Færsluflokkur: Vefurinn

Athyglisverð hljóðupptaka - undarlegt hugarfar

Reynir Traustason Það var undarlegt að hlusta á orðaflauminn renna út úr Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, þar sem hann reyndi að skýra fyrir blaðamanni sínum hvers vegna hann gæti ekki birt frétt þess síðarnefnda um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Reynir Traustason, ritstjóri er orðinn margsaga í sínum skýringum. Í yfirlýsingu sem þeir feðgar, hann og Jón Trausti Reynisson, létu frá sér í dag er áréttað að "hótanir komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV" og blaðamaðurinn hafi "ekkert fyrir sér" í því að svo hafi verið.

Hljóðupptakan sem flutt var í Kastljósi ber þó vitni um hið gagnstæða. Þar kemur ljóslega fram að Reynir Traustason afsakaði sig við blaðamanninn með því að vísa í öfluga aðila sem gætu "stútað" blaðinu ef fréttin yrði birt.

Nú íhugar ritstjórinn málsókn gegn Kastljósi fyrir að birta upptökuna.  Hann lítur svo á að þarna hafi átt sér stað einkasamtal milli sín og blaðamannsins. Vissulega var þarna samtal tveggja manna sem ekki hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt erindi í fjölmiðla. En þegar orð standa gegn orði - og annar aðilinn er auk þess með frýjanir um að hinn hafi ekkert í höndunum - þá þarf að skera úr um sannleiksgildið með einhverjum hætti. Þessi hljóðupptaka átti erindi við almenning. Svo sannarlega.

 Almenningi kemur það við hvernig ritstjórar fjölmiðla ganga fram í sínu starfi. Þeir fara með fjórða valdið - þeir hafa upplýsingaskyldu við almenning - og það er vandasamt verkefni.

Annað þótt mér merkilegt sem kom fram í þessari hljóðupptöku. Það voru orð Reynis ritstjóran um að einn daginn myndi DV takast að knésetja Björgólf Guðmundsson. Er það stefna blaðsins að knésetja þann mann? Ef til vill fleiri?

Þessi afhjúpuná afstöðu Reynis Traustasonar verður sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er jú ekki á hverjum degi sem ritstjóri "frjáls" fjölmiðils upplýsir að hann hyggist sitja fyrir einhverjum í því skyni að "taka hann" eða "skella honum" (man ekki nákvæmlega orðalagið í augnablikinu). Hann er ekki þarna að tala um raðmorðingja eða yfirlýstan nauðgara. Nei hann er að tala um mann sem hefur verið umsvifamikill í íslensku fjármála- og athafnalífi; mann sem mikið hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Björgólfur Guðmundsson er vissulega umdeildur nú um stundir, en ef þessi afstaða Reynis Traustasonar stjórnar gjörðum fjölmiðlanna sem eiga að "upplýsa" okkur almenning um það sem er að gerast á bak við tjöldin - ja, þá gef ég nú ekki mikið fyrir hina svokölluðu "upplýstu umræðu".

Þá er ekki síður athyglisvert að sjá viðleitni Reynis til að sverta blaðamanninn, þennan fyrrum starfsmann sinn, með því að blanda óskyldum málum inn í fyrrgreinda yfirlýsingu sína um þetta mál. Reynir upplýsir þar um óskylda hluti sem varða frammistöðu blaðamannsins í starfi - nokkuð sem að öllu eðlilegu ætti að vera trúnaðarmál milli vinnuveitanda og starfsmanns. Svo er hann sjálfur móðgaður og hissa á að að hljóðupptakan af símtali þeirra tveggja skuli hafa endað í Kastljósinu.

Nei, það var svo sannarlega athyglisvert og afhjúpandi að hlusta á Reyni Traustason í Kastljósinu í kvöld - því þó að samhenginu væri ekki fyrir að fara fór hugarþelið ekki framhjá neinum.

 Það hugarþel ætti ekki að vera við lýði á neinum íslenskum fjölmiðli.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV birtir gamla frétt sem ,,engu'' bætir við!?

bréfburður Á vefritinu NEI lýsir blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon tildrögum þess að frétt hans um Sigurjón Þ. Árnason fv bankastjóra Landsbankans var tekin út úr blaðinu af ritstjóra DV, Reyni Traustasyni þann 6. nóvember. Mun ritstjórinn hafa sagt að "stórir aðilar" úti í bæ hafi stöðvað birtinguna og um væri að ræða líf eða dauða fyrir DV að birta ekki fréttina.

Reynir hafnar þessu og segir nú að fréttin hafi engu bætt við það sem þegar var komið fram í fjölmiðlum um að Sigurjón Þ. Árnason væri að koma sér fyrir í húsakynnum Landsbankans og hygðist þar stunda ráðgjöf fyrir fjármálastofnanir.

En ... athyglisvert er það, að frétt sem var orðin "of gömul" fyrir mánuði, skuli samt tekin til birtingar núna á vefsíðu DV. Frétt sem auk þess "bætir engu við" það sem þá þegar var komið fram.

Sé það raunverulega "bull" eins og ritstjórinn segir, að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um Sigurjón Þ. Árnason,  af hverju er hann þá að birta þessa frétt  löngu síðar?

Þið fyrirgefið, en ég gef lítið fyrir þessar útskýringar ritstjórans. Verð bara að segja það eins og er. Þessi yfirlýsing blaðamanna á DV sannfærir mig ekki heldur. Hún fyllir mig bara óöryggi - já, óljósum kvíða um að blaðamenn landsins séu hreint ekki frjálsir í skrifum sínum þegar allt kemur til alls.

Fjölmiðlavaldið hefur þjappast á fárra manna hendur á undanförnum árum. Nú kemur æ betur í ljós - sem okkur hefur sum hver lengi grunað - hvað sem líður siðareglum blaðamanna og góðum ásetningi þeirra að sinna sínum störfum af kostgæfni - að íslenskir fjölmiðlar eru ekki sá frjálsi upplýsingavettvangur sem æskilegt væri.

DV virðist að minnsta kosti ekki vera það.


mbl.is Reynir: Fréttin bætti engu við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum umræðunni til sóma

blómÞegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:

Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.

Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.

Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.

Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.

Eigið góðan sunnudag.


Verum neytendur og neitendur

Ég hef oft verlsað í Next og Noa Noa - þar hafa fengist falleg föt. Ég er hætt því. Málið er einfalt, eins og bloggvinur min Jón Ragnar Björnsson hefur skilmerkilega sett það upp, og ég leyfi mér að vitna beint í þá þríliðu:

  1. Verslanir settar á hausinn. 
  2. Skuldirnar skildar eftir í bönkunum. Ég, börnin mín og barnabörn ásamt hinum óbreyttu Íslendingunum greiðum skuldirnar.
  3. Fyrri verslunareigandi kaupir skuldlausar verslanirnar og getur byrjað upp á nýtt og lifað hátt, þangað til hann setur aftur á hausinn.

Þetta er sumsé Nýja Ísland. Það er eins og þeir sem halda um fjármál og viðskipti séu orðnir svo spilltir í gegn að þeim sé ómögulegt að rífa sig upp úr sukkinu. Við, þessi svokallaði almenningur, megum bara standa agndofa og horfa upp á aðfarirnar - eða hvað?

Við getum beitt okkur sem neytendur - já og þar með líka sem neitendur með einföldi þ.e. með því að neita einfaldlega að versla við þá aðila sem hafa komist yfir eignir með þessum hætti.

Ég ætla að minnsta kosti að sniðganga Next og Noa Noa. 

mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, hvaða spillingarlið?

Burt með spillingarliðið er krafa sem um hríð var upphaf og endir allra bloggfærslna á þessari síðu. Krafan var sett fram af ærnu tilefni, daginn sem fréttist að yfirmenn Kaupþings hefðu ákveðið að afnema skuldaábyrgð útvalinna "lykilstarfsmanna" í bankanum vegna hlutabréfakaupa sem námu tugum milljarða króna. Þetta voru sömu menn og margir hverjir höfðu tugi milljóna króna í laun á mánuði áður en bakakerfið hrundi. Þarna var manni einfaldlega nóg boðið.

Nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að krafan "burt með spillingarliðið" er orðin að einhverskonar samnefnara yfir kröfuna um afsagnir ráðherra, vantraust á ríkisstjórnina og sem tjáning á andúð gegn stjórnmálamönnum almennt. Þetta hefur jafnvel heyrst sem vígorð gegn lögreglunni. Woundering 

Sjálfri var mér rammasta alvara með þessum orðum þegar þau voru sett fram. Þess vegna er mér heldur ekki sama hvernig þau eru notuð. Pólitísk ábyrgð er eitt - spilling er annað. Athugið það.

Ég geri skýran greinarmun á því þegar:

  • Fagráðherra eða háttsettur embættismaður verður að horfast í augu við mistök eða að eitthvað hafi farið úrskeiðis á hans vakt annarsvegar - eða
  • yfirmenn banka falsa efnahagsreikninga, búa til leppfyrirtæki til að fela og koma undan fjármunum, nýta sér innherjaupplýsingar eða fella niður skuldaábyrgðir valinna starfsmanna vegna hlutabréfakaupa, eins og dæmi eru um.

Samskonar greinarmun geri ég á:

  • Ráðherra og/eða háttsettum embættsimanni sem er persónulega tengdur spillingu á borð við innherjaviðskipti (sbr. menntamálaráðherra/ ráðuneytisstjóri fármálaráðuneytisins), eða
  • ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að eitthvað fer úrskeiðis sem hann ræður illa við eða honum hefur yfirsést (sbr. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra).

Ekki man ég hvort það var í Japan eða Kína sem landbúnaðarráðherrann sagði af sér þegar uppskeran brást eitt árið. Þessi ráðherra tók ábyrgð á velferð fólksins í landbúnaðarhéruðum. Hann taldi sig bera pólitíska ábyrgð sem enginn annar en hann ætti að axla, jafnvel þótt um væri að ræða atburði sem hann hafði ekkert vald á.

Það er ekki sanngjarnt að krafa um afsögn ráðherra sem ber fagpólitíska ábyrgð á málaflokki hljóði:  Burt með spillingarliðið! Tja, nema sami ráðherra hafi á einhvern hátt gerst sekur um spillingu.

Burt með spillingarliðið er setning sem hefur þýðingu í mínum huga - hún er ekki bara eitthvert gaspur út í loftið. Við þessa kröfu geta menn svo bætt því sem þeim sýnist, vilji þeir ganga lengra t.d. að krefjast afsagnar ráðherra eða ríkisstjórnarinnar í heild.

En í öllum bænum - látum orð hafa merkingu. 

Já, og ... burt með spillingarliðið! Wink


Svo margt hefur gerst ...

Nú hefur bara svo margt gerst síðustu dægur að móttakarinn í mér er brunninn yfir. Hann tekur ekki við meiru í bili.  Lítið bara yfir nýliðna viku:

10. nóv. seint um kvöld: Bjarni Harðarson missir frá sér tölvupóst á alla fjölmiðla með bréfi tveggja Framsóknarmanna til Valgerðar Sverrisdóttur og ljóstrar þar með upp um eigin áform um að koma þessu nafnlaust á framfæri í bakið á Valgerði. Landsmenn taka andköf.  


11. nóv. Bjarni segir af sér þingmennsku. Andköf halda áfram.

12. nóv. Forseti Íslands lætur ummæli falla á fundi með fulltrúum nágrannaþjóða sem verða þess valdandi að menn sitja klumsa undir ræðuhöldunum. Norski sendiherranns sér ástæðu til að senda heim sérstaka greinargerð um uppákomuna. Landsmenn líta hver á annan.

14. nóv. Sjálfstæðismenn ákveða að flýta landsfundi fram í janúar og skipa nefnd um Evrópumál sem á að skila af sér fyrir landsfundinn. Sama dag ...

14. nóv. leggur ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum í landinu. Maður er rétt farinn að fletta í gegnum aðgerðalistann þegar næsta stórfrétt dynur yfir. 


15. nóv. Framsóknarflokkurinn heldur þann "magnaðasta" miðstjórnarfund sem framsóknarmenn hafa setið, svo vitnað sé í bloggskrif eins þeirra. Á þessum fundi verða þau stórtíðindi að flokkurinn tekur stefnuna til Evrópu. Hart er deilt á forystuna og af fundinum heyrast hróp og köll gegnum luktar dyr. Loft er lævi blandið. Sama dag ...

15. nóv.  mótmæla 6-8 þúsund manns á Austurvelli - hafa aldrei verið fleiri -  Alþingishúsið er þakið eggjarauðum og klósettpappír.

16. nóv. Ríkisstjórnin kynnir samkomulag í Ísbjargar deilunni. Ekki er fyrr búið að taka hljóðnemana úr sambandi og kalla til aðjúnkta, dósenta og lektora til að tjá sig um málið en ...

17. nóv. að morgni dags: Gert er uppskátt um þá 27 liði sem felast í umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst berast af þessu lausafregnir (skúbb hjá DV ), en síðar um daginn heldur ríkisstjórnin blaðamannafund og opinberar það sem í umsókninni felst. Aftur eru kallaðir til aðjúnktar, dósentar og lektorar til að leggja mat á umsóknina. Þeir hafa ekki fyrr opnað munninn en ...


17. nóv. kl. 15:00: Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Hann er búinn að fá svo gjörsamlega nóg að hann heldur ekki einu sinni blaðamannafund - svarar ekki spurningum, heldur afhendir þingforseta bréf og segir sig frá öllu saman. Ætlar ekki að tjá sig í bráð. Þingheimur situr agndofa - bloggheimur þagnar ... um stund.

 Shocking

Það eru takmörk fyrir því sem hægt er að leggja á einn bloggara á einni viku. Nú er upplýsingaflæðið orðið svo mikið að "tölvan" er einfaldlega frosin - hún tekur ekki við meiru, og skilar ekki fleiru frá sér í bili. 

Hreinsun stendur yfir - en það er bloggstífla á meðan. Ég bið lesendur að sýna biðlund á meðan þetta ástand varir.

 


Loks vottar fyrir lausnum

kossinn Það var tími til kominn að ráðamenn þjóðarinnar færu að boða lausnir en ekki aðeins vandamál. Þið fyrirgefið, en mér sýnist það vera að gerast samhliða því að Ingibjörg Sólrún kemur inn á ríkissjónarvettvanginn á ný eftir veikindi sín. Hún skrapp í vinnuna fyrr í vikunni, og skar þá niður útgjöld í utanríkisráðuneytinu um tvo milljarða. Kom svo aftur einum eða tveimur dögum síðar og lagði upp áætlun um að bjarga Iceasave deilunni. Í dag er svo kynnt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að létta undir með heimilum landsins.

Nei, ég segi nú svona - þetta er kannski ekki alveg sanngjarnt. Whistling Auðvitað hlýtur fjöldi manns að hafa verið að vinna að þessu öllu saman vikum saman. Það hefur bara ekkert gengið einhvern veginn - og Geir er farinn að sýna þreytumerki.

Annars var athyglisvert að hlusta á Björgólf Guðmundsson í Kastljósinu í gærkvöld. Þar hélt hann því fram fullum fetum að Landsbankinn hefði átt fyrir skuldum á Mikjálsmessu, þann 29. september. Það mátti skilja á honum að í raun hafi bankinn verið lagður á hliðina af Seðlabankanum - af því að Seðlabankinn hafi ekki sinnt um að hafa nægan gjaldeyrisforða og því ekki getað komið bankanum til hjálpar, eins og farsælast hefði verið. Að vísu lét Björgólfur þess ógetið að í reynd voru bankarnir löngu vaxnir Seðlabankanum yfir höfuð og hann ekki þess megnugur að hjálpa þeim neitt þegar á reyndi. En það vissu menn auðvitað fyrir löngu ... þeir gerðu bara ekkert í því.

Þannig að ekki jókst hróður Davíðs Oddssonar við þetta viðtal - það verður bara að segjast eins og er.

Það er eiginlega að verða vandræðalegt að yfirstjórn Seðlabankans skuli ekki hafa sagt af sér. Það ætti hún að gera. Sömuleiðis yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins - eins og ég hef marg sagt - að ekki sé talað um skuldbreytingaliðið í bönkunum. Burt með spillingarliðið! 

Hef ég þá lokið máli mínu að sinni.  Cool


mbl.is Ný greiðslujöfnunarvísitala tekin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarna-greiði við Valgerði. Burt með spillingarliðið.

BjarniHarðar Þegar ég var ungur blaðamaður á NT vann ég með skemmtilegum og sérstæðum jafnaldra, Bjarna Harðarsyni að nafni - Sunnlendingi og sveitastrák að upplagi. Okkur varð vel til vina og brölluðum ýmislegt á þessum fyrstu blaðamennskuárum sem voru skemmtilegur tími. Bjarni var og er góðhjartaður maður, svolítið glíminn og fljótfær, en ég hef aldrei efast um góðvild hans og samstöðu með lítilmagnanum.

Í ljósi þessara kynna, kemur mér ekki á óvart að Bjarni skuli nú hafa sagt af sér þingmennsku og axlað þar með ábyrgð á misgjörðum sínum. Honum varð á í hita leiksins. Hann braut á öðrum leikmanni og fer nú af vellinum. Það er honum líkt að taka eigin mistökum eins og maður.

Nú, þegar Bjarni er vikinn úr vegi - er kannski hægt að fara að líta á efni þessa bréfs til Valgerðar Sverrisdóttur, sem hratt atburðarásinni af stað. Sannleikurinn er sá að sú gagnrýni sem þar kemur fram á fullan rétt á sér, og er allrar athygli verð.

Bjarna óska ég velfarnaðar í framtíðinni - ég yrði ekki hissa þótt hann léti að sér kveða á opinberum vettvangi síðar. 


Rétt skal vera rétt ... og burt með spillingarliðið!

 Sagan um að Sigurjón Árnason fv. Landsbankastjóri hafi verið að stöfum í bankanum þar til í þessari viku mun ekki eiga við rök að styðjast. Mér er ljúft og skylt að koma þessu áleiðis hér, þar sem í færslunni hér á undan er vísað til fregna um að Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson hefðu báðir haldið áfram að starfa í bankanum þar til nýlega. Nú hefur þetta verið borið til baka af Viðskiptaráðuneytinu, eins og fram kemur á eyjunni.

reykjavikurapotekRót þessara "fregna" er m.a. tölvupóstur sem gekk á netinu fyrir helgi um að Sigurjón væri enn allt í öllu í Landsbankanum, hann legði bílnum í sitt gamla bankastjórastæði og hefði sérinnréttaða skrifstofu á efri hæð Reykjavíkurapóteks. "Fréttin" varð höfð eftir starfsmanni í bankanum sem "blöskraði" þetta ástand og "gat ekki orða bundist". Orðalag og yfirbragð var mjög trúverðugt, en málið var fyrst tekið upp í Orðinu á götunni og flaug þaðan eins og eldur um sinu.

Þá vitum við það .... en það er afleitt þegar óstaðfestar sögusagnir fá byr undir báða vængi í ástandi sem þessu þar sem tilfinningaútrásin er tekin við af bankaútrásinni.

Það breytir ekki hinu, að fjöldi starfsmanna og millistjórnenda gömlu bankanna er enn að störfum í nýju bönkunum og gegna þar margir hverjir lykilhlutverki.

Og enn og aftur árétta ég það sem ég hef áður sagt, að það þarf að gera þetta mál upp, hreinsa spillinguna út úr bönkunum og stjórnkerfinu.

Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!


Notum málfrelsið: Burt með spillingarliðið!

réttlæti Hvað getum við gert? Spyr fólk hvert annað þessa dagana, agndofa yfir því ástandi sem skapast hefur í samfélaginu eftir bankahrunið. Agndofa yfir þeim upplýsingum sem berast um spillingu, misbeitingu valds og aðstöðu, meðvirkni, græðgi, óréttlæti ... ég gæti þulið hér upp langan lista.

Já, hvað getum við gert? Við höfum málfrelsi. Við getum notað það. Við eigum að nota það. 

Fyrr í dag sendi ég bréf til bloggvina minna þar sem ég bið þá að sameinast í einni kröfu - kröfu sem verði aukasetning í öllum fyrirsögnum þeirra á blogginu nú á næstunni, og þeirra lokaorð - hvert svo sem efni bloggfærslnanna er að öðru leyti: Burt með spillingarliðið!

Þannig að þegar ráðamenn þjóðarinnar, fjölmiðlafólk og aðrir, koma inn á moggabloggið, visi.is, eyjuna eða önnur bloggsvæði, þá blasi krafan við þeim hvert sem litið er.

Ég hef gert þetta nú í þrjá daga og ætla að halda því áfram i anda Katós gamla, að minnsta kosti út vikuna. Mér er nóg boðið eins og ótal fleirum. Mér til gleði sé ég að ýmsir hafa farið að dæmi mínu í dag.

Vona ég að fleiri taki undir með okkur næstu daga: 


Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband