagn?
Þannig mætti lengi halda áfram - sannleikurinn er sá að það er ekkert algilt í þessum heimi. Því fannst mér Pétur Tyrfingsson full stórorður í ummælum sínum um hindurvitnin og skottulækningarnar. Hlátur hans og hæðnitónn bættu ekki úr skák.
Hitt er svo annað mál - að þeir sem trúa staðfastlega á ágæti höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar - ættu að afla sér rannsóknarstyrkja til þess að sýna fram á gagnsemi meðferðarinnar. Þannig myndu þeir gera þessari meðferð og þeim sem hennar njóta gagn til framtíðar. Sé aðferðin raunverulega að virka hlýtur það að koma talsmönnum hennar betur að geta sýnt fram á það með einhverju öðru en vitnisburðum valinna einstaklinga. Það hlýtur að koma heiminum betur að sýna fram á að þetta geti verið viðurkennt lækningaúrræði - eða a.m.k. til þess fallið að bæta líðan fólks.
Sjálf hef ég tekið lýsi og birkiösku í fjölda ára. Engar vísindalegar sannanir hafa sýnt fram á gagnsemi birkiöskunnar - en lýsið hefur verið rannsakað að einhverju marki. Ef ég ætti að sleppa öðru hvoru myndi ég frekar sleppa lýsinu en birkiöskunni, einfaldlega vegna þess að ég hef reynt það á sjálfri mér að mér verður meira um að hætta að taka birkiösku en lýsi. Engar vísindalegar rannsóknir liggja til grundvallar þessari reynslu minni. Hún er sönn engu að síður - og þannig er um margt í veröldinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Fyrirsátin í Columbiaháskóla
26.9.2007 | 11:25
Enginn er ég aðdáandi íranskra stjórnvalda - en móttökurnar sem Mahmud Ahmadinejad Íransforseti fékk í Columbiaháskóla í New York í fyrradag vekja undrun mína, jafnvel hneykslun.
Ég horfði á myndband af fundinum á netinu, og verð að segja að formáli Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla að ræðu Ahmadinejads, gekk fram af mér. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessum fundi væri ekki ætlað að virða rétt Íransforseta til að tjá sjónarmið sín heldur rétt bandarískra þegna til þess að skilja og skoða hið illa í návígi. Loks klykkti hann út með því að ávarpa gestinn sem lítilmótlegan og grimman harðstjóra.
Já, illt er að eiga móttökur undir slíkum gestgjafa sem Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla. Og mig skal ekki undra þó að bandamenn Írans hafi lýst því yfir að þetta boð til Íransforseta um að sitja fundinn í Columbia hafi verið "fyrirsát". Áheyrendur klöppuðu rektornum lof í lófa, því meir sem hann hæddist að gesti sínum því ákafari urðu fagnaðarlætin. Það var raunalegt að horfa á þetta - og ekki beint akademískt.
Ég get ekki annað en tekið undir með ábendingu rektora sjö franskra háskóla sem sendu Bollinger bréf í gær með tíu spurningum. Ein þeirra laut að stuðningi bandarískra stjórnvalda við Saddam Hussein (þann blóðþyrsta harðstjóra sem hann síðar var sagður) í stríði Íraka gegn Írönum á árunum 1980-1988.
Sömuleiðis er það tvískinnungur og óþarfa fjandskapur af bandarískum stjórnvöldum að meina manninum að heimsækja vettvanginn þar sem tvítyrnið hrundi 11. september 2001. Það er einhver áróðurslykt af því að leyfa honum ekki að votta virðingu þeim sem þar létu lífið.
Satt að segja fær maður þá óþægilegu tilfinningu að nú sé verið að búa til nýjan andstæðing - Saddam Hussein allur - og því þá ekki að snúa sér að Íran? Þar finnst líka olía.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Vísa Vatnsenda-Rósu um augað fagra
10.9.2007 | 15:27
Ég þreytist ekki á að reyna að leiðrétta þessa vitleysu. Það er "augað mitt og augað þitt" EKKI "augun mín og augun þín" eins og svo margir syngja núorðið sem eina af vísum Vatnsenda-Rósu. Um þetta hef ég skrifað lærðar greinar ... og mun halda áfram að berjast við þessa vindmyllu. Og hér fylgir rökstuðningurinn. Hann er samantekt úr þremur blaðagreinum sem ég hef áður skrifað um þetta efni.
- Augað mitt og augað þitt,
- ó, þá fögru steina,
- mitt er þitt og þitt er mitt
- - þú veist hvað ég meina.
Það gerist æ algengara, einkum á seinni árum, að bjartar kvenraddir syngja af mikilli innlifun augun mín og augun þín síðan ó, þá fögru steina eða ó, þeir fögru steinar eða og þá fögru steina eða og þeir fögru steinar. Þá er klykkt út með mitt er þitt og þitt er mitt eða mitt var þitt og þitt var mitt og loks þú veist hvað ég meina en það er eina ljóðlínan sem allir virðast sammála um hvernig með skuli farið.
Svo allir njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að vísan er til í mismunandi gerðum. Einkum er misjafnt hvernig farið er með 2. og 3. línu og því skiljanlegt að þær séu sungnar á ýmsa vegu. Erfiðara er að sætta sig við þann umsnúning að setja fyrstu ljóðlínuna í fleirtölu og eyðileggja þar með rímfestu vísunnar. Þegar ég á dögunum rökræddi þetta við kunningjakonu mína sagði hún nokkuð sem trúlega varpar ljósi á það hvers vegna þessi tilhneiging er svo rík sem raun ber vitni: Maður segir nefnilega ekki auga þegar maður meinar augu. Hún var sigri hrósandi þegar hún bætti við: Það hljóta meira að segja skáldin að skilja. Séu þessi ummæli til marks um það sem gerst hefur í meðförum vísunnar, hefur merkingafræðin riðið bragfræðinni á slig.
Upptök skekkjunnar má trúlega rekja aftur til ársins 1949 þegar Snorri Hjartarson tók saman Íslenzk ástarljóð[1] og birti vísuna þar með upphafinu: Augun mín og augun þín / ó, þá fögru steina (bls. 83). Þannig orðuð virðist hún svo hafa ratað á nótnablöð, inn í sönghefti, á hljómplötur, diska og hljóðbönd með þeim afleiðingum að á síðustu árum ómar hún hvarvetna í þessari gerð.
Bragfræðin
Auðséð er að þeir eru æði margir undarlega margir sem láta sig litlu skipta að orðið þín skuli eiga að heita rímorð á móti mitt í ferskeyttri vísu. Litlu skiptir hversu ómþýður raddblærinn er sem berst úr ungmeyjarbarkanum jafnvel fegursti söngur getur ekki mildað hið skerandi ósamræmi vísuorðanna í sæmilega heilbrigðu brageyra.
Eins og allir bragglöggir menn sjá og heyra þá hefur þessi vísa Vatnsenda-Rósu verið samin í dæmigerðum ferskeyttum hætti með víxlrími þar sem saman eiga að ríma síðustu orð 1. og 3. línu annars vegar (þitt / mitt) og 2. og 4. línu hins vegar (steina / meina). Sveinbjörn heitinn Beinteinsson, einn fremsti hagyrðingur landsins, sem fáir hafa staðist snúning í bragfimi, birtir vísuna í Lausavísnasafni sem hann tók saman fyrir Hörpuútgáfuna 1976. Þar er hún eins og ég hef skrifað hana hér fyrir ofan[2]
Sveinbjörn lætur þess ekki getið hvaðan hann hefur þessa gerð vísunnar, enda ekki við því að búast í knöppu lausavísnasafni. Það gerir hinsvegar Guðrún P. Helgadóttir í sínu merka riti Skáldkonur fyrri alda þar sem hún fjallar ítarlega um ævi og skáldverk Rósu Guðmundsdóttur. Líkt og hjá Sveinbirni er upphaf vísunnar í riti Guðrúnar augað mitt og augað þitt en önnur ljóðlína er og þá fögru steina.[3] Af umfjöllun Guðrúnar má ráða að vísuna sé að finna í fjórum af þeim sjö handritum sem lagðar eru til grundvallar kaflanum um Vatnsenda-Rósu.[4]
Samtímaheimildir
Af þeim handritum vísunnar sem Guðrún tilgreinir eru þrjú frá því um og eftir miðbik nítjándu aldar. Þau eru:
- Natans saga Gísla Konráðssonar sem Dr. Jón Þorkelsson afritaði 1884[5] og studdist þá við bæði yngri og eldri gerð Natans sögu Gísla frá 1860-1865.[6] Í uppskrift Jóns er upphaf vísunnar Augað mitt og augað þitt en þriðja línan er mitt er þitt og þú er mitt.
- Ljóðmæli eftir ýmsa tilgreinda höfunda, skráð með hendi Páls stúdents Pálssonar og varðveitt í Landsbókasafni.[7] Hér er upphaf vísunnar Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar.
- Kvæðasafn ýmissa höfunda skrifað upp af nokkrum skrásetjurum á fyrri hluta 19. aldar. Í þessari heimild, líkt og í uppskrift Páls stúdents, er upphaf vísunnar einnig Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar.[8]
Þær heimildir sem nú eru nefndar eru allt 19. aldar uppskriftir á ljóðmælum, það er að segja úr samtíma skáldkonunnar. Svolítill blæbrigðamunur er á vísunni í handritunum en allar eru þær samhljóða um upphaf hennar: Augað mitt og augað þitt.
Enginn sem lesið hefur ljóðin hennar Skáld-Rósu þarf að velkjast í vafa um hvort jafn hagmælt og listhneigð kona hefði látið frá sér fara vísu sem ekki laut rímkröfum. Þá, eins og nú, var algengt að menn hnikuðu til orðaröð og settu fleirtöluorð í eintölumynd til þess að þjóna hrynjandi og formgerð ljóðmálsins. Skáld getur því hæglega komið merkingu ljóðmálsins til skila þó það fylgi ekki ströngustu málfræðireglum. Það nefnist skáldaleyfi og er vel þekkt. Um það vitna mýmörg dæmi frá ýmsum tímum ekki síst önnur vísa eftir Skáld-Rósu sem Sveinbjörn Beinteinsson birti í fyrrnefndu lausavísnasafni. Má þar glöggt sjá að skáldkonunni var vel tamt að nota eintölumyndina auga þegar hún hugsaði um augu og gerði það óhikað ef formið krafðist þess:
Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að þola.
PS: Þessi skrif eru byggð á greininni "Sjá betur augu en auga?" sem ég skrifaði um sama efni í bókina Á sprekamó - afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum" (bókaútgáfan Hólar) árið 2005.
[1] Íslenzk ástarljóð. Snorri Hjartarson valdi ljóðin. Hörpuútgáfan. Reykjavík.
[2] Lausavísur frá 1400 til 1900. Safnað hefur Sveinbjörn Beinteinsson. Hörpuútgáfan. Reykjavík 1993, bls. 12 (fyrsta útgáfa 1976).
[3] Guðrún P. Helgadóttir 1993: Skáldkonur fyrri alda II. Kvöldvökuútgáfan á Akureyri 1963, bls. 155. Bókin var síðar endurútgefin af Hörpuútgáfunni 1993.
[4] Auk handritanna styðst Guðrún við útgáfu Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi á Natans sögu Ketilssonar og Skáld-Rósu frá 1912 en þar er vísan sögð öðruvísi. Brynjólfur byggir á Natans sögu Gísla Konráðssonar sem neðar er getið og Natans sögu Tómasar Guðmundssonar á Þverá sem skráð var um miðbik 19. aldar og er varðveitt í Lbs 1933 8 vo.
[5] Lbs 1320 4to.
[6] JS 123 8vo og Lbs 1291 4 to.
[7] Lbs 162 8vo.
[8] JS 83 8vo; sbr. GPH II, nmgr. 274.
Vísindi og fræði | Breytt 28.5.2019 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Skyldan kallar - sumarleyfinu að ljúka!
16.8.2007 | 11:08
Nú finnur maður að haustið nálgast - það er komið eitthvert andkul í vindinn, þrátt fyrir blíðskaparveður. Var á hundaleitaræfingu í gærkvöld í glaða sólskini og við sáum sólina hverfa bak við fjallið. Fáeinum mínútum síðar snarkólnaði. Á heimleið tveim tímum síðar varð mér litið á hitamælinn í bílnum, hann sýndi 4 gráður.
Já, maður er farinn að láta sjá sig á skrifstofunni, svona rétt til þess að venja sig við. Nýgerðar kennsluáætlanir, fundir og önnur skyldustörf handan við næsta leiti.
Í starfi mínu hjá Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands hef ég kennslu, rannsóknir og stjórnunarstörf á minni könnu. Stjórnunarstörfin eru tilfallandi, hafa hingað til einkum beinst að stofnun nýs fræðaseturs Háskóla Íslands hér á Vestfjörðum sem verður staðsett í Bolungarvík. Þessa dagana er verið að ráða nýjan forstöðumann og ég er ásamt fleirum að skila af mér áliti til stjórnar um þá tvo aðila sem sóttu um stöðuna.
Háskólakennslan bíður líka. Í vetur mun ég kenna námskeið á MA-stigi um miðlun menningar og fræða í útvarpi. Þetta er að hluta til hagnýtt námskeið, en líka fræðilegt - það verður kennt í gegnum fjarfundabúnað héðan frá Ísafirði. Ég og nemendur munum velta fyrir okkur menningarhugtakinu og því sem kallað er "alþýðleg" fræði. Sömuleiðis hugtökunum "vísindi" og "fræði". Fyrir hverja eru vísindin, hvað eru alþýðleg fræði. Lokaverkefni nemenda verður útvarpsþáttur um menningartengt efni sem þau vinna á eigin spýtur, en þó undir handleiðslu. Spennó
Já, maður er svona smám saman að koma sér út úr sumarleyfishamnum í vinnuhaminn - og það er svo einkennilegt, að eiginlega er ég farin að hlakka til að hefjast handa við vinnu á ný.
Annars eru mörg ár síðan ég tók almennilegt sumarfrí - og þá meina ég frí þar sem maður slakar á og hugsar ekki um vinnu. Í sumar hef ég getað um frjálst höfuð strokið. Það er ótrúlega gott!
Líklega er það því að þakka að nú er ég farin að hlakka til að takast á við verkefni vetrarins.
Á ferð og flugi - það er komið sumar!
30.5.2007 | 13:11
Það er margt spennandi framundan næstu daga.
Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu. Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi
Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.
Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.
Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.
Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hver var Jón lærði?
29.5.2007 | 14:51
Ekki alls fyrir löngu fékk ég fyrirspurn frá Vísindavefnum um Jón lærða Guðmundsson, þann fróðleiksfúsa, sérstæða og drenglundaða mann sem kunni ekki að koma sér vel við höfðingja, og varð því einhverskonar útlagi í eigin föðurlandi mestalla ævi. Hann lifði á 17. öld og er meðal þeirra fyrstu sem dæmdir voru á alþíngi fyrir kukl og galdur. Hélt þó lífinu.
Söguþyrstir lesendur geta kynnt sér ságrip af sögu hans hér fyrir neðan:
Jón lærði Guðmundsson var sjálfmenntaður alþýðumaður og náttúruskoðari. Saga hans er raunaleg lífssaga manns sem var uppi á þeirri öld sem spillti upplagi hans og hæfileikum eins og Páll Eggert Ólason orðaði það (PEÓ 1942, 263).
Hann var fæddur í Ófeigsfirði á Ströndum árið 1574, varð snemma áhugasamur um verkan náttúrunnar, einkum grasa og jurta til lækninga. Á þeim árum var læknisfræði landsmanna ekki á háu stigi og meðferð lyfja nánast talin til varnargaldurs, a.m.k. ef óskólagengnir menn höfðu þau um hönd. Jón var einnig áhugasamur um rúnir og fornrit auk þess sem hann var sjálfur mjög hjátrúarfullur og sannfærður um tilvist álfa og anda.
Jón mun hafa verið blendinn í lund, heiftugur í skapi, sérvitur og fullur hjátrúar og pápískur í trú ef marka má formálsorð Guðbrands Vigfússonar að þjóðsögum Jóns Árnasonar (JÁ I, 1862, xi). Hann var hins vegar hagur maður til munns og handa, smiður góður, listaskrifari og málari, enda oft nefndur Jón málari. Margir leituðu til hans um smíðar og viðgerðir, en þess voru einnig dæmi að liðsinnis hans væri óskað til þess að fyrirkoma draugum og öðrum óhreinleika. Frægustu aðgerðir hans í því efni urðu þegar hann kvað niður reimleika á Snæfjallaströnd - Snæfjalladrauginn svonefnda með kveðskap sem varðveist hefur í handritum (Fjandafæla, Snjáfjallavísur og Umbót eður friðarhuggun).
Til er samtímaheimild frá árinu 1627 um það hvaða augum menn litu iðju Jóns lærða. Í riti sem nefnt hefur verið Hugrás, skrifað af séra Guðmundi Einarssyni á Staðarstað, prófasti í Snæfellssýslu, er rætt um lækningaviðleitni Jóns lærða. Þar segir að Jón hafi hendur yfir sjúka lagt, með lesningum og bænum og þvílík sín þjónustugjörð hafi í þann tíma svo þökkuð verið svo sem hjálp og aðstoð af himnaföðurnum sjálfum (Lbs 494 8vo, bl. 92r).
Jón lærði var talinn ákvæðaskáld (sjá skýringu neðar) og sú saga fór af honum að hann kynni margt fyrir sér, m.a. að kveða niður drauga. Mestu mun þó hafa ráðið að hann lenti í útistöðum við Ara Magnússon, sýslumann í Ögri í Ísafjarðardjúpi í framhaldi af Spánverjavígunum 1615 (Jónas Kristjánsson 1950). Ari í Ögri var á þeim tíma einn helsti héraðshöfðingi landsins, ráðríkur og aðgangsharður ef því var að skipta. Ari stóð fyrir því að fjöldi Spánverja (Baska) var veginn í tveimur aðförum sem áttu sér stað í Dýrafirði og Æðey í Ísafjarðardjúpi í októbermánuði það ár. Vígin mæltust misvel fyrir, og Jón lærði var þeirrar skoðunnar að með þeim hefði verið framið ódæði gegn varnarlausum skipbrotsmönnum. Skrifaði hann um þessa atburði Sanna frásögu af spanskra manna skiptbrotum og slagi þar sem hann tók málstað Baskanna. Í framhaldi af því reis í sveitinni rógurinn mikli / með fölskum bréfum / og forráðs lygi eins og hann segir sjálfur í ævikvæði sínu Fjölmóði (Safn til sögu Íslands, 31-85). Með þessum skrifum kallaði Jón yfir sig óvild Ara sýslumanns, var í framhaldinu kærður fyrir galdra og flosnaði upp frá fjölskyldu og börnum um hávetur.
Það má teljast athyglisvert að Jón lærði skyldi hafa komist hjá því að verða brenndur á báli. En hann var dæmdur útlægur með dómi sem gekk á Bessastöðum sumarið 1631. Leitaði hann þá á náðir yfirdóms í Kaupmannahöfn sem vísaði málinu aftur til Alþingis, og þar var útlegðardómur hans staðfestur árið 1637. Eftir það var Jón lærði útlægur úr öllum ríkjum og löndum konungs nema konungur vildi honum meiri náð sýna (Alþb. V, 483).
Jón fór þó aldrei af landi brott, og segir í Skarðsárannál að engir kaupmenn hafi fengist til að taka hann á skip (Annálar I, 251). Hann var því á vonarvöl síðustu ár ævi sinnar, og hafðist að mestu við í Múlaþingi.
Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup segir í bréfi til Óla Worms árið 1649 að Jón Guðmundsson eyði nú elliárum sínum úti í landshorni þar sem hann eldist ónýtur sjálfum sér og öðrum (Breve... III, 379). Er því vart ofmælt að ævi Jóns lærða hafi verið raunaleg lífssaga manns sem lifði erfiða tíma ogt fékk því aldrei fékk notið hæfileika sinna sem vert hefði verið.
Heimildir
- Alþingisbækur Íslands I-X. Reykjavík 1912-1967.
- Annálar 1400-1800 I-VII. Reykjavík 1922-1998.
- Breve fra og til Ole Worm I-III. Kaupmannahöfn 1965-68.
- Einar G. Pétursson 1998: Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I-II. Reykjavík.
- Ólína Þorvarðardóttir 2000: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölu og munnmælum. Reykjavík.
- (PEÓ) - Páll Eggert Ólason 1942: Saga Íslendeinga V. Seyjánda öld. Reykjavík.
- Safn til sögu Íslands V (nr. 3). Páll Eggert Ólason ritaði inngang og athugasemdir. Reykjavíkl 1916.
- Jón Árnason (safnað hefur) 1862-1864: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I-II. Leipzig
- Jónas Kristjánsson 1950: Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkingarímur. Kaupmannahöfn.
- Handrit: Lbs 494 8vo, bl. 92r
[1] Ákvæðaskáld eða kraftaskáld nefndist það fólk sem gat með kveðskap haft áhrif á velfarnað manna og atburði. Talað var um að ummæli slíkra einstaklinga yrðu að áhrínisorðum, þ.e. að þau kæmu fram. Meðal frægra kraftaskálda má nefna sr. Hallgrím Pétursson, sr. Snorra Björnsson í Húsafelli, Þormóð í Gvendareyjum, Jón lærða o.fl.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)