Reykjavík er ljót borg

Korpulfsstadir Þegar ég ók Vesturlandsveginn í átt til höfuðborgarinnar í fyrradag ætlaði ég að venju að líta í átt til Korpúlfsstaða sem ævinlega gleðja augu mín frá þjóðveginum. En þá blasti við mér allt önnur sjón: Risastórt gímald - ferhyrndur álkassi sem á víst að heita hús og mun eiga að hýsa Rúmfatalagerinn. Angry 

Þetta hræðilega mannvirki dregur að sér alla athygli þarna sem það stendur. Það skyggir á formfagrar byggingar gamla stórbýlisins á Korpúlfsstöðum sem Thor Jensen reisti af metnaði og rausn og sem hafa verið héraðsprýði. Nú stendur Korpúlfsstaðabýlið eins og hálfgerður hundakofi í skugga þessarar risabyggingar sem virðist frá veginum séð vera tíu sinnum stærri. Hinumegin við Vesturlandsveginn er svo Bauhaus að reisa annan kumbalda. Álíka stóran - ef marka má húsgrindina sem komin er upp - og líklega jafn ljótan.

Sundurgerðin og skipulagsleysið í íslenskum arkitektúr held ég að hljóti að vera einstök í veröldinni.  Með örfáum undantekningum er nánast allt sem hér er byggt einhverskonar formtilraunir eða skipulagsfúsk. Engin virðing fyrir því sem fyrir er. Gler og álkössum er troðið niður innan um gömul og falleg hús, í hrópandi ósamræmi við umhverfið. 

Hér áður fyrr voru hús hönnuð og byggð til þess að fegra umhverfi sitt. FríkirkjuvegurMúrsteinar og falleg náttúruefni sjást varla lengur. Ég held bara að hér á Íslandi hafi ekki komið arkitekt sem stendur undir nafni frá því Guðjón Samúelsson leið. Hann hannaði byggingar inn í umhverfi og heildarmynd. Því miður var skipulagsuppdráttum hans ekki fylgt nema að takmörkuðu leyti - en það virðist vera þjóðareinkenni á okkur Íslendingum að geta aldrei fylgt skipulagi.

Borgin ber þessa merki þar sem hálfar húsaraðir blasa hvarvetna við með sína æpandi brandveggi. Sumar götur í Reykjavík eru eins og skörðóttur tanngarður þar sem misleitar byggingar og hver sundurgerðin tekur við af annarri. Á góðum degi reynir maður að telja sér trú um að þetta sé nú hluti af hinum Reykvíska sjarma - en sannleikurinn er sá að það er ekkert sjarmerandi við þetta. Þetta er bara ljótt.

 800px-Kringlan

Kaldur arkitektúr er það sem hefur tröllriðið allri byggingarlist undanfarna áratugi. Hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða opinberar byggingar. Þetta eru allt einhverjar klakahallir. Af hverju er ekki bara hægt að byggja eitthvað fallegt? Formfagrar byggingar í samræmi við umhverfi sitt?

Mér þykir vænt um Reykjavík. En hún ljót borg.


Ljótt mál - og stóð of lengi

 JonAsgeir Þá er því loks lokið þessu makalausa Baugsmáli sem staðið hefur í sex ár og kostað mörg hundruð milljónir króna. Og til hvers var svo unnið öll þessi ár fyrir allt þetta fé? Jú til þess að sanna "sekt" hins meinta höfuðpaurs, Jóns Ásgeirs, sem samkvæmt dómi Hæstaréttar reyndist jafnast á við umferðarlagabrot að viðurlögum - eins og dæmt hafði verið í héraði.

 Eftir því sem þetta mál hefur staðið lengur, og  því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum sem fóru í rekstur þess hefði verið betur varið í annað. Í löggæslumálefnum eru mörg brýn verkefni sem ég hefði frekar viljað sjá þessa fjármuni fara í. Til dæmis starfsemi réttargeiðdeildarinnar á Sogni - sem í ljós hefur komið að var rekin á faglegum brauðfótum og ekki allt með felldu. Til dæmis í að efla lögregluembættin á landsbyggðinni sem mörg hver kljást við manneklu og fjársvelti. Til dæmis í að bæta aðbúnað og efla betrunarstarf í fangelsum landsins almennt. Og þannig mætti lengi telja ýmislegt sem liðið hefur fyrir fjárskort á undanförnum árum.

Allir sem komu nálægt þessu máli hafa skaðast af því. Ekki bara málsaðilar sjálfir, heldur fjöldi manns sem tengdist þeim með einhverjum hætti. Hvorugur málsaðila er fyllilega sáttur með leikslokin. Og enginn almennur þjóðfélagsþegn veit raunverulega hvað þarna átti sér stað. Það vita einungis þeir sem hófu málareksturinn, hvað þeim sjálfum gekk til. Þeir eru hins vegar horfnir af sviðinu sumir hverjir - laskaðir eftir átökin.

En, vonandi er þessu nú lokið fyrir fullt og allt.


mbl.is Baugsmálinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Mismunun gegn konum er glæpur''

Maud_de_Boer-Buquicchio  Þetta segir Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Maud de Boer Buquicchio flutti erindi á fjórðu Tengslanetsráðstefnunni sem haldin var á Bifröst í síðustu viku, undir yfirskriftinni ,,Konur og réttlæti''.

Þessi orð brenndu sig inn í vitund mína. Ég hef aldrei heyrt íslenskan stjórnmálamann, álitsgjafa eða mannréttindafrömuð orða þetta meginatriði kvenréttindabaráttunnar með þessum hætti. Nú hefur Maud tekið af þeim ómakið. Þessi eftirsótti fyrirlesari sem varð fyrst kvenna til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins og þekkir svo vel stöðu mála í 46 aðildarríkjum þess, þar sem búa um 800 milljón manna. Maud de Boer Buquicchio er lögfræðingur að mennt og hefur sérstaklega látið sig varða jafnréttismál og mannréttindi almennt. Hún talar bara um hlutina eins og þeir eru: Kynjamismunun er glæpur - rétt eins og kynþáttamismunun og önnur mannréttindabrot. 

Hvað þýðir þetta?

Það þýðir að þeir sem hugsa sem svo, að:

  • það taki tíma að breyta viðhorfum
  • það sé frekja - jafnvel yfirgangur - að ,,heimta'' helmings aðild að stjórnum, ráðum, nefndum, þingsætum o.s.frv.
  • eitthvað minna en fullt jafnrétti sé ásættanlegt, til dæmis hlutfallið 40/60
  • við eigum að bíða eftir breytingunum - við höfum hvort eð er beðið svo lengi

o.s. frv. ... o.s. frv. ... ættu að endurskoða hugarfar sitt. Það gæti nefnilega verið ,,glæpsamlegt" þegar allt kemur til alls. 

Þetta er umhugsunarefni fyrir marga sem telja sig einfaldlega vera hófsama umbótasinna, velviljaða hægfara framförum. Við erum hér að tala um þetta aðgerðarlitla fólk sem ekki er uppnæmt fyrir mörgu í umræðunni - vill ekki fara að neinu óðslega. Þetta er býsna stór hópur - og sjálfsagt margir lesendur þessara orða einmitt í þeim hópi. En er ekki hugsanlegt að með ,,hófsemi" sinni, ,,stillingu" og aðgerðaleysi sé þetta sama fólk meðvirkir gerendur í óréttlæti og mismunun?

Hugsum þetta lengra:

Er ásættanlegt að segja við blökkumann: ,,Þú hefur nú þurft að bíða svo lengi eftir fullum réttindum, þú getur beðið lengur"? Að segja við konu sem hefur verið barin á heimili sínu eða barn sem hefur verið misnotað: ,,Þetta hefur nú staðið svo lengi að þú getur nú alveg beðið ... þú hlýtur að skilja að það tekur tíma að breyta þessu"?

Samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaákvæðum í lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum er hugsunarháttur af þessu tagi einfaldlega ekki tækur. Hann er glæpsamlegur.

Það er hart að segja það, en þeir eru trúlega fjölmargir Evrópubúarnir - þar á meðal Íslendingar - sem hafa þó gerst sekir um einmitt þetta.

 *

PS: Í þessari frétt á mbl.is í dag segir frá því að konur skipa 13% stjórnarsæta í 120 félögum hér á landi samkvæmt  könnun sem Rannsóknasetur vinnuréttar á Birfröst lét gera nýlega. Þetta er ekki bara óviðunandi - þetta er glæpur. Athugið það.

 


Bakþanki um hvítabjörn

untitled Hvítabirnir geta verið afar blíðlyndir. Eins þetta myndskeið sýnir getur farið mjög vel á með hundum og ísbjörnum (smellið hér) - þó ég myndi sjálf ekki kæra mig um þau groddalegu blíðuhót sem seppi fær þarna.

En ég er hugsi yfir atburðum dagsins. Sérstaklega finnst mér upplýsingar misvísandi um hættuna sem myndaðist á vettvangi. Myndskeiðið sem sýnt hefur verið á mbl og sjónvarpsstöðvunum bendir ekki til þess að björninn hafi verið í árásarham. Gagnrýni héraðsdýralæknisins á Blönduósi sem segist hafa haft deyfilyf í bílnum hjá sér og til þess gerða byssu að skjóta því finnst mér athyglisverð, svo ekki sé minna sagt.

Hvers vegna lokaði ekki lögreglan veginum og setti vakt á dýrið? Þeir fóru þarna margir saman að birninum og fóru ekki dult. Var að furða þó bangsi yrði þeirra var - yrði forvitinn og gæfi þeim nánari gaum?

Ég efast ekkert um góðan vilja - en ég held að þarna hefði mátt standa faglegar að verki, sérstaklega á vettvangi. Þar hafa menn líklega ofmetið hættuna sem stafaði af birninum. Þeir hafa jafnvel sjálfir aukið á hættuna með mannaferðum og ónæði fyrir björninn.

Aftur á móti er umhverfisráðherra í afar erfiðri stöðu að þurfa að taka ákvörðun á grundvelli þess hvernig aðstæður eru metnar á vettvangi að henni fjarstaddri. Sjálf hefði ég trúlega gert það sama og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þ.e. að taka gilt mat viðstaddra á aðsteðjandi hættu. Annað hefði verið ófyrirgefanlegt. Trúlega hefðu allir tekið sömu ákvörðun miðað við þær upplýsingar sem veittar voru. 

 En ... ég er hrædd um að kunnáttuleysi þeirra sem voru á staðnum -  og hræðsla - hafi ráðið mestu um það hvernig fór.


Ill nauðsyn - eða hvað?

Sorgleg endalok voru það að björninn skyldi felldur - en ill nauðsyn er ég hrædd um. Ekki hefði ég viljað vera þarna og sjá dýrið koma á móti mér.

Athugasemdir héraðsdýralæknisins á Blönduósi eru þó umhugsunarefni (sjá hér ) og þær vekja spurningar um hvort raunverulega hafi verið vilji til þess að ná birninum lifandi.

Fram kom í fréttum að það hefði tekið sólarhing að fá deyfilyf til landsins til þess að svæfa dýrið - og af því mátti skilja að vá  hafi verið fyrir dyrum að ætla að bíða svo lengi með lausan ísbjörn á vappi um hlíðar Þverárfjalls.  En .... var þetta athugað nógu vel? Héraðsdýralæknirinn segist vera með svona deyfilyf í bílnum hjá sér. Líka byssuna sem til þarf!

Eiginlega finnst mér að deyfilyf af þessu tagi eigi að vera tiltækt á lögreglustöðvum landsins og/eða hjá héraðsdýralæknum. Og varla getur verið svo mikið mál að koma því þannig fyrir.

Eiginlega finnst mér líka að það þyrfti að vera til viðbragðsáætlun fyrir uppákomur af þessu tagi. Hvítabirnir eru alfriðaðir - við getum alltaf átt von á því að þeir gangi á land hér, þó það gerist ekki oft.

Þá er vel hugsanlegt að grípa þurfi til svæfingarlyfja með skömmum fyrirvara vega fleiri dýrategunda en ísbjarna. Ég minnist þess þegar hreindýrskýr gat ekki losnað frá kálfi sínum og gekk með hann í burðarliðnum meðfram veginum í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði um árið. Framan af þorði enginn að fella dýrið af því það var ekki veiðitímabil - og engin deyfibyssa var tiltæk heldur. Kýrin var þó skotin um síðir, en þá var hún búin að ganga sárkvalin sólahringum saman og var að dauða komin.

Gætu stjórnvöld til dæmis ekki átt samstarf við alþjóðleg náttúruverndarsamtök um viðbrögð og aðgengi að sérfræðingum þegar eitthvað þessu líkt kemur upp? Ég segi nú svona.


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi verður notuð deyfibyssa

isbjorn_191205 Nú væri óskandi að menn gripu til deyfibyssunnar en ekki riffilsins - og að þessum ísbirni yrði hjálpað til heimkynna sinna. Það veltur á því hversu fljótir menn verða í að samhæfa aðgerðir án þess að fólki sé stefnt í voða. Spurning hvort vilji er til þess yfirleitt - eða geta. Við Íslendingar erum svosem ekkert mjög vanir því að taka á móti ísbjörnum ... eða hlífa þeim.

Ég vona samt að þetta endi ekki með hinu hefðbundna blóðbaði og birninum uppsoppuðum einhversstaðar. Vona að það verði hægt að setja vakt á hann meðan útvegað er deyfilyf.

En það er bara von .... ég  óttast að þetta muni hafa önnur málalok. Frown


mbl.is Ísbjörn við Þverárfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin aftur :-)

Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina. Grin  

En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur. 

Tengslanetið á Bifröst 

Herdis Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.

Dásamlegur dagur við Þingvallavatn

 Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.

Thingvallavatn Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.

Útkallsæfing á Hellisheiði

Hellisheiði Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.

Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á P1000276 (Small) (Small)björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit  Blush en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur. Whistling

Ekkert bloggað af viti

Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim  með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að  vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Wink Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.

Sjáumst.


Kærleiksstjórnun á Litla-Hrauni

margretFrimanns Margrét Frímannsdóttir er að gera góða hluti á Litla-Hrauni. Endurhæfingardeildin sem hún hefur komið upp, þar sem fangar fá tilsögn í húshaldi, matreiðslu og þessháttar til að undirbúa þá fyrir athafnir daglegs lífs, er í mínum huga dæmi um betrunarviðleitni þessarar stofnunar sem svo allt of lengi hefur verið geymslustaður fyrir afbrotamenn. Staður þar sem þeir áttu litla möguleika á að skapa sér tækifæri til endurkomu inn í samfélagið. Vonandi er að verða breyting á núna.

Síðasta tiltækið - að fá Margréti Sigfúsdóttur, hússtjórnarskólaskólastjóra og kennara, til þess að kenna föngunum um almennt húshald - á þann hátt sem henni einni er lagið - er frábært framtak. 

"Kærleiksstjórnun" er hugtakið (eða nýyrðið) sem mér kom til hugar þegar ég las um þessa nýjung á Hrauninu. Þessir stjórnunarhættir Margrétar Frímannsdóttur bera vott um umhyggju og uppbyggingu sem er allt of sjaldséð í opinberri stjórnsýslu.

Kærleikurinn er mikils megnugur þar sem hann fær notið sín. Ég óska Margréti Frímannsdóttur til hamingju með það sem hún er að gera og sendi henni og hennar skjólstæðingum bestu velfarnaðaróskir.

 


Sorglegt að sjá

Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu. 

Ég velti fyrir mér afleiðingum þessa atviks á sálarlíf piltsins og tilfinningar þeirra sem voru með honum til lögreglunnar  framvegis. Svo  mikið er víst að þetta eykur ekki traust almennings á lögreglunni. Innra með sjálfri mér hafa vaknað alvarlegar efasemdir um að lögreglumönnum sé innrætt rétt hugarfar gagnvart borgurum þessa lands, þ.á.m. unglingum.

Ef íslenskir lögreglumenn þola ekki að þeim sé svarað á vettvangi - hvar stöndum við þá?  Hver eru réttindi borgaranna ef þeir mega ekki tjá sig við lögregluna án þess að eiga á hættu  meiðingar og lítillækkun?

Löggæslustörf eru vissulega krefjandi - þau eiga að vera það. En þessar aðstæður voru ekkert sérlega krefjandi. Hver einasti grunn- eða framhaldsskólakennari hefði leyst betur úr þessu máli en lögreglumaðurinn gerði þarna. Þetta var einfaldleg ástæðulaus árás á varnarlausan ungling. Lögregluoflæti - paranoja.

Og hvað skyldu lögregluyfirvöld gera í málinu, nú þegar atvikið er lýðum ljóst?

Hvað hefðu þau gert ef þetta myndband væri ekki til staðar? Spyr sú sem ekki veit.

 


mbl.is Mál lögreglumanns til ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Agabrot" Guðjóns Þórðarsonar?

GuðjónÞórðarson Guðjóni Þórðarsyni finnst lítið koma til líkamlegs ástands ýmissa dómara í karlaknattspyrnunni. Hann telur að lögum KSÍ sé ekki réttilega beitt og að liðum sé mismunað. Guðjón fullyrðir þetta og virðist hvergi banginn. Þetta er hans skoðun.

Viðbrögð framkvæmdastjóra KSÍ eru þau að vísa ummælum Guðjóns til úrskurðar aganefndar.

Aganefndar?  Á nú að taka í lurginn á Guðjóni fyrir að segja skoðun sína?

Væri ekki nær að láta rannsaka hvað hæft er í fullyrðingum Guðjóns - því þær eru alvarlegar. Þær eru um að dómarar innan KSÍ hafi haldið sérstakan fund í bakherbergjum til þess að leggja á ráðin um að sýna Skagamönnum, og þá sérstaklega einum leikmanni, í tvo heimana. Þær eru um að alvarlegur misbrestur sé á því að reglum KSÍ sé framfylgt - til dæmis sé vikið frá reglum varðandi þrekmat dómaranna sjálfra.

Þegar stórar fullyrðingar eru settar fram er sjálfsagt að rannsaka hvað hæft er í þeim. Samkvæmt starfsreglum aganefndarinnar á hún fyrst og fremst að fjalla um "brot leikmanna, þjálfara, forystumanna félaga, félaga og áhorfenda" eins og þar segir. Þá fjallar nefndin um "önnur mál, sem berast henni og/eða hún telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna leikja, sem fram fara í landinu, enda fjalli ekki aðrir um þau."

Nú er spurningin þessi: Er verið að vísa málinu til aganefndar til þess að fá úr því skorið hvað rétt sé og satt í ásökunum Guðjóns, eða .... sem ég óttast ... er litið á ummæli hans sem agabrot? Stendur kannski til að setja Guðjón í bann eða dæma á hann sektir svo hann þegi framvegis (og halda menn virkilega að Guðjón láti þagga þannig niður í sér) ??

Mér líst ekki á þetta. Því hvað svo sem segja má um Guðjón Þórðarson, þá á hann rétt á því að gagnrýna KSÍ ef honum finnst á sér brotið. Það er grundvallar réttur allra sem eiga að lúta reglum KSÍ. Annað væri óheilbrigt. KSÍ hefur ekkert gott af því að vera undanþegið gagnrýni. Þvert á móti.

Ef alvarlegar ásakanir koma fram um misbeitingu valds og brot á reglum ber að rannsaka sannleiksgildi slíkra ummæla skilyrðislaust. Ef eitthvað er hæft í fullyrðingum Guðjóns, þá er það grafalvarlegt mál fyrir KSÍ. Forsvarsmenn félagsins hljóta að vilja reka af sér slyðruorðið og fá úr því skorið með óyggjandi hætti hvað satt er.  Eða hvað?

Komi hins vegar í ljós með óyggjandi hætti að Guðjón hafi rangt fyrir sér - þá er hann ómerkingur orða sinna. Það er ærin refsing fyrir mann sem vill láta taka mark á sér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband