Stundum er þörf - stundum nauðsyn
21.12.2008 | 14:54
Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt. Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.
Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.
Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið. Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.
Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.
Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.
----------
PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.
Fundust heilir á húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Ferðalög, Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Athugasemdir
Verulegt sjálfskaparvíti,
á Vestfjörðum sú í flýti,
stökk úr rúmi í stórgrýti,
stikkfrí hann Jón í Helvíti.
Þorsteinn Briem, 21.12.2008 kl. 15:23
Já Ólína því miður eru langflest útköll björgunssveitana einmitt í þessa veru. Fólk sem hugsar ekki og hunsar viðvaranir og heldur að það komist á sínum fjallabíl sem oft reynist vera af minnstu gerð af sábíl. Mér er minnistætt atvik á einni af ferðum mínum norður í land fyrir nokkru árum. Þá keyrði ég frammá lítinn bíl með stæstu gerð af tjaldvagni aftaní í gömlu Bólstaðarhlíðarbrekkunni, hann komst ekki nema hálfa leið upp stoppaði þar og allt komið þversum hjá honum. Ég bauð honum að taka bílinn með öllu í tog enn það vildi hann alls ekki í fyrstu fanst það voða mikil skömm að hanga aftaní öðrum upp, vildi eða öllu heldur datt honum í hug að losa vagnin aftanúr þarna í brekkunni og setja hann aftaní hjá mér. Ég gat sem betur fer fengið hann ofan af því og fengið hann til að setja spotta í bílinn hans síðan bara dró ég hann uppá brekkubrún. Hann þakkaði ekki fyrir enn hafði á orði að það hafi verið lán að við mættum engum og enginn hafði séð til okkar. hefur væntanlega verið að hugsa um skömmina. Held að það mætti þakka hjálparsveitarmönnum oftar fyrir að rífa sig upp til að hjálpa fólki
Gylfi Björgvinsson, 21.12.2008 kl. 15:52
Þessi umræða kemur upp á hverju ári - oftast í kjölfar þess að þurft hefur að sækja einhverja hálfvita sem hafa ætt út í vitleysu. Ævinlega er hún kveðin niður af björgunarsveitunum sjálfum með þeim rökum að umræddum hálfvitum finnist nógu vandræðalegt að hafa þurft að láta bjarga sér og þar með trúlega dregið í lengstu lög að óska eftir aðstoð.
Ef umræddir hálfvitar megi síðan búast við að þurfa að borga fyrir björgunina sé hætta á að ekki verði kallað eftir aðstoð fyrr en í algert óefni sé komið og þá sé þetta mögulega ekki lengur spurning um skammir og niðurlægingu heldur líf og dauða!
Það er því ekki annað í stöðunni en að styðja eins og hægt er við þessar frábæru sveitir og vera dugleg að kaupa flugelda
Haraldur Rafn Ingvason, 21.12.2008 kl. 16:36
Ég held að það geti aldrei orðið til góðs að gera mönnum að greiða fyrir björgunarstörf, bæði af þeirri ástæðu sem Haraldur nefnir þ.e. að ekki verði kallað á hjálp vegna þess að hún kostar pening og hinsvegar munu strax kom upp álitamál og ágreiningur um hvort "neyðin" var hinum bjargaða að "kenna" eða ekki, fyrir utan allan ágreininginn sem koma myndi upp í framhaldinu (hann var í alveg eins aðstöðu og ég en þurfti ekki að borga o.s.frv.)
Hins vegar tel ég að lögreglan ætti að loka Helisheiðinni þegar hún er ófær, með löglegum umferðarmerkjum, þá eru þeir sem leggja á heiðina ófæra orðnir brotlegir við umferðarlög og hljóta sekt í samræmi við það. Þrengslin - eða buddan! Það mundi spara björgunarsveitunum kostnað af svona kjána-björgunarstörfum.
sigurvin (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 22:38
Vitanlega viljum við frekar að fólk biðji um hjálpina heldur en ekki, sé það í vandræðum á annað borð. En ég vil benda á að fólk borgar fyrir sjúkrabíla til dæmis.
Annars er Sigurvin með ágæta hugmynd - ég styð hana.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.12.2008 kl. 23:58
Ef það er eitthvað sem Vegagerðin fyrirlítur eru það flækingar (vegfarendur) mér virðist þessi fyrirlitning byrtast hér einkun hjá björgunnarhetjunni Gylfa.
Hvað á fólk (fífl) að hugsa á meðan Vegagerðin auglýsir af venjulegri fyrirlitningu og hroka. LOKAÐ, þá fara fleirihundruð bílar hina lokuðu leið. 4-6% sitja fastir en það er sú prósenta sem situr föst á láglendi hvort eð er.
Að lokum vil ég taka það fram að ég er dýrðlegur maður.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 22.12.2008 kl. 13:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.