Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Lúin eftir leitaræfingahelgi

ulfljotsvatn07-hopur    Helginni eyddi ég með Björgunarhundasveit Íslands við námskeið og leitaræfingar á Úlfljótsvatni.  Þar var þessi mynd tekin. Ég er hálf lúin eftir alla útiveruna.

Tíkin var svolítið erfið við mig - virðist ætla að taka seinni gelgjuna með trukki og dýfu. Hún var einbeitingarlaus og upptekin af umhverfinu. Fyrir vikið gengu æfingar ekki eins vel og ég hefði vonað. Verð bara að bíta á jaxlinn - eins og þegar unglingarnir ganga í gegnum sitt skeið - og bíða þess að þetta gangi yfir. Henni finnst hún flottust þessa dagana, og leynir því ekki fyrir neinum, hvorki mönnum né dýrum. Telur sig ekki þurfa að hlýða hverju sem er og iðar öll af lífi og vorgalsa. Auðvitað er hún flott, prímadonnan sú arna, ég tala nú ekki um meðan henni líður svona (þið sjáið hvað hún er sperrt). Hún reynir líka á þolrifin. 

En mikið var nú gaman að hitta alla. Ágætt veður, þátttaka góð eins og venjulega og margir hundarnir tóku ótrúlegum framförum. Þetta er mikil reynsla fyrir þá, samvera með öðrum hundum, sofið úti í búrum, margt fólk, nýtt umhverfi.

Jamm, en ég er semsagt hálf lúin. Það tekur á að keyra 500 km fram og til baka - þó félagsskapurinn sé góður. Það verður því ekki bloggað meira í bili. Kem vonandi "sterk inn" fljótlega - svona þegar ég er búin að lesa blöðin og setja mig aftur inn í málin ...  Cool

ollyogblida


Þau náðu mér á náttsloppnum - dimmisjón í MÍ

 

     dimmisjon2 dimmisjon3 dimmisjon1

Í morgun vaknaði ég við háreysti utan við húsið - ýl, gaul, hróp og söng. Þegar ég leit út um gluggann blöstu við mér hvítklæddir englar. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum, þessir englar voru með bjór í hönd - einn með gítar. Ég rankaði við mér: Dimmisjón MÍ í dag - og hópurinn mættur framan við svalirnar hjá mér.

Ekki var ég ekki fyrr komin fram á svalirnar en "Gaudeamus igitur" var brostinn á og ómaði í einradda kröftugum söng um alla götuna - eiginlega um allan Ísafjörð því það var stafalogn og hljóðbært svona snemma morguns, klukkan rétt rúmlega sjö. 

Undanfarin sex ár hefur það verið ófrávíkjanleg regla á dimmisjón-degi að útskriftarefnin hafa komið til mín í hafragraut og slátur að morgni síðasta skóladags. Inngönguversið hefur verið Gaudeamus igitur, sem þau hafa lært utanbókar og sungið við dyrnar hjá mér áður en þau ganga í bæinn. Þessari hefð var komið á fyrsta árið mitt í skólameistarastarfinu, og hefur haldist órofin síðan. 

Að þessu sinni beið þeirra morgunmatur í öðru húsi - þannig er lífið. En þau komu og kvöddu gamla skólameistarann sinn. Það gladdi mig mjög.

Einhverju sinni sagði ég við tilvonandi dimmitanta að þau myndu aldrei ná mér í rúminu - hversu snemma sem þau mættu. Ég myndi nefnilega ekki láta nemendur mína sjá mig ótilhafða að morgni dags. Jæja, þau náðu mér í þetta skipti ómálaðri og úfinni á náttsloppnum. Öðruvísi mér áður brá - en þau voru sigri hrósandi.

"Við elskum þig Ólína!" kölluðu einhverjir úr hópnum að söngnum loknum  - og þar með voru þau farin með fingurkossana mína í veganestið. Þarna stóð ég eins og gul fuglahræða í gamla náttsloppnum mínum á svölunum - og horfði tárvot á eftir þessum elskum á halda áfram sinni göngu. Ég sneri mér að Sigga mínum - sem var þarna með mér, alklæddur og reffilegur - "Þau lögðu það á sig að læra Gaudeamus" muldraði ég hrærð: "Þau þurftu þess ekki".

 Smile

Góða skemmtun í dag krakkar mínir - takk fyrir allt - og ég elska ykkur líka. 

dimmisjon07


Hundastúss og flakk

blidaibilnumsumaraefingapril07   Í gær brugðum við Blíða okkur á leitaræfingu með björgunarhundasveitinn hérna fyrir vestan - það var fyrsta sumarleitaræfingin, því nú er snjóa óðum að leysa. 

Þetta var skemmtileg æfing og Blíða stóð sig með prýði. Hún hefur í allan vetur verið að æfa snjóflóðaleit, þannig að ég bjóst hálfpartinn við því að við þyrftum að bakka svolítið í sumarleitinni og rifja upp eitt og annað. En, ónei. Minn hundur hefur engu gleymt frá því í haust Cool

 Hún er farin að láta vita með gelti þegar hún finnur mann - og í gær kom hún af sjálfsdáðum og sótti mig þegar maðurinn var fundinn. Ég var ekki við þessu búin svo það var eiginlega ég sem klikkaði (svona hálfpartinn). Ég hefði átt að nota tækifærið og láta hana gelta hjá mér (því hún er farin að gelta eftir skipun), en gerði það ekki. Hinsvegar hrósaði ég henni þegar hún kom til mín, og hún þaut alsæl til baka og gelti hjá þeim fundna - svo þetta bjargaðist. Í seinna rennslinu gelti hún bæði hjá þeim fundna og mér, svo æfingin endaði vel og við vorum báðar glaðar.  

sumarleit  audurogskima-utigustiogbalti

Í dag förum við Siggi keyrandi suður til þess að mæta á landsfund Samfylkingarinnar á morgun. Það er tilhlökkunarefni, enda auðfundið að nú er hugur í mönnum!

 Við ætlum að fara Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar (úff, þær eru sjálfsagt rennandi blautar og leiðinlegar) og reyna að ná Breiðafjarðarferjunni Baldri til að hvíla okkur á akstrinum. Maður verður víst að láta sig hafa það að hristast eftir rennandi blautum malarvegum á meðan ekki hefur verið gert átak í samgöngumálum okkar Vestfirðinga. Það verður sjálfsagt ekki fyrr en skipt hefur verið um samgönguráðherra í vor. Við sjáum hvað setur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband