Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver tók ákvörðun um Grímseyjarferju?

Ég spyr: HVER tók ákvörðun um kaup á þessu gamla skipi? Svarið við þeirri spurningu mun jafnframt leiða í ljós hver það er sem ber ÁBYRGÐINA í þessu máli. Þessarar spurningar hefur hins vegar ekki verið spurt enn og henni hefur því ekki verið svarað heldur. Menn hafa komist upp með að vísa hver á annan, tala út og suður og hengja bakara fyrir smið.

Minnisblaðið sem Bjarni Harðarson, minn gamli vinnufélagi og núverandi bloggvinur, birti á heimasíðu sinni í gær, sýnir svart á hvítu hvernig menn umgangast stundum almannafé.

Undanfarið hefur nokkur umræða verið um þann ósið forstöðumanna ríkisstofnana að vaða fram úr fjárheimildum án aðhalds eða eftirlits í ráðuneytum. Víst er það landlægur fjandi. En þetta dæmi með Grímseyjarferju sýnir okkur líka að kannski liggur vandinn víðar - m.a. í sjálfu stjórnkerfinu, eins og það leggur sig.

Sumsé, ég vil fá að vita hver tók þessa ákvörðun. Það hlýtur að vera hægt að fá svar við því. Þá fyrst er kominn sá flötur á málið að láta menn standa fyrir máli sínu og axla ábyrgð.

Fjölmiðlar, fáið svar við þessari spurningu. Látið ekki þetta mál blása yfir sísvona! 


Böggull og skammrif: Olíuhreinsunarstöð og vegabætur.

Arnarfjordur2 Fylgjendur olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum vísa einatt til þess að slíku fyrirtæki muni fylgja svo miklar samgöngubætur að Vestfirðingar hafi einfaldlega ekki efni á að segja nei takk! Þá muni þjónusta og fjarskipti lagast svo um munar með tilkomu slíkrar stöðvar. 

Hverskonar röksemdir eru þetta eiginlega?  Íbúar annarra landshluta sem þannig tala sýna okkur lítilsvirðingu með því að tala svona. Ef Vestfirðingar sjálfir trúa þessu, þá er lítilþægni þeirra meiri en ég hefði trúað. Við eigum ekki að þurfa olíuhreinsunarstöð til þess að fá hingað sjálfsagða hluti.

Góð þjónusta og greiðar samgöngur eru sjálfsagður hlutur í öllum landshlutum - og eiga að vera það hér á Vestfjörðum líka, óháð því hvort hér verður sett niður olíuhreinsunarstöð eða ekki. Hér eru atvinnuvegir og mannlíf sem verðskulda aðstöðu, samgöngur og þjónustu sem eru sambærileg við það sem gerist í öðrum landshlutum.

Vestfirðingar eiga sjálfsagða kröfu á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Þeir greiða sína skatta. Atvinnuvegirnir hér  leggja drjúgan skerf inn í þjóðarbúið, ekki síst sjávarútvegurinn.

Við eigum ekki að vera svo lítilþæg að líta á úrbætur í vegamálum sem einhverskonar "gjöf" eða "ölmusu" frá samfélaginu, og að slíkar úrbætur þurfi að tengja við umdeildar aðgerðir, eins og þegar böggull fylgir skammrifi.

Við Vestfirðingar erum þegnar í þessu landi - þetta landsvæði leggur fram sinn skerf og á að fá sinn skerf. Það er kominn tími til að menn átti sig á því.

----- 

Annars vil ég benda áhugasömum á að lesa vel rökstudda grein eftir Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing frá í vor, en þar fjallar hann sérstaklega um umhverfisáhrif og mengun frá fyrirhugaðir olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.


Olíuhreinsunarstöð - framtíð fyrir hvern?

arnarfjordur Olía er eldfimt efni - olíuhreinsunarstöð er álíka eldfimt umræðuefni. Það sannast á athugasemdakerfinu hjá mér eftir daginn í dag.

Ég er hrædd um að menn sjáist ekki fyrir í þessu máli - að hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild verði einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi. Og áður en menn ná almennilegum áttum verður komið reykspúandi ferlíki ofan í einn fegursta fjörð Vestfjarðakjálkans  - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið og segja NEI TAKK!

Einn bloggarinn orðaði það þannig í athugasemd hjá mér fyrr í dag:  "Gerðu mann nógu svangan og hann mun eta það sem þú réttir honum!" Ég er hrædd um að einmitt sú staða sé uppi núna. Menn eru tilbúnir að taka hverju sem er - taka við tálsýninni í von um að hún leysi einhvern vanda. Um leið er framtíðarhagsmunum fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Arnarfjordur2 Fyrr í sumar varpaði ég fram sjö spurningum sem ég vil biðja Vestfirðinga - þá sem hér búa NÚNA - að spyrja sjálfa sig, og helst að svara:

1) Er þetta framtíðartækifæri fyrir mig eða börnin mín?
2) Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu?
3) Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
4) Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
5) Mun hún fegra umhverfið? 
6) Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu?
7) Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur:

1) Ég þekki engan sem sér tækifæri eða framtíðarmöguleika fyrir sjálfan sig eða börn sín þessari olíuhreinsunarstöð.
2) Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
3) Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum.
4) Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
5) Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
6) Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika. 
7) Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Dynjandi Ég vildi óska að menn hættu að hugsa um þetta og sneru sér að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér: Háskóla, framsókn í ferðaþjónustu, menningarstarf, frumkvöðlastarf, vatnsframleiðslu, matvælaiðnað - m.ö.o. framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.


Olíuhreinsunarstöð er óráð

Hafis2005 Það eina sem virðist geta bjargað okkur Vestfirðingum núna frá því óráði að reisa olíuhreinsunarstöð í einum fegursta firði Vestfjarðakjálkans, er landsins forni fjandi. Páll Bergþórsson veðurfræðingur bendir á að hafís muni valda olíuhreinsunarstöðinni vandræðum vegna aðflutninga.

Já, Vesturbyggðarmenn hafa stokkið á hugmyndina um olíuhreinsunarstöð - og vilja endilega setja hana niður í Hvestu í Arnarfirði. Hvað verður þá um kræklingaeldið, kísilþörungavinnsluna og náttúruvörurnar frá Villimey? Að ég tali nú ekki um hugsanlegan vatnsútflutning? Allt þarf það vottun til að geta talist gjaldgengt á markaði. Varla verður þessi olíuhreinsunarstöð góð markaðssetning fyrir slíkar afurðir, eða íslenskan fisk af Vestfjarðamiðum?

 Nú segi ég bara:

  • Heill þér vinur, "landsins forni fjandi",
  • ef forðað getur þjóð frá verra tjóni:
  • Reykspúandi ferlíki á Fróni
  • í firði bláum, upp af hvítum sandi.

grrrr .... nú sest ég niður og yrki drápu - ákvæðadrápu í þeirri von að hún hrífi.

 


Hvaða læti eru þetta í öllum?

 Ég fór að leita að þessari frétt á RÚV um að mótmælendur Saving Iceland þægju fé fyrir að láta handtaka sig - en ég bara finn hana ekki. Hmmm .... hafi slík frétt verið birt er ekki nema sjálfsagt að fréttastofan færi sönnur á mál sitt en biðjist afsökunar ella.

 Annars finnast mér þessi læti út af Saving Iceland vera orðin nóg. Þetta eru krakkaormar sem gangast upp í því að vera að "bjarga" og "mótmæla" með látum.  Víst eru þau með læti - en íslenska lögreglan er bara líka með læti. Hún er einhvern veginn allt of stíf og alvarleg yfir þessu öllu.

Myndir af harkalegum átökum, allt að því barsmíðum, birtast okkur í fréttatímum eins og þetta séu einhverjir hryðjuverkamenn. Halló! Þetta eru "krakkar" - ungt fólk sem vill láta að sér kveða, en sést ekki alveg fyrir í atgangi sínum. Og satt að segja finnst mér málflutningur þeirra ekki benda til þess að hugmyndafræðin sé alveg á hreinu - a.m.k. hefur þeim ekki tekist að koma henni vel frá sér, enn sem komið er.

En "só?" (eins og börnin segja).  Væri nú ekki nær að reyna að taka á þessu með aðeins meiri húmor og slaka. Ef það er tilfellið að þau vilji fá fram handtökur og píslarvættismóment frammi fyrir myndavélum, þá er ekki klókt af lögreglunni að láta það eftir þeim.

Mér er enn minnisstætt þegar við hjónin fórum fyrir nokkrum árum á Stones-tónleika á Wembley í London - og lögreglan þurfti að sjá til þess að um hundrað þúsund manns kæmust klakklaust frá leikvanginum inn á járnbrautarstöðvarnar í kring. Það var aðdáunarvert að sjá hvernig þeir komu fram við mannfjöldann. Með gjallarhorn í höndum, sitjandi á velþjálfuðum hestum, beittu þeir léttum húmor og elskulegum athugasemdum til þess að halda mannfjöldanum í góðu skapi og stýra öllu í rétta átt. Auðvitað voru þeir viðbúnir því að grípa inn í ef eitthvað færi úrskeiðis - en þeir voru bara ekkert að sýna valdið að óþörfu. Ég dáðist að þeim.

Ég legg til að löggan ráði sér unglingasálfræðing til skrafs og ráðagerða um það hvernig best sé að tækla svona læti - því þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem ungt fólk mun sjá ástæðu til þess að mótmæla eða tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum með áþreifanlegum hætti.

 


mbl.is "Saving Iceland" krefur RÚV um sannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaust samfélag

hringar Það er siðlaust samfélag sem býr þannig um hnúta að veikt, gamalt fólk þurfi að grípa til þess óyndisúrræðis að fara fram á lögskilnað til þess að bæta stöðu sína gagnvart velferðarkerfinu. Að fólk skuli standa frammi fyrir því að rjúfa löggjörning á áratuga hjónabandi  - ganga þar með á svig við sitt helgasta heiti sem það hefur unnið frammi fyrir altarinu (þeir sem eru í vígðu hjónabandi) -- það er óhæfa. Hnignandi siðmenning.

Það, hvernig samfélög búa að veikum þegnum, styðja við fjölskyldur og hlú að sameiginlegum gildum, hefur löngum verið talið til vitnis um menningarstig þeirra. Við fregnir af þessu tagi spyr maður eðlilega hvernig komið sé fyrir samfélagsgildum okkar - virðingu fyrir manneskjum, heitum þeirra og lífsstarfi? Mér finnst þessi frétt segja okkur jafn mikið um það, eins og hitt, að hjónabandið sem stofnun á augljóslega undir högg að sækja. Þessi hornsteinn samfélags okkar og fjölskyldugerðar sem tekinn er að molna og veikjast.

Þetta er umhugsunarefni. 


mbl.is Hagkvæmnisskilnaður á áttræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirtaka á íslenskum álverum óheimil?

Á síðasta ári fullyrti ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins,  Kristján Skarphéðinsson, að yfirtaka á álverum hérlendis væri óheimil "nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum og með samþykki stjórnvalda og raforkufyrirtækjanna".  Sagði hann það vera fólgið "í samningum rekstraraðilanna við íslensk stjórnvöld og raforkuframleiðendur".

Ummæli ráðuneytisstjórans féllu þegar verið var að ræða hugsanlega yfirtöku rússneska álfyrirtækisins RUSAL á álfyrirtækinu Alcan (sem er móðurfyrirtæki Straumsvíkurálversins en ekki Fjarðaráls, eins og ég missti ranglega út úr mér í fyrri færslu).

Varla breytir það miklu hvort það er RUSAL eða Rio Tinto sem yfirtekur Alcan - þessi flötur á málinu hlýtur að vera til staðar eftir sem áður. Vonandi.


Í klóm álrisans Rio Tinto

 

RioTinto2 RioTinto Yfirtaka Rio Tintos á Alcan fyllir mig óhug. Ég kíkti inn á Wikipedia til  þessa að forvitnast um fyrirtækið, og satt að segja fellur mér nú allur ketill í eld.

 Rio Tinto er eitt stærsta fyrirtæki heims í námavinnslu og orkuiðnaði. Það framleiðir og höndlar með ál, kopar, járn og demanta og er gríðarlega umsvifamikið á heimsvísu. Þetta fyrirtæki hefur sætt ámæli og harðri gagnrýni fyrir að misvirða stéttbundin réttindi fólks auk þess sem það hefur valdið gríðarlegum náttúruspjöllum t.d. í Nýju Gíneu. Þar var fyrirtækið raunar sakað um að eiga þátt í borgarastyrjöld sem braust út í landinu.

Með yfirtöku á Alcan mun Rio Tinto fjórfalda álframleiðslu sína - það mun verða eitt alstærsta (ef ekki bara stærsta) fyrirtæki heims á sviði álframleiðslu.

Gera menn sér grein fyrir því hvaða áhrif það getur haft á íslenskt efnahagslíf að fá slíkan aðila inn í íslenskar aðstæður? Þessi risi verður eftir yfirtökuna allsráðandi - óviðráðanlegur - gagnvart íslenskum ál - og orkuiðnaði. Hann getur hæglega eignast allar fjárfestingar í íslenskum áliðnaði og gengið inn í þá samninga íslenskra orkufyrirtækja sem nú standa yfir.

Hreyfingar og yfirtökutilboð milli álfyrirtækja að undanförnu sýna okkur að nú stendur óvægin og harkaleg samkeppni yfir milli stærstu álfyrirtækja heims: RUSAL, BHP Billington, Alcoa, Alcan, Chalco, og NorskHydro. Þær sviptingar sýna svo ekki verður um villst að viðskipti þessara aðila snúast fyrst ogfremst um hagsmuni fjarmagnseigenda og fyrirtækja en ekki samfélagsleg gildi, bætt mannlíf eða náttúruvernd. Litla Ísland má sín lítils í klóm slíkra aðila - þegar þeir kasta landinu á milli sín í viðskiptum um fjármagn og gróða - eins og þegar tröllin leika sér að fjöreggjum. 

Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni að þessi tíðindi auki ekki vonir manna um að sátt náist um umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi.

Skelfilegri er þó tilhugsunin um íslenskan þjóðarbúskap í heljargreipum þessa erlenda álrisa. Stjórnvöld ættu að leita allra hugsanlegra leiða til þess að hafa áhrif á það sem nú er að gerast, sé þess nokkur kostur.

Ég óttast hinsvegar að úrræðin séu ekki mörg í stöðunni eins og hún er. Því miður.


Mótvægisaðgerðir í orði eða á borði?

 EinarKGudfinns Það eru vafalítið þung spor fyrir sjávarútvegsráðherra að stíga fram með ákvörðun um þriðjungs niðurskurð á þorskveiðum landsmanna.  Og ég skil vel að stjórnvöld vilji með öllum ráðum reyna að milda áhrif þeirrar ákvörðunar - enda liggur við uppreisnarástandi, svo hart koma þessar aðgerðir niður að málsmetandi menn hafa jafnvel hótað að segja sig úr lögum við fiskveiðistjórnunarkerfið.

Það sem truflar mig þó er ákveðinn orðhengilsháttur í umræðunni, einkum varðandi hinar boðuðu mótvægisaðgerðir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt var á miðopnu moggans í gær, segir m.a: "Unnið verður að því að efla grunnstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu svæðisins í samræmi við tillögur Vestfjarðanefndarinnar."

Ha? Tillögur Vestfjarðanefndarinnar - tóku þær á grunnstoðum atvinnulífs á Vestfjörðum? Ekki minnist ég þess, en þetta geta menn auðvitað bara skoðað sjálfir með því að lesa sjálfa skýrsluna. Þar kemur fram að nefndin leggur til að stjórnvöld fylgi byggðaáætlun 2006-2009, en auk þess eru "helstu áherslur" nefndarinnar efling "opinberrar þjónustu", eins og segir á bls. 4, og er þar einkum átt við bættar samgöngur og uppbyggingu fjarskipta (háhraðatenginga og farsímasambands), aukið öryggi í raforkumálum, menntun og rannsóknir "á vel skilgreindum styrkleikasviðum" (hvað sem það nú þýðir) og loks efling "annarrar opinberrar þjónustu". Allt gott og gilt - en hins vegar lutu tillögur nefndarinnar einungis að fjölgun opinberra starfa.

Án þess að ég vilji nú gera lítið úr tillögum Vestfjarðanefndarinnar - þá finnst mér óþarfi að upphefja störf hennar umfram það sem efni standa til. Nefndin lagði til fjölgun starfa í opinberum rekstri, samtals um 60-80 störf, eftir því hvernig er lesið úr tillögunum. Hún lagði einmitt ekkert til sem laut að grunnstoðum atvinnulífsins hér vestra, enda var eftir því tekið. Skýrslan var þvert á móti gagnrýnd fyrir að ganga of skammt.

Það veldur mér áhyggjum ef mótvægisáform stjórnvalda byggja ekki á traustari grunni en alhæfingum af ofangreindu tagi. Það veldur mér þungum áhyggjum.

þorskur

 

 


Ég játa: Get ekki hugsað mér olíuhreinsunarstöð!

oliuhreinsun oliuhreinsun2

Nú er bóndi minn staddur úti í Rotterdam ásamt bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar og einhverjum fleirum að skoða olíuhreinsunarstöðvar. Úr því að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er í umræðunni taldi hann rétt að berja eina slíka augum áður en hann tæki afstöðu til framhaldsins. Það er virðingarverð afstaða.

En eftir því sem menn ganga lengra í því að "hugsa" þetta mál með "opnum huga" - því áhyggjufyllri verð ég yfir því að kannski séu þeir að láta draga sig út í að samþykkja eitthvað sem þeir munu sjá eftir síðar. Rétt eins og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - sem skyndilega var orðin margfalt meira gímald en nokkurn hafði órað fyrir; aðstæður starfsmanna og vinnusiðferði allt annað en Íslendingar hafa átt að venjast; hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi - Jökla þögnuð - og fórnirnar meiri þegar til kastanna kom en menn höfðu gert ráð fyrir.

Ég óttast sumsé að áður en menn ná almennilegum áttum verði komið eitthvert reykspúandi ferlíki ofan í annan af tveim fegurstu fjörðum Vestfjarðakjálkans, Arnarfjörðinn eða Dýrafjörð - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið. Kannski skorti þá sýn á framtíðarmöguleika svæðisins.

Það er svo margt sem mér finnst athugavert við þetta mál. En það sem ég held að hver einasti Vestfirðingur verði að byrja á að spyrja sjálfan sig að er þetta:

  1. Vil ég þetta fyrir mig sjálfa(n)? 
  2. Er þetta framtíðartækifæri fyrir börnin mín? 
  3. Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu? 
  4. Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
  5. Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
  6. Mun hún fegra umhverfið?  
  7. Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu? 
  8. Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur: 

  1. Ég þekki engan sem sér tækifæri fyrir sjálfan sig í þessari olíuhreinsunarstöð.
  2. Hvorki ég sjálf, né nokkur sem ég þekki, sér þetta sem framtíðarmöguleika fyrir börn sín.
  3. Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
  4. Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum. 
  5. Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
  6. Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
  7. Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika.  
  8. Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Niðurstaða: Við eigum að hætta að hugsa um þetta og snúa okkur að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér; framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband