Hvað var nú þetta?

VilliÞ Þetta er nú orðinn meiri farsinn: Vilhjálmur einsamall á blaðamannafundi, meira en klukkutíma of seinn, með enn eina yfirlýsinguna: Hann ætlar ekki að hætta. Honum finnst hann hafa axlað sína ábyrgð - af því hann missti meirihlutann í október - meirihlutann sem hann náði svo aftur með bolabrögðum í janúar. Honum finnst að hinir eigi líka að axla ábyrgð. Af hverju axla þeir ekki ábyrgð? spyr hann eins og skólastrákur sem vill draga fleiri með sér í fallinu. Af hverju bara ég??

Nei, þetta er bara orðin algjör vitleysa. Ég held ég taki undir með manninum sem  sagðist dást að getu Vilhjálms á einu sviði því, eins og hann sagði: "Alltaf þegar ég held að hann komist ekki neðar þá birtir hann nýja yfirlýsingu ... og grefur sig enn dýpra!"


mbl.is Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskóli er bara hugtak!

hi Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.

Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt  enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt  að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum “og þegar við á í námseiningum háskóla” segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða. 

Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla

Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni – sem vonlegt er – því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um  framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.

Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins. 

Hvað er háskóli?

Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem “jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla”. Háskóla er ætlað að “veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar” (lög nr. 136/1997, 2. gr.).

Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli – háskóli er auðvitað bara hugtak.

Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana,  einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.

Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)


Heba er týnd!

Heba Eftir mikla og góða æfingu með björgunarhundasveitinni í hryssingsveðri i gær, fékk ég hundaútkall. Já, alvöru "hundaútkall". Örvæntingarfullur hundeigandi leitaði til björgunarhundasveitarinnar á Ísafirði um aðstoð við að finna tíkina sína, hana Hebu. Hún hvarf að heiman, frá Fremri-Breiðadal í Önundarfirði, á laugardagsmorgun.

Heba hefur því verið týnd í tvo sólarhringa.

Þar sem ég man eftir eiganda hennar, Björk Ingadóttur, frá því hún var lítil, ljóshærð telpa að snuddast í hesthúsinu með honum pabba mínum heitnum, og vék þar góðu að hrossunum okkar, get ég ekki annað en veitt henni lið, nú þegar hún hefur týnt fallega hundinum sínum.  Ég lýsi þess vegna eftir Hebu hér á bloggsíðunni minni.

Heba er falleg ársgömul tík af íslensku fjárhundakyni, þrílit. Heba sækir mikið í það að elta hrafn og mink og gæti því hafa farið upp á fjöll eða niður í fjöru. Henni var hleypt út ásamt hinum heimilishundinum í Fremri Breiðadal á laugardagsmorgun. Hundarnir voru dágóða stund fjarri en svo kom aðeins annar þeirra til baka um fimmleytið. Veður varð slæmt í gær, og er ekki óhugsandi að tíkin hafi hrakist upp á fjöll, jafnvel yfir í aðra firði.

Þeir sem hugsanlega geta gefið upplýsingar um Hebu eru beðnir að láta vita í síma: 456-4559 eða 863-4559. Hennar er sárt saknað.

Og nú er ég komin í hundabjörgunarsveit - vona bara að þessi eftirgrennslan beri árangur.


Samstöðustjórnmál?

RadhusRvikur Mér er þungt um hjartarætur eftir að hafa horft á viðtölin við Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi í gær. Mér líður eins og ég sé í herkví - er ég þó ekki íbúi í Reykjavík heldur bara kjósandi vestur á fjörðum og venjulegur samfélagsþegn.

 Það lítur út fyrir að skýrsla stýrihópsins svokallaða eigi að verða endahnúturinn á þessu skelfilega OR og REI máli. Svandís talaði um að það hefði ekki verið í verkahring nefndarinnar að sakfella menn. Nú yrðu menn bara að læra af reynslunni og ná samstöðu um betri vinnubrögð  í framtíðinni. Hún talaði um samstöðustjórnmál.

Þeim sem brjótast inn á bensínstöðvar er ekki gefinn kostur á slíku. Hvers vegna ættu þá menn sem reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings að fá aðra meðhöndlun? Þegar fyrrverandi borgarstjóri - sem  vel að merkja var bæði ráðinn og kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning í borginni - bregst því trausti að gæta verðmætanna og verður vís að ósannindum - hvað þá?

Sjálfum finnst honum rétt að stjórnir OR og REI muni nú "fara yfir málið". Halló! Er ekki búið að fara yfir málið? Voru það ekki kjörnir fulltrúar sem fóru yfir málið? Trúa menn því að stjórnir þessara fyrirtækja muni aðhafast eitthvað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum?

Og ekki hafa stjórnir OR og REI yfir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að segja. Hann er utan þeirrar seilingar. Hver mun sjá til þess að hann axli ábyrgð?

Það eiga kjósendur að gera - segja menn borginmannlega á bloggsíðum.  Vandinn er bara sá að kjósendur eiga ekkert val. Það er engin lagastoð fyrir því að rjúfa borgastjórn og efna til nýrra kosninga - þó vissulega væri þess full þörf nú. Löggjöfin gerir bara ekki ráð fyrir að annað eins og þetta geti gerst í einni sveitarstjórn. Og enn er langt til kosninga. Vilhjálmur ætlar að verða borgarstjóri eftir ár. Lagalega er ekkert sem getur komið í veg fyrir það.

Og hvað er þá til ráða? Kjósendur eiga jú sína fulltrúa í borgarstjórn. Það eru auðvitað þeir sem eiga að tala máli almennings og sjá til þess að einhver axli ábyrgð. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk öðrum þræði. Annars hefur ekki verið velt við hverjum steini.

Samstöðustjórnmál? Ég þekki líka annað orð: Það er orðið samtrygging sem löngum hefur loðað við valda- og viðskiptaöflin í þessu litla landi. 


Útkall F-1: Rauður. Snjóflóð á Súðavíkurhlíð.

Í morgun fékk ég útkall - fyrsta útkallið mitt: Snjóflóð á Súðavíkurhlíð, einn bíll í flóðinu. "Útkall F-1: Rauður" voru skilaboðin sem blikuðu á farsímanum mínum á ellefta tímanum í morgun.

Ég var ekki viðbúin - enda hundurinn minn varla orðinn útkallshæfur, bara með C-próf í vetrarleit (að vísu á góðri leið í B en samt ekki kominn með það). En lífið spyr oft ekki um prófgráður. Þegar mikið liggur við eru allir kallaðir út - og svo ræður forgangsröðun.

Ég stóð eins og þvara með farsímann í höndunum og það fór um mig undarlegur straumur. Tíkin sem lá fram á lappir sínar skammt frá mér skynjaði geðshræringuna. Hún spratt á fætur og stillti sér upp fyrir framan mig. Hún skalf eins og strá í vindi - spennt - hugsanlega kvíðin eins og eigandinn. Skömmu síðar fékk ég fregnir af því að ökumaðurinn væri kominn heill út úr flóðinu og ekki væri þörf á hundum. Um svipað leyti voru björgunarsveitarmenn sem lagðir voru af stað varaðir við mikilli snjóflóðahættu á svæðinu - enda fór svo að lögreglubíll komst í hann krappann áður en yfir lauk.

Já, allt fór þetta vel: Engu að síður var þetta merkileg reynsla. Að standa frammi fyrir alvörunni eitt augnablik. Öll þjálfun undanfarinna missera hefur jú gengið út á að vera viðbúinn útkalli einn daginn. En mikið var ég þó fegin að þurfa ekki að fara í þetta sinn. Fá svolítið lengri tíma til þess að búa mig (og hundinn) undir alvöruna.

Og þetta varð til þess að ég fór að hugsa um röð atburða og eigin viðbrögð við útkalli. Ég fór að útbúa bakpokann minn, tína ofan í hann eitt og annað sem þarf að hafa með þegar alvaran brestur á: Auka ullarföt, talstöðvar, ennisljós, kex og sitthvað fleira. Gerði lista yfir það sem gera þarf þegar þannig ber við. Nú bíður útkallspokinn tilbúinn á sínum stað - og ég er aðeins betur meðvituð um eigin viðbrögð.  Hvort ég verð búin að ná B-prófi á hundinn áður en kemur að fyrsta útkallinu okkar - hvort ég verð raunverulega tilbúin þegar á reynir - það veit Guð einn. En útkallspokinn er á sínum stað.

vetrarmynd07krafla-velsledi

Segir enginn af sér? Enginn sóttur til saka?

Spaugstofan1 Skýrsla stýrihópsins sem fjallaði um samruna REI og GGE er ekki aðeins áfellisdómur "um alla stjórnsýslu málsins" eins og segir í frétt mbl.is. Skýrslan leiðir einnig í ljós alvarlega bresti ákveðinna einstaklinga. Umboðssvik er líklega rétta orðið yfir gjörðir þáverandi borgarstjóra Reykvíkinga, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Maðurinn starfaði í umboði almennings - hann átti að gæta milljarða verðmæta í almenningseigu - hann brást því trausti. Hann sagði vísvitandi ósatt, oftar en einu sinni, eins og kom fram í greinargóðri Kastljóssumfjöllun í gærkvöld.

Nú hefur fengist staðfest að ekki aðeins voru verkferlar og valdmörk óskýr, heldur voru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir teknar án fullnægjandi umræðu eða samþykkis kjörinna fulltrúa. Í ljós er komið að fulltrúi FL-Group hafði beina aðkomu að gerð þjónustusamningsins milli REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Aðkoma FL-Group var mikil og jafnvel ráðandi í samningagerðinni. Stýrihópurinn er sammála um að trúnaðarbrestur hafi orðið milli æðstu stjórnenda REI og OR annars vegar og ákveðinna borgarfulltrúa hins vegar.

Og samt segir í skýrslunni að hún sé "málamiðlun" meðlima hópsins og að farinn hafi verið "meðalvegur" í orðalagi hennar.

Detta mér nú allar dauðar lýs - ætlar enginn að segja neitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem ítrekað fór með ósannindi? Eða þurfa sveitarstjórnarmenn ekki að axla ábyrgð þegar þeir verða uppvísir að vísvitandi blekkingum? Og hvað með stjórnir þessara fyrirtækja sem tóku þátt í samsærinu - eða aðra sem þarna spiluðu með? Allir þessir aðilar eru rúnir trausti. Þeir hafa brotið af sér - alvarlega. Mál Árna Johnsens er hátíð miðað við þetta.

Hér kemur engin "málamiðlun" til greina. Á sama tíma og mönnum er varpað í fangelsi fyrir að stela sér skiptimynd á bensínstöðvum, neitaég að trúa því að þessi skýrsla verði látin duga sem endapunktur þessa máls.  Ef svo fer, þá búum við ekki í lýðræðislegu réttarríki. 

 

 


mbl.is REI skýrslan áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn er ljósbrigði - mikil og tvenn

Ljosbrigdi-AgustAtlason Í framhaldi af þeirri umræðu um skólamál sem spunnist hefur á síðunni minni síðasta sólarhringinn - með hugleiðingum um fjölgreind og þarfir barna -  langar mig að sýna ykkur ljóð eftir Ólínu Andrésdóttir skáldkonu. Hún komst oft vel að orði um ýmislegt - þessi fjarfrænka mín, og alnafna ömmu minnar, sem augljóslega hugsaði margt og átti sínar heimspekilegu stundir í einrúmi.  Á slíkri stundu hefur þetta ljóð orðið til - það er þrungið  speki:

 

Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,

allir reyna að græða sín blæðandi sár,

alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,

allir þekkja ástina, undarlegt er það.

Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,

maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.

Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,

kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.

Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,

maðurinn er sumar með geisla og blóm,

maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,

maðurinn er tími og eilífð í senn.

(Ólína Andrésdóttir)


Er skólakerfið (enn) eins og herþjónusta?

Barn að lesa Félagi minn sendi mér að gamni viðtal sem birtist við Jón Gnarr í blaði um daginn - það hafði farið framhjá mér. Þarna ræðir Jón Gnarr meðal annars reynslu sína af skólakerfinu - og líkir henni við herþjónustu. Sjálfur átti Jón við athyglisbrest og ofvirkni að stríða sem barn og unglingur, og í viðtalinu kemur fram að hann hefur mátt vinna mikið í sjálfum sér. Það er því athyglisvert að lesa um reynslu hans af íslensku skólakerfi - og satt að segja heyrði ég í lýsingum hans enduróm af ýmsu sem ég minnist sjálf frá minni skólagöngu. Nú er spurningin - hafa hlutirnir mikið breyst?

Hér kemur búturinn sem mér fannst áhugaverður. Jón segir um skólakerfið:

„Það kennir þér ákveðin gildi sem þú mátt aldrei efast um. Þú mátt aldrei efast um mikilvægi þess að kunna dönsku. Það er ekki til um­ræðu, þetta eru reglur sem þú hlýðir. Þeir sem stunda vel kjarnafögin sem eru grundvallarstoðir skólakerfis­ins hljóta umbun, beina og óbeina. Velþóknun leiðbeinanda - þeir sýna þér velþóknun, hrós. Þeir sem á einhvern hátt vilja ekki eða geta ekki tileinkað sér námið mæta afgangi. Stuðningskennsla fellur niður vegna veikinda starfsfólks eða tímaleysis. Það segir manni að þetta er bara hlutur sem mætir afgangi.

Grunnfög eins og stærðfræði ganga fyrir og tekst vel að fylla upp í vönt­un á kennurum þar. Mér finnst misk­unnar­laust hvernig farið er að því að  aðgreina þá sem geta tileinkað sér og þá sem geta ekki tileinkað sér. Verið er að búa til einstaklinga sem vert er að veðja á fyrir samfélagið. Mað­ur­inn með dönskuna, stærðfræðina og ísl­ensk­una á og sýnir að hann er „player" hann spilar með og er góður hermaður."

Jón þú munt aldrei verða...

„Ég var í opnum skóla,  Fossvogs­skóla. Auðvitað tekur maður til sín það sem að sagt er við mann í skóla hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Það var sagt við mig mjög snemma að ég ætti að verða leikari og rit­höf­und­ur. Mér fannst það gaman. Mig lang­aði mjög ungur til þess að verða bæði. Ég sá fyrir mér að í framtíðinni væri ég að skapa hugmyndir því að þær sköp­uð­ust sjálfkrafa í hausnum á mér. Ég gat matreitt hugmyndir sem voru ýmist fyndnar og athyglisverðar en ég vissi ekki með hvaða hætti ég gæti notað þær. Kennarar sögðu við mig alla barna­skóla­göngu mína: „Þú kemst aldrei neitt áfram á kjaftavaðli Jón. Jón, þú munt aldrei ná árangri í lífinu með fíflagangi." Þetta var kol­rangt. Ég hef náð árangri í lífinu með þessu tvennu; kjaftavaðli og fíflagangi."

 Í lok viðtalsins kemur Jón Gnarr inn á umhugsunarvert atriði. Hann segir:

„Óeðlileg hegðun er oft eðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum. Óeðli­legu aðstæðurnar eru oft duldar þegar hegðunin verður auðsjáanleg. Ég er ekki að segja að það sé alltaf. En oft er vandamálið miklu stærra en einn einstaklingur. Það verður að skoða hann sem hluta af þeirri heild sem hann tilheyrir. Ég í Fossvogs­skóla gekk ekki upp. Ef ég hefði verið í Skemmtilega skóla Reykjavíkur þá hefði ég brillerað. Ég hefði fengið að tala og vera fyndinn og skemmtilegur og fengið að segja sögur allan daginn og læra á hljóðfæri og setja upp leik­rit. Ég hefði verið aðalkrakkinn í þeim skóla. Hvort var rangt skólinn eða ég? Þar sem ég er manneskja en skól­inn ekki þá hallast ég að því að þeir hafi haft rangt fyrir sér."

Umhugsunarvert Woundering

 


GSM-samband á Ströndum - en hvað með Ísafjarðardjúp?

gjogurbryggja "Ekkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd" segir á fréttavef Strandamanna nú um helgina. Þeir eru harla kátir yfir þessu Strandamenn, sem vonlegt er. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga. Sendirinn dregur um 100 km en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.

Gott - ég óska Strandamönnum til hamingju.

En hvenær skyldi röðin koma að Ísafjarðardjúpi sem enn er sambandslaust að mestu? Nýlega fór þungaflutningabíll þar út af fyrir skömmu í vonskuveðri. Ökumaðurinn vissi ekki hvar hann var staddur, svo mikill var snjóbylurinn. Hann taldi það guðsmildi að hafa þó náð símasambandi. Venjulegur farsími hefði ekki náð sambandi á þessum slóðum. Komið hefur fyrir að bílar hafa lent í óhöppum þarna og farþegar og ökumenn þurft að bíða tímunum saman eftir aðvífandi aðstoð, vegna þess að ekki er hægt að hringja eftir hjálp.

Ekki er ýkja langt síðan bæjarstjórinn í Bolungarvík mátti dúsa dágóða stund með börn í aftursætinu hjá sér eftir bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði - hann náði ekki farsímasambandi - og því hreinasta mildi að ekki höfðu orðið umtalsverð slys á fólki við óhappið. 

Þetta er umhugsunarefni fyrir alla þá sem málið varða: Fjarskipafyrirtæki og -yfirvöld.

 *

PS: Ég tók mér það bessaleyfi að birta þessa mynd af strandir.is - það fylgir því miður ekki sögunni hver tók hana.


Rándýr þorramatur

hrutspungar Jæja, þá er komið að fyrsta verðlagspistlinum á bloggævi minni - það er neytandinn sem nú lætur til sín heyra: Mér er nóg boðið. Þrettánhundruð krónur fyrir tvær sneiðar af hrútspungum og hvalspiki - samanlagt ein lófafylli af mat Angry Þegar við bætist lifrarpylsukeppur (350 kr), sneið af nýrri svínasultu (226 kr. - helmingi ódýrari en sviðasultan sem var að sjálfsögðu ekki keypt), pakki af flatkökum (108 kr) hálfur sviðakjammi (299 kr) og sletta af rófustöppu (566), þá kostaði þessi auma þorramáltið sem dugði rétt fyrir tvær fullorðnar manneskjur um þrjúþúsund krónur!

Til frekari upplýsingar þá er það verslunin Samkaup á Ísafirði sem verðleggur svona. Kallið mig nískupúka - en sú var tíðin að slátur og innmatur voru ódýrasti matur sem hægt var að fá, enda ekki mikið lagt í sviðasultu eða súran mat. Samanborði við Ora-fiskibollur eða annan unninn mat er þessi verðlagning fáránleg.

Og hvað gerð ég svo? Neytandinn sjálfur? Hundþreytt eftir leiðinlegan dag lét ég mig hafa það. Nennti ekki að keyra inn í Bónus til að gera ódýrari innkaup - vildi komast heim - nennti ekki að elda. Get því auðvitað sjálfri mér um kennt og er ósátt við bæði sjálfa mig og verslunina Angry


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband