Auschwitz - Birkenau
29.10.2008 | 15:14
ARBEIT MACHT FREI stendur svörtum stöfum yfir innganginum að útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi. Í 3ja km fjarlægð eru Birkenau búðirnar - sem oft og einatt eru kallaðar Auschwitz-Birkenau, eða Auswitz II. Þær eru afkastamestu útrýmingarbúðir Þjóðverja á árunum 1940-45. Á ferð minni til Kraká í síðustu viku átti ég þess kost að skoða Auswitz og Birkenau. Búðirnar eru 50 km suðvestur af Kraká.
Ég mun aldrei gleyma þeirri heimsókn - og það mun taka mig vikur, ef ekki mánuði að vinna úr þeirri upplifun sem ég varð fyrir þarna; þeim upplýsingum sem streymdu til mín í gegnum staðreyndir, minjar, myndir og annað sem fyrir augu bar.
Í Auschwitz I - upprunalegu búðunum - voru 70 þúsund manns tekin af lífi, aðallega Pólverjar og Sovéskir stríðsfangar. Í Birkenau lét að minnsta kosti 1 milljón manna líf sitt, mest Gyðingar og Pólverjar, en einnig Sígaunar, Vottar Jehóva, samkynhneigt fólk, fólk sem dæmt hafði verið fyrir ýmsa glæpi, fatlaðir og aðrir sem ekki féllu vel að hugmyndafræði Nazismans. Raunar kom fram í Nurnberg réttarhöldunum, hjá yfirmanni búðanna, Rudolf Höss, að þarna hefðu um 3 milljónir látið líf sitt - en skráning á þeim sem komu i búðirnar var að engu orðin undir lokin, svo sannanir um endanlegan fjölda skortir.
Innan við hliðið í Auschwitz I, léku hljóðfæraleikarar létta tónlist fyrir þá sem komu í búðirnar. Fólk hafði þá ferðast með gripavögnum dögum saman, án matar eða salernisaðstöðu, án nægjanlegs súrefnis og var aðframkomið þegar það kom á brautarpallinn í Auswitz. Sumir höfðu tekið með sér búsáhöld og aðrar eigur í þeirri trú að þeir væru að koma til nýrra heimkynna. Þeim var ráðlagt að skilja farangurinn eftir á brautarstöðinni og fara beint í bað. Við hliðið ómuðu léttir marsar og fólkið gekk grunlaust inn fyrir, framhjá tvöfaldri rafmagnsgirðingunni sem umlykur svæðið. Þar var því strax skipt í tvo flokka.
Til hægri fóru þeir sem áttu að lifa - fólk á góðum aldri sem líklegt var til þess að geta unnið. Til vinstri - og beint í gasklefann - fóru gamalmenni, fatlaðir, börn og aðrir sem ekki voru til stórræðanna.
Það er undarlegt að standa framan við dyrnar að gasklefanum. Sjá háan reykháfinn bera við loft -skammt frá húsinu þar yfirmaður búðanna bjó með konu sinni, börnum og heimilishundi. Úr stofuglugganum gátu þau séð fangana streyma inn í byrgið og reykinn liðast upp um reykháfinn. Enginn kom út aftur. Þjóðverjar reyndu að eyðileggja þessi ummerki áður en búðirnar voru frelsaðar. Þeim tókst það þó ekki nema að hluta. Líkbrennsluofnarnir hafa verið endurbyggðir nákvæmlega eins og þeir voru. Klefarnir eru upprunalegir.
Maður gengur inn um þessar lágu dyr. Þar fyrir innan var fólk látið afklæðast og því síðan þjappað inn í lágan klefa þar fyrir innan. Í loftinu eru einhverskonar túður eða stokkar - þar niður var eitrinu veitt. Zyklon-B nefndist hið banvæna efni. Þetta eru litar örður, minna helst á mulda sápu eða grófa, ljósa sandmöl. Þegar efnið komst í samband við súrefni og ákveðið hitastig losnaði eitrið úr læðingi. Tuttugu mínútum eftir að eitrinu var veitt niður um túðurnar, voru allir í klefanum látnir. Þá voru klefarnir opnaðir - líkin tekin og "hreinsuð". Gullfyllingar teknar úr tönnum og hár skorið af. Síðan voru líkamarnir settir í brennsluofinn.
Þeir sem ekki fóru beint í gasklefann voru fluttir í skálana þar sem þeim var úthlutað koju með 2-4 öðrum. Hár þeirra rakað af og húð þeirra merkt með brennimerki eða tattúi á handlegg eða brjóst. Í fyrstu voru allir fangarnir myndaðir og nafn þeirra skráð ásamt öðrum upplýsingum. Þegar leið á stríðið var þessu hætt, og fanganúmerið á húð þeirra látið duga - eftir það bar viðkomandi einungis þetta númer í stað nafns.
Enn skelfilegri var aðbúnaður fanganna í Birkenau - þar voru húsakynnin hesthús þar sem hróflað hafði verið upp rúmstæðum - þremur kojuröðum upp undir loft. Fimm til átta sváfu þar saman í hverri koju, með eina ábreiðu. Engin upphitun, engin hreinlætisaðstaða. Þessi mynd er ekki góð en ef þið smellið á hana, stækkar hún, og þá má sjá betur hvernig umhorfs var í þessum vistarverum.
Í Auschwitz I vorum við leidd að gálgunum þar sem brotlegir fangar voru teknir af lífi fyrir litlar sakir - jafnvel tólf saman. Við sáum aftökustaðinn þar sem þeir voru skotnir til bana. Það var í portinu milli skálanna þar sem yfirmennirnir höfðust við öðrumegin. Hinumegin var hið svokallaða "sjúkrahús" þar sem Josef Mengele gerði sínar ómannúðlegu og skelfilegu tilraunir á konum og börnum, aðallega tvíburum. Við sáum líka refsiklefana þar sem fangarnir voru sveltir eða þeir kvaldir með því að standa örþreyttir eftir langan vinnudag. Já, við sáum klefa sem var 90 x 90 cm að þvermáli. Fanginn þurfti að skríða inn um lítið op sem var við gólfið, og rísa síðan upp og standa þar uppréttur, því ekki gat hann lagst - þar til næsti vinnudagur tók við.
Á göngunum eru myndir af þeim föngum sem myndaðir voru á fyrstu þremur árunum sem búðirnar voru starfræktar. Undir myndunum eru nöfn, fanganúmer og dánardægur hvers og eins. Margir létust fáeinum dögum eftir komuna, aðrir vikum eða mánuðum síðar. Flestir voru látnir áður en árið var liðið. Á þessum myndum sér maður líka börn sem hafa lifað mislengi. Hugrekki þeirra og þróttur, þar sem þau horfa framan í ljósmyndarann snertir mann djúpt.
Einn skálinn er helgaður þeim munum sem fundust eftir að búðirnar voru frelsaðar. Í einu herberginu er gríðarstór haugur af ferðatöskum. Annar haugur af búsáhöldum ýmiskonar (sem fólk tók með sér því það hélt að þarna biðu þess ný heimkynni). Sá þriðji af gleraugum, sá fjórði af skóm.
Í einu herberginu er haugur af mannshári - heilt tonn - aðallega kvenhári. Það notuðu þjóðverjarnir til þess að vefa fóður í hermannabúninga. Í loftinu er undarleg lykt - sambland af myglu og mölkúlum. Þarna er manni farið að líða verulega illa. Í einu horninu eru bænasjöl sem gerð voru upptæk, einnig röndóttir fangabúningarnir, gauðrifnir og grófir, sem augljóslega hafa ekki haldið neinum hita í vetrarkuldum.
Innar í þessu sama herbergi eru svo barnafötin, rifin og snjáð, snuddurnar, litlu barnaskórnir, bangsar og dúkkur sem höfðu verið teknar með í leiðangurinn - í helförina.
Það verður enginn samur eftir að hafa komið á þennan stað.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði, Bloggar | Breytt 16.4.2015 kl. 09:48 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef alltaf ætlað mér að fara þarna en brostið kjark.
Bara tilhugunin um þessa skelfilegu grimmt, þessa útspekúleruðu færibandatormíngiu er nánast ekki hægt að forma.
Nýlega var ég að lesa hér í bloggheimum (ekki á mogga) pistla þar sem höfundur og hans jábræður halda því blákallt fram að helförin sé uppspuni.
Ætlar manneskjan aldrei að læra?
Takk fyrir að deila þessu.
Jenný Anna Baldursdóttir, 29.10.2008 kl. 15:25
Ég fór til Auschwitz síðastliðið sumar og sá þessi herlegheit. Það sem kom mér mest á óvart var hvað Bierkenau er fallegur staður þó svo þessir atburðir hafi átt sér stað þarna.
En samt má ekki gleyma því að Gyðingar eru að gera mjög svipaða hluti í Ísrael og Palestínu núna, þ.e.a.s. kúga aðrar manneskjur og drepa í trukkavís. Þó svo þeir noti aðrar aðferðir í Ísrael þá er þetta mjög svipað dæmi, þjóðernishreinsun.
Arnþór Arnþórsson (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 15:59
Það er búið að vera efst á lista hjá mér að fara til Kraká/Auswitz og vorum einmitt boðin af fararstjóra Heimsferða henni Soffíu í síðustu viku en gátum því miður ekki farið. Það er líka oft þannig að merkir staðir sem eru rétt við túnfótinn geta beðið betri tíma. Þeir sem hafa séð þessar búðir með eigin augum hafa allir sömu sögu að segja, það tekur langan, langan tíma að komast yfir þessa upplifun.
Terezín búðirnr hér í Tékklandi eru líka óhugnalegar en víst ekkert á við þessar illræmdu búðir í Póllandi.
Takk fyrir þetta Ólína.
Ía Jóhannsdóttir, 29.10.2008 kl. 16:02
Þetta kennir okkur að við verðum að læra af mannkynssögunni. Þetta má ALDREI aftur endurtaka sig. Þetta er ástæðan fyrir því að rasismi má aldrei grassera hérna né annarstaðar og það er hægt að fyrirbyggja hann með fræðslu því að rasismi tengist að mínu mati fáfræði og illu uppeldi.
Talandi um mannkynssöguna að þá eru menn að tala um að önnur hvor stóra kreppan á síðustu öld hafi komið til af sömu ástæðum og þessi sem við erum að upplifa núna. Slæmt ef rétt reynist og kennir okkur það að gera hlutverk sagnfræðinga, heimsspekinga nú til dags veigameira. Það óhugnanlegasta við þetta í sögulegu samhengi var að eftir þessar tvær kreppur urðu til hinar hræðilegu heimsstyrjaldir.
Pétur Kristinsson, 29.10.2008 kl. 17:58
Sæl Ólína, datt inn á bloggið þitt frá mbl.is, sammála þér með að engin verður samur eftir að hafa komið á þennan stað, langaði að deila þessu með þér: http://brynjalilla.blogspot.com/2007/09/auschwitz-gst-2007.html
Brynja (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 20:04
... Svo ekki sé talað um þá sem aldrei sáu ættingja sína, sem myrtir voru i Auschwitz, Sobibor og víðar.
Þeir sérfræðingar sem tjá sig um aðgerðir Ísraelsmanna í garð Palestínumanna, ættu ef þær kæmu því við, að heimsækja bæði útrýmingarbúðir og landsvæði Palestínumanna. Vanþekking á sögunni fær þetta fólk til að vera með óþarfa samlíkingar. Palestínumenn viðurkenna flestir ekki tilvist gyðinga og Ísraelsríkis. Þannig var það reyndar líka hjá nasistum.
Þakka þér fyrir góða færslu, Ólína.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.10.2008 kl. 20:22
Takk fyrir þessa frásögn, Ólína. Þú mættir gjarnan hafa myndirnar örlítið stærri.
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.10.2008 kl. 20:41
Held að Arnþór ætti að skammast sín.
Nonni (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 20:50
Það eru lítil takmörk fyrir því sem mannskepnan er fær um að framkvæma. Þessi hryllingur varð á árunum 1940-1945 . Fyrir fáeinum árum voru ekki ósvipaðar þjóðhreinsanir í fyrrum Júgóslavíu- fólk myrt tugþúsundum saman fyrir það eitt að vera ekki af "réttu" þjóðerni. Evrópa hafði lítið lært. Og við hér á Íslandi ? Erum við ekki siðferðilega þátttakendur í hörmungum fólksins í Írak ? Fjarri hildarleiknum sem við gáfum samþykki okkar fyrir- eða 2 menn af okkar þjóð fyrir hönd okkar hinna.
Sævar Helgason, 29.10.2008 kl. 21:31
"Prescott Bush, the grandfather of President George W. Bush, served as a business partner of and U.S. banking operative for the financial architect of the Nazi war machine from 1926 until 1942, when Congress took aggressive action against Bush and his "enemy national" partners."
http://www.georgewalkerbush.net/bush-nazilinkconfirmed.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Prescott_Bush
Þorsteinn Briem, 29.10.2008 kl. 21:46
Ég var á þessum slóðum í fyrra og ef satt skal segja þá treysti ég mér ekki til að heimsækja þessar búðið, bæði var það vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að upplifa þennan hrylling í gegnum líkama minn og hins vegar vegna þess að ég taldi mig hafa fengið nægar upplýsingar í gegnum söguna, heimildar- og kvikmyndagerðar um þennan hryllilega stað og atburð mannkynssögunnar. En ekki taka orð mín þannig að þetta sé eitthvað sem eigi að gleymast, langt frá því.
Stundum finnst mér eins og að fólk sem heimsækjir þessi staði í dag geri sér engan vegin grein fyrir þeim hörmungum sem þarna ríktu ásamt öðrum stöðum í heiminum og því miður eru þessar hörmungar enn við líði en við horfum bara alltaf í hina áttina og höldum að þetta komi okkur ekkert við...................það sýnir sig nú hitt þó heldur.
Þú ert kjörkuð kona Ólína.
Hafdís Joð. (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 22:08
Eg þakka fyrir réttmætar ábendingar um stærð myndanna - er búin að laga þær.
Já, þessi heimsókn var lífsreynsla, svo sannarlega. Og það er undarlegt, eiginlega hálf óraunverulegt, hversu mikil grimmd og ómennska leynist þrátt fyrir allt í mannskepnunni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.10.2008 kl. 23:07
Þakka þér fyrir þessa frásögn, Ólína.
Þetta eru staðir sem ég hef svarið að stíga ekki fæti inn í, þó svo ég ætti þess kost. Ég myndi bíða fyrir utan. Ég held að ég afbæri ekki að fara þarna inn. Ég klikkaði ekki á myndirnar til að stækka þær. Mér verður illt bara af því að horfa á þær smækkaðar.
Ég man enn hvernig mér varð við sem barni þegar ég sá mynd í bók af skinhoruðum föngum liggjandi í kojum, þeir gægðust út úr þeim, einn stóð.
Það ná engin orð yfir það hver grimmd mannskepnunnar getur verið mikið.
En heldur ekki yfir hugrekki hennar.
Ég á bók sem heitir "Fylgsnið". Í henni er sögð saga tveggja hollenskra systra sem settar voru í þýskar fangabúðir, mig minnir fleiri en einar. Önnur þeirra lifði af og starfaði við að hjálpa öðrum sem einnig gerðu það. Trúartraust og kærleikur þessarra kvenna var einstakur og ótrúlegur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 00:22
Ég kom þarna við síðasta vor á ferð með Háskólakórnum. Ég var lengi búin að velta því fyrir mér hvort ég væri tilbúin að koma á þennan stað en fannst hálf ótækt að láta tækifærið hjá líða.
Það rann einhvern veginn upp fyrir mér þegar ég gekk þarna um, þrátt fyrir allt sem ég hef lesið og allar myndirnar sem ég hef séð, Schindler's List, Ashtonfjölskylduna, Winds of War og allt það, að þetta kom fyrir venjulegt, lifandi fólk sem átti sér einskis ills von. Hárhlassið, hversu oft ætli þetta hár hafi verið klippt, þvegið, lagt o.s.frv. áður en örlögin gripu inn í?
Við sungum að skilnaði Sofðu unga ástin mín fyrir leiðsögumennina okkar og sennilega hefur það aldrei verið sungið jafn blíðlega, enda söngvararnir allir með kökk í hálsinum, við vorum öll, án þess að ræða það neitt sérstaklega, að syngja til fólksins sem endaði ævina þarna. Það er margt sem myrkrið veit, minn er hugur þungur...
Margrét Birna Auðunsdóttir, 30.10.2008 kl. 00:30
Athugasemd til Grétu: Bókin sem þú nefnir er ekki um gyðinga í Auschwitz heldur hjálp Corrie ten Boom og fjölskyldu hennar fyrir gyðinga í bænum Harlem í Hollandi. Corrie var sett í fangelsi i Scheveningen í Hollandi, útvísunarbúðirnar í Vucht og síðar send til Ravensbruck í Þýskalandi, þar sem hún lifði af. Í dag er hægt að heimsækja safn sem heldur á lofti minningu Corrie ten Boom. Því miður voru fæstir hollenskra gyðinga eins heppnir og Corrie ten Boom - og fæstir Hollendingar sem þorðu að hjálpa eins mikið og Corrie ten Boom.
Corrie ten Boom (d. 1983)
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.10.2008 kl. 05:40
Vilhjálmur, ég sagði líka tvær HOLLENSKAR systur, ekki gyðingar.
Ég fæ ekki séð að það sé munur á því hvernig gyðingur þjáist eða hvernig hollendingur þjáist, þar sem líkamarnir eru sömu gerðar.
Systir Corrie ten Boom var ekki eins heppin og hún, - hún lést í búðunum. Takk annars fyrir upplýsingarnar, það er orðið dálítið síðan ég las bókina og ég mundi þetta ekki nógu vel.
Mér þykir undarleg sú árátta sumra gyðinga að vilja láta eins og engir aðrir en þeir hafi þjáðst í búðum nasista, eða að alla vega hafi þeir þjáðst mest.
Annars ætla ég ekki að hefja deilur við þig hér á ný.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 11:26
Er ekki líka til safn um Önnu Frank, sem var gyðingur, í Hollandi?
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 11:29
Það verður að viðurkennast að mikil er upplifunin af að koma til Auswich, en það er líka mikil upplifun að skoða Majdanek sem er norðar í Póllandi.
http://en.wikipedia.org/wiki/Majdanek
Menn voru ekkert síðri þar þó að færri hafi verið slátrað.
Þó ber að minnast á að Sovéskir stríðsfangar voru oft látnir sofa undir berum himni þar og flestir lifðu það ekki af.
Kveðja Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 30.10.2008 kl. 11:32
Annars - Corre ten Boom var ein þeirra heppnu. Punktur.
Ef það getur kallast "heppni" að lifa af. Sumir lifðu við miklar andlegar þjáningar eftir þennan tíma. Corrie starfaði við að lina þær.
Ég bendi líka á bókina "Örlögleysi" eftir Imre Kertés, sem var ungverskur gyðingur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2008 kl. 11:46
Þetta er afar áhrifarík færsla, um mig hríslaðist hrollur. Ég get orðið æfareið þegar fólk afneitar helförinni. Ekki eldri en ég er þá þekkti ég mann sem komst lifandi úr slíkum búðum, hann er nú löngu látinn.
Ég hef aldrei til útlanda farið en afar margir staðir myndu vekja áhuga minn. Mér finnst falleg frásögn stúlkunnar hér að ofan, háskólakórsins.
Slíkt fólk er dýrmætt, með gott hjartalag
Ragnheiður , 31.10.2008 kl. 13:54
Talandi um bækur og Auschwitz, mig langar að vekja athygli á bók sem ég las um daginn, Drengurinn í röndóttu náttfötunum, sem fjallar um vináttu tveggja lítilla stráka. Annar er fangi í Auschwitz en hinn er sonur búðastjórans og skilur ekki af hverju vinur hans fær alltaf að vera í náttfötunum alla daga. Eða kannski hét hún Strákurinn í röndóttu náttfötunum, man ekki alveg. En mæli með bókinni.
Margrét Birna Auðunsdóttir, 1.11.2008 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.