Snjóþyngsli - bloggþyngsli - þyngsli
5.3.2008 | 09:59
Eftir því sem snjóskaflarnir hækka og vegunum fækkar sem ferðast má um hér í nágrenni Ísafjarðar, því hærri verður bloggstíflan innra með mér. Ég þjáist af bloggþyngslum - þau aukast með snjóþyngslunum.
Síðdegis í gær ætlaði ég í göngutúr með hundinn, en komst hvorki lönd né strönd fyrir lokuðum gönguleiðum. Snjófljóðahættan var hvarvetna.
Já, þetta er niðurdrepandi svona dag eftir dag.
Verst er þetta með samgöngurnar - að komast ekki spönn frá rassi. Því þegar snjófljóðahættan úr fjallshlíðunum er til staðar (og hér liggja jú allir vegir meðfram fjallshlíðum) þá er yfirleitt blindbylur með skafrenningi, þannig að það er ekki flogið heldur. Þá biður maður til guðs um að ekki komi upp neyðarástand þannig að flytja þurfi fólk með hraði á sjúkrahús fyrir sunnan, til dæmis. Það væri sko ekkert grín.
Ég er ekki hönnuð fyrir svona aðstæður vikum saman. Segi það satt. Þetta getur bókstaflega gert mann brjálaðan.
![]() |
Víða erfið færð á Vestfjörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vesturbyggðarmenn geta ekki haldið því fram að það sé þeirra einkamál hvort olíuhreinsistöð rísi á Vestfjörðum.
Þeir virðast gleyma því að út af Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Og þó að sjávarútvegur og fiskvinnsla á Vestfjörðum sé vart svipur hjá sjón þeirri sem áður var - þá sækja aðrar útgerðir á þessi mið. Íslenskur sjávarútvegur á nánast allt sitt undir því að þessum fiskimiðum verði ekki spillt.
Öllum þeim sem sækja fisk í sjó við landið ráðlegg ég að skoða myndband af olíuslysi Exxon Valdez við strendur Alaska fyrir nokkrum árum. Það er bæði tímabært og þarft innlegg í þessa umræðu um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum (smellið hér ).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2008 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
Er engin leið að hætta?
3.3.2008 | 14:23
Þetta getur ekki gengið svona lengur - það er óbærilegt að horfa upp á þessa endaleysu ár eftir ár eftir ár eftir ár .... þessa eilífu tilgangslausu hringrás óstöðvandi styrjaldarógnar sem enginn mannlegur máttur virðist geta stöðvað.
Það eru árásir, hefndaraðgerðir, gagnárásir ... friðarviðræður .... árás, hefndaraðgerð, gangárás .... friðarviðræður ... árás ... yfirlýsingar ... gagnárás ... hefndaraðgerð, árás .... yfirlýsingar .....
Hvers vegna er ekki hægt að stöðva þetta?
Er ekki hægt að hjálpa þessum þjóðum til þess að komast út úr þessum vítahring stríðshyggju og haturs? Er ekki EITTHVAÐ sem heimurinn getur gert?
![]() |
Hernaðaraðgerðum ekki lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kvenréttindi kaffærð í snjó
1.3.2008 | 17:52
Var að koma inn frá því að moka innkeyrsluna - þvílíkur snjór!
Þegar ég leit út í morgun - sást ekki milli húsa fyrir skafrenningi og hríðarbyl. Svo slotaði aðeins milli élja og þá sá ég bílinn minn eins og snjóþúst á kafi í stærðar skafli úti í götu (ég kom honum ekki í innkeyrsluna í gærkvöld, því hún var auðvitað full af snjó).
Jæja, við Hjörvar klofuðum snjóskaflana út að bíl, mokuðum hann upp og komumst klakklaust á Hótel Ísafjörð. Þar fór fram sýning á fermingarvörum, gjafavöru og fatnaði sem hann tók þátt í að sýna ásamt nokkrum jafnöldrum sínum. Þau gerðu þetta með glæsibrag, blessuð börnin. Og mesta furða hversu vel var mætt, í þessu líka ótætis veðri.
Jæja, þegar við komum heim sá ég að við svo búið mátti ekki standa.
Ég gat ekki skilið bílinn eftir úti í götu eina ferðina enn - snjóruðningstækin þurfa auðvitað að komast leiðar sinnar. Svo ég beit á jaxlinn - gallaði mig upp og sótti skófluna. Siggi fyrir sunnan og ekki um það að ræða að bíða lengur með moksturinn. Einhver varð að gera þetta.
Ég verð þó að viðurkenna að þrem korterum síðar var kvenréttindakonan í mér farin að láta undan síga þar sem ég hamaðist á klofháum snjóskaflinum, kófsveitt og bölvaði í hljóði. Þetta er auðvitað ekki kvenmannsverk
En, núna er innkeyrslan auð og fín og bíllinn stendur þar í góðu yfirlæti. Ég er bara ánægð með sjálfa mig ....
... en samt .... alveg tilbúin að þiggja karlmannsaðstoð við þetta næst. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá er nóg verk að vinna framdyramegin .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Mikilvægum stofnunum ekki treyst
1.3.2008 | 00:19
Maður er nú ekkert hissa á þessum 9% eftir allt sem á undan er gengið og sjálfsagt er enginn hissa - nema kannski Vilhjálmur. Hann virðist enn halda að hann eigi eitthvað inni hjá kjósendum.
Og innan við helmingur treystir Alþingi! Það er svakalegt - af því við erum jú að tala um sjálfa löggjafarsamkunduna.
En ég er undrandi á því að einungis 68% skuli treysta heilbrigðiskerfinu. Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir þá sem þar halda um stjórnartauma. Við eigum bara eitt heilbrigðiskerfi . Í raun ætti almenningur að bera sama traust til heilbrigðiskerfisins og Háskóla Íslands - en það er ekki svo. Það finnst mér áhyggjuefni.
Mín tilgáta er sú að hin linnulausa hagræðingarkrafa sem gerð er í heilbrigðiskerfinu sé loks að skila sér í skertu trausti almennings á þessu kerfi. Að sjúkrahúsin séu einfaldlega orðin of stór og vélræn á kostnað mannlegra samskipta og umhyggu.
Sjúkrahús á ekki að reka í of stórum einingum. Framleiðslufyrirtæki eins og kjúklingabú geta notið hagræðingar stærðarinnar og samlegðaráhrifa á markaði. En sjúkrahús eru þjónustustofnanir og því lúta þau öðrum lögmálum.
Í þjónustu gildir að hafa smærri einingar til að tryggja nálægð við þá sem njóta þjónustunnar, og til að tryggja sveigjanleika og viðbragðsflýti þegar á þarf að halda. Þetta segja að minnst kosti stjórnunarfræðin sem ég stúderaði hér um árið. En sú speki virðist nú ekki höfð í hávegum hér á landi. Að minnsta kosti hefur miklu verið til kostað á undanförnum árum til að sameina sjúkrahúsin og stækka þau sem stjórnsýslueiningar - til skaða fyrir þiggjendur heilbrigðisþjónustu, held ég.
Sparnaðarkrafan hefur orðið til þess að deildum er lokað, sjúklingar útskrifaðir fyrr en ella, mannafla er haldið í lágmarki og hagræðing í rekstri virðist stundum ráða meiru um ákvarðanir í kerfinu eru en umhyggja fyrir sjúklingunum. Þetta hefur grafið undan trausti.
Traust er ekki sjálfgefið - þess þarf að afla.
![]() |
Aðeins 9% treysta borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kafaldsbylur hylur hæð og lægð
29.2.2008 | 19:50
Það er hríðarbylur úti, skafrenningur og þæfingsfærð - ekkert ferðaveður. Snjóflóðin farin að falla á Súðavíkurhlíðinni, henni hefur verið lokað. Við Hjörvar minn erum ein í kotinu - Siggi fyrir sunnan að útrétta. Við reynum að láta fara vel um okkur.
Hann var á leið á "rósaball" Grunnskólans. Var búinn að ná sér í "deit", finna jakkaföt, bindi og alles - rósin tilbúin á stofuborðinu. Þá var ballinu frestað vegna veðursins. Enda lítið vit svosem að stefna heilum hópi grunnskólanema á spariskóm og stuttpilsum niður í bæ í svona blindbyl.
Nú er svo sannarlega hret á glugga. Það hefur safnast svo mikill snjór á rúðurnar hjá mér að ég sé ekki út um þær.
Svo við höfum við kveikt á kertum mæðginin. Erum að fara búa til karamellur. Slummms!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Allir í hundana !
28.2.2008 | 22:48
Nú er mikið um að vera hjá okkur í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Við erum að undirbúa viku vetrarnámskeið BHSÍ í næstu viku. Jamm - mannskapurinn ætlar að koma með hundana hingað norður í Ísafjarðardjúp, halda til í Reykjanesi og æfa snjóflóðaleit á Steingrímsfjarðarheiðinni. Þarna verða um tuttugu hundar ásamt eigendum sínum og aðstoðarfólki víðsvegar að af landinu við þjálfun og æfingar á heiðinni, samtals eitthvað á fjórða tug manna.
Já, það verður sko líf og fjör á Steingrímsfjarðarheiðinni 8. - 14. mars: Hundar og menn á ferð og flugi, bílar, vélsleðar, snjótroðarar, surg í talstöðvum og sannkölluð björgunarsveita stemning .
Vetrarnámskeiðið er árviss viðburður í starfi BHSÍ sem er deild í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Markmið þess er að þjálfa og taka út björgunarhunda í snjóflóðaleit og björgun við vetraraðstæður. Hundarnir eru æfðir og prófaðir í svokölluð A, B og C- próf. A og B próf eru vottun um að hundur sé tækur á útkallslista, C-próf er vottun um að hundur sé hæfur sem björgunarhundur og tækur til þjálfunar fyrir B-próf.
Af Vestfjörðum verða níu leitarteymi við æfingar á námskeiðinu, sex frá Ísafirði, tvö frá Patreksfirði og eitt úr Bolungarvík. Ísfirsku teymin eru meðlimir í Björgunarfélagi Ísafjarðar og fá þaðan aðstoð við þjálfunina. Teymin á Patreksfirði eru meðlimir í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði. Ísfirsku hundarnir hafa allir lokið undirbúningsþjálfun og því er stefnt á B-próf fyrir þá flesta á þessu námskeiði.
Nú er að krossleggja fingur og vona að veðrið verði okkur hagstætt - hundarnir í góðu formi og svona. Hér koma nokkra myndir frá fyrri námskeiðum.
Lífstíll | Breytt 29.2.2008 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Orðum fylgir ábyrgð
26.2.2008 | 19:16
Dómurinn sem féll í meiðyrðamáli gegn bloggara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag staðfestir að bloggsíður eru fjölmiðlar og bloggarar bera ábyrgð í samræmi við það.
Um leið vekur þessi dómur áleitnar spurningar um það fyrirkomulag að menn geti stofnað bloggsíður undir dulnefnum. Hver ber ábyrgð í slíkum tilvikum? Maðurinn á bak við nafnið, eða sá sem hýsir vefsíðuna? Getur mbl.is þurft að sæta ábyrgð vegna nafnlausra skrifa á bloggsíðu til dæmis?
Bloggið er að þroskast sem umræðuvettvangur - og sem betur fer fækkar þeim stöðugt sem misnota málfrelsi sitt á bloggsíðum. Þó eru enn of mikil brögð að því að menn vaði fram á þessum vettvangi eins og þeir séu stikkfrí. Eins og meiðandi ummæli, brigslyrði, dylgjur og persónuárásir eigi eitthvað skylt við málfrelsi. Sumir virðast álíta að þeir eigi "rétt" á því að tala skefjalaust og að þessi meinti "réttur" helgist af skoðana- og tjáningarfrelsi.
En orð geta bitið - orð eru vopn. Og auðvitað ekkert til sem heitir takmarkalaust frelsi. Það vill stundum gleymast að frelsinu fylgir ábyrgð. Því beittari sem orðin eru, því ríkari ástæða er til að beita þeim varlega.
Ritsóðunum fer fækkandi - sem betur fer. Vonandi verður þessi dómur til þess að fækka þeim enn frekar. Um leið er hann þörf áminning fyrir ritsnillingana að gæta sín við meðferð stílvopna.
![]() |
Sekur um meiðyrði á bloggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Að umgangast staðreyndir - enn um olíuhreinsistöð
26.2.2008 | 16:12
Í umræðunni um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hafa ýmsar upplýsingar verið að koma fram síðustu daga. Hugtakið "staðreyndir" hefur borið alloft á góma, eins og við má búast - staðreyndir um náttúrufar, samfélagsþætti, losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegsmengun, raforkuþörf og fleira. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að "staðreyndir" geta verið teygjanlegt hugtak - og stundum er hægt að skauta fram hjá þeim.
Í dag birtist t.a.m. ágæt grein eftir Ómar Smára Kristinsson, myndlistarmann á ísfirska vefnum bb.is. Þar gerir Ómar Smári að umtalsefni framsögu fulltrúa Íslensks hátækniiðnaðar á málþingi á Ísafirði og Bíldudal nú um helgina. Sá fyrirlestur nefndist einmitt "Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - Staðreyndir". Ómar Smári vekur athygli á því hvernig látið var í veðri vaka að upplýsingar um náttúrufar og dýralíf á þeim stöðum sem til umræðu hafa verið vegna olíuhreinsistöðvar væru framkvæmdinni hagstæðar, þegar reyndin er allt önnur sé málið skoðað nánar.
Í svonefndri staðarvalsskýrslu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga lét taka saman er talið upp hvaða plöntur og dýr þurfi að víkja og að hvaða leyti það komi til með að skaða viðkomandi stofna rísi Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þeirra á meðal eru nokkrar tegundir fugla á válista og ein mjög sjaldgæf tegund háplantna, eins og Ómar Smári bendir á.
Talsmenn Íslensks hátækniiðnaðar skautuðu fimlega framhjá þessu í framsögum sínum um helgina. Annar þeirra lét í veðri vaka að skýrslan væri lítið rædd vegna þess að hún gæfi "of góða" niðurstöðu fyrir olíuhreinsistöð. Þetta eru bíræfin ummæli, verð ég að segja, því þegar skýrslan er skoðuð kemur einmitt í ljós hversu víðtæk áhrif olíuhreinsistöð myndi hafa á allt sitt umhverfi, dýralíf og annað náttúrufar.
Í skýrslunni kemur einmitt fram að sjónræn og umhverfisleg áhrif olíuhreinsistöðvar verða mikil og víðtæk. Ekki aðeins vegna mannvirkjanna - stöðvarinnar sjálfrar og hafnarmannvirkja - heldur einnig vegna mengunar þaðan, sérstaklega svifryks. Fram kemur að kanna þarf nánar mengun sem berst í hafið með tilliti til fiskveiða í fjörðunum og í Arnarfirði einnig með tilliti til kalkþörunga. Þar er einnig talað um vandkvæði á samgöngum og raforkuflutningum í núverandi mynd og hættuna af hafís.
Skýrslurnar um staðarvalsathugun og samfélagsáhrif er að finna á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ennfremur framsögur þær sem fluttar voru á málþinginu um helgina.
Felast gæði í stórum lausnum?
25.2.2008 | 10:34
Í gær sat ég málþing um stóriðnað á Vestfjörðum. Ekki veit ég af hverju nafnið "olíuhreinsistöð" var ekki haft í yfirskrift þess, því auðvitað snerist það aðeins um olíuhreinsistöðina margumtöluðu sem Íslensku hátækniiðnaður vill setja niður í Arnarfirði eða Dýrafirði.
Þetta var gagnlegt þing og margt sem kom þar fram. Fjórðungssamband Vestfirðinga á þakkir skilið fyrir framtakið.
Þess var gætt að sem flest sjónarmið kæmu fram og málið var rætt á upplýsandi nótum - sem er lofsvert. Þarna voru mættir fulltrúar Íslensks hátækniiðnaðar, Landverndar, Samtaka Atvinnulífsins, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Auðlinda og umhverfisskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, Landsnets, Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fleiri sem skiptust á skoðunum.
Smári Geirsson, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sem beitti sér manna mest fyrir Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði á sínum tíma talaði þarna um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi. Smári er enn sannfærður um ágæti þessa alls, eins og kom glöggt fram í hans máli. En ég hjó þó eftir ýmsum varnaðarorðum sem hann lét sér um munn fara, reynslunni ríkari nú en áður. Hann varaði við hinum svokölluðu "ruðningsáhrifum", þegar litlu heimafyrirtækin víkja fyrir þeim stærri sem koma utan að. Þegar vinnandi hendur sogast á einn stað og vinnuaflsskortur verður í grunnþjónustu og víðar. Þegar inn á svæðið streymir nýtt vinnuafl - þar af 80% erlent fólk sem kemur um stundarsakir - og þörfin fyrir heilsugæslu, verslun, félagsþjónustu o.fl. eykst skyndilega.
Smári lagði herslu á að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir byggju sig undir slíkar breytingar. Ja, það er nú það. Hvernig býr maður sig undir það að verða gjaldþrota þegar risarnir mæta á markaðinn? Hvernig búa sjúkrahúsin, leikskólarnir, skólarnir og önnur stoðþjónusta sig undir það að sinna skyndilega aukinni þjónustuþörf á sama tíma og mannafli þessara stofnana er sogaður eitthvert annað? Hljómar flókið - og er það áreiðanlega.
Karl Benediktsson landfræðingur talaði um þá tilhneigingu að leggja að jöfnu magn og gæði þegar rætt er um byggðaþróun. Hann benti á að íbúafjöldinn einn og sér segði ekki endilega til um góða stöðu byggðarlags, því ánægja íbúanna með lífið á staðnum hefði einnig sitt að segja. Hann ræddi um stöðu þekkingar fyrr og nú. Hér áður fyrr var uppskriftin að öflugu samfélagið þessi: Náttúruauðlind + fjármagn + vinnuafl ásamt góðri staðsetningu. Þetta væri ávísun á velmegun í samfélagi. Í dag eru hlutirnir eilítið flóknari og fleiri þættir sem koma inn.
Nýja uppskriftin felur í sér mannauð, sögu og menningu, félagsauð og fleira sem taka þarf með í reikninginn.
Karl ræddi líka hvernig hin þögla þekking (verkkunnátta og hefðir) ásamt brjóstviti og staðbundinni þekkingu sem segja má að tilheyri landsbyggð og dreifbýli - ætti undir högg að sækja andspænis hinni skjalfestu hnattrænu þekkingu sem t.d. birtist í vísindum og sem borgirnar státa af.
Náttúrugæði eru meðal þess sem ég sjálf myndi vilja setja inn í uppskriftina um gott mannlíf í byggðarlagi. Myndirnar hér fyrir neðan gefa svolitla hugmynd um það sem ég er að meina. Þær tók Ágúst Atlason í ljósaskiptunum í Dýrafirði fog Arnarfirði yrir skömmu.