Hugsað til Ingibjargar Sólrúnar

ISG Mikið hefur mætt á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur síðustu vikur og mánuði. Hún hefur verið undir ómanneskjulegu álagi við þær erfiðustu aðstæður sem nokkur stjórnmálamaður getur hugsað sér - á sama tíma hefur hún mátt kljást við alvarlegan heilsubrest.

Í þessum erfiðleikum hefur hún hvergi hlíft sér - ekkert frekar en gæðingurinn sem fasmikill skeiðar fram völlinn. Úrvalsgæðingar halda fullri reisn meðan stætt er. Þannig er Ingibjörg Sólrún. Ég óttast að hún hafi gengið fram af sér; að hún sé nú að gjalda með heilsu sinni fyrir úthaldið.

Elsku Ingibjörg Sólrún. Þúsundir félaga þinna og samverkafólks hugsa til þín  núna. Þú hefur staðið þig eins og hetja - staðið með þjóð þinni eins og stólpi í hafróti undangenginna mánaða. Þú hefur tekið á þig ágjafir, árásir og vanþakklæti - vina sem óvina - af yfirvegun og aðdáunarverðri stillingu.

"Fyrst kemur fólkið - svo flokkurinn" sagðir þú einbeitt á síðasta flokksstjórnarfundi. Enginn sem þekkir þig efast um heilindi þín gagnvart þjóðinni - umhyggju þína og skyldurækni. 

Eins og fleiri á ég nú þá þá ósk heitasta þér til handa, að þú fáir næði til þess að endurheimta heilsuna.

Við eigum enn ógengnar svo margar slóðir á Hornströndum. Og enn er svo mikið verk að vinna fyrir þig sem stjórnmálaleiðtoga.

Guð veri með þér og blessi verk þín. Heimurinn er ríkari með þig innanborðs.

Góðan bata. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Tek heilshugar undir blessunar og bataóskir til Ingibjargar. Það er enginn barnaleikur að fara í höfuðaðgerð og það er heldur enginn barnaleikur að vera í ríkisstjórn nú um stundir. Að takast á við hvorutveggja á sama tíma er ekki á færi nema ómennskra ofurmenna. Ingibjörg gefðu þér góðann tíma til að ná fullri heilsu á ný. Ég bið Guð að blessa þig, fjölskyldu þína og alla þá sem annast þig í veikindum þínum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 23:18

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það lagast, það lagast ...

Hún tók sig vel út á reiðhjólinu hér í Vesturbænum í sumar.

Fátt kúlara en sigla sjálfur frá Ísafirði í Aðalvíkina.

Þorsteinn Briem, 15.1.2009 kl. 23:19

3 Smámynd: Sævar Helgason

Góður pistill hjá þér , Ólína.  Nú eru erfiðir tímar , fyrir 'Ingibjörgu Sólúnu og hennar fjölskyldu, fyrir þjóðina og fyrir okkur sem deilum með henni Samfylkingunni.  Eins og þú segir álagið á Ingibjörgu Sólrúnu hefur verið ofurmannlegt , á stjórnmálasviðinu og heilsufarslega frá haustdögum.  Og tímarnir framundan í stjórnmálum þjóðarinnar verða mjög erfiðir og krefjast mikils af þeim sem í forystunni eru. Það er meira en líklegt að Ingibjörg Sólrún þurfi á hvíld og næði að hald næstu mánuðina til að ná fullri heilsu.  Það er mál Samfylkingarinnar að skapa henni skjól á meðan- hvað stjórnmáli varðar.

Sævar Helgason, 15.1.2009 kl. 23:43

4 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Nú þykir mér þú orðin full mærðarleg kæra Ólína, en ég tek heilshugar með þér undir bataóskir til handa ISG.

 EN

"... - staðið með þjóð þinni" 

 Nei - ISG viðurkennir ekki einu sinni að þjóðin sé þjóðin.  Hverskonar afneitun á ástandinu er það?  Hún er dyggari stuðningsmaður Árna Mathiesen en þjóðarinnar.  Grátlegt að horfa á stuðningsyfirlýsingu hennar við hann í Kastljósi.

"Fyrst kemur fólkið - svo flokkurinn"

Hvers vegna þurfti ISG að árétta það?  Með því að segja þetta var hún einmitt að staðfesta að alla jafna kæmi flokkurinn fyrst.  Sorgleg ummæli.

"Í þessum erfiðleikum hefur hún hvergi hlíft sér"

Illu heilli fyrir þessa svokölluðu "þjóð" er þetta rétt hjá þér. Og í leiðinni hefur hún dregið flokkinn ykkar niður í skítafenið sem framsókn og sjálfstæðisflokkur bjuggu til og þar svamlar allt heila klabbið í ráðleysi sínu og dáðleysi; hangir í valdastólunum á litla fingri og kemur með því í veg fyrir að endurreisn geti hafist.

Mér finnst þetta dapurleg örlög stjórnmálamanns sem ég eitt sinn hafði mikla trú á, og einhver taug í mér finnur til með Samfylkingunni.

Bergþóra Jónsdóttir, 16.1.2009 kl. 02:49

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ég tek heilhugar undir heillaóskir þínar til Sollu.   En tel einmitt að hún eigi að láta heilsuna ganga fyrir öllu.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.1.2009 kl. 03:28

6 Smámynd: Hallur Magnússon

Sammála þér.

Það er alveg ljóst að Ingibjörg hefur gengið allt of hart að sjálfri sér - þegar hún hefði heilsunnar vegna þurft að hvílast. Enda er hún hörkunagli.

Vonandi nær hún sér að fullu - en hún þarfnast hvíldar.

Vandamál hennar er vandamál Samfylkingarinnar - afar veikur varaformaður.

Þið verðið að halda flokksþing og endurnýja forystuna - þá er ég ekki að tala um Ingibjörgu sem verður að fá svigrúm til að stíga tímabundið til hliðar án þess endilega að hætta sem formaður - en það verður að vera öflugur varaformaður og samhent forysta.

Það er of mikið í húfi til þess að forysta Samfylkingarinnar sé ekki trúverðug.

Þetta segi ég þótt ég sé Framsóknarmaður. 

Hallur Magnússon, 16.1.2009 kl. 09:06

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég er sammála Bergþóru, Ólína, þetta er einum of  dýrt kveðið. Ég óska  Ingibjörgu  einnig góðs bata og hún taki sér langa og góða hvíld þegar hún kemur frá Svíþjóð. Ég vona að vinir hennar sjái til þess- finnist henni sjálfri hún þurfi ekki að hlífa sér.

María Kristjánsdóttir, 16.1.2009 kl. 09:10

8 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég er sammála Bergþóru og Maríu. Það er ekki auðvelt að vita hvenær maður á að hætta og gott ef einhver getur aðstoðað mann við það. Ég stóð lengi með Samfylkingunni en hún brást því miður mínum væntingum. Ég óska Ingibjörgu að sjálfsögðu góðs bata og alls hins besta.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 09:40

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég óska Ingibjörgu fulls bata eins og aðrir hér.

Það er hins vegar rangt af henni og fram úr hófi sjálfmiðað að ríghalda í ráðherrastól með þetta heilsufar. Hún á ekki rétt á því þegar þörf er á starfskrafti með fulla vinnugetu á þessum erfiða tíma. Þeir sem halda öðru fram eru í hrikalegri persónudýrkun.

Í ofanálag hefði hún, heilsulaus eða ekki, átt að segja af sér með tilliti til frammistöðu ríkisstjórnarinnar sem er ónýt vegna dómgreindarleysis, sinnuleysis og skorti á eftirliti.

Haukur Nikulásson, 16.1.2009 kl. 11:53

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góða helgi, er í fréttabanni

Ásdís Sigurðardóttir, 16.1.2009 kl. 12:06

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sínum augum lítur hver á silfrið. Ég dáist að þreki Ingibjargar Sólrúnar og þeim  heilindum sem ég veit hún hefur til að bera. Ég veit líka að margir mega ekkert gott um  hana eða aðra ráðherra heyra um þessar mundir - en það verður fólk að eiga um við sjálft sig hversu langt það vill ganga í slíku.

Varðandi það sem Bergþóra segir, þá skal rétt vera rétt. ISG sagði aldrei "þið eruð ekki þjóðin" . Orðaskiptin voru þau að fulltrúar fundarmanna bentu upp í pallborðið á þá sem þar sátu (stjórnmálamennina) og sögðu: Þið eruð ekki þjóðin - þjóðin vill ykkur burt! Þá sagði ISG: Ég efast um að sá hópur sem hér situr á þessum fundi sé þess neitt frekar umkominn að kalla sig þjóðina. Ég heyrði sjálf hvað hún sagði. Þarna varð svokölluð stigmögnun í samræðum, og í því ljósi má líta á ummælin.

Annars ætla ég ekki að ræða það frekar - nóg hefur fólk fengið að velta sér upp úr þessu. 

Þið megið kalla orð mín mærð - en þið fáið mig ekki til þess að taka þátt í einelti gegn nokkurri manneskju - hvorki ráðamönnum né öðrum.

Ég skal gagnrýna ráðamenn, þar með mitt eigið fólk, en vonandi verð ég aldrei svo meðvirk að ég þegi yfir því sem ég veit gott um manneskjur og málefni.

Þar við situr.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.1.2009 kl. 12:51

12 identicon

Ég hef aldrei kosið Ingibjörgu Sólrúnu eða Samfylkinguna og hef ekki vænst neins af henni.

Ég er samt gáttuð á því hvernig fólk getur látið hér. Ólína hefur gagnrýnt ráðherra Samfylkingarinnar ekkert síður en aðra. Hún er hvorki í meðvirkni né persónudýrkun - hún er að skrifa fallega ósk á bloggsíðuna sína til samverkakonu sinnar og vinkonu sem er lífshættulega veik.

Hvað er að ykkur?

Helga Kristín (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 13:21

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fylgi Samfylkingarinnar hefur AUKIST frá síðustu alþingiskosningum, samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup nú í desember, þannig að ég fæ engan veginn séð að kjósendur Samfylkingarinnar hafi yfirgefið flokkinn eða Ingibjörgu Sólrúnu.

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur misst 12% fylgi frá því í alþingiskosningunum.

Og ég hef ekki heyrt að læknar hafi ráðlagt Ingibjörgu Sólrúnu að hætta í pólitík á næstunni, hvorki tímabundið né til langframa, en kannski eru bloggarar hér allir orðnir læknar sem geta ráðlagt fólk eitt og annað um heilsufar þess. Vantar mig til dæmis vítamín, er Ólína Þorvarðardóttir of grönn og á Stefán Friðrik að fara sér hægt í bloggskrifum á næstunni vegna ofreynslu í þeim efnum undanfarin ár?

Hvers virði eru ráðleggingar bloggara í þessum efnum? Hér kemur hins vegar ókeypis ráðlegging til þeirra: Hreyfið ykkur meira, farið í spásséritúra, dítoxmeðferðir, hoppið, farið í snú snú og stundið meira kynlíf. Snúið svo aftur að endurhæfingu lokinni með heilbrigða sál í hraustum líkama.

Þorsteinn Briem, 16.1.2009 kl. 13:30

14 identicon

Sæl Ólína.

Hjartanlega sammála þessum fallegu orðum þínum til Ingibjargar.  Ég hef dálæti á henni sem stjórnmálamanni og vona innilega að hún nái bata sem allra fyrst.

Það finnst kannski einhverjum aðilum það mærðarlegt að hugsa fallega til fólks eða þá að hafa trú og traust á öðrum, en það verður bara að hafa það.

Ólína, ég les bloggið þitt oft á tíðum og vil þakka þér fyrir það sem þú ert að skrifa.  Það er bæði málefnalegt og gagnlegt.      

Reynir Stefánsson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 14:11

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Falleg skrif hjá þér Ólína og á hærra plani en margt af því sem má sjá skrifað hér á blogginu.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 16.1.2009 kl. 19:06

16 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ingibjörg Sólrún er einhver heilsteyptasti og besti stjórnmálamaður sem Ísland á nú um stundir. Þeir bloggarar og aðrir sem kasta til hennar óhróðri og óhreinindum, eru einfaldlega rökþrota fólk sem málefnalega eru ekki sammála henni. Mig svíður verulega undan slíku fyrir hennar hönd, þar sem ég hef persónulega reynslu af heilaaðgerð og VEIT að eftir slíka aðgerð er mótstöðuaflið minna og skrápurinn viðkvæmur. Sýnið konunni þá virðingu að taka tillit til veikinda hennar og tala gætilega til hennar. Ég bið Guð að gefa henni góðan bata, fjölskyldu hennar styrk og ykkur hinum umburðarlyndi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.1.2009 kl. 19:57

17 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Ólína. Gleðilegt árið og takk fyrir að vilja vera bloggvinkona. Mér brá þegar ég las pistilinn þinn og hélt að nýjar og verri fréttir væru komnar af heilsufari Ingibjargar. Ingibjörg er kjarnakona og sannar það sem löngum hefur verið sagt að konur þurfa að standa sig helmingi betur en karlar til að ná sama árangri. Hvort líkamlegt úthald leyfir slíkt getur enginn ákveðið fyrir sig. Það að líkja henni við ofurgæðing sem heldur stökkinu þar til hann springur er ekki samlíking sem mér hugnast. Það er alltof sorglegur endir og ég vona að þessi mikla kvenréttindakona eigi töluvert eftir í pólitík þó við séum pólitískir andstæðingar. Þetta er fallegur pistill og dýrmætt fyrir hana að vita af svona góðum vinahug í sínu mikla mótlæti... nú hætti ég áður en ég toppa þig í "mærðinni ". kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 21:33

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæra Kolbrún - ég bið þig lengst allra orða að skilja mig ekki þannig að ég sé að líkja Ingibjörgu Sólrúnu við sprunginn gæðing. Ég er bara að benda á að hún ber sig betur en þrek og heilsa segja til um. Stendur meðan stætt er og ber sig vel.

Það er dýrmætur eiginleiki en getur líka komið sér illa.

Annars er ég þakklát fyrir þær góðu óskir sem hér hafa komið fram. Það er tími til kominn að fólk sendi frá sér hlýjar hugsanir þangað sem þeirra er þörf. Og kærkomið í stað eiturörvanna sem sendar hafa verið með bituyrðum og heiftarhug í allar áttir að undanförnu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 16.1.2009 kl. 22:44

19 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Þegar kreppa okkar Íslendinga skall á, gerðust aðrir óútreiknanlegir hlutir.  Ingibjörg Sólrún varð alvarlega veik.  Geir Haarde og Björvin stóðu erfiðar vaktir ríkisstjórnarinnar.  Þeir stóðu sig vel fyrstu dagana, en það vantaði einn einstakling, ég beið og beið eftir því að heyra frá heilsu Ingibjargar Sólrúnar.  Svo þegar hún kom aftur, þá létti mér mjög, þá fyrst skildi ég hvað gekk á í okkar heimi Íslendinga, það vantaði orð og setningar sem ég skildi.  Ég var sem sagt sjálfselsk, ég beið eftir veikri manneskju til að takast á við erfiðustu stöðu sem Ísland hefur sögulega lent í.  Eins og ég sé þetta í dag, Ingibjörg nú í Stokkhólmi að fá meiri lækningu sem ég vona svo heitt og innilega að heppnist, því við þurfum að skörungi eins og henni í þá einstaklinga sem hafa komið þjóð okkar í þessi miklu og erfiðu aðstæðu sem raun ber vitni.  Ég vil beina orðum mínum að þér Ingibjörg ef þú lest þetta blogg, finndu einstaklinga sem þú treystir til þess að leysa þig af, fáðu bata, leyfðu þér að vera veik og sinntu fjölskyldu þinni.  Ég treysti þér til þess að velja rétta einstaklinginn til þess að leiða flokkinn í þessum hremmingum.  Komdu svo eldhress til baka og ég mun styðja þig heilshugar eftir að þú hefur fengið græna kortið frá læknunum. 

Ég vil treysta einstaklingum í ríkisstjórninni, ég vil treysta Geir Haarde og reyni að gera það, ég treysti Ingibjörgu Sólrúnu, einnig Þorgerði Katrínu, ég vil benda á, við getum ekki gengið í gegn um þessa erfiðleika, nema að geta treyst einhverjum.  En þjóðin þarf upplýsingar, sem virðast vera að skornum skammti, og ég vil ekki kenna Ingibjörgu um það.  Ég veit nokkurn vegin, hvernig það er að ganga í gegn um erfið veikindi,þekki það úr minni vinnu, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og fjölskylduna.  En í þessu tilfelli er það þjóðin öll sem þjáist, hvort sem þjóðin fylgir Ingibjörgu að máli eður ei.  

Ingibjörg Sólrún, ég óska þér góðs bata, gæfan fylgir þér og fjölskyldu þinni.

Geri ekki í vana minn að blogga um blogg, en í þessu tilfelli geri ég það, aðstæður á Íslandi í dag gerir það að verkum að allir hafa leyfi til þess að tjá sig án hindrana.

Áslaug Sigurjónsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:57

20 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Það eru fáir stjórnmálamenn á Íslandi sem standa upp úr meðalmennskunni og bera af öðrum. Ingibjörg Sólrún er einn þeirra. Það er einmitt styrkur hennar og yfirburðir sem kalla fram ómaklegar árásir. Það gerist gjarnan þegar sterkar og málefnalegar konur láta til sín taka á opinberum vettvangi. Dylgjur og skítkast er eina vopn þeirra sem eiga undir högg að sækja á hinu andlega og vitsmunalega sviði. Þá skortir rök og því nota þeir þau einu meðöl sem þeir kunna. Þessu fólki er vorkunn. Sjálf ætla ég að senda Ingibjörgu Sólrúnu, fjallgönguvinkonu minni, ljós yfir hafið með ósk um góðan bata. Megi hún sigrast á mörgum fallstindum í viðbót - hvort sem þeir tindar verða í þjóðmálunum eða á Hornströndum. Þér, Ólína mín, þakka ég falleg orð og tek sannarleg undir hvert og eitt þeirra.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:59

21 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Það er nokkuð til í þessu hjá þér en ég hef þó haft mikinn skilning á því sem okkar stjórnvöld eiga við að glíma um þessar mundir og hef haft sérstaka samúð með Geir sem mér finnst hafa staðið mikið einn í baráttunni. Reyndar kom ISG inn á síðari stigum. Það sem mér hefur mislíkað ,af því ég er nú á móti aðild að ESB, er að mér finnst Ingibjörg hafa pressað of mikið á aðildarviðræður í skjóli þess ástands sem nú er uppi. Það sem mér gremst líka við þessa stöðu sem er uppi að margir höfðu uppi varnaðarorð sem ekki var hlustað á og það er eins og enginn geti hoggið  á hagsmunatengslahnútinn sem heldur utan um þessa stjórn. Ingibjörgu óska ég þess að hún megi finna heilsu,hamingju og frið og hvernig sem allt fer og hvað sem hver segir þá er hún "kvennaleiðtoginn" kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 23:24

22 Smámynd: Ragnheiður

Þrátt fyrir að ég fylgi ekki hennar flokki að málum þá tek ég heilshugar undir þessi orð þín enda er ég mannvinur og þá skipta flokkar ekki máli.

Hún hefur sýnt mikinn styrk og kjark í þessum þrengingum og fyrir það má vel hrósa henni.

Ragnheiður , 16.1.2009 kl. 23:40

23 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gott fólk - ég tók hér út þrjár athugasemdir sem spunnust vegna biturðyrða frá einum álitsgjafanum hér.

Það er greinilegt að sumir fá ofbirtu í augun við að lesa nokkrar jákvæðar staðreyndir um persónuna Ingibjörgu Sólrún Gísladóttur og fara strax að tala um oflof og mærð.

Þeir hinir sömu mættu þó velta því fyrir þér hvers vegna þeim finnst of mikið sagt - þó í raun hafi það ekkert með pólitík að gera heldur bara kærleikshugsanir frá einni mannveru til annarrar.

Hvenær fær maður ofbirtu í augun? Er það ekki þegar maður hefur verið of lengi fjarri ljósi? Gæti verið að þeir sem eru ósammála ISG pólitískt séu orðnir svo markaðir af neikvæðum hugsunum - eða svo samdauna neikvæðni umræðunnar - að jákvæðni sé orðin óviðeigandi í þeirra augum. Að jafnvel svolítil kærleikstýra komi illa við þá?

Þessi möguleiki er nokkuð sem hverju og einum er hollt að hugleiða.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.1.2009 kl. 18:45

24 identicon

Ólína Þ.  Þetta er alveg total Victorious Glorification hjá þér bara jubo djúmbo, ég á ekki til orð yfir þetta

Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband