Er mjólk góð?

mjolkurglas Ég veit það ekki ... ég drekk ekki mjólk! segja horaðar og illa útlítandi hengilmænur og stara daufum, líflausum augum framan í myndavélina í auglýsingaherferð MS. Þar er fullyrt að mjólk sé rík af allskyns vítamínum og bætiefnum. Skilaboðin eru þessi: Ef þú neytir ekki mjólkur þá verður þú vesalingur.

Samt er það nú svo, að heimalningar sem aldir eru á mjólk úr fernu, deyja innan fárra vikna fái þeir ekkert annað. Gerilsneydd og fitusprengd mjólk er með öðrum orðum enganveginn sambærileg við þá mjólk sem kemur beint af skepnunni. Sú síðarnefnda er vitanlega lífsnauðsyn öllu ungviði - sú fyrrnefnda er það alls ekki.

Hið "ríka" vítamín-innihald unninnar mjólkur, hvert er það? Á nýmjólkurfernunni í ísskápnum mínum er það gefið upp: B-1 og B-2 vítamín, kalk og fosfór (fyrir svo utan kolvetni og prótein). Ekkert annað. Aðrar mjólkurvörur geta haft A og/eða D vítamín, að sagt er. En varla getur það talist "ríkt" vítamín innihald.

Mjólkuróþol er vaxandi vandamál - sem stafar líklega af allt of mikilli mjólkurneyslu okkar Vesturlandabúa. Í Asíulöndum þekkist ekki mjólkurneysla meðal fullorðinna - hún er vestrænt fyrirbæri. Samt er beinþynning mun alvarlegra vandamál hér á Vesturlöndum heldur en á austrænum slóðum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að mjólk næri krabbameinsfrumur.

Er þá hægt að segja að mjólk sé góð?

Kannski getur mjólk verið góð í hófi - en hún hentar alls ekki öllum. Fyrir suma er hún beinlínis heilsuspillandi. Ég efast því satt að segja um að þessi markaðssetning mjólkur sem hollustuvöru fái staðist ströngustu siðakröfur um framsetningu auglýsinga.

Auglýsingin er í besta falli stórkostlegt ofmat á mjólk sem hollustuvöru. Í versta falli eru hún aum blekking sett fram í gróðaskyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Mikið er ég sammála þessu.

Dóttir mín hætti að drekka mjólk þegar hún var smábarn.Það byrjaði með því að hún var slæm í maga og læknirinn vildi að hún sleppti öllum mjólkurvörum í nokkra daga. Síðan hefur hún ekki drukkið mjólk en fær sér að vísu AB mjólk út á morgunkornið.Hún er sautján ára og hreinlega geislar af heilbrigði.

Mér finnst nú að MS ætti að snúa sér að því að minnka sykurmagnið í vörunum. 

Turetta Stefanía Tuborg, 16.3.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Þessar auglýsingar eru að mínu mati hræðilegar.  Mjólk drekk ég ekki vegna þess að líkami minn þolir hana ekki.  Það væri þarft fyrir MS að koma sykurmagni niður um ca helming.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 16.3.2008 kl. 12:42

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sammála. Bein kúa eru mjög mikil, sterk og kalkrík. Þær dekka þó enga mjólk frá því þær eru litlir kálfar.

Jane Plant hélt merkilega fyrirlestra um tengsl mjólkur  og mjólkurafurða við tíðni krabbameina. Sjá :  http://www.janeplant.com/

Sjá einnig :

Um mataræði og krabbamein í blöðruhálskirtli
Þriðjudagur 30. janúar kl 17.30 - 19:00
Hjá Maður lifandi Borgartúni 24

Í Kína er tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli og brjóstum brot af því sem gerist á Íslandi. Hefðbundið íslenskt mataræði er gerólíkt því kínverska. Skiptir það sköpum?

Fyrir rúmu ári greindist Oddur með krabbamein í blöðruhálskirtli. Meinið í kirtlinum var þá komið á miðlungs stig og jafnframt  staðbundin meinvörp. Eftir sex mánaða lyfjameðferð (hórmónagjöf) og gerbreytt mataræði (a la Jane Plant) höfðu meinvörpin gengið til baka og öll líðan Odds breyst til batnaðar. Hann hefur tekið saman upplýsingar um þetta á vef sínum:
http://www.hi.is/~oddur/info/pc/

Fyrirlesari: Oddur Benediktsson er prófessor

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.3.2008 kl. 12:47

4 identicon

Farðu varlega , í að kalla konur illa útlítandi hengilmænur, samanber nýlega dóma.

Sigurjón Björnsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 13:20

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Aðeins varðandi "horaðar, illa útlítandi hengilmænur" sem Sigurjón Björnsson minnist á.

Ég er auðvitað ekki að tala um þetta fólk sem leikur í auglýsingunum, heldur gerfið á því. Fólkið er sminkað og látið bera sig illa. Raddbeitingin er óaðlaðandi. Þetta er allt gert í ákveðnum tilgangi að sjálfsögðu.

Sjálf hef ég hitt og talað við eina þeirra kvenna sem leikur í þessum auglýsingum. Hún var lífleg og skrafhreifin og hreint ekkert lík þessari fölu og lundleiðu hengilmænu sem hún leikur í auglýsingunni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.3.2008 kl. 13:56

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð grein. Orð í tíma töluð. Einhvers staðar las ég að MS væri stærsti innflytjandi sykurs á landinu.

Theódór Norðkvist, 16.3.2008 kl. 14:01

7 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta eru athyglisverðir punktar hjá þér Ólína. Við þetta mætti bæta hugleiðingu um gerilsneyðinguna, en hún felst í því að hita mjólkina upp undir suðu og kæla hana aftur niður í 2 gráður á örfáum sekúntum, í sérstöku hita- og kælitæki. Við þetta sofna flestir gerlar mjólurinnar og vakna ekki aftur nema mjólkin hitni upp fyrir 40 gráður. Gerilsneydda mjólkin er því trúlega ekki mikil bætiefnabót fyrir flest venjulegt fólk, með normal líkamshita. Enda fara margir út í apótek til að kaupa sér mjólkursýrugerla í hilkjaformi; gerla sem annars væru í mjólkinni, ef þeir hefðu ekki verið svæfðir.

Svo er annað líka við vinnslu mjólkurinnar. Það er fitusprengingin. Mjólkurfitan er í agnarsmáum kúlum, sem, við geymslu, mynda gulleita skán ofan á mjólk sem ekki hefur verið fitusprengd. Frá náttúrunnar hendi er þessi fita ætluð til upplausnar í neðri hluta meltingarvegarins, bæði til notkunar fyrir hin ýmsu líffæri mannsins en einnig sem sleipiefni í þörmum og ristlinum. Vegna þess eiginleika hefur það oft reynst hin besta bót við erfiðum truflunum á eðlilegri hringrás um meltingarveginn, að fá óunna mjólk beit frá bóndanum. Fyrir fáum árum minnkaði forstöðukona elliheimilis í Noregi, notkun hægðalyfja á stofnun sinni um 35% með því að taka upp notkun á óunninni kúamjólk, í stað gerilsneyddrar og fitusprengdrar mjólkur.

Svona getur tæknin stundum virkað öfugt á suma, þó hún sé talin gagnleg fyrir aðra.

Guðbjörn Jónsson, 16.3.2008 kl. 14:04

8 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta eru athyglisverðir punktar hjá þér Ólína. Við þetta mætti bæta hugleiðingu um gerilsneyðinguna, en hún felst í því að hita mjólkina upp undir suðu og kæla hana aftur niður í 2 gráður á örfáum sekúntum, í sérstöku hita- og kælitæki. Við þetta sofna flestir gerlar mjólurinnar og vakna ekki aftur nema mjólkin hitni upp fyrir 40 gráður.  Gerilsneydda mjólkin er því trúlega ekki mikil bætiefnabót fyrir flest venjulegt fólk, með normal líkamshita. Enda fara margir út í apótek til að kaupa sér mjólkursýrugerla í hilkjaformi; gerla sem annars væru í mjólkinni, ef þeir hefðu ekki verið svæfðir.

Svo er annað líka við vinnslu mjólkurinnar. Það er fitusprengingin. Mjólkurfitan er í agnarsmáum kúlum, sem, við geymslu, mynda gulleita skán ofan á mjólk sem ekki hefur verið fitusprengd. Frá náttúrunnar hendi er þessi fita ætluð til upplausnar í neðri hluta meltingarvegarins, bæði til notkunar fyrir hin ýmsu líffæri mannsins en einnig sem sleipiefni í þörmum og ristlinum.  Vegna þess eiginleika hefur það oft reynst hin besta bót við erfiðum truflunum á eðlilegri hringrás um meltingarveginn, að fá óunna mjólk beit frá bóndanum. Fyrir fáum árum minnkaði forstöðukona elliheimilis í Noregi, notkun hægðalyfja á stofnun sinni um 35% með því að taka upp notkun á óunninni kúamjólk, í stað gerilsneyddrar og fitusprengdrar mjólkur.

Svona getur tæknin stundum virkað öfugt á suma, þó hún sé talin gagnleg fyrir aðra.  

Guðbjörn Jónsson, 16.3.2008 kl. 14:06

9 identicon

Þetta er nú bara venjuleg auglýsing. Coke sýnir aldrei feitt tannlaust fólk, heldur aðeins fallegt og brosandi fólk sama á við um áfengi og tóbaksauglýsingar sem eru reyndar bannaðar hér! svo má nefna bílaauglýsangar eintóm hamingja alltaf aldrei sýndar aukaverkanir af notkun bíla sem við lesum um annað slagið! Predikarinn talar um "hefðbundið íslenkst mataræði" hvað er það í dag þegar enginn hefur tíma til að elda! einhæft mataræði er sennilega það versta sem til er. Með sömu rökum mætti segja að fólk sem drekkur ekki coke sé leiðinlegt, feitt og mögulega ljótt líka;)

Benedikt Jónsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 14:21

10 identicon

Ég er aldrei þessu vant 100% sammála Ólínu.

 Ég hætti að drekka mjólk fyrir 4-5 árum og þvílík breyting til batnaðar. Ég yngdist um mörg ár og allskyns líkamlegir smákvillar hurfu eða minnkuðu mikið.

 Þessar auglýsingar fara í mínar fínustu og ég vona að þeim verði parkerað sem allra fyrst.

Magnús (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 15:59

11 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég hef ekki drukkið mjólk í mörg ár og einu mjólkurvörurnar sem ég borða er ostur. Veit ekki hvort ég væri eitthvað hressari eða liti betur út ef ég þambaði mjólk eða borðaði jógurt. Maður heyrir jú líka ofta en áður um fólk með mjólkuróþol.  Hef auðvitað ekki séð þessa auglýsingu en eins og þú lýsir henni þá held ég að MS ætti aðeins að hugsa sinn gang.  

Ía Jóhannsdóttir, 16.3.2008 kl. 16:22

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Úff þessi auglýsing er auðvitað þannig í laginu að ég veit ekki hvernig ég á að hemja bállilluna.  Drekk ekki mjólk enda tel ég hana vera fyrir börn og þoli ekki þennan áróður fremur en annan.

Kveðja vestur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.3.2008 kl. 18:20

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Kúmjólk er augljóslega af náttúrunnar hendi hönnuð vegna þarfa kálfa og í sjálfu sér lítið annað um það að segja.

Baldur Fjölnisson, 16.3.2008 kl. 18:20

14 Smámynd: Erna

Mjólk er góð. Á mínu heimili er drukkinn mjólk og það í tölvert miklu magni. Við drekkum hana við þorsta, með mat, og alltaf þegar við viljum eitthvað kalt og svalandi. OG VIÐ ERUM EKKERT LASINN. Vitum varla hvað veikindi eru sem betur fer. Þurfum ekki á lyfjum að halda og sleppum við allar flensur og pestir. Hjónakornin eru á sextugaldri og börnin á þrítugsaldri flutt að heiman vel frísk og heilbrigð. Ég var með börnin mín á brjósti í mjög skammann tíma eftir fæðingu þeirra svo tók kúamjólkinn við. Aldrei urðu þau veik og þroskuðust og þrifust eðlilega. Í fyrsta skipti sem sonur minn þurfti að nota sýklayf var hann 23 ára og dóttir mín hefur aldrei þuft að nota sýklalyf en hún er 22 ára.

Erna, 16.3.2008 kl. 18:25

15 Smámynd: Bjartmar Egill Harðarson

Manneskjan er eina spendýrið sem drekkur mjólk annarra dýra.

Eru margar dýrategundir sem drekka mjólk eftir barns/ungaaldurinn?

Mjólk er óþarfi. Hún er líka vond.
Broddur líka.

Bjartmar Egill Harðarson, 16.3.2008 kl. 19:19

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eina leiðin að líklegasta svarinu við þessari spurningu er að íhuga, hverjir lifnaðarhættir þeirra tugþúsundaára kynslóð, sem komu á undan okkur, voru. Við gáum upp í okkur og sjáum að tennurnar eru gerðar fyrir bæði grænmeti og kjöt. Hvernig hinir hæfustu komust af, sem mynduðu kynslóðastigann, skiptir mestu máli. Því nær því sem við komumst því að nærast á mjólk sem líkist mest móðurmjólkinni, því betra.

Engar kynslóðir fyrir 1950 nærðust á gerilsneyddri mjólk. Legg til að í stað kúamjólkur verði farið að framleiða apamjólk fyrir þá sem vilja aðeins það besta, þótt það sé dýrt. Vísa að öðru leyti í bloggpistil minn, sem ég var að byrja á, og er með hugleiðingum bak- og beinameiðsli fleira slíkt.

Ómar Ragnarsson, 16.3.2008 kl. 20:06

17 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Það er ekkert vafamál að ógerilsneydd mjólk er hollari, en geymsluþolið er stutt.(2-3 dagar) Á mínu heimili er alltaf drukkin ógerilsneydd mjólk enda er ég kúabóndi.  Mjólkin er gerilsneydd og fitusprengd til þess m.a. að lengja geymsluþolið og drepa óæskilega gerla sem hugsanlega leynast í mjólkinni. (Mjólkin er gerð söluhæf samkvæmt nútíma stöðlum um hollustu -hætti) Heimalingar þrífast illa á mjólk úr fernu en hún er ekki banvæn fyrir þá. Þeir þrífast vel ef þeir fá mjólkina beint úr kúnni. Það er staðreynd. 

Hvað varðar mjólkurdrykkju almennt þá eru margir aðrir drykkir óhollari en mjólk. Gosdrykkir eru margir hverjir yfirfullir af sykri og annari óhollustu. Ég minni á að það er meira drukkið núorðið af gosdrykkjum og söfum allskonar (þó ekki séu þeir allir óhollir) á Íslandi í dag heldur en mjólk. Sykurneyslan er mjög mikil á Íslandi eins og flestir vita og er hún að mestu rakin til óhóflegrar gosdrykkja drykkju landans. 

Ég sá ekkert athugavert við auglýsinguna. Mér fannst hún reyndar góð.  Venjuleg áróðurs-auglýsing til að auka sölu á viðkomandi vöru. (Mjólk)

Skákfélagið Goðinn, 16.3.2008 kl. 21:24

18 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Heimalingar deyja nú yfirleitt ekki, held eg, þó þeir fái aðeins fernumjólk.  En þeir þrífast ekki eins vel og af alvöru kúarmjólk en best af móðurmjólkinni.  En samt ef heimalingar (eða kindur almennt) komast á bragðið með að drekka kúamjólk á fullorðinsárum... þá eru þær alveg sólgnar í hana.  Standa á þambi ef þær komast í hana og virðast þrífast vel af.

Annars finnst mér persónulega að það ætti að leyfa að selja ógerilsneydda mjólk í verslunum.  Sé ekki alveg hvað væri svo hættulegt við það.  Gerilsneydd mjólk er í sjálfu sér allt annað en alvöru kúamjólk (að mínu mati) 

Kúamjólk er matur, hitt er bara svaladrykkur í samanburði.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.3.2008 kl. 21:45

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Heimalningar deyja ef þeir fá ekkert annað en fernumjólk. Ég veit það. Bændur (a.m.k. húsfreyjurnar) vita það líka.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.3.2008 kl. 21:57

20 identicon

Kalk er nú mikilvægt fyrir beinin, sérstaklega fyrir konur. Fyrir utan það finnst mér mjólk einfaldlega ómissandi drykkur með hverskyns mat, vandist ekkert af því þó ég yxi úr grasi :)

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 22:05

21 identicon

ms flytur inn 3% af þeim sykri sem er fluttur inn hér á landi.

e.long (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 22:41

22 identicon

Ég er sammála því að hollusta mjólkur er stórlega ofmetin. Eins og reyndar hollusta ýmissa matvæla. Aðalatriðið er að borða nógu fjölbreyttan mat, þá er maður í góðum málum þó maður drekki litla mjólk.

Auk þess er mjólk vond og ég minnist þess þegar maður var skikkaður til að drekka hana í grunnskóla. Það tíðkast held ég enn í dag, man að þegar bróðir minn var í grunnskóla en drakk ekki mjólk olli það gríðarlegum vandræðum á kennarastofu nefnds grunnskóla og það var ekki fyrr en eftir margra ára samningaviðræður sem hann og 2 aðrir strákar fengu að drekka frekar djús með hádegismatnum.

Máni Atlason (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 23:45

23 Smámynd: Linda

Ég drekk mjólk, ekki oft, en það koma tímar sem ég sæki í hana og þá veit ég að mig vantar vítamín sem í henni eru að finna, þannig er það bara.  Ísköld mjólk og ´nýbökuð súkkulaði kaka, er nokkuð betra, efast um það.  Eða ísköld mjólk eftir mat sem er bragðmikill það er ekkert betra.  En, það sem ég nenni ekki að baka, hvað þá elda, þá er lítið um mjólk hjá mér.  En, mér þykir hún ekki vond, og ég efast ekki um að hún sé holl fyrir okkur flest.  Svo má ekki gleyma því að það er minna um sykursýki á Íslandi sem þeir rekja til okkar kúamjólk.   

En ég þoli ekki þessar auglýsingar. 

bk.

L.

Linda, 17.3.2008 kl. 01:39

24 identicon

Mjólk var góð,er það ekki lengur.Þessi gerilsneydda er ekki heilsuvara,það er öðru nær.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 06:17

25 identicon

Sá sem þetta skrifar er einn af þeim sem þolir ekki mjólk. Á barnabörn sem alls ekki þola mjólk. Hinsvegar virðist óbreytt mjólk úr kúm, þá sjaldan maður smakkar hana á sveitaheimilum, ekki valda sömu áhrifum. Mjólkin sem er til sölu í verslunum er iðnaðarvara, á lítið skylt við náttúrulega mjólk. Þekki MJÖG vel til mjólkurvinnslu;  sykri er ekki bætt í venjulega neyslumjólk, en hinsvegar er sykuríblöndun hvað varðar t.d. bragðefnasúrmjólk, jógúrt, kókómjólk og þvílíkar vörur með hreinum ólíkindum. Enda virðast notendur hennar orðnir háðir sykrinum eins og hverju öðru fíkniefni, því ef reynt er að draga úr sykrinum, þá dettur salan niður! Mjólk úr kúm er af náttúrunnar hendi ætluð ungviði með annarskonar meltingarveg en okkar mannanna. Það er staðreynd líka, að mjólk úr hvaða spendýri sem er, er við náttúrlegar aðstæður eingöngu fóður ungviðis á fyrstu vikum og mánuðum ævinnar. - Þótt maður hafi uppi efasemdir um hollustu þessarar tilteknu iðnaðarvöru, neyslumjólkurinnar svokölluðu, þá þýðir það ekki að maður haldi því fram að kókakóla sé einhver sérstakur hollustudrykkur. Merkilegt að þau sem hafa hagsmuna að gæta varðandi mjólkursölu skuli alltaf detta í þann fúla pytt. Við íslendingar með allt okkar ódýra neysluvatn ættum að nota það meira og betur en við gerum. Hinsvegar gætu þeir sem starfa við neysluvatnslagnir og veitur gætt meira hreinlætis í umgengni við þær. Maður getur orðið ansi argur að horfa á sóðaskapinn þegar menn standa í drulluskurðum þar sem liggja saman skólplagnir og neysluvatnslagnir og innihald þeirra blandast meira og minna saman þegar verið er að leggja, tengja og gera við.  

Ellismellur (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 07:11

26 Smámynd: corvus corax

Þetta er athyglisverð umræða og þörf. Af hverju er beinþynning svona mikið heilsufarsvandamál hjá mjólkurþambandi þjóðum en ekki þeim sem drekka ekki mjólk? Skyldi það vera að mjólkurþambið valdi losun kalks úr beinum? Bent er á að mjólkurauglýsingarnar séu bara auglýsingar til að selja vöru en þessar auglýsingar eru fullar af lygum sem beinast gegn heilsu fólks þar sem ekkert er sannað um ágæti mjókur sem unnin er á vestrænan hátt. Svertingjar þola almennt ekki mjólk eftir æskuárin þar sem þá vantar ensímið laktasi sem brýtur niður mjólkursykurinn laktósa og hafa því mjólkuróþol á fullorðinsárum og virðast þrífast ágætlega.

Þessi mjólkurdýrkun vesturlandabúa og ekki síst Íslendinga er risavaxið heilbrigðisvandamál.

corvus corax, 17.3.2008 kl. 08:30

27 identicon

Ég vil byrja á að taka það fram að mér finnst þessi auglýsingaherferð ekki góð.  Hún vekur bara upp kjánahrollinn og auglýsingarnar þar sem fólk var að baula og syngja mu mu mu var mun betri, þótt ótrúlegt megi virðast.   Þegar það er frá verð ég líka að bæta því við að ég drekk mikla mjólk og hef alltaf gert, enda alinn upp við það á sveitabæ.  Því miður bý ég ekki lengur við það að geta drukkið óunna mjólk enda ekki lengur með kýr en það er þó klárt mál í mínum huga að mjólkin er með því betra sem maður lætur ofan í sig.  Eins og Dóra B. bendir réttilega á hér að ofan er mjólkin ekkert sérfyrirbrigði í neyslu mannskepnunnar og það er allt of mikið látið með þessa gerilsneyðingu og fitusprengingu eins og hún eigi eftir að steindrepa allt kvikt.  Nei það er ansi margt annað til sem er öllu fljótara að koma manni í gröfina.   Svo langar mig að koma aðeins inn á þetta heimalningamál. Ég veit ekki hvernig þeir bændur eða húsmæður sem Ólína umgengst fara með munaðarlausu lömbin sín en það líða aðeins nokkrir dagar frá fæðingu lambs áður en það fer að drekka vatn og narta í hey. Það er því varla hægt að tala um að heimalningar nærist bara á fernumjólk, en ég á þó fullorðnar ær hérna heima sem hafa ekki drukkið annað mjólkurkyns í æsku en fernumjólk og hefðu sitthvað að athuga við þessa fullyrðingu um að þær ættu að vera dauðar. Heimalningar sem komast ekki í móðurmjólk verða aldrei neinir lambadrekar en ef þeir komast í vatn og hey og síðar gras og fóðurbæti, þá þurfa þeir ekki meira til að komast af en dálitla fernumjólk til viðbótar af og til, og geta orðið fínustu skepnur á síðari árum. Þeim er einungis hættara við dauða sem lömbum vegna þess að ónæmiskerfi þeirra er veikara fyrir án móðurmjólkurinnar. En hana fáum við aftur á móti strax eftir fæðingu. 

Sverrir Friðriksson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 08:36

28 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Alveg hárrétt Friðrik. Þetta með heimalinganna.  Þessir bændur (húsfreyjurnar) sem Ólína vísar til hafa geinilega ekki hugsað nægilega vel um sína heimalinga. 

Skákfélagið Goðinn, 17.3.2008 kl. 09:53

29 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl öll aftur og takk fyrir þessar umræður.

Sverrir ræðir hér um afdrif heimalninga. Ég ítreka bara það sem ég hef áður sagt - og hef sjálf orðið vitni að - að heimalningur sem alinn er á fernumkólk eingöngu, hann drepst. Ærnar sem Sverrir talar um hljóta að hafa fengið eitthvað annað fyrstu daga ævi sinnar en bara fernumjólk. Það getur munað því hvort lambið fær móðurmjólk í einn sólarhring eða tvo.

Vissulega fara lömbin fljótt að narta í strá - en það tekur þó tvær til þrjár vikur fyrir þau að geta bitið gras sér að gagni. Ef þau fá ekkert annað en fernumjólk fram að þeim tíma, eiga þau litla lífsvon. Þetta veit ég - og ætla svo ekki að karpa um það meira.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.3.2008 kl. 10:00

30 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hermann - það er einmitt minn punktur: Að gefa heimalningi fernumjólk eingöngu er ekki góð umhirða. Og það segir sitt um næringarinnihald fernumjólkur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.3.2008 kl. 10:03

31 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Menn eru alætur og éta hvers kyns óþverra. Hvað er þá að því að drekka svolítið af mjólk? Flestar auglýsingar eru reyndar aumar blekkingar settar fram í gróðaskyni. Annars finnst mér þessi auglýsing ógeðfelld, hún er eitthvað svo vúlgar en vúlgar auglýsingar sækja mjög á. Menning okkar er að verða vúlgar. Svo vil ég minna á að það er ekkert sannað samband á milli krabbameins í blöðruhálskirtli og mjólkurneyslu. Það er hægt að ímynda sér allan fjandann.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.3.2008 kl. 10:41

32 identicon

Ætlaði ekki að kommentera meira um þetta mál, því það er eins og við manninn mælt, að mjólkurframleiðendur og aðrir hagsmunaaðilar fara strax út í orðhengilshátt og karp um óskylda hluti, eins og því miður er dæmigert fyrir okkur íslendinga. En mig langar samt að skjóta því hér inn, að gerilsneyðingin (pasteurisering) er eitt, fitusprenging (homogenesering) er annað. Líf- og næringarfræðingar gera mikinn greinarmun á áhrifum þessara tveggja þátta í framleiðslu neyslumjólkur. Hljóðbylgjur eru notaðar til að sprengja fitumólekúlin við fitusprengingu, sem hefur miklu meiri áhrif á mjólkina sem fæðu. Eins og raunar hefur komið fram hér ofar, veldur þetta því að fitan kemst út í meltingarveginn miklu fyrr en ella og minna af henni gengur niður af fólki. Gerilsneyðingin var á sínum tíma nauðvörn á tímum þegar smitandi berklar voru þvílíkt heilsufarsvandamál að nútíma fólk á erfitt með að gera sér það ljóst. Hún átti sinn stóra þátt í að það tókst að ná þeim tökum á berklunum hér á landi sem raun bar vitni  - þar til við fórum að flytja inn superberklana frá Austur-Evrópu.  

Ellismellur (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 10:54

33 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég sat fyrir nokkrum árum fyrirlestur með Jane Plant sem vitnað er í einni bloggfærslunni  http://www.janeplant.com/ og skal alveg viðurkenna að ég hljóp ekki í skápinn þegar ég kom heim til að fá mér glas af mjólk. Rannsóknir hennar eru eftirtektarverðar og af því að einhver sagði hér á undan að mjólk væri bara fyrir börn þá er vert að geta þess að í flestum Asíulöndum fá börn einungis brjóstamjólk og síðan ekki söguna meir.  Það er líka umhugsunarvert hversu há krabbameinstíðni er hjá þjóðum þar sem neysla á mjólkurvörum er almenn.  Kalkáróðurinn í mjólkurauglýsingum er ekki til þess að púkka uppá. Það þarf ekki mjólk til að halda beinum í lagi, svo mikið er víst.

Pálmi Gunnarsson, 17.3.2008 kl. 14:20

34 Smámynd: Tiger

 Thumbs Up Á mínu heimili er mjólkin góð. Sjálfur drekk ég minnst tvo til fjóra lítra á sólahring. Ég elska fátt meira en að henda mjólkurfernu út á pall að kvöldi og ná í hana að morgni, hálf frosna, og moka lítranum í mig með morgunmatnum.. *slurp*. Drekk minnst líter af mjólk á nóttunni líka sko... ómæ.





Tiger, 17.3.2008 kl. 14:29

35 Smámynd: Kristófer Sigurðsson

Sæl Ólína,

Nokkrar fullyrðingar þínar stungu aðeins í augu og ég ákvað að tjá mig aðeins um þær;
A) Að vaxandi tíðni mjólkuróþols stafi af of mikilli mjólkurneyslu
B) Að mjólkuróþol sé minna í Asíu (skilið út frá samhengi)
C) Að næringarefnin í mjólk séu lítilsverð (gefið í skyn)

Þú heldur því fram að mjólkuróþol sé vaxandi vandamál og stafi líklega af ,,allt of mikilli mjólkurneyslu okkar Vesturlandabúa".  Þetta er alrangt.  Þvert á móti er staðreyndin sú, að lítil eða engin mjólkurneysla á unga aldri ýtir undir mjólkuróþol (primary lactose intolerance).

Í næstu setningu segir þú síðan (réttilega) að ,,Í Asíulöndum þekkist ekki mjólkurneysla meðal fullorðinna - hún er vestrænt fyrirbæri.".  Skilja má af semhenginu að þú teljir mjólkuróþol vera lítið eða ekki þekkt vandamál þar eystra.  Hér virðist þú einnig hafa misskilið eitthvað, því allt að 100% Asíubúa þjást af mjólkuróþoli.  Hér vísa ég í grein Melvin B Heyman, læknis og MPH í lýðheilsu, sem birtist í tímaritinu Peadiatrics, Vol. 118 No. 3 September 2006, undir titlinum ,,Lactose Intolerance in Infants, Children, and Adolescents":

,,In populations with a predominance of dairy foods in the diet, particularly northern European people, as few as 2% of the population has primary lactase deficiency. In contrast, the prevalence of primary lactase deficiency is 50% to 80% in Hispanic people, 60% to 80% in black and Ashkenazi Jewish people, and almost 100% in Asian and American Indian people."
Greinina er hægt að lesa hér: http://aappolicy.aappublications.org/cgi/content/full/pediatrics;118/3/1279

Þú heldur því einnig fram að beinþynning sé mun alvarlegra vandamál á Vesturlöndum en annars staðar.  Ég athugaði með Japan, þar sem fólk er hvað hraustast í Asíu, og síðan Bandaríkjunum, þar sem almenn heilsa er hvað verst á Vesturlöndum.  Samanburður á þessum tveimur löndum sýnir að tíðni beinþynningar er mjög svipuð.  Að vísu er tíðni áverka eins og mjaðmarbrota minni í Japan, en það er takið til annarra þátta.  Hér er ágætis grein sem ber löndin saman að þessu leyti (úr Experimental Biology and Medicine, vol. 200, 1992): http://www.ebmonline.org/cgi/content/abstract/200/2/149

Ég hafði lúmskt gaman af því að lesa listann þinn yfir næringarefnin í mjólkinni, þar sem þú virtist ekki telja hann upp á marga fiska.  Jújú, einhver B vítamín.  Skortur á B1 vítamíni veldur alvarlegum einkennum í miðtaugakerfi, í alvarlegri tilfellum hjartsláttartruflunum og dauða.  Sjúkdómurinn er kallaður Beri-beri og er fyrst og fremst bundinn við Asíu.  Tengdur einhverri sérstöðu í mataræði þeirra...:)
Þú minnist á kalk og fosfór, en þess má til gamans geta að 99% af kalkinu (kalsíum, Ca) í líkamanum er geymt í beinunum.  Skortur á kalki í blóðinu veldur vöðvakrömpum og hjartsláttaróreglu.  Til þess að verja sig fyrir þessu sækir líkaminn kalk í beinin þegar vantar.  Þetta veldur beinþynningu.  Á Vesturlöndum eru mjólkurvörur helsta uppspretta kalks í fæðu.

Þessar fullyrðingar þínar koma mér nokkuð á óvart frá konu jafn menntaðri og þú ert.  Ég veit að vísu að þetta er ekki þitt sérsvið - ég er nokkuð viss um að þú gætir skotið nokkur göt á uppsetningu og málfræði þessarar athugasemdar minnar. :)  Þó legg ég til að þú kíkir á Wikipedia eða eitthvað álíka næst þegar þú setur inn grein um líffræði.

Bestu kveðjur frá fyrrverandi nemanda í MÍ (að vísu í tíð Björns Teitssonar) - sem drekkur að öllu jöfnu ekki mjólk...

Kristófer Sigurðsson, 17.3.2008 kl. 16:18

36 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Kristófer.

Mér þykir þú leggja í býsna langan leiðangur til þess að kasta rýrð á það sem ég hef að segja um mjólkurauglýsinguna. Og þú teygir þig líka býsna langt í að túlka það sem ég segi. Kallar til dæmis hugleiðingar mínar "fullyrðingar" (t.d. þar sem ég velti fyrir mér hvort vaxandi mjólkuróþol geti stafað af of mikilli mjólkurneyslu); og leggur mér svo orð í munn sem ég hef ekki sagt.  

Færsla mín hér ofar er ekki  "grein um líffræði" eins og þú virðist halda. Hún fjallar um siðferði í auglýsingu þar sem stórar fullyrðingar eru settar fram um hollustu mjólkur. Fullyrðingar sem ég hef rökstuddan grun um að standist ekki.

Svo verð ég að viðurkenna að mér leiðist óskaplega gamla klisjan sem menn grípa svo oft í þegar þeir vilja mótmæla mér, það er að þeim komi á óvart að "jafn menntuð kona" sem ég skuli yfirleitt hafa skoðanir á einhverju öðru en mínu sérsviði.

Svona yfirlæti er bara svo þreytandi að það hálfa væri hellingur. Verð bara að segja eins og er.

En fyrir þá sem vilja vita get ég upplýst að sjálf drekk ég mjólk með bestu lyst - ég tala nú ekki um þegar heit súkkulaðikaka er annars vegar. En ég held henni ekki að nokkrum manni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.3.2008 kl. 16:54

37 Smámynd: Pétur Kristinsson

En vitið þið af hverju Kókómjólk er dýrari en mjólkin?

Það er mun erfiðara fyrir beljurnar að sitja á litlu hyrnunum.

Pétur Kristinsson, 17.3.2008 kl. 17:14

38 identicon

Er mjólk besti kalkgjafinn?   Stutta og fróðlega grein um það má finna hér.

Önnur áhugaverð grein eftir Mark J. Occhipinti, M.S. , Ph.D, NDc: "Does Milk Really Do The Body Good? Calcium and Protein: A Mixture For Disaster"

María J. (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 17:28

39 Smámynd: Kristófer Sigurðsson

Sæl Ólína,

Leiðangurinn var ekki mjög tímafrekur, enda ekki erfitt að finna fræðigreinar um þetta efni.  Ég reyndi eftir fremsta megni að oftúlka ekki það sem þú sagðir, með því að vitna beint í greinina þína, svo og með því að taka það fram ef ég taldi mig vera að lesa milli línanna (punktar B og C).

Ef greinin hafði aðeins að geyma hugleiðingar, en ekki fullyrðingar, verð ég að segja að mér finnst það engan veginn augljóst í orðalagi hennar.  Í setningunni ,,Mjólkuróþol er vaxandi vandamál - sem stafar líklega af allt of mikilli mjólkurneyslu okkar Vesturlandabúa" finnst mér mjög auðvelt að misskilja þig á þann veg að þú hafir eitthvað fyrir þér í því að þetta sé satt, eða a.m.k. ekki þveröfugt, eins og raunin er.
Sama finnst mér um setninguna ,,Samt er beinþynning mun alvarlegra vandamál hér á Vesturlöndum heldur en á austrænum slóðum".

Að því sögðu fer ég auðvitað ekki að deila við þig um það hvað þú meinar með því sem þú skrifar. :-)

Þú sakar mig um að leggja þér orð í munn sem þú hefur ekki sagt.  Auðvitað væri það hið versta mál, ef satt reyndist, og er ég að sjálfsögðu fús til að biðjast afsökunar á því, ef mér hefur orðið það á að gera það.  Gætir þú kannski bent mér á það hvar slíkt væri að finna í athugasemdinni minni?

Um siðferði auglýsingarinnar veit ég ekkert.  Hef ekki séð auglýsinguna og væri líklega ekki hæfur til að dæma um það hvort eð er.  Þú segist hafa rökstuddan grun um að fullyrðingarnar standist ekki - ég leit á það, í einfeldni minni, sem tilvísun í líffræði, enda væntanlega þar sem slíkra raka væri helst að leita.

Eftir endurlestur á athugasemdinni minni játa ég að hún kemur ónauðsynlega yfirlætislega út.  Bið þig að afsaka það.

Verði þér mjólkin að góðu.

Kristófer Sigurðsson, 17.3.2008 kl. 18:22

40 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Vísindavefurinn segir að 70% mannkyns sé með mjólkursykuróþol en slíkt sé sjaldgjæft hjá fólki af norrænum uppruna. http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1259 

Íslendingar lifðu á mjólk eða mjólkurafurðum úr kúm, kindum, geitum og  köplum í fleiri fleiri hundruð ár (en þá var gerilsneyðing og fitusprenging ekki komnar til sögunnar að vísu) 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.3.2008 kl. 18:27

41 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Held sjálfur mjólkurþambi í lágmarki orðið þó að ég virðist þola mjólkurvörur ágætlega og var alinn upp á mjólk beint úr kúnni og drakk ógrynni af henni og þreifst vel, en hún virðist vissulega fara misvel í fólk og ég hef séð góð rök fyrir því að hún geti aukið vöxt krabbameinsfruma og valdið sumum verulegum vandræðum. Nota hana eiginlega bara þá sjaldan að ég fæ mér morgunkorn og hef enga lyst á að drekka hana eina og sér eins og áður, fæ eiginlega bara hroll við tilhugsunina. Mjólkurvörur nota ég samt afar mikið, byrja yfirleitt daginn með vænum skammti af AB-mjólk og elska að slokra í mig fernu af Aloe Vera jógúrt sem hressingu í vinnunni, ostur er nánast eina áleggið sem ég nota á brauð og stundum óspart á og með mat. Léttmjólk og Fjörmjólk þykja mér þunnur þrettándi og afar vondir drykkir. Sennilega er margt betra til að fá kalk heldur en mjólkurþamb og mikilvægt að gróðasjónarmið standi ekki í vegi fyrir upplýsta umræðu um það hversu skaðlegar mjólkurvörur geta verið ansi mörgum.

Georg P Sveinbjörnsson, 17.3.2008 kl. 20:31

42 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll aftur Kristófer.

Þú biður mig að vísa þér á staðinn þar sem þú leggur mér orð í munn. Það er fljótgert - liðir B og C í þinni athugasemd.

Annars er þetta allt í góðu af minni hálfu og afsökun þín fúslega tekin til greina.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.3.2008 kl. 21:17

43 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Heyrðu... ég skrifaði einmitt færslu um þetta hérna

Ég gæti náttúrulega ekki verið meira sammála þér!

Heiða B. Heiðars, 17.3.2008 kl. 21:51

44 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Blessuð Ólína.

Af hverju er langlífi karla mest í heimi hér?   Konur nálægt toppnum?  Skyldi það vera vegna þess að allir hafa fyrir löngu sagt bless við íslenskar mjólkurvörur?    Nei, sem betur fer ekki ennþá. Kannski kemur sá tími með svona heilaspuna sem hver lepur upp eftir öðrum, líkt og kettirnir mjólkina.

Allt er slæmt í óhófi Ólina.  Án nokkurs vafa. Eflaust líka mjólkurvörur að einhverju leyti.   En að ætla þessa afurð meinóholla nú allt í einu eftir 1130 ár  vísa ég út í hafsauga.

Komdu nú með svona grein um E ,e,e in öll og  gosþambið.  Ég hélt þú vissir betur.

Bestu kveðjur úr Flóanum. (Þar sem býr víðsýnt fólk í víðsýnu umnhverfi)

www.valdimarg.blog.is

P.Valdimar Guðjónsson, 17.3.2008 kl. 23:11

45 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vafalaust eru einhverjir þeirrar skoðunnar að mjólk sé meinóholl. Ég hef ekki haldið því fram.

Ég ítreka bara það sem ég hef sagt - mjólk er að öllum líkinum stórlega ofmetin sem hollustuvara. Og þar við situr.´

Ég drekk hana samt - í hófi

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.3.2008 kl. 23:18

46 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Heyrðu mig Valdimar......... það er samt ekkert óeðlilegt við það að fólk sem býr yfir skynsemi, svona í meðallagi amk, setji spurningamerki við þessar auglýsingaherferðir Mjólkursamsölunnar!

"Hollustan" sem þeir auglýsa sínkt og heilagt er barasta engin hollusta! Maður sér viðvörunarljós um leið og MS nefnir orðin "enginn viðbættur sykur".... Þvílík svikamylla

Heiða B. Heiðars, 18.3.2008 kl. 00:02

47 identicon

Ég vil byrja á að segja að mér finnst skjóta skökku við segja að bændur viti ekki hvort heimalningar geti lifað á gerilsneyddri mjólk, að segja þeim og það sé bara ekki hægt!! Bændur vita það líklega best af öllum hve lengi heimalningarnir lifa og hvenær þeir byrja að narta í gras og drekka vatn. Ef þú drekkur bjór verður þú feitur, kaffi er fullt af koffíni og einhverjum eiturefnum, gos er fullt af sykri eða gervisætu sem hvort tveggja er óhollt, djús étur upp tennur/glerunginn. Vatn er það besta sem við fáum og ekki eru nein vafaatriði um það en næst því hlýtur að koma mjólkin. Gerilsneyðing og fitusprening eru gerðar af kröfu heilbrigðisyfirvalda. Gerilsneyðing á mjólk er til að eyða mögulegum óhreiningum sem gætu verið í mjólkinni og fitusprenging er til að mjólkin skilji sig ekki og rjómaskán setjist ofan á mjólkina. Það má vera að ógerilsneydd mjólk sé hollari en hin er engu að síður mjög holl. Mjólk er góð! Es. Ef Ómar getur reddað mér apamjólk væri ég til að smakka hana.

Pálmi Reyr Þorsteinsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 00:24

48 Smámynd: Kristófer Sigurðsson

Sæl aftur Ólína,

Þá er það bara minn misskilningur að þú hafir haldið fram að mjólkuróþol sé minna í Asíu og að næringarefnin í mjólk séu lítilsverð.  Mér til málsbóta vil ég reyndar benda á að ég tók fram innan sviga eftir punktum B og C að þeir væru lesnir milli línanna.

Kannski fyrsta athugasemdin mín þjóni þeim tilgangi að leiðrétta misskilning, ef einhver les greinina og skilur hana á sama hátt og ég.
Annars eru þessar umræður að sjálfsögðu í góðu af allra hálfu, vil ég trúa.

Að öðru, en tengdu, myndum við flest ekki geta orðið sammála um það, að einn sterkasti eiginleiki mannskepnunnar sé að geta aðlagast aðstæðum á hverjum stað?  Maðurinn (í kynlausri merkingu, að sjálfsögðu) er eina dýrið á jörðinni sem býr í öllum heimsálfunum (nema Suðurpólnum, sem telst víst heimsálfa).  Mjólk hefur í gegnum árþúsundin verið uppspretta næringarefna og maðurinn hefur nýtt sér það.  Að halda því fram að náttúran hafi ekki hannað hana fyrir fullorðna...jahh, náttúran virðist a.m.k. hafa hannað manninn þannig að hann getur nýtt sér hana (á þeim svæðum þar sem hún hefur verið til staðar).

Hvort mjólkin sé besta uppspretta þessara næringarefna sem völ er á í dag - það þarf auðvitað alls ekkert að vera.

Kristófer Sigurðsson, 18.3.2008 kl. 07:08

49 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þú segir nokkuð Dóra. Það er þetta með hið "ríka" vítamíninnihald sem fer fyrir brjóstið á mér og fleirum. Því þar með er gefið í skyn að mjólk geri eitthvað fleira fyrir þig en raun er á.

Það er allt í lagi að auglýsa mjólk sem svaladrykk, vegnað þess að hún bragðist vel, sé góð með súkkulaðiköku, út í sósuna og svo framvegis. Það er bara þessi ofuráhersla á hollustuna sem fer í taugarnar á mér - af því þar kveður við falskan tón.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.3.2008 kl. 11:58

50 identicon

Langar að benda á fróðlega grein um kalk og mjólk á vef Harvard háskóla: http://www.hsph.harvard.edu/nutritionsource/calcium.html. T.d.

"In particular, these studies suggest that high calcium intake doesn't actually appear to lower a person's risk for osteoporosis. For example, in the large Harvard studies of male health professionals and female nurses, individuals who drank one glass of milk (or less) per week were at no greater risk of breaking a hip or forearm than were those who drank two or more glasses per week.(2, 3) Other studies have found similar results."

Er sjálfur með mjólkuróþol (reyndar ekki gegn laktósa, heldur mjólkurpróteininu), samt er ég alinn upp í sveit og þambaði mjólkina beint úr kúnni langt fram eftir aldri. Skildi bara aldrei af hverju ég var alltaf svona sloj í hausnum, sem lagaðist um leið og ég hætti að drekka mjólk. En ég er sammála Ólínu um að þessar auglýsingar MS um hollustu mjólkur eru hvimleiðar. 

Varðandi Asíulöndin, þá hugsa ég að (ef þetta er rétt að beinþynning er minna vandamál þar) fjölbreyttara mataræði og meira úrval af grænmeti og ávöxtum í fæðunni hafi eitthvað að segja. T.d. er þang mikið notað í japanskri matargerð og ekki er það alveg laust við kalk og steinefni.

Guðmundur (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 13:01

51 identicon

Etir að hafa lesið greinina "THE MILK LETTER : A MESSAGE TO MY PATIENTS" sem einn athugasemdaritara benti á hér að ofan, finnst mér að ætti setja viðvörunarmiða á mjólkurvörur, svipuðum þeim er finna má á tóbaksvörum.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 16:50

52 Smámynd: Kári Gautason

Vá hvað leiðtogi Kína er mikill fáviti að ætla að auka mjólkurneyslu Kínverja! Nennir einhver næringarfræðingurinn hér að bjalla í Wen Jiabao og segja honum að þetta sé mikil mistök, mjólk er krabbameinsvaldandi og mikið heilsuvandamál hérna á Vesturlöndum.

Kári Gautason, 18.3.2008 kl. 17:01

53 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Aðeins örfá viðbótarorð: 

Dóra, taktu nýmjólkurfernu út úr ísskápnum hjá þér og lestu það sem á henni stendur um vítamín-innihaldið.

Þú verður undandi þegar þú sérð hvað þar stendur (fátt).

Ég hélt eins og þú  að mjólk væri rík af A og D vítamíni. Nú veit ég betur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.3.2008 kl. 22:10

54 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Þú segir að auglýsingin sé "aum blekking sett fram í gróðaskyni".

Ég spyr: Hvað með gos auglýsingarnar, bíla auglýsingarnar,...... já allar auglýsingar. Eru þær ekki settar fram í gróðaskyni?

Svo finnst mér skondið í athugasemdum hér að framan að vitna í þjóðir sem ekki drekka mjólk en það eru einmitt þjóðir sem hafa miklu lægri lífslíkur en Íslendingar. Af hverju ætli það sé?

Sigurður Haukur Gíslason, 18.3.2008 kl. 23:25

55 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vitanlega eru allar auglýsingar settar fram í gróðaskyni - en þær ganga mislangt í blekkingum. Ég veit þó ekki til þess að gos hafi verið auglýst sem hollustuvara.

Að vísu man ég eftir Malt-slagorðunum "bætir, hressir, kætir" og "það vantar allt malt í þig drengur!". En því hefur þó ekki verið haldið fram að maður veslist upp ef maður drekkur ekki malt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.3.2008 kl. 10:07

56 identicon

Mjólk er bragðvondur óþverri sem enginn ætti að leggja sér til munns. Hef séð heimaganga veslast upp vegna neyslu á þessum "gæðadrykk".  En þá erum við að tala um gerilsneidda mjólk.  Hef séð sömu heimaganga braggast þokkalega þegar þeir fengu mjólkina "beint úr kúnni" . Engum sem er annt um heilsu sína ætti að láta hvarfla að sér að drekka mjólk sem hefur fengið meðhöndlun á mjólkurstöð.  Hún er heilsuspillandi að mínu mati.

Kveðja,

Kári Lár. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 15:57

57 identicon

Ágæt umræða um vægast sagt undarlegar auglýsingar.Eins og margir vita er heilinn á bak við þessa herferð Jón Gnarr og það verður að segjast að honum tekst að fanga athygli fólks með herferðum sínum s.b.r símaauglýsingarnar frægu.En ég verð að segja að ég hef mun meiri áhyggjur af gosdrykkjaþambi landsmanna heldur en mjólkurneyslu.Það má vera að mjólk sé ekki eins holl eins og haldið er fram en væri ekki þarfara að "ráðast" á kók og pepsi fyrst?

Eyþór Jónsson (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband