Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
17.4.2009 | 09:59
Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:
Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.
Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.
Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.
Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.
Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.
Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Mannréttindi, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þá vitum við það, bændur eru mataðir á "réttum" upplýsingum og ekki verið að upplýsa óþarflega mikið um annað kerfi þeim til handa sem gæti verið jafngott og jafnvel betra. Þá missa einhverjir eins og kaupfélögin víða um land spón úr aski sínum og það má ekki. Það eru fleiri að kasta grímunni, en íhaldið
Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.4.2009 kl. 10:36
Þú verður bara að fara í bandalag með Ástþóri til að berjast við ritskoðanirnar
HP Foss, 17.4.2009 kl. 12:25
Góð grein.
Umhugsunarverð tengingin við Piningsdóm.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 12:30
Frábær grein og hittir naglan á höfuðið.
Eggert Hjelm Herbertsson, 17.4.2009 kl. 13:41
Sem stendur vitum við í langflestum tilfellum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér og það er nóg og vel rúmlega það til þess að hafna slíkri inngöngu.
Hjörtur J. Guðmundsson, 17.4.2009 kl. 13:54
Hólmfríður, þó þú gerir ekki ráð fyrir að bændur þessa lands lesi annað en Bændablaðið þá held ég að það megi fastlega gera ráð fyrir því og þ.m.t. Morgunblaðið. Mér þykja orð þín lítilsvirðing í garð bænda og lýsa þeirri skoðun að þeir séu mataðir af því sem stendur í Bændablaðinu, lesi ekki annað og ekki færir um að mynda sér sjálfstæða skoðun á máli eins og því hvort ganga skuli í Evrópusambandið eða ekki.
Hjörtur J. Guðmundsson, 17.4.2009 kl. 13:57
Tja, bændur þurfa allaveganna ekki Heimssýn til að fræða þá um ESB því annað eins bull, ergelsi og firra sem frá því apparati kemur hefur varla sést á byggðu bóli svo langt aftur sem menn muna.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 14:31
Því miður Ólína mín, þá gerir þetta ESB- trúboð ykkar Samfylkingarfólks ykkur ekki trúverðug !
Gunnlaugur I., 17.4.2009 kl. 19:58
Skýrt var frá því í fréttum fyrir skemmstu að tilbúið hafi verið í Landbúnaðarráðuneytinu frumvarp til laga um að beita þá bændur fésektum sem framleiddu mjólk með sama fyrirkomulagi og Ólafur í Mjólku eða framleiddu mjólk utan greiðslumarks. Enginn fannst sem vildi flytja frumvarpið og var það lagt til hliðar. Ekki er vitað hvort fyrrverandi eða núverandi landbúnaðarráðherrar hafi verið vitorðsmenn að samningu frumvarpsins. Spurning hvort þetta hafi verið einkaframtak fárra manna og er áhugavert að málið upplýstist?
Bændasamtökin tala nú um að tryggja þurfi fæðuöryggi. Í október var einungis til mánaðar birgðir af fóðurbæti til í landinu. Ef há mjólka kýr fá ekki sinn fóðurbætisskammt fá þær fljótlega doða og aðra kvilla. Það þarf að endurskoða hámarksafurðarstefnuna í búfjárrækt og meta hvort við þurfum að breyta til. Núverandi landbúnaðarstefna tryggir ekki fæðuöryggi nema að hluta til og við erum mjög háð utanríkiviðskiptum varðandi landbúnaðinn.
Grétar Mar benti á það á Alþingi nýverið að allar frystigeymslur væru fullar af fiski.- Það hefur aldrei komist að í umræðunni um fæðuöryggi að við gætum veitt okkur fisk til mata. Bændasamtökunum hefur með einhverjum furðulegum hætti tekist að ráða einhliða umræðunni um landbúnað og fæðuöryggi, eins og ekkert annað væri til en ríkjandi sjónarmið samtakanna sem eru búin að vera lengi fámennissamtök kvótaeigenda, sem betur fer þó samningsbundnir við ríkisvaldið eins og málum er nú háttað.
Með framangreindu sektarákvæðum er markaður með framleiðslu og sölu landbúnaðarvörur einokaður og einskorðaður við kvótaeign, sem gæti reynst þjóðinni hættulegt á krepputímum.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 17.4.2009 kl. 20:55
Það er ósköp eðlilegt að bændur séu á móti ESB-aðild. Við inngöngu verður hægt að flytja inn alla þá matvöru (Kjöt og mjólkurafurðir) sem innflutnings aðilum sýnist, óhindrað, því allar innflutnigs hömlur falla niður við aðild.
Ljóst má vera að þær verða boðnar Íslenskum neytendum á lægra verði heldur en þær innlendu. (Annars tæki því ekki að flytja þær inn)
Afleiðingarnar af þessu yrðu þær að sala á innlendri vöru myndi minnka talsvert.(erfitt er að segja til um hve mikið ) og verð til framleiðanda (bænda) myndi lækka um leið. Þetta þýðir auðvitað tekjuskerðingu hjá innlendum framleiðendum.
Það er auðvitað mjög erfitt að reikna tekjulækkunina út en tekjur Finnskra bænda lækkuðu um 25-40% við aðild Finnlands á sínum tíma, mis mikið eftir búgreinum.
Það segir sig sjálft að þó svo að útflutningsmöguleikar opnist fyrir innlenda vöru að ef það borgar sig að flytja inn sömu vöru, þá er mjög hæpið að útflutningur á innlendu vörunni borgi sig.
Það er alltaf svolítið skemmmtilegt að lesa skrif krata um landbúnaðarmál, því þann málaflokk hafa kratar enga þekkingu á.
Ein spurning í lokin...Afhverju halda kratar (Samfylkingin) ekki bændafundi og kynna stefnumál sín fyrir bændum eins og hinir flokkarnir gera ?
Skákfélagið Goðinn, 17.4.2009 kl. 21:19
Eg held það sé ekki rétt að tekjur finnskra bænda hafi minkað. Jú, örugglega eitthvað minni innkoma á framleiðslunni. Búvörur lækka eitthvað o.s.frv. en á móti kemur að styrkir aukast svo heildarútkoman er bara svipuð.
Hinsvegar hefur þeim fækkað og bú stækkað. En sú þróun var að vísu í gangi fyrir ESB svo óljóst er hvort aðild breytti einhverju í þeirri þróun.
Annars er svo erfitt að bera íslenskan landbúnað saman við finnskan eða sænskan.
Svo má ekki gleyma því að þó tollar falli niður þá er eitt tæki uppi í erminni. Sjúkdómavarnir.
Vegna þess hve lítið er um dýrasjúkdóma og vesen af þeim völdum og hve góða reynslu íslendingar get vísað til, þá er hægt að beita því tæki. Það er í sjálfu sér ekkert annað en tæknileg aðgerð til að hindra influtning.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 22:40
Sæl Ólína og takk fyrir síðast. Í þessari grein líkt og á Bændafundi í Borgarnesi í gærkvöldi ferðu mikinn í þeim málflutningi að afstaða Bændasamtaka til ESB sé illa ígrunduð og byggð á þekkingarleysi á málinu.
Hið rétta er að afstaða samtakana er byggð á mikilli gagnaöflun frá grannþjóðum okkar sem gengið hafa í ESB. Niðurstaðan er skýr, grannþjóðir okkar hafa upplífað verðfall afurða með tilheyrandi tekjusamdrætti og brottfalli úr bændastétt. BÍ telur því að íslenskum landbúnaði sé betur borgið utan sambandsins og byggir það á rökum sem þú getur sannarlega kynnt þér bæði á vef samtakanna (http://bondi.is/pages/55/newsid/532) og eins á blöðungi sem aðgengilegur var á fundinum í gær. Hvað varðar fæðuöryggi þá má sannarlega þakka fyrir að landbúnaðarstefna Samfylkingar og áður Alþýðuflokks hafi ekki gengið eftir. Hefði sú stefna gengið eftir og leyfður óheftur innflutningur matvæla væri innlend matvælaframleiðsla mun minni en hún er í dag og því mun erfiðara að tryggja matvæli ef landið lokast. Munurinn á ykkur og Framsóknarflokknum er þið í Samfylkingu viljið ganga í ESB án þess að setja nein skilyrði er varða landbúnað, sjávarútveg og yfirráð yfir auðlindum. Framsóknarflokkur er reiðubúinn til viðræðna sem byggjast á skilyrðum varðandi þessa þætti og fleiri er varða sjálfstæði þjóðar. Þú ættir kannski að kynna þér rök fyri andstöðu BÍ við ESB og taka málefnalega umræðu um málið. Það er ekki hægt að telja það málefnalegt að kenna bændum um alda fátækt og einangrun.Kv Sindri Sigurgeirsson, bóndi og FramsóknarmaðurSigurgeir Sindri Sigurgeirsson, 18.4.2009 kl. 00:24
Hjörtur J Guðmundsson, mig langar að spyrja þig einnrar spurningar, finnst þér ekki gott að geta sett athugasemdir við greinar sem þessar, og sérstaklega af því þú ert ekki sammála? Ástæðan fyrir því að ég beini spurningu minni til þín er sú að ég er bannaður á þínu athugasemdarkerfi eingöngu vegna þess að ég gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn. Það eru lélegir pappírar sem ekki þolir málefnalega gagnrýni. Ástæða þess að ég var bannaður á blogginu hjá þér Hjörtur var vegna þess að ég skrifaði athugasemd þar sem ég spurði hvað þér finndist um það þegar menn úr Sjálfstæðisflokknum væru að verja óheiðarlegar gjörðir stjórnmálamanna. Ég benti þér Hjörtur á það að þegar sonur Davíðs var ráðinn í vinnu þá vissu allir að þetta var spilling, en samt komu skósveinar flokksins og vörðu gjörninginn. Ég spyr aftur, hvernig geta menn talað svona gegn betri vitund og varið óheiðarleika? Ef Samfylkingin myndi haga sér svona, þá myndi ég aldrei verja það og gagnrýna það hvar sem er og hvenær sem er. En ég var sem sagt bannaður á bloggginu þínu Hjörtur fyrir að spyrja þig spurningar sem gerði það að verkum að Sjálfstæðismenn litu ekki vel út. Og þá var ég bara bannaður, hent út, því ekki mátti neinn sjá svona gagnrýni, það gæti hugsanlega skaðað FLOKKINN. Þetta er eins og fasismi, þessi ritskoðun. Og ekki nóg með það, því ég skirfaði sömu spurningarnar á blogg hjá sjálfstæðismanni sem heitir Gísli Freyr og öðrum sem heitir Sigurður Sigurðsson. Og ég uppskar bann á þessum bloggum fyrir að spyrja um heiðarleika.
Fyrirgefðu mér Ólína fyrir að nota þetta tækifæri til að koma skoðunum mínum til skila svo aðrir sjái hvað Sjálfstæðismenn eru hræddir við gagnrýna hugsun. Það er eins gott að þessir menn komist aldrei í meirihluta, því þeir yrðu fljótir að banna alla gagnrýni. Ég segi þetta í tilefni greinarinnar hér að ofan frá þér Ólína, bændasamtökin koma þarna í veg fyrir að einhverjar upplýsingar nái fram að ganga. Þessi ritskoðun er hreint út sagtoþolandi. Ég í mínu tilfelli myndi aldrei banna neinum að setja athugasemdir hjá mér, ef ég get ekki hrakið það sem sagt er eða komið með mótrök, þá verð ég bara að vera sammála, en að banna einhverjum að segja eitthvað bara af því maður er ekki sammála er bæði hallærislegt og hættulegt.
Valsól (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 07:43
Takk fyrir þessi líflegu skoðanaskipti.
Sigurgeir Sindri segir að ég "fari mikinn" og leggur mér orð í munn. Ég hef ekki talað um "illa ígrundaðar" skoðanir eða "þekkingarleysi" bænda. Það eru hans eigin orð - og segir kannski sína sögu að honum sjálfum skuli koma þau í hug þegar hann veltir fyrir sér afstöðu sinna stéttarsamtaka.
Það er líka rangfærsla hjá Sindra að segja að Samfylkingin vilji ganga inn í ESB án þess að setja nein skilyrði sem varðar landbúnaði, sjávarútveg eða auðlindir Þetta eru einfaldlega ósannindi. Hefði hann hlustað á ræðu mína í gær, hefði honum verið í lófa lagið að vitna orðrétt til þeirra ummæla minna að það þurfi að sjálfsögðu að standa vörð um allt þetta í aðildarviðræðum við ESB.
Vandinn er sá - að bændur hafa ekki viljað gefa upp hvaða skilyrði það eru sem þurfi að setja í viðræðunum. Forsvarsmenn Bændasamtakanna hafa sagt í mín eyru að þeir ætli ekki að "sýna þau spil" strax - eins og þetta sé eitthvert "spil" en ekki dauðans alvara.
Ég gef ekki mikið fyrir málflutning þeirra sem vísvitandi halla réttu máli, líkt og Sindri hér; þagga niður skoðanir líkt og Bændablaðið hefur gert. Þú fyrirgefur Sindri, en þú og þínir málsvarar verðið að vanda ykkur betur en þetta ef þið ætlið að vera trúverðugir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.4.2009 kl. 10:28
Þú ættir að lesa það sem stendur á bóndi.is Ólína áður en þú tjáir um landbúnaðinn og ESB..
Sjá hér:
http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1312
Skákfélagið Goðinn, 18.4.2009 kl. 10:42
Og hvað er nú helst merkilegt sem stendur á bondi.is ?
Jú, td. það að svínabændum hefur fækkað ískyggilega á íslandi undanfarið. Ískyggilega.
Ástæðan ? ESB !!
Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.4.2009 kl. 12:14
Þ.e.a.s. ég býst við að svo hljóti að vera. ESB er jú "Hinn mikli Satan"
So verð ég að segja að ég er undrandi á skætingstóninum sem menn sýna hérna sumir hverjir.
Staðreyndin er sú varðandi landbúnaðinn að líklega kæmi hann ágætlega út heilt yfir, jú spurning með sumar greinar en það færi mikið eftir útfærslu í aðildaviðræðum.
ESB er ekki svo slæmt per se fyrir landbúnaðinn eins og látið er liggja að eilíflega án nokkurs rökstuðnings. Byggist allt a hvernig tekið er á málaflokknum ekki síst af stjórnvöldum í landinu sjálfu.
Það hefur verið sú þróun í gangi að bú fækka og stækka. ESB er ekkert afgerandi faktor þar. Jafnframt hefur verið tilhneyging í að tollar lækki. Þetta er bara almenn þróun.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.4.2009 kl. 12:25
Ég er yfirleitt sammála þér Ólína en í þessu máli er ég á öðru máli. Ég sé margt því til foráttu að ganga í Evrópubandalagið m.a. þá tel ég að íslendingum sé best borgið til framtíðar ef við nýtum okkur í botn þá staðreynd að við búum mitt á milli tveggja sterkustu efnahagsbandalaga jarðarinnar.
Okkar tækifæri liggja MILLI EFNAHAGSBANDALAGA (sjá hér), tel ég.
Auðvita eru þetta bara ein rök af mörgum og við getum verið sammála um að þjóðin á það skilið að þetta sé rætt til hlítar og fólk fái svo að segja sína skoðun í kjörklefanum.
En að fara að rjúfa þing eftir tvö ár og efna til nýrra kosninga nú þegar loksins er útlit fyrir alvöru vinstristjórn í landinu er ekki vænlegt. Kjósendur eiga eftir að refsa Samfylkingunni fyrir þetta útspil ef þið hin eruð sammála þessum manni.
Ásgeir Rúnar Helgason, 18.4.2009 kl. 15:23
Kæra Ólína, Þú ert að mínu mati ein af skynsamari röddum íslensku þjóðarinnar.
Í þessum ólgusjó sem heimurinn finnur sig í í dag, þar sem svik, græðgi og óheilindi ráð algjörlega ferðinni myndi ég áætla að fara hægt í sakirnar varðani inngöngu í hvaða bandalag stórra þjóða sem á boðstólnum er.
Samfylkingin af öllum flokkum hefur slett í okkur blautri tusku með því að samþykkja Helguvíkur framkvæmdirnar án þess að nokkurn tíma hafi verið haldið málþing um aðrar lausnir atvinnulífsins sem myndu gefa mun meiratil þjóðarinnar, hvorutveggja í efnahagslegum gæðum sem og í öryggi og virðingu gagnvart okkar sameiginlegu auðævum.
Samfylkingin var við stjórnvölinn í 18 mánuði, af hverju er ekki búið að byggja upp fjölbreyttari atvinnulíf í landinu, ekkert menningar- og/eða atvinnumálaráð sem heldur utan um þennan undirstöðu þátt efnahagslífs hverrar þjóðar. Íslendingar verða aldrei stórútflutningsþjóð, til þess erum við of fá, en við getum auðveldlega unnið að varningi fyrir sér markaði þar sem verð spilar ekki stærstu rulluna, heldur gæði og hönnun. Matvæli unnin á ´hreina´Íslandi mun verða veita mun sterkara samkeppnisaðhald en annað. Við getum orðið MJÖG sterk í útflutningi BIO landbúnaðarvara, og/eða enn betur selja matvælin innanlands á ´heilsuhótelin´ þar sem efra lag ferðaiðnaðarins mun dvelja sér til heilsubótar og ´viðgerðar´ Meðferðir gegn Obesty faraldurinn sem nú er að verða eitt stærsta heilsuvandamál í hinum vestræna heimi mun geta orðið mikilvægur þáttur í heilsuiðnaði á Íslandi. Bíðum og byggjum upp það sem við eigum til, nýtum okkur gengi krónunnar til þess að koma upp iðnaði sem ekki er háður innflutningstollum eða örðum reglugerðum, latum evruna og dollarana koma til okkar. Með stórefldri og margbreyilegri ferðaþjónustu mun fjöldi neytanda aukast og setja stoðir undir litskrúðugan þjónustuiðnað í landinu. Við erum varla byrjuð að vinna með þau tækifæri sem hreinlega æpa á okkur allt í kring.Ég vona innilega að þú og aðrir sannir Samfylkingarmenn, í skjóli kjörklefans, kjósi í þetta sinn Borgarahreyfinguna svo að við getum byrjað uppá nýtt eins og þú svo dyggilega hefur barist fyrir.
Gerður Pálma, 18.4.2009 kl. 15:52
Takk Ólína fyrir góða grein.
Fróðlegt að frétta að þeir hafi ekki viljað birta greinina, því það er ekki neitt einsdæmi og langar mig að benda á aðra grein sem ekki fékkst birt. Hún fjallar reyndar ekki um ESB, heldur það undarlegu ráðagerð að nota Bjargráðasjóð til áburðarkaupa.
Ritstjórinn bar því við, er ég bað um skýringar á að greinin birtist ekki, að það væri vegna athugasemda í lok hennar, gæti trúað að það væri fyrirsláttur og að efnið hafi einfaldlega ekki fallið í kramið, frekar en grein Önnu Margrétar í síðasta blaði. Ég skrifaði athugasemd vegna greinar Jóns Viðars Jónmundssonar sem hann hafði skrifaði í Bændablaðið og var augljóslega vegna greinar Önnu: http://ingimundur.blog.is/admin/blog/?entry_id=850296
Hér er slóðin inn á greinina sem ekki fékkst birt:
http://ingimundur.blog.is/blog/ingimundur/entry/823153
Ingimundur Bergmann, 18.4.2009 kl. 20:38
Jæja, ég kann greinilega ekkert á að gera þessa tengla virka, en greinarnar heita: Draugur í flagi og Bjargráðið bændanna.
Ingimundur Bergmann, 18.4.2009 kl. 20:44
Ég vil spyrja bændur. Hafið þið það gott í því kerfi og aðstæðum sem þið nú búið við? Ég hef talað við marga og svarið er nei í flestum tilfellum.
Þessi umræða um matvælaöryggi er á villigötum. Við veiðum fisk til að brauðfæða þjóðina um aldur og ævi, okkur mun ekki skorta. Enda kemur fram að landbúnaður algjörlega háður innflutningu á fóðri.
Eru bændur hræddir við að fara í samningaviðræður við ESB. Bera svo samning undir þjóðna til atkvæðagreiðslu?
Eggert Hjelm Herbertsson, 19.4.2009 kl. 09:26
Sem bóndi á ég erfitt að sætta mig við að Bændablaðið ritskoði málefnalegar greinar sem falast er eftir birtingu á . Ritskoðun á ekki rétt á sér og hefur aldrei verið neinum málstað til hagsbóta. Það er ekki rétt hjá Eggert að landbúnaður sé algerlega háður innfluttu fóðri, nema vera skyldi kjúlli og svín. Mjólk, lamb, hross, minnkur, grænmeti geta lifað með mjög takmörkuðum innflutningi á hrávöru, nema þá helst á áburði.
Það er ekkert skrýtið að við séum hræddir við inngöngu í ESB. Heildartekjur finnskra bænda minnkuðu um hátt í 40% . Eitthvað var þeim síðar bætt upp með auknum styrkjum en tekjutapið var eigi að síður mikið. Útflutningur er svolítill í dag bæði á lambakjöti svo og líka á undanrennudufti og smjöri. Vandamálið er að verðið er ekki nógu gott og það hækkar ekki við það að við göngum í ESB.
Hvað á svosem íslenskt samfélag í dag sammerkt með íslensku samfélagi fyrir 600 árum síðan ?? Ég get því miður ekki séð líkinguna í því nema að samfylkingin sé að reyna að sverta mannorð bænda landsins í dag og gera þá ábyrga fyrir einhverju misjöfnu sem skeði í árdaga íslandssögunnar. Það verða fá atkvæði sem Samfó fær frá bændum þegar svona viðhorf ráða ríkjum hjá frambjóðendum.
með bestu kveðju
Sigurður Baldursson, 19.4.2009 kl. 11:20
Eggert, það er náttúrulega æði misjafnt hvernig bændur hafa það við núverandi aðstæður, en eins og hjá svo mörgum öðrum þjóðfélagsþegnum hefur verulega syrt í álinn hjá þeim.
Þar sem þú fjallar um villigötur, er það þú sem ert á þeim og það er af og frá að landbúnaðurinn sé algjörlega háður innflutningi á fóðri.
Bændur eru almennt ekki sérstaklega hræddir við umhverfi sitt og eru vanir því að taka því sem að höndum ber og reyna að gera það besta úr því.
Ingimundur Bergmann, 19.4.2009 kl. 18:17
Góðir hálsar - ég hef ekki ætlað mér að sverta bændur með samlíkingunni við Píningsdóm. Ég er einungis að benda á sögulega hliðstæðu við það sem hlaust af viðverslunarbanni og einangrun landsins fyrr á öldum.
Að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja.
Ingimundur - ég þakka þér ágæta grein í Bændablaðinu þar sem þú tekur aðeins í lurginn á bændaforystunni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2009 kl. 22:34
Grein sú sem er hér til umfjöllunar varðar verslunarfrelsi við útlönd. Er sérstaklega skírskotað til svokallaðs Píningardóms.
Er nú ekki rétt að tryggja lágmarks verslunarfrelsi innanlands áður en sérstaklega er verið að tala um verslunarfrelsi við útlönd þó ég sé ekki mótstöðumaður þess?
Ég vakti athygli á að fyrir liggur fullsamið frumvarp með sektarákvæðum til að koma í veg fyrir verslunarfrelsi innanlands með hrámjólk til afurðastöðva.
Á meðan við ræðum þetta hér á bloggsíðu herðir ríkisvaldið enn að verslunarfrelsinu með ótímabærum búvörusamningi sem einangrar verslunarfrelsið við kvóta.
Það er að verða venjað að búvörusamningar séu gerðir rétt fyrir kosningar.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.4.2009 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.