Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Jómfrúarræðan framundan
20.5.2009 | 08:42
Í dag kl. 14 verða utandagskrárumræður um fyrirhugaða innköllun veiðiheimilda. Ég hef mun taka til máls í þessari umræðu - svo jómfrúarræðan mun fjalla um sjávarðútvegsmál. Það fer vel á því fyrir þingmann sem kemur úr Norðvesturkjördæmi.
Málshefjandi í þessari umræðu er Einar K. Guðfinnsson og til svara verður að sjálfsögðu sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason.
Við Róbert Marshall munum taka til máls af hálfu Samfylkingarinnar, ég sem varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
Jebb ... nú er það byrjað ...
Hverjir eru þjóðin?
19.5.2009 | 16:53
Nú sit ég hér á skrifstofu minni - er þó eiginlega stödd á þingfundi, því umræðan þar stendur yfir og ég er með kveikt á sjónvarpinu. Ég á þess þó ekki kost að vera í þingsalnum lengur þar sem ég verð að undirbúa ræðu fyrir utandagskrárumræðu á morgun.
Nú geri ég hlé á vinnu minni til að nefna þetta - vegna þess að rétt í þessu var Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að hneykslast á því að ekki skuli fleiri sitja í þingsalnum að hlusta á umræðurnar sem hófust kl. 13.30. Hann talaði eins og allir væru farnir heim.
Það er eins og hann viti ekki að líkamleg viðvera er ekki skilyrði þess að vera viðstaddur umræðurnar. Þingmenn eru að störfum um allt þinghúsið og á skrifstofum sínum. Allstaðar eru sjónvörp og hátalarakerfi þannig að menn heyra umræðurnar, hvar sem þeir eru staddir. Satt að segja hefði ég haldið að Þór Saari væri farinn að kynnast því sjálfur hversu mikið annríki fylgir þingmennskunni - en hann virðist standa í þeirri trú að mannskapurinn sé farinn heim.
Og úr því ég er farin að hnýta í þetta, þá vil ég nefna annað.
Það stakk mig svolítið við eldhúsdagsumræðuna í gærkvöldi að heyra talsmenn Borgarahreyfingarinnar tala um sjálfa sig sem sérlega fulltrúa þjóðarinnar.
En sjáið nú til: Ég lít ekki svo á að ég sé þjóðkjörin á Alþingi Íslendinga - tilheyri ég þó flokki sem er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi með um 56 þús atkvæði, eða 30% fylgi. Borgarhreyfinguna kusu ríflega 13 þúsund manns eða 7,2% kjósenda. Vissulega tilheyra þessir kjósendur þjóðinni - það gera líka, og ekki síður, hin 92,8% sem kusu eitthvað annað.
En ... nú er ég búin að semja ræðuna fyrir morgundaginn og ætla að trítla aftur út í þinghús þar sem ég mun sitja þar til þingfundi lýkur.
----
PS: Ekki var ég fyrr sest í mitt sæti en Saari og félagar yfirgáfu salinn undir ræðu fjármálaráðherra og sást ekkert þeirra meir á þeim fundi (sem var reyndar langt kominn, svo þau misstu ekki af miklu). Svolítið fyndið samt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Umskipti á Alþingi
18.5.2009 | 23:39
Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á þeirri miklu endurnýjun sem orðin er á Alþingi Íslendinga. Þessir átta sem fluttu jómfrúarræður sínar í eldhúsdagsumræðunum í kvöld eru aðeins um þriðjungur nýrra þingmanna.
Aldrei nokkurn tíma hafa fleiri nýir þingmenn (27) tekið sæti á Alþingi Íslendinga. Ekki einu sinni á fyrsta fundi endurreists Alþingis árið 1845, því þá voru þeir 25.
Ef með eru taldir þeir þingmenn sem komu nýir inn fyrir tveimur árum, þá hafa 42 þingmenn af 63 setið skemur en 2 ár. Það eru ansi mikil umskipti.
Jóhanna flutti stefnuræðu sína í kvöld af einurð og alvöru. Hún gerði grein fyrir stöðu mála, því sem gert hefur verið og því sem framundan er. Var að venju laus við skrúðmælgi. Hógvær - trúverðug.
Steingrímur J. var mælskur og rökfastur eins og oftast. Hann talaði fyrir endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagningu í sjávarútvegi og atvinnulífi, og stakk vel upp í þá talsmenn kvótaeigenda sem talað hafa um fyrningarleiðina sem "þjóðnýtingu". Hann spurði: Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á nú þegar - eða hver á eiginlega fiskimiðin?
Bjarni Benediktsson var ekki hógvær. Hann hafði þarna gullið tækifæri til að gangast við ábyrgð síns flokks íá efnahagshruninu. Það hefði hann getað gert í fáum setningum - gerði það ekki. Hann horfði heldur ekki til framtíðar, virtist fastur í einhverju karpi. Talaði óljóst í Evrópumálum. Bauð sjálfur engar lausnir.
Sigmundur Davíð talaði með tilþrifum - mest um það hvað Framsókn hefði fengið litlu ráðið í fyrri ríkisstjórn (sem þeir voru ekki hluti af, en vörðu falli með svokölluðu "hlutleysi" sem þeir virtust þó aldrei skilja hvað þýddi). Hann var kaldhæðinn í tali, en ekki alveg málefnalegur að sama skapi. Framsókn lagði sínar áherslur í dóm kjósenda. Kjósendur kváðu upp sinn dóm. Það þýðir lítið að deila við þann dómara.
Ræðurnar í kvöld voru sumsé misgóðar. Sumar voru vel fluttar, en rýrar að innihaldi - minntu meira á málfundaæfingar hjá Morfís þar sem meira er lagt upp úr fasi og fyndni en alvarlegri rökræðu. Öðrum mæltist betur, og sumir fluttu framúrskarandi ræður, þar á meðal voru nokkrar jómfrúarræður (mér fannst góður tónn í máli Margrétar Tryggvadóttur, Ólafar Nordal, Ásmundar Einars, Sigmundar Ernis o.fl.).
Hvað um það. Nú er alvaran að byrja: Fyrir þessu sumarþini liggja eitthvað um hundrað þingmál frá tíu ráðuneytum. Og svo ég nefni nú bara nokkur mál sem hafa verið heit í umræðunni að undanförnu, þá eru þarna m.a. frumvörp um
- þjóðaratkvæðagreiðslur,
- stjórnlagaþing,
- persónukjör,
- hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja
- að fallið sé frá kröfum um ábyrgðamenn á lánum námsmanna
- frjálsar handfæraveiðar
- breytingu á búvörulögum
- breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfnisreglum í ljósi fjármálaáfallsins
- breytingar á lögum um hlutafélög til að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra
Auk þess eru ýmis merk mál til umfjöllunar og afgreiðslu - ég nefni bara þingsályktunartillög um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Á morgun er hefðbundinn þingfundur - á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og frumvarp um hlutafélag um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja með meiru.
Átta jómfrúrræður í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2009 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Blíðan á Austurvelli - þingsetningin - morgundagurinn
17.5.2009 | 15:40
Í svona veðri er ekki annað hægt en að lita björtum augum á lífið og tilveruna. Stemningin í miðbænum hefur verið frábær í allan dag. Prúðbúnir Norðmenn spígspora um í þjóðbúningum sínum með fána í hönd. Hjá þeim sameinast nú þjóðhátíðardagur Norðmanna og sigurvíman yfir sigri gærkvöldsins í söngvakeppninni.
Og ekki er minna þjóðarstoltið í fasi Íslendinganna í dag. Á Austurvelli flatmagar fólk í sólinni og bíður þess að bjóða Jóhönnu Guðrúnu velkomna með silfrið úr Júróvisjón seinna í dag. Allir skælbrosandi.
Já þetta er nú meiri rjómablíðan sem hefur gælt við okkur þessa helgi. Og ekki spillti veðrið við þingsetninguna á föstudag.
Ég skal að vísu viðurkenna að mér varð um og ó þegar við gengum út úr þinghúsinu framhjá hópi af hrópandi fólki sem hafði raðað sér meðfram heiðursverðinum til þess að kalla að okkur ókvæðisorðum, skipa okkur til andsk.... og ota að okkur löngutönginni. En það þýðir ekkert að armæðast yfir því - svona er bara mórallinn í samfélaginu um þessar mundir og þá verður bara að hafa það.
En semsagt - á dögum eins og þessum er gaman að vera til.
Á morgun hefst svo sjálf alvaran með nefndafundum fyrir hádegi og eldhúsdagsumræðum annað kvöld. Eftir það taka sjálf þingstörfin við.
Ætli hveitibrauðsdagarnir í pólitíkinni séu ekki þar með taldir. Trúað gæti ég því.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Komin með skrifstofu
14.5.2009 | 16:33
Fyrsti vinnudagurinn á skrifstofunni. Þessari líka fínu skrifstofu þaðan sem ég sé út á Austurstrætið, skuggamegin að vísu, en fyrir vikið laus við kæfandi sólarhita yfir sumartímann.
Ég hef verið að flokka skjöl og koma þeim í möppur; fylla út allskyns upplýsingar um sjálfa mig til birtingar á vef Alþingis - fjármál mín, ættir og fyrri störf með meiru.
Svo hef ég haldið áfram að lesa allt námsefnið sem sett var á okkur í gær. Það er ekkert smáræði, og mun taka tímann sinn.
Við erum hér saman nokkrir nýir þingmann á 2. hæð Austurstrætis 14. Við höfum sameiginlegan ritara, hana Ólafíu sem er kölluð Ollý eins og ég. Hún hefur verið að aðstoða mig í dag við ýmislegt - að komast inn í tölvukerfið, finna eyðublöð til útfyllingar, útvega ritföng o.þ.h.
Mjamm ... þingsetningin er á morgun. Hefst í Dómkirkjunni kll 13.30.
Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára
14.5.2009 | 00:07
Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar.
Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.
Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.
Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Sögulegt.
Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.
Ég kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst.
Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir).
En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:
Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.
Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist
12.5.2009 | 10:12
Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.
En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.
Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.
Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.
Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veðurteppt á Ísafirði >:-(
11.5.2009 | 13:50
Nú sit ég veðurteppt á Ísafirði - kemst ekki á þingflokksfund. Horfi út á úfinn og hvítfyssandi fjörðinn á meðan hryssingslegt hvassviðrið hamast á glugganum. Grrr ....
Í morgun var meinleysisveður hér fyrir vestan með hægum andvara. Þá fóru þeir að fresta fluginu vegna "óhagstæðrar áttar" við flugvöllinn. Þeir frestuðu því nógu lengi til að stormurinn næði hingað vestur. Nú er ekkert ferðaveður.
Ætli maður taki ekki bílaleigubíl á morgun - þeir eru að spá áframhaldandi hvassviðri.
Jamm ... svona eru nú samgöngumálin hér á þessum slóðum. Ef ekki er flogið, þá er það 7 klst keyrsla suður til Reykjavíkur.
En ég anda með nefinu - orðin vön.
Þingflokkurinn bjargar sér án mín.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Söguleg umskipti
11.5.2009 | 00:00
Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins tekur félagshyggjuríkisstjórn tveggja flokka til valda með skýrt og óskorað umboð meirihluta þjóðarinnar - og undir forsæti konu, í þokkabót. Þetta er sögulegur viðburður. Tímamót sem vert er að minnast í framtíðinni.
Velferðarstjórnin er orðin til.
Áratugum saman hafa íslenskir vinstrimenn átt undir högg að sækja andspænis harðneskju og skeytingarleysi hægri aflanna. Þeim hefur kerfisbundið verið haldið frá áhrifum og opinberum ítökum, ekki aðeins á vettvangi stjórnmála heldur á öllum sviðum samfélagsins. Á sama tíma hefur áherslan legið á forréttindi fárra á kostnað velferðar fjöldans. Fyrir þá hugmyndafræði hefur almenningur liðið .... og greitt dýru verði.
En ... (eins og skáldið sagði, og megi það nú rætast) ...
... í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans.
Það er maísólin okkar
okkar einingabands.
Fyrir þér dreg ég fána
þessa framtíðarlands!
Megi farsæld fylgja störfum þessarar nýju ríkisstjórnar, landi og þjóð til heilla.
Ný ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekki svo slæmt
9.5.2009 | 16:57
Fréttablaðið segir frá því í dag að leiguverð sé að lækka mikið á húsnæðismarkaði, um þriðjung eða þar um bil.
Það var tími til kominn, segi ég. Verð á leiguhúsnæði var komið upp úr öllu valdi. Nú er þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu leigð á 80 til 120 þúsund á mánuði, en var í mesta góðærinu á bilinu 110 til 160 þúsund. Hver hefur efni á slíku - jafnvel í góðæri?
Nú veit ég að þetta helst í hendur við fasteignaverð - en þið fyrirgefið - fasteignaverðið var líka orðið of hátt. Það mátti lækka.
Neibb - þetta eru ekki svo slæmar fréttir. Og vonandi skapast nú forsendur fyrir því að hér geti orðið til stöðugur og heilbrigður leigumarkaður fyrir húsnæði. Það hefur skort lengi.