Færsluflokkur: Bloggar
Þjóðernisvitund - íþróttir og tilbeiðsla
28.8.2008 | 15:05
Þetta þrennt er kyrfilega samtvinnað þessa dagana, og var til umræðu í morgunútvarpinu á Rás-1 í morgun. Þar sátum við Árni Indriðason sagnfræðingur og handboltakempa og spjölluðum um samkenndina, tilfinningar og tár þjóðarinnar þessa dagana, og bárum saman við ýmislegt í menningarsögunni. Ef ykkur langar að hlusta þá er tengillinn hér. Þetta tekur 8 mínútur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óráðsía ráðamanna á Ólympíuleikum
27.8.2008 | 13:03
Nærri fimm milljónir króna kostuðu ferðir menntamálaráðherra og föruneytis til Kína samkvæmt fréttum ríkisútvarpsins í hádeginu. Þrjú hundruð þúsund krónur fékk ráðherrann í dagpeninga. Hún tók eiginmanninn og ráðuneytisstjórann með. Tvisvar.
Ég er ekki hneykslunargjörn þegar opinberar ferðir og dagpeningar eru annarsvegar. Ég tel að ráðamenn þjóðarinnar verði að geta komist fljótt á milli staða og búið þokkalega í ferðum sínum.
Þetta finnst mér hinsvegar einum of. Menntamálaráðherra fer með ráðuneytisstjórann með sér í tvígang - í annað skiptið eru þau bæði með mökum - hitt skiptið hún - og þjóðin borgar. Satt að segja stóð ég í þeirri trú að seinni ferðin hefði verið einkaferð ráðherrans, enda var engin þörf á því þjóðarinnar vegna að fara tvisvar. Og hvað er ráðuneytisstjórinn að gera í þessa ferð? Hafði hann einhverjum embættisskyldum að gegna þarna? Hver var þá að stjórna ráðuneytinu meðan á þessu stóð?
Fram kemur í fréttinni að ríkið greiddi hótelkostnað ráðherrans - samt fær Þorgerður Katrín greiddar 300 þúsund krónur í dagpeninga. Það eru mánaðarlaun kennara.
Nei, ef þetta er ekki óráðsía, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Úrræðaleysi í Rimaskóla
27.8.2008 | 08:21
Skólabyrjunin virðist hafa komið Reykjavíkurborg og stjórnendum Rimaskóla alveg í opna skjöldu, ef marka má þessa frétt. Að minnsta kosta var frístundahúsnæðið sem ætlað var dagvistun barnanna ekki tilbúið. Móðir sjö ára barns stóð bara á tröppunum og fékk ekki umsamda gæslu.
Helmingi húsnæðisins hefur nefnilega verið lokað vegna tilmæla heilbrigðiseftirlitsins og endurbæturnar munu taka "fjórar vikur" héðan í frá. Það var þá tíminn til að hefja endurbætur, nú þegar sumarleyfum er lokið og skólahúsnæðið á að vera komið í notkun.
Umrædd móðir fékk engan fyrirvara. Ég hef engan tíma til að gera aðrar ráðstafanir, börn á þessum aldri geta ekki verið ein heima, segir hún.
Hverskonar stjórnsýsla er þetta eiginlega? Hvað ætluðust stjórnendur til að yrði um börnin? Hvar er nú sambandið og samráðið milli heimilis og skóla?
Forstöðumaður æskulýðssviðs ÍTR sem hefur með þetta að gera hjá borginni slær úr og í í samtali við mbl.is. Segir að viðgerðirnar á frístundaheimilinu orsaki ekki plássleysið. Þó kemur fram að tvær af fjórum stofum verða teknar til viðgerða í senn og mun þetta taka samtals um fjórar vikur. Sko, aðalvandinn er nefnilega mannekla - það er sko ekki heldur búið að manna störfin.
Á meðan bíða 50 börn eftir að komast í þessa vistun.
I rest my case.
![]() |
Lyklabörn vegna manneklunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Velkominn heim Paul Ramses
26.8.2008 | 14:13
Ánægjulegt var að sjá fjölskyldu Paul Ramses sameinaða á ný eftir erfiðan aðskilnað frá nýfæddu barni og eiginkonu sem var nýrisin af sæng eftir barnsburð þegar fjölskyldufaðirinn var leiddur á brott af lögreglu. Enda leynir sér ekki á þessum myndum hin heita gleði yfir endurfundum við konu og barn.
Vonandi er þetta upphafið að farsæld fjölskyldunnar í nýju landi. Þökk sé þeim sem tóku í taumana og beindu málsmeðferðinni af óheillabraut.
![]() |
Grátið af gleði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laglega byrjar það ...
25.8.2008 | 22:43
... hjá nýja borgarstjóranum. Ekki það að hlakki í mér. Nei þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég eiginlega farin að finna til með Hönnu Birnu. En - svo hristi ég það af mér að sjálfsögðu. Hún er vel að þessari skoðanakönnun komin, eins og allt hennar fylgilið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Þau hafa algjörlega kallað þetta yfir sig sjálf.
![]() |
Borgarstjórn með fjórðungs fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég finn veðurbrigði í nánd ...
25.8.2008 | 10:10
Jæja, þá eru haustlægðirnar farnar að gera vart við sig, og nú mun vera von á einni frekar krappri eins og fram kemur á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar. Ekki er laust við að maður finni þetta á sér, enda komið hausthljóð í vindinn fyrir nokkru.
Ég er ein af þeim sem finn fyrir veðurbrigðum þegar þau nálgast. Margir halda að þetta sé einhverskonar hjátrú eða bábilja. Svo er þó ekki. Ég beinlínis finn fyrir því í mjöðmum og baki þegar loftþrýstingur lækkar. Gömlu konurnar hafa löngum haldið þessu fram - og ég held að margt yngra fólk finni fyrir þessu þó það átti sig ekki alltaf á ástæðunni. Sömuleiðis verð ég svefnþung og þreytt þegar lægð er yfir landinu - þannig er það bara.
Ég minnist þess þegar ég kenndi í Gagnfræðaskóla Húsavíkur fyrir mörgum árum, að ef krakkarnir urðu óvenju órólegir - þá á ég við hópinn allan - þá sagði Sigurjón Jóhannesson skólastjóri ævinlega: Nú er lægð á leiðinni. Og það brást ekki.
Maður getur líka séð ýmis veðurmerki á dýrum, sérstaklega fuglum, þegar loftþrýstingur er að breytast.
Og sumsé - nú er lægð á leiðinni. Ég var svefnþung í morgun og svei mér ef það lagðist ekki svolítill seiðingur í spjaldhrygginn í gærkvöldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Óstjórn í Vikulokunum á Rás-1
23.8.2008 | 14:40
Í morgun hlustaði ég á seinni hluta Vikulokanna á Rás-1 undir stjórn (eða óstjórn) Hallgríms Throsteinssonar. Þarna sátu Egill Helga, Dagur B, og Júlíus Vífill ásamt stjórnandanum blaðrandi og þrefandi hver ofan í annan. Hallgrímur hafði nákvæmlega enga stjórn á umræðunum og þetta var óþolandi áheyrnar.
Menn ímynda sér kannski að svona skvaldur sé eitthvað "líflegt" eða "skemmtilegt". En það er það ekki fyrir þann sem hlustar. Það er bara pirrandi að heyra ekki mannsins mál fyrir blaðri. Heyra menn rífast og pexa hvern í kapp við annan. Það er eins og enginn geti unnt öðrum þess að tala svo hann skiljist.
Hvað er þetta með íslenska þáttastjórnendur? Af hverju geta þeir ekki stjórnað umræðuþáttum og unnið fyrir kaupinu sínu?
Þáttastjórnendur eiga að hafa stjórn á umræðunni - þeir eiga að tryggja það að þátttakendur fái tjáð sig um það sem til umræðu er. Annað er bara dónaskapur - ekki bara við þá sem koma í þáttinn heldur líka hina sem hlusta. Greiðendur afnotagjalda og hlustendur RÚV.
Svo voru umræðuefnin í þessum hluta þáttarins nánast öll með neikvæðum formerkjum um bæði menn málefni. Hrútleiðinlegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Gleðiræða Óla Stef
21.8.2008 | 23:11
Orðtakið að vera "ölvaður af gleði" fékk í fyrsta skipti merkingu í mínum huga þegar ég sá sjónvarpsviðtalið við Ólaf Stefánsson eftir sigur íslenska handboltalandliðsins á Pólverjum í gær. Því miður finn ég ekki tengil á sjálft viðtalið, en á visi.is má sjá þessa uppskrift af því.
Ólafur var í gleðivímu - hann var virkilega hátt uppi þegar fréttamaðurinn greip hann. Endorfínið fossaði um æðarnar á honum og samtalið var eftir því: Torskilin, samhengislaus gleðiræða ... sumpart um heimspeki.
Þegar ég hinsvegar les viðtalið á blaði, skil ég mun betur hvað Ólafur er að fara. Og það gleður mig að einmitt þessar hugsanir skuli hafa verið honum efst í huga á þessari stundu - segi það satt: Þetta er alveg ný hlið á karlmennskuímyndinni sem keppnisíþróttirnar skapa. Jákvæð mynd - að vísu svolítið sundurlaus í framsetningunni á þeirri stundu sem orðin flæddu fram, en engu að síður virðingarverð.
Sömuleiðis er ógleymanleg senan þegar Björgvin markvörður lenti í hrömmunum á Loga að mig minnir (eða var það Sigfús?) sem öskraði upp í eyrað á honum af lífs og sálar kröftum eftir leikinn: "Mikið djöööfull ertu góóóóður!" Það mátti sjá (a.m.k. ímynda sér) augun ranghvolfast í höfðinu á Björgvini sem var þó fljótur að jafna sig enda sjálfur í sæluvímu - og sú víma deyfir nú sjálfsagt nokkur desibil.
Guðmundur, þegar hann hljóp til strákanna eftir leikinn og hendurnar leituðu upp að vörunum.
Osssosssosss! Þetta var ógleymanleg stund.
Vonandi verður önnur eins stund eftir leikinn á morgun.
Sjálf verð ég fjarri sjónvarpstækjum - því miður. Ég verð á málþingi vestur á Hrafnseyri í Arnarfirði um kaþólska Vestfirði í fortíð og nútíð. Svolítið frábrugðið viðfangsefni því sem hér er til umræðu - og viðbúið að ég verði friðlaus í sæti mínu einhvern hluta dagsins.
Bloggar | Breytt 22.8.2008 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Borgarstjórar, njótið lífsins!
20.8.2008 | 22:56
Hvað er að því þó að borgarstjóri djammi? Spyr Jens Guðmundsson í skemmtilegri bloggfærslu. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér hvað það átti að þýða að draga það inn í umræður um borgarpólitík að Ólafur F. Magnússon hefði sést á öldurhúsi. Ekki var hann í opinberum erindum - auk þess allsgáður. Það er nú meira en sagt verður um suma af æðstu ráðamönnum landsins sem m.a. hafa lyft Bermúdaskál við opinbert tækifæri, eins og frægt varð og um var ort svo eftirminnilega:
Í stjórnmálum lífið er leikur,
mér lætur að standa því keikur.
En mér brá er ég sá
að ég birtist á skjá
svona blind ösku þreifandi .... veikur.
Því miður man ég ekki hver orti þessa limru - hún hljómar svolítið eins og hún hafi liðast upp úr Hákoni Aðalsteinssyni án þess ég þori að fullyrða það.
