Hvaða læti eru þetta í öllum?

 Ég fór að leita að þessari frétt á RÚV um að mótmælendur Saving Iceland þægju fé fyrir að láta handtaka sig - en ég bara finn hana ekki. Hmmm .... hafi slík frétt verið birt er ekki nema sjálfsagt að fréttastofan færi sönnur á mál sitt en biðjist afsökunar ella.

 Annars finnast mér þessi læti út af Saving Iceland vera orðin nóg. Þetta eru krakkaormar sem gangast upp í því að vera að "bjarga" og "mótmæla" með látum.  Víst eru þau með læti - en íslenska lögreglan er bara líka með læti. Hún er einhvern veginn allt of stíf og alvarleg yfir þessu öllu.

Myndir af harkalegum átökum, allt að því barsmíðum, birtast okkur í fréttatímum eins og þetta séu einhverjir hryðjuverkamenn. Halló! Þetta eru "krakkar" - ungt fólk sem vill láta að sér kveða, en sést ekki alveg fyrir í atgangi sínum. Og satt að segja finnst mér málflutningur þeirra ekki benda til þess að hugmyndafræðin sé alveg á hreinu - a.m.k. hefur þeim ekki tekist að koma henni vel frá sér, enn sem komið er.

En "só?" (eins og börnin segja).  Væri nú ekki nær að reyna að taka á þessu með aðeins meiri húmor og slaka. Ef það er tilfellið að þau vilji fá fram handtökur og píslarvættismóment frammi fyrir myndavélum, þá er ekki klókt af lögreglunni að láta það eftir þeim.

Mér er enn minnisstætt þegar við hjónin fórum fyrir nokkrum árum á Stones-tónleika á Wembley í London - og lögreglan þurfti að sjá til þess að um hundrað þúsund manns kæmust klakklaust frá leikvanginum inn á járnbrautarstöðvarnar í kring. Það var aðdáunarvert að sjá hvernig þeir komu fram við mannfjöldann. Með gjallarhorn í höndum, sitjandi á velþjálfuðum hestum, beittu þeir léttum húmor og elskulegum athugasemdum til þess að halda mannfjöldanum í góðu skapi og stýra öllu í rétta átt. Auðvitað voru þeir viðbúnir því að grípa inn í ef eitthvað færi úrskeiðis - en þeir voru bara ekkert að sýna valdið að óþörfu. Ég dáðist að þeim.

Ég legg til að löggan ráði sér unglingasálfræðing til skrafs og ráðagerða um það hvernig best sé að tækla svona læti - því þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem ungt fólk mun sjá ástæðu til þess að mótmæla eða tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum með áþreifanlegum hætti.

 


mbl.is "Saving Iceland" krefur RÚV um sannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að það sé aðallega löggan sem hefur verið að skapa og vill skapa andrúmsloft hörku og löggustæla sem smáborgarar ýmsir taka fagnandi ef marka má bloggskrif. Hver man ekki eftir mótmælunum 1968? Það væri dautt samfélag þar sem unga fólkið mótmælti ekki. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.7.2007 kl. 16:18

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Lögreglan á alla mína samúð að þurfa eiga við þetta fólk. Mættu sína þessu fólki meiri hörku.

Óðinn Þórisson, 29.7.2007 kl. 18:11

3 Smámynd: Jónína Rós Guðmundsdóttir

Er alveg sammála þér.  Húmor og bros gera gæfumuninn þegar ungt fólk á í hlut. Held að lögreglan ætti stundum að láta vera að taka sig alveg svona hátíðlega.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, 29.7.2007 kl. 19:44

4 identicon

fréttinn birtist núna um daginn og mér finnst að fréttastofan á að biðja um afsökunar.

fiona (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 20:30

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir - ég verð að taka undir það með ykkur að þessi frétt er undarleg. Í henni er sett fram fullyrðing sem er áfellisdómur fyrir samtökin án þess að fram komi hver heimildin sé. Fréttastofan tekur sjálf ábyrgð á fullyrðingunni - sem er sérstakt.

Þetta er auðvitað óþægilegt fyrir Saving Iceland, og ég skil að þeir vilji hreinsa sig af þessu. Það er auðvitað óhægt um vik þegar heimildamaðurinn er ekki gefinn upp og RÚV neitar að draga fréttina til baka.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 30.7.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband