Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Laumast út af fyrirlestri á lokamínútum leiksins
22.8.2008 | 18:39
Í miðjum fyrirlestri laumaðist ég út svo lítið bar á til þess að fylgjast með síðasta korterinu af leiknum. Hafði gert samning við staðarhaldarann á Hrafnseyri um að fá að smjúga inn til hans og kíkja á sjónvarpið rétt á meðan leiknum væri að ljúka. Ég var nefnilega stödd á málþingi á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dr. Einar Sigurbjörnsson var á þeirri stundu með afar fróðlegt erindi um þremenningana Kolbein Tumarson, Guðmund Arason góða og Hrafn Sveinbjarnarson. En ... ég stóðst samt ekki mátið. Og ég sá það á svipnum á Einari þegar ég kom til baka að hann fyrirgaf mér. Sama átti við um nánast alla í salnum sem sneru sér við í sætunum með spurnarsvip og vildu vita hvernig leikurinn fór. Tveir þumlar upp, það fór kliður um salinn, og bros breiddust um andlit.
Áður en ég laumaðist út til að horfa á lokamínúturnar var ég búin að fá regluleg SMS frá syni mínum um stöðuna frá byrjun: 1-0 var fyrsta skeytið, svo 5-0 og svo fóru Spánverjar að skora: 19-17 var staðan á einhverjum tímapunkti. Ég var orðin friðlaus í sætinu.
Það er ótrúlegt að við skulum vera komin í þá stöðu að geta spilað um gull á Ólympíuleikum. Þetta handboltalandslið okkar er samansafn af hetjum.
Ósjálfrátt verður mér líka hugsað til Guðbjargar Guðjónsdóttur, ömmu Guðjóns Vals, þeirrar góðu konu sem er áttræði í dag. Varla hefði hún getað fengið betri afmælisgjöf.
Til hamingju Guðbjörg! Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland!
Íslendingar í úrslitaleikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Refir með myllustein um háls
16.7.2008 | 14:54
Refur með senditæki á stærð við lítið útvarp um hálsinn er sannkölluð hryggðarmynd. Þetta hef ég þó séð norður í Hornvík. Mér brá í brún, satt að segja, því á Hornströndum er refurinn friðaður og maður býst ekki við að sjá hann í þessu ástandi.
Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hugtökunum "friðun" og "verndun" dýra. Ná þau einungis til þess að dýr haldi lífi? Skiptir þá engu hvernig dýrið lifir?
Mér rann til rifja þessi sjón. Tækið er svo stórt að það hlýtur að vera kvalræði fyrir refinn að hafa þetta á sér. Sérstaklega þar sem hann þarf að smjúga um gjótur og ofan í greni - það getur ekki annað verið en að þetta sé fyrir honum. Hugsanlega getur hann drepist af þessu ef hann festir sig - hvað veit ég? Mér var sagt að þetta væri vegna rannsókna - einhverjir vísindamenn hefðu fengið leyfi til þess að fylgjast með ferðum refsins og setja á hann þessi senditæki.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég hlustaði á viðtal við formann Dýraverndarsamtaka Íslands í Kastljósi. Mér hefur stundum fundist skorta á að dýraverndarsinnar láti til sín taka hér á landi - og satt að segja mátti skilja á viðtalinu að enn værum við eftirbátar annarra þjóða á því sviði. Til dæmis efast ég um að eftirlit með dýrarannsóknum sé nægjanlegt hér á landi - eins og ofangreint dæmi er til vitnis um. Hvað veit ég nema sú rannsókn standi enn, og ennþá séu refir að dragnast um í Hornstrandafriðlandinu með þennan "myllustein" um háls í nafni vísindanna.
Það vill stundum gleymast að dýrarannsóknir og dýravernd þurfa ekki að fara saman. Þvert á móti geta rannsóknir á dýrum verið afar ómannúðlegar.
Að þessu sögðu skal ég viðurkenna að ég skammast mín svolítið, því sjálf hef ég ekki beitt mér mikið í dýraverndarmálum. Refina sá ég í Hornvíkinni fyrir þremur árum - og tilkynnti það ekki. Gleymdi því eiginlega.Vissi ekki heldur hvert ég átti að snúa mér - og gerði því ekkert. Hrædd er ég um að viðlíka aðgerðaleysi eigi við um ýmsa sem verða vitni að illri meðferð dýra - taka það nærri sér, segja frá því við vini og kunningja, en láta þar við sitja.
Svona til umhugsunar.
Vísindi og fræði | Breytt 17.7.2008 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
,,Mismunun gegn konum er glæpur''
4.6.2008 | 15:03
Þetta segir Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Maud de Boer Buquicchio flutti erindi á fjórðu Tengslanetsráðstefnunni sem haldin var á Bifröst í síðustu viku, undir yfirskriftinni ,,Konur og réttlæti''.
Þessi orð brenndu sig inn í vitund mína. Ég hef aldrei heyrt íslenskan stjórnmálamann, álitsgjafa eða mannréttindafrömuð orða þetta meginatriði kvenréttindabaráttunnar með þessum hætti. Nú hefur Maud tekið af þeim ómakið. Þessi eftirsótti fyrirlesari sem varð fyrst kvenna til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og þekkir svo vel stöðu mála í 46 aðildarríkjum þess, þar sem búa um 800 milljón manna. Maud de Boer Buquicchio er lögfræðingur að mennt og hefur sérstaklega látið sig varða jafnréttismál og mannréttindi almennt. Hún talar bara um hlutina eins og þeir eru: Kynjamismunun er glæpur - rétt eins og kynþáttamismunun og önnur mannréttindabrot.
Hvað þýðir þetta?
Það þýðir að þeir sem hugsa sem svo, að:
- það taki tíma að breyta viðhorfum
- það sé frekja - jafnvel yfirgangur - að ,,heimta'' helmings aðild að stjórnum, ráðum, nefndum, þingsætum o.s.frv.
- eitthvað minna en fullt jafnrétti sé ásættanlegt, til dæmis hlutfallið 40/60
- við eigum að bíða eftir breytingunum - við höfum hvort eð er beðið svo lengi
o.s. frv. ... o.s. frv. ... ættu að endurskoða hugarfar sitt. Það gæti nefnilega verið ,,glæpsamlegt" þegar allt kemur til alls.
Þetta er umhugsunarefni fyrir marga sem telja sig einfaldlega vera hófsama umbótasinna, velviljaða hægfara framförum. Við erum hér að tala um þetta aðgerðarlitla fólk sem ekki er uppnæmt fyrir mörgu í umræðunni - vill ekki fara að neinu óðslega. Þetta er býsna stór hópur - og sjálfsagt margir lesendur þessara orða einmitt í þeim hópi. En er ekki hugsanlegt að með ,,hófsemi" sinni, ,,stillingu" og aðgerðaleysi sé þetta sama fólk meðvirkir gerendur í óréttlæti og mismunun?
Hugsum þetta lengra:
Er ásættanlegt að segja við blökkumann: ,,Þú hefur nú þurft að bíða svo lengi eftir fullum réttindum, þú getur beðið lengur"? Að segja við konu sem hefur verið barin á heimili sínu eða barn sem hefur verið misnotað: ,,Þetta hefur nú staðið svo lengi að þú getur nú alveg beðið ... þú hlýtur að skilja að það tekur tíma að breyta þessu"?
Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaákvæðum í lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum er hugsunarháttur af þessu tagi einfaldlega ekki tækur. Hann er glæpsamlegur.
Það er hart að segja það, en þeir eru trúlega fjölmargir Evrópubúarnir - þar á meðal Íslendingar - sem hafa þó gerst sekir um einmitt þetta.
*
PS: Í þessari frétt á mbl.is í dag segir frá því að konur skipa 13% stjórnarsæta í 120 félögum hér á landi samkvæmt könnun sem Rannsóknasetur vinnuréttar á Birfröst lét gera nýlega. Þetta er ekki bara óviðunandi - þetta er glæpur. Athugið það.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Athyglisvert
3.4.2008 | 21:30
Hefði rektor getað áminnt Hannes áður en dómur var fallinn, úr því starfs- og siðareglur innan háskólans voru álitnar ófullnægjandi? Varla.
Var ekki einmitt verið að bíða afdráttarlausrar niðurstöðu dómstóla, svo enginn vafi léki á um brotið - svo hægt yrði að bregðast við því með viðeigandi hætti? Það hélt maður.
Nú er þessi bið - fjögur ár - orðin að ástæðu til þess að aðhafast ekki í málinu.
Athyglisvert.
Samt er felldur efnislegur áfellisdómur. Rektor telur brotið "efnislega verðskulda áminningu" eins og segir í bréfinu. Sú verðskuldaða áminning er þó ekki veitt vegna "þess stranga lagaramma sem skólanum er gert að fylgja."
Sé þetta tilfellið - þá er kannski kominn tími til að endurskoða stjórnsýslulögin. Kannski er það bara hin sára staðreynd, að stjórnsýslulögin geti ekki l lengur verndað opinberar stofnanir fyrir brotum starfsmanna. Kannski eru lögin bara óljós loðmulla sem skilur bæði hið opinbera og starfsmenn þess eftir í réttaróvissu.
Ég er þó ekki viss um að svo sé. Hið "flókna" í þessu máli er ekki endilega löggjöfin sjálf, heldur hefðirnar sem skapast hafa við beitingu hennar. Eða ætti ég að segja skorti á beitingu hennar. Því yfirstjórnir ríkisstofnana veigra sér við því í lengstu lög að láta reyna á stjórnsýslulögin - og menn eru hreint ekki á einu máli um valdsheimildir þeirra. Það er nú vandinn. Annar vandi - og kannski enn stærri - er skortur á siðareglum og/eða hefðum fyrir beitingu þeirra innan háskólans.
Þetta vefst þó ekki fyrir þeim við Háskólann í Durham í Bretlandi, ef marka má þessa frétt. Umræddur deildarforseti vék úr starfi um leið og ásakanir komu fram á hendur honum um ritstuld. Hann var svo rekinn meðan rannsókn fór fram og að því loknu sviptur doktorstitli sínum.
Já, ólíkt hafast þeir að háskólarnir í Durham og við Suðurgötu - en ekki skal ég fullyrða um lagaumhverfi þeirra hvors um sig.
Átelur vinnubrögð Hannesar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Hvað skal með Hannes?
3.4.2008 | 10:19
Já, hvað á háskólarektor að gera við Hannes Hólmstein Gissurarson nú þegar hæstiréttur hefur dæmt hann fyrir ritstuld? Vefsíðan kistan.is hefur undanfarinn sólarhring beint nokkrum spurningum til háskólasamfélagsins um þetta mál. Af þeim svörum sem komin eru er ljóst að menn vilja að háskólarektor aðhafist á einhvern hátt og að menn telja dóm hæstaréttar eðlilegan.
Salvör Gissurardóttir bloggar í dag um þetta tiltæki kistunnar.is og telur að þarna sé ómaklega vegið að Hannesi bróður hennar. Hann sé þarna hafður að háði og spotti. Það er full ástæða til þess að hafa það sjónarmið í huga að hugsanlega fari menn offari í þessu máli. Söfnun álita eins og á sér stað á kistunni.is getur orkað tvímælis - því með henni er hætt við að það myndist sveifla eða stemning sem kannski er ekki nægilega yfirveguð. Aðgerðarleysi og þögn háskólans á þar trúlega nokkra sök.
Þó er ég ekki sammála bloggvinkonu minni Salvöru. Þeir fræðimenn sem tjá sig á vefsíðu kistunnar eru (flest)allir að gera það af af einurð sýnist mér. Ég er ein þeirra sem svaraði spurningum vefsíðunnar og gerði það af fullri alvöru, þó ég hefði ekki mörg orð. Fólki finnst að rektor - eða yfirstjórn háskólans - eigi að bregðast við. Fólki líður illa með stöðu málsins eins og hún er. Þetta verður að virða og það er full ástæða líka til þess að þetta komi fram.
Mál Hannesar hefur leitt eitt gott af sér - og það er umræðan og aukin vitund um meðferð ritheimilda í fræðiskrifum.
Dr. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, kemur inn á það mál í sínu svari til kistunnar. Þar vekur hann athygli á þeim plagsið fræðimanna að stela verkum og hugmyndum með því að vitna ekki í frumheimildir, heldur milliliði. Höfundur A setur fram hugmynd eða kenningu sem B tekur upp. Síðan kemur C og notar kenninguna með því að vitna í B en ekki A.
Fyrir þessu hafa margir orðið, m.a. Gísli sjálfur, ég og margir fleiri. Þessi umræða er löngu tímabær - og mál til komið að hrista háskólasamfélagið aðeins til varðandi þetta, því þarna eiga margir sök.
Þó að svar Gísla sé yfirvegað og sett fram af sanngirni, get ég þó ekki tekið undir allt sem hann segir. Hann telur til dæmis að háskólayfirvöld geti ekki vikið Hannesi úr starfi vegna þess að hann hafi ekki brotið hegningarlög.
Brot í starfi þarf ekki að snúast um almenn hegningarlög - heldur gildandi starfsreglur. Séu þær brotnar, þá hlýtur viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að bregðast við. Það er svo kaleikur yfirstjórnar stofnunarinnar að bregðast rétt við - en þann kaleik vill sjálfsagt enginn taka af háskólarektor eins og sakir standa.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Vestfirsk náttúra eignast málsvara
1.4.2008 | 23:33
Á laugardaginn verða stofnuð samtök til verndar vestfirskri náttúru - og var mál til komið. Ég hef verið að stússast í undirbúningi að stofnun þessara samtaka nú um nokkurt skeið ásamt góðu fólki (aðallega konum). Með framtakinu má segja að vestfirsku náttúruverndarsamtökin sem sofnuðu út af fyrir um tveimur áratugum gangi nú í endurnýjun lífdaga undir heitinu Náttúruverndarsamtök Vestfjarða (en hétu áður Vestfirsk náttúruverndarsamtök).
Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Af einhverjum ástæðum féll starfsemin niður eftir fimmtán ár og hefur legið niðri síðan. Nú er því mál að vakna. Nýting Hornstrandafriðlandsins, áform í ferðamennsku, rannsóknir og nýting náttúrugæða og vistkerfis, umræða tengd olíuhreinsistöð, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins sem verður haldinn kl. 14:00 í Hömrum á Ísafirði. Hún mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til máls. Ég hef tekið að mér fundarstjórn og mun gæta þess að allt fari vel og virðulega fram.
Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.
Við hvetjum því Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta haft samband við mig (s. 8923139), Bryndísi Friðgeirsdóttur (864 6754) eða Sigríði Ragnarsdóttur ( 861 1426) eða sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is.
Sjáumst vonandi sem flest á laugardag
Vísindi og fræði | Breytt 2.4.2008 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Mannabein og galdur
24.3.2008 | 20:35
Hefðu "eigendur" hauskúpunnar sem fannst í Kjósinni verði uppi á sautjándu öld er nokkuð víst að þeir hefðu verið brenndir á báli sem sannreyndir galdramenn. Meðferð mannabeina í þá tíð var álitinn skýlaus vottur um fjölkynngi og ekkert annað.
Jafnvel dauðir menn voru brenndir ef í ljós kom að þeir höfðu eitthvað slíkt á sér. Það gerðist til dæmis árið 1650 þegar Jón Sýjuson var hálshöggvinn á alþingi fyrir blóðskömm. Þá uppgötvaðist eftir aftökuna að í skónum hans var hárug hausskel af manni. Höfðu menn nú snör handtök og brenndu líkið til ösku.
Meðferð mannabeina eða annarra líkamsleifa á borð við hár, neglur, jafnvel húð er þekkt í tengslum við galdraiðju og flokkast undir það sem kallað er necromantia. Í doktorsritgerð minni Brennuöldinni sem kom út árið 2000, gef ég þessu íslenska heitið náníð og tengi við myrkari gerðir galdurs á borð við þær að vekja upp og særa fram anda framliðinna. Um þetta eru þó skiptar skoðanir.
Það hljómar sjálfsagt undarlega í flestra eyrum, en þess eru dæmi enn í dag að iðkendur galdra notist við slík hjálpartæki. Til eru nornir og galdrafræðingar sem líta á líkamsleifar sem fullkomlega eðlileg meðul við galdraiðju og telja grafarmold til nauðsynjahluta. Bandaríska nornin Silver Raven-Wolf sem hefur skrifað nokkrar bækur um hagnýtan galdur, er í þeirra hópi. Ein þekktast norn á Norðurlöndum, danska galdrakonan Dannie Druehyld, talar að vísu ekki um mannabein í sinni fallegu bók Heksens håndbog, en hún er sannfærð um mátt grafarmoldar.
Ekki veit ég hvað hjólhýsafólkinu sem hafði hauskúpuna hjá sér gekk til - og ekki ætla ég að bera galdur upp á neinn. En það er hugsanlegt að þessi höfuðskel hafi einhverntíma þjónað öðru hlutverki en því að vera stofustáss.
Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Felast gæði í stórum lausnum?
25.2.2008 | 10:34
Í gær sat ég málþing um stóriðnað á Vestfjörðum. Ekki veit ég af hverju nafnið "olíuhreinsistöð" var ekki haft í yfirskrift þess, því auðvitað snerist það aðeins um olíuhreinsistöðina margumtöluðu sem Íslensku hátækniiðnaður vill setja niður í Arnarfirði eða Dýrafirði.
Þetta var gagnlegt þing og margt sem kom þar fram. Fjórðungssamband Vestfirðinga á þakkir skilið fyrir framtakið.
Þess var gætt að sem flest sjónarmið kæmu fram og málið var rætt á upplýsandi nótum - sem er lofsvert. Þarna voru mættir fulltrúar Íslensks hátækniiðnaðar, Landverndar, Samtaka Atvinnulífsins, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Auðlinda og umhverfisskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, Landsnets, Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fleiri sem skiptust á skoðunum.
Smári Geirsson, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sem beitti sér manna mest fyrir Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði á sínum tíma talaði þarna um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi. Smári er enn sannfærður um ágæti þessa alls, eins og kom glöggt fram í hans máli. En ég hjó þó eftir ýmsum varnaðarorðum sem hann lét sér um munn fara, reynslunni ríkari nú en áður. Hann varaði við hinum svokölluðu "ruðningsáhrifum", þegar litlu heimafyrirtækin víkja fyrir þeim stærri sem koma utan að. Þegar vinnandi hendur sogast á einn stað og vinnuaflsskortur verður í grunnþjónustu og víðar. Þegar inn á svæðið streymir nýtt vinnuafl - þar af 80% erlent fólk sem kemur um stundarsakir - og þörfin fyrir heilsugæslu, verslun, félagsþjónustu o.fl. eykst skyndilega.
Smári lagði herslu á að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir byggju sig undir slíkar breytingar. Ja, það er nú það. Hvernig býr maður sig undir það að verða gjaldþrota þegar risarnir mæta á markaðinn? Hvernig búa sjúkrahúsin, leikskólarnir, skólarnir og önnur stoðþjónusta sig undir það að sinna skyndilega aukinni þjónustuþörf á sama tíma og mannafli þessara stofnana er sogaður eitthvert annað? Hljómar flókið - og er það áreiðanlega.
Karl Benediktsson landfræðingur talaði um þá tilhneigingu að leggja að jöfnu magn og gæði þegar rætt er um byggðaþróun. Hann benti á að íbúafjöldinn einn og sér segði ekki endilega til um góða stöðu byggðarlags, því ánægja íbúanna með lífið á staðnum hefði einnig sitt að segja. Hann ræddi um stöðu þekkingar fyrr og nú. Hér áður fyrr var uppskriftin að öflugu samfélagið þessi: Náttúruauðlind + fjármagn + vinnuafl ásamt góðri staðsetningu. Þetta væri ávísun á velmegun í samfélagi. Í dag eru hlutirnir eilítið flóknari og fleiri þættir sem koma inn.
Nýja uppskriftin felur í sér mannauð, sögu og menningu, félagsauð og fleira sem taka þarf með í reikninginn.
Karl ræddi líka hvernig hin þögla þekking (verkkunnátta og hefðir) ásamt brjóstviti og staðbundinni þekkingu sem segja má að tilheyri landsbyggð og dreifbýli - ætti undir högg að sækja andspænis hinni skjalfestu hnattrænu þekkingu sem t.d. birtist í vísindum og sem borgirnar státa af.
Náttúrugæði eru meðal þess sem ég sjálf myndi vilja setja inn í uppskriftina um gott mannlíf í byggðarlagi. Myndirnar hér fyrir neðan gefa svolitla hugmynd um það sem ég er að meina. Þær tók Ágúst Atlason í ljósaskiptunum í Dýrafirði fog Arnarfirði yrir skömmu.
Er íslenskan úrelt mál?
14.2.2008 | 13:42
- Kennsla í íslenskum háskólum fer sumstaðar fram á ensku.
- Fræðaskrif á íslensku eru minna metin í vinnumatskerfi Háskóla Íslands en skrif á öðrum tungumálum, einkum ensku.
- Margar deildir Háskóla Íslands gera kröfu um að doktorsritgerðum sé skilað á ensku.
- Þess vegna er innan við þriðjungur doktorsritgerða sem lagðar hafa verið fram fram við HÍ á árunum 2000-2007 á íslensku.
- Háskóli Íslands stefnir að því að komast í hóp 100 bestu háskóla heims á næstu árum og fleiri háskólar setja markið einnig hátt. Ráðstefnuhaldarar spyrja - sem vonlegt er - hvort það að tala og skrifa íslensku samrýmist þá ekki þessum markmiðum?
Tja - svari nú hver fyrir sig.
- En Íslensk málnefnd og Vísindanefnd Íslendinga gangast fyrir ráðstefnu á morgun um stöðu og framtíð íslenskrar tungu í vísindum og fræðum þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar kl. 14-17 í hringstofunni á Háskólatorginu.
- Ég ætla að reyna að mæta af því ég verð í borginni ... svo fremi það verði flogið seinna í dag. Er að fara upp á Snæfellsjökul um helgina - og mun því lítið blogga næstu daga
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Háskóli er bara hugtak!
11.2.2008 | 12:14
Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.
Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum og þegar við á í námseiningum háskóla segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða.
Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla
Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.
Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni sem vonlegt er því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.
Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins.
Hvað er háskóli?
Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla. Háskóla er ætlað að veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar (lög nr. 136/1997, 2. gr.).
Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli háskóli er auðvitað bara hugtak.
Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana, einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.
Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)