Ólafur F. var allsgáður með vinafólki þegar hann sást á öldurhúsi. En þó svo hefði ekki verið. Þó svo hann hefði nú bara fengið sér ölkollu og setið að spjalli við fólk á einhverjum af börum bæjarins. Það hefði auðvitað bara verið hið besta mál. Og hvað þó einhver hefði séð til hans fara á fjörur við konu? Er þetta ekki einhleypur maður og sjálfs síns ráðandi? Eru það ekki hans mannréttindi að leita fyrir sér gagnvart konu? Á meðan menn haga sér skammlaust er ekkert við því að segja þó þeir njóti lífsins - það verða meira að segja pólitískir andstæðingar að sætta sig við og skilja.
Þessi söguburður er þeim til skammar sem standa fyrir honum. Það er mín skoðun.
Svo vona ég að borgarstjórar sem og borgarfulltrúar almennt eigi eftir að njóta lífsins í góðra vina hópi hér eftir sem hingað til - óhræddir við að láta sjá sig á meðal fólks.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Við hverja hefur samgönguráðherra talað?
20.8.2008 | 14:39
Kristján Möller samgönguráðherra sagði í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær að hann hefði orðið fyrir þrýstingi frá ýmsum "Vestfirðingum" að breyta áherslum í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Verið væri að þrýsta á hann að fresta Arnarfjarðargöngum (hætta við?) en taka þess í stað göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar fram fyrir.
Eitthvað er hér málum blandið varðandi "þrýstinginn" sem ráðherrann verður fyrir. Mér vitanlega hefur hvergi nokkurs staðar verið samin ályktun eða samþykkt um að breyta forgangsröðun verkefna varðandi jarðgöng á Vestfjörðum. Þvert á móti hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttað fyrri samþykktir um nauðsyn á gerð Arnarfjarðarganga nú nýlega, ef mig misminnir ekki. Á síðasta ári var samþykkt í ríkisstjórn að flýta gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þannig að framkvæmdum verði lokið árið 2012 í stað 2014.
Hvaðan kemur þá þessi "þrýstingur"?
Mér finnst að ráðherra verði að skýra það betur. Og hvers vegna tekur hann mark á þessum svokallaða þrýstingi, svo mjög að hann færir málið í tal við fjölmiðla?
Í eyrum hins almenna Vestfirðings hljómar þetta allt mjög undarlega, því eins og sakir standa er ekkert sem bendir til þess að Vestfirðingar séu að hverfa frá áður markaðri stefnu í samgöngumálum, hvað svo sem líður afstöðu einhverra einstaklinga sem eiga símtöl við ráðherrann. Enda á þessi landshluti nánast allt sitt undir því að ráðist verði í þessi jarðgöng sem fyrst til þess að tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða og koma Kjálkanum þar með í raunverulegt vegasamband við landið.
Sá munur er á þessum tveimur framkvæmdum að göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar myndu nýtast norðanverðum Vesfjörðum nær eingöngu. Þau myndu flýta för um Ísafjarðardjúp og auka umferðaröryggi milli tveggja bæja - líkt og göngin um Óshlíð bæta samgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar en nýtast ekki landshlutanum að öðru leyti.
Arnarfjarðargöngin hinsvegar nýtast landshlutanum í heild. Þau bæta samgöngur milli byggðarlaganna, gera Vestfirði að einu verslunarsvæði, jafnvel atvinnusvæði líka auk þess að bæta vegasamband við landið allt.
Samgönguráðherra hefur sést á ferli hér fyrir vestan síðustu daga. Mér vitanlega hefur hann þó ekki fundað með sveitarstjórnarmönnum um þessi mál, hvorki flokksmönnum sínum né öðrum. Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim röðum er varla nokkur maður sem myndi mæla þessari stefnubreytingu bót.
Við hverja hefur ráðherrann þá verið að tala?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)