Færsluflokkur: Bloggar
Glóey varpar gullnu trafi
10.7.2007 | 11:37
Og sumardýrðin heldur áfram - á svona degi er ekki hægt að blogga, bara yrkja: Hér kemur ein "afhenda" í tilefni veðurblíðunnar. Hún fjallar að vísu um vorið, þó komið sé fram í júlí, en gerir sama gagn:
Vorið klæðir vog og sund með vindum þýðum
bliknuð vakna blóm í hlíðum.
Ungar kvika, iðar líf í ársal blóma
laust úr vetrar leiðum dróma.
Glóey varpar gullnu trafi glitra vogar
allt í sólareldi logar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Blaut Hróarskelduhátíð
9.7.2007 | 01:24
Myndirnar frá Hróarskelduhátíðinni minna mig óþyrmilega á ömurlega unglingahátíð í Þjórsárdal, margt fyrir löngu. Mér er óskiljanlegt hvernig fólk getur skemmt sér við svona aðstæður. Það hlýtur að vera mikill tónlistaráhugi sem rekur fólk til út í vosbúð og vatnselg af þessu tagi - djúp aðdáun á þeim sem troða upp - og svo eitthvað sem slævir skynjunina, hvort sem það er nú í fljótandi formi eða þurru.
Það fer um mig að horfa á fólk vaða foraðið og telja sjálfu sér trú um að þetta sé gaman. Úff!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sumardýrð og lóðarí
8.7.2007 | 13:11
Sól skín á sundin - léttist nú hver lundin.
Ótrúlega fallegur dagur í dag. Ætla að drífa mig í góðan göngutúr inn í Álftafjörð með hundana.
Jamm, ég er með aukagest á heimilinu - hann Nóa blessaðan. Fallegan, rauðbrúnan "Vísel" eins og sagt er. Nói er hreyfihamlaður, varð fyrir bíl sex mánaða gamall og er því með visinn annan afturfót. Ótúrlega duglegur að hoppa um þá þremur þessi elska - en ég þarf samt að hjálpa honum upp stigann í húsinu, hann er ekki alveg búinn að læra á þrepastærðina þar.
En það er ástand á heimilinu. Dalmatíutíkin mín hún Blíða er nefnilega að lóða - alveg á hátindi þeirrar sveiflu. Nói getur lítið gert fyrir hana, því hann er búinn að missa kúlurnar blessaður, auk þess sem hann hefur bara einn nothæfan afturfót. Hinsvegar reynir hann að gera sitt besta - og það er hálf átakanlegt að fylgjast með aðförunum. Hún hjálpar honum eftir fremsta megni - en það ber lítinn árangur. Hún skilur ekkert í þessu.
Úff! Ég þyrfti eiginlega banna aðgang að heimilinu innan sextán, meðan þetta stendur sem hæst.
Hvað um það - ætla í göngutúr með þau núna á eftir. Læt fljóta hér vísu sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég leit sólardýrðina (og hundana í garðinum) í morgun. Það hefur verið hamingjusamur maður sem orti þetta:
- Engu kvíðir léttfær lund
- ljúft er stríði að gleyma.
- Blesa ríð ég greitt um grund,
- Guðný bíður heima.
Hafið það gott í dag - njótið sumarblíðunnar
Bloggar | Breytt 9.7.2007 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mótvægisaðgerðir í orði eða á borði?
7.7.2007 | 16:12
Það eru vafalítið þung spor fyrir sjávarútvegsráðherra að stíga fram með ákvörðun um þriðjungs niðurskurð á þorskveiðum landsmanna. Og ég skil vel að stjórnvöld vilji með öllum ráðum reyna að milda áhrif þeirrar ákvörðunar - enda liggur við uppreisnarástandi, svo hart koma þessar aðgerðir niður að málsmetandi menn hafa jafnvel hótað að segja sig úr lögum við fiskveiðistjórnunarkerfið.
Það sem truflar mig þó er ákveðinn orðhengilsháttur í umræðunni, einkum varðandi hinar boðuðu mótvægisaðgerðir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt var á miðopnu moggans í gær, segir m.a: "Unnið verður að því að efla grunnstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu svæðisins í samræmi við tillögur Vestfjarðanefndarinnar."
Ha? Tillögur Vestfjarðanefndarinnar - tóku þær á grunnstoðum atvinnulífs á Vestfjörðum? Ekki minnist ég þess, en þetta geta menn auðvitað bara skoðað sjálfir með því að lesa sjálfa skýrsluna. Þar kemur fram að nefndin leggur til að stjórnvöld fylgi byggðaáætlun 2006-2009, en auk þess eru "helstu áherslur" nefndarinnar efling "opinberrar þjónustu", eins og segir á bls. 4, og er þar einkum átt við bættar samgöngur og uppbyggingu fjarskipta (háhraðatenginga og farsímasambands), aukið öryggi í raforkumálum, menntun og rannsóknir "á vel skilgreindum styrkleikasviðum" (hvað sem það nú þýðir) og loks efling "annarrar opinberrar þjónustu". Allt gott og gilt - en hins vegar lutu tillögur nefndarinnar einungis að fjölgun opinberra starfa.
Án þess að ég vilji nú gera lítið úr tillögum Vestfjarðanefndarinnar - þá finnst mér óþarfi að upphefja störf hennar umfram það sem efni standa til. Nefndin lagði til fjölgun starfa í opinberum rekstri, samtals um 60-80 störf, eftir því hvernig er lesið úr tillögunum. Hún lagði einmitt ekkert til sem laut að grunnstoðum atvinnulífsins hér vestra, enda var eftir því tekið. Skýrslan var þvert á móti gagnrýnd fyrir að ganga of skammt.
Það veldur mér áhyggjum ef mótvægisáform stjórnvalda byggja ekki á traustari grunni en alhæfingum af ofangreindu tagi. Það veldur mér þungum áhyggjum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Til varnar mávinum
6.7.2007 | 16:43
Sjáið nú þennan fallega fugl. Þetta er mávur. Fáir fuglar hafa fegurra flug eða hreinni liti. Hann er augnayndi hvort sem er á flugi eða fæti.
Borgaryfirvöld hafa ákveðið að útrýma honum.
Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna borgaryfirvöld hafa lagst í þann víking -- en skýringin er sögð sú að öndum hafi fækkað á Reykjavíkurtjörn og nú þurfi að grípa til róttækra aðgerða. Einmitt það já.
Hvers vegna ættu endur að vera rétthærri íbúar við Reykjavíkurtjörn en mávar? Er skíturinn úr þeim eitthvað heilnæmari en skarnið úr mávinum?
Auðvitað er voða gaman að sjá litla sæta andarunga synda á eftir andamömmu á góðum dögum. En mávurinn á líka unga, þó þeir syndi ekki á Tjörninni.
Reykjavíkurtjörn er orðin að brauðsúpu - og matarleifar og brauðmengun í tjörninni er að verða heilbrigðisvandamál. Ekki mávurinn.
Ég lýsi hér með andúð minni á því að útrýma einni fuglategund til þess að verja aðra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Af hverju biðjast Keflvíkingar ekki afsökunar?
5.7.2007 | 20:56
Keflvíkingar eiga bara að biðjast afsökunar - segja sem er að þeir hlupu á sig, misstu sig í hita leiksins. Það er ekki gott fyrir unga knattspyrnuaðdáendur að fylgjast með þessu orðaskaki öllu lengur.
Leikurinn fór úr böndum - menn misstu sig. Bjarni, Guðjón og rekstrarfélag ÍA hafa beðist afsökunar á þessu marki - gott hjá þeim. Nú verða Keflvíkingar að sýna að þeir hafi manndóm til að sættast - a.m.k. að þeir hafi hlaupið á sig gagnvart Bjarna.
Mistök eru bara mistök, og þau mega ekki verða aðalmálið. Það skiptir meiru hvernig menn taka á mistökum sínum og vinna úr þeim.
![]() |
Yfirlýsing frá ÍA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Ólík viðbrögð við slysamarki
5.7.2007 | 16:31
Það er fróðlegt að bera viðbrögð Keflvíkinga við marki Bjarna Guðjónssonar leikmanns ÍA, saman við framkomu leikmanna í hollenska boltanum þegar einn þeirra skoraði sambærilegt slysamark, eins og við sjáum í þessu myndbroti hér
Af þessu má margt læra um drengilega framgöngu á íþróttvelli.
Bjarni Guðjónsson hefur útskýrt að þetta var óviljaverk - hann þurfti því ekki að biðjast afsökunar á því sem þarna gerðist. Hann gerði það hinsvegar - og af því mættu Keflvíkingar líka læra.
Nú verður að fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Keflvíkinga.
![]() |
Bjarni þurfti lögreglufylgd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Ég játa: Get ekki hugsað mér olíuhreinsunarstöð!
4.7.2007 | 22:11
Nú er bóndi minn staddur úti í Rotterdam ásamt bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar og einhverjum fleirum að skoða olíuhreinsunarstöðvar. Úr því að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er í umræðunni taldi hann rétt að berja eina slíka augum áður en hann tæki afstöðu til framhaldsins. Það er virðingarverð afstaða.
En eftir því sem menn ganga lengra í því að "hugsa" þetta mál með "opnum huga" - því áhyggjufyllri verð ég yfir því að kannski séu þeir að láta draga sig út í að samþykkja eitthvað sem þeir munu sjá eftir síðar. Rétt eins og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - sem skyndilega var orðin margfalt meira gímald en nokkurn hafði órað fyrir; aðstæður starfsmanna og vinnusiðferði allt annað en Íslendingar hafa átt að venjast; hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi - Jökla þögnuð - og fórnirnar meiri þegar til kastanna kom en menn höfðu gert ráð fyrir.
Ég óttast sumsé að áður en menn ná almennilegum áttum verði komið eitthvert reykspúandi ferlíki ofan í annan af tveim fegurstu fjörðum Vestfjarðakjálkans, Arnarfjörðinn eða Dýrafjörð - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið. Kannski skorti þá sýn á framtíðarmöguleika svæðisins.
Það er svo margt sem mér finnst athugavert við þetta mál. En það sem ég held að hver einasti Vestfirðingur verði að byrja á að spyrja sjálfan sig að er þetta:
- Vil ég þetta fyrir mig sjálfa(n)?
- Er þetta framtíðartækifæri fyrir börnin mín?
- Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu?
- Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
- Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
- Mun hún fegra umhverfið?
- Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu?
- Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?
Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur:
- Ég þekki engan sem sér tækifæri fyrir sjálfan sig í þessari olíuhreinsunarstöð.
- Hvorki ég sjálf, né nokkur sem ég þekki, sér þetta sem framtíðarmöguleika fyrir börn sín.
- Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
- Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum.
- Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
- Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
- Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika.
- Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.
Niðurstaða: Við eigum að hætta að hugsa um þetta og snúa okkur að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér; framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þetta er nú Saga mín
3.7.2007 | 23:11
Þessi kattliðuga stúlka heitir Saga Sigurðardóttir. Hún er nýútskrifaður danshöfundur frá nútímadansdeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi. Ekki alls fyrir löngu sigraði hún í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest, og hefur síðan verið á ferð um heiminn að sýna dansverk sín og annarra samstarfsmanna og samnemenda frá Arnhem. Þau hafa m.a. komið til Íslands og sett hér upp verkið Víkingar og Gyðingar sem sýnt var í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og vakti verðskuldaða athygli. Nú er hún á leið til Ísrael að sýna sólóverk eftir sjálfa sig - hún nefnir það Rite.
Ég er afskaplega stolt af þessari stelpu - eins og reyndar börnunum mínum öllum Segi kannski meira frá þeim síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vísan bara braust fram
3.7.2007 | 15:19
- Leikar æsast meir og meir,
- margt er lífsins tálið,
- bréfið samdi Geir frá Geir
- en Geir veit fátt um málið
- Já, bréfið samdi Geir frá Geir,
- glæstu lofi þrungið
- vegna þess að greyið Geir
- getur ekki sungið
- ...... tja, nema Nancy aðstoði hann
![]() |
Geir Ólafs hafnar ásökunum um falsað bréf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)