Gleymt er þá gleypt er

Stundum er talað um að minni kjósenda sé gloppótt - og vika langur tími í pólitík. Að minnsta kosti hættir okkur oft til þess að gleyma jafnóðum því sem vel er gert en sjá svo ofsjónum yfir einhverju sem enn vantar. 

Að undanförnu hefur Stöð-2 farið mikinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra vegna kosningaloforðs sem hún gaf fyrir síðustu kosningar. Svo mjög liggur fréttamönnum á að sjá þetta eina kosningaloforð efnt - nú þegar innan við fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu - að þeir telja niður dagana til þinghlés. Líkt og ekkert annað loforð hafi verið gefið fyrir síðustu kosningar - enginn annar stjórnmálamaður hafi opnað munninn - og ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er því tímabært að rifja upp það sem gert hefur verið á þessu eina ári sem liðið er frá kosningum - líkt og Ágúst Ólafur gerir á sinni bloggsíðu.  Listinn lítur nokkurnveginn svona út:

1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum.

2. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði.


3. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.

4. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum.

5. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.

6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%

7. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67–70 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður.

8. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.

9. Hinn 1. júlí mun einnig verður sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega.


10. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.

11. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar. 

12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega eftir breytingu en voru á síðasta ári færri en 10.

13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .

14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.

15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.

16. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.

17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.

18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.

19.  Ný jafnréttislög hafa verið sett.

20.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.

 

Þetta er allnokkuð á ekki lengri tíma - verð ég að segja. Dágott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Það er nú svo í pólitík að það er ekki sama hvaða gleraugu fólk notar. Gott að sjá að þú ert með réttu gleraugun uppi núna Ólína. Þið mættuð nota þau í sveitarstjórnarmálunum líka. Ykkur hefur nú stundum reynst erfitt að sjá góðu hlutina sem hafa gerst þar. Skrítið hvernig sjónin getur lagast við að komast í meirihluta.

Ingólfur H Þorleifsson, 8.5.2008 kl. 11:27

2 Smámynd: Sævar Helgason

Rétt, það hefur mikið áunnist á þessu eina ári sem Samfylkingi hefur verið í ríkisstjórn og ber að þakka það.

Síðustu 10-15 árin fjaraði mjög undan varðandi velferðarmálin. Frjálshyggjan var ráðandi stefna í efnahagsmálum og við þær aðstæður er velferð ekki sett í öndvegi. Hinir betur megandi urðu ennþá betur megandi.

Nú er þessi efnahagsstefna sem fyrri ríkisstjórnir hafa fylgt  dyggilega ,ekki á vetur setjandi.

Formaður Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir setur þjóðarsátt í öndvegi til að vinna okkur útúr þeim vanda sem við blasir. Sá verkferill er hafinn. Því er fagnað

Ljóst er að fólkið lýtur á Samfylkinguna sem burðarafl í ríkisstjórninni.  Þegar í bakseglin hefur slegið , bæði vegna ytri aðstæðna og aðgerðarleysis fyrri ríkisstjórna í efnahagsmálium- lendir höggið á Samfylkingunni, að ósekju.. 

Sjálfstæðisflokkur er stikkfrí. Gerandinn mikli.

Sævar Helgason, 8.5.2008 kl. 12:17

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stöð 2 um þetta mál:

http://www.youtube.com/watch?v=kiiA0qH58wE

Mér finnst nú "framkvæmdaáætlun" mun skárra orð en "aðgerðaráætlun".

Jakk! Ég gubba líka! Blink blink!

Þorsteinn Briem, 8.5.2008 kl. 12:43

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Smá leiðrétting hérna til Ingólfs. Hann virðist álíta að ég sitji einhversstaðar í sveitarstjórn og ávítar mig hálfpartinn fyrir eitthvað sem ég hafi sagt eða gert á þeim vettvangi.

Ég sit hvergi í sveitarstjórn. Þetta hélt ég að Ingólfur vissi. Það er maðurinn minn sem er bæjarfulltrúi á Ísafirði fyrir Í-listann. Og þó við séum samrýmd hjónin, þá erum við ekki einn og sami maðurinn.

Eitt sinn var ég borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 1990-1994. Hef ekki skipt mér af sveitarstjórnarmálum síðan.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2008 kl. 12:52

5 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Ég get hvergi séð að ég tali um að þú sért í sveitarstjórn. Ég sagði sveitarstjórnarmálum, Það er nú leyfilegt að tjá sig um sveitarstjórnarmál þó að maður sé ekki kjörin fulltrúi.  þegar ég segi þið þá er ég að tala um t.d. þá sem skrifa á skutull.is og helstu stuðningsmenn Í-listans svo dæmi séu tekinn. Þeim hefur yfirleitt gengið mun betur að sjá öllu til foráttu fremur en hitt. 

Ég er það vel að mér í málefnum Ísafjarðarbæjar að vita að þinn ekta maður er þar bæjarfulltrúi. Þú kannski leyfir honum að nota fínu gleraugun af og til. Það yrði skemmtileg tilbreyting.

Ingólfur H Þorleifsson, 8.5.2008 kl. 13:15

6 Smámynd: Gló Magnaða

Ingó,  vertu aftast 

Gló Magnaða, 8.5.2008 kl. 14:21

7 identicon

Ekki skal gleyma því sem vel er gert Ólína. Þess vegna ætla ég að fara aðeins yfir listann sem þú býrð til hér fyrir lesendur eins og hér sé upptalning á merkum afrekum.

Fyrir það fyrsta vil ég nefna að helstu loforð Samfylkingar fyrir kosningar voru sérstaklega beint að þessum málaflokki.

1. 9.400 krónur er auðvitað gífurlegur ávinningur fyrir þá sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga. Þessar 9.400 krónur verða að ca. 6.100 kr. eftir skatt. Það eru u.þ.b. 60 mínútna laun ráðherra.

2. Aldraðir voru settir í "algjöran forgang" á loforðalista Samfylkingar. Þær 25 þúsund krónur sem þú nefnir er mikil blekking því eftir skatta og tekjuskerðingu verða þessar 25 þúsund krónur aðeins 8 þúsund krónur. Sem eru þá ca. 65 mínútna laun ráðherra.

3. Þetta atriði hefur staðið í stjórnmálamönnum árum saman og frægt er þegar Garðar Sverrisson þá formaður ÖBÍ barðist harkalega gegn þessu og var farið með málið til Hæstaréttar þar sem rétturinn þjónkaði þáverandi forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. En samt vann Garðar áfangasigur.

En hér er aðeins verið að afnema tekjutengingu þar sem í hlut eiga lífeyrisþegi annars vegar og launþegi hins vegar. Lífeyrisþegum er eftir sem áður settur annmarki við sambúð. Slíkt er óréttlæti og ekki samboðið flokki eins og Samfylkingu að mismuna fólki með þessum hætti. Eða hvað?

4. 90 þúsund króna frítekjumark vegna fjármagnstekna leiðir eðlilega af sér að flestir lífeyrisþegar "njóti" þess þar sem flestir hafa lítið sem ekkert aflögu og því lítill sparnaður og þ.a.l. litlar fjármagnstekjur. Þannig er verið að blekkja enn eina ferðina og búa til stórt úr litlu.

5. 30% hækkun almennt telst ágætis hækkun. En fyrir hvaða hóp er verið að bæta? Jú þá sem eru vistmenn en nánari skilgreiningu er að finna í almannatryggingalögunum. Það er verið að hækka "vasapeninga" til vistmanna.

Vasapeninga!!! Vistmanna!!!  Og til hvers eiga þessir vasapeningar að duga? Til kaupa á fatnaði svo dæmi sé tekið. Hækkunnin nemur s.s. eins og einni skyrtu. Til hamingju Jóhanna.

6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris lækkað úr 30% í 25%. Af hverju skýrirðu ekki frá því Ólína hvað þetta þýðir?

Ég veit að þessi lækkun skerðingarhlutfalls hefur mjög lítið að segja. Svo lítið að þú sérð ekki ástæðu til þess að nefna fjölda ellilífeyrisþega sem njóta þessa, krónutölu né í hverju kjarabótin felst.

7. Hér er enn verið að slá ryki í augu fólks. Frítekjumark vegna atvinnutekna hefur áhrif á alla bótaflokka nema örorkulífeyri og ellilífeyri að undanskildu því að fyrir hverja krónu umfram 1200 þúsund krónurnar skerðist sjálfur lífeyririnn. En þetta frítekjumark hefur engin áhrif á skerðingu tekjutryggingar sem dettur út, heimilisuppbót sem einnig dettur út og ýmsa aðra liði.

Þannig hefur frítekjumarkið áhrif. Það þýðir ekki að fólk geti unnið sér inn 1200 þúsund krónur og haldið sínum bótum sem það hafði áður en það byrjaði að vinna eða þar til það hættir að vinna.

8.  Þetta er gott mál. Að afnema tekjutengingu launa við lífeyri almannatrygginga eftir 70 ára aldur.  En hér liggur fiskur undir steini. Hvers vegna er verið að mismuna launþegum með þessum hætti? Stenst það jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að mismuna fólki eftir aldri með þessum hætti? Í lið 7 er verið að fjalla um fólk á aldrinum 67-70 ára. Hér er í reynd verið að afnema frítekjumarkið sbr. lið 7 og að mínu mati stenst það ekki jafnræðisregluna.

9. Hinn 1. júlí verða sett 300 þúsund króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega. Hér er gefið í skyn að það sé ekkert frítekjumark. Hið rétta er að verið er að hækka upp í 300 þúsund krónur úr (ef ég man rétt) 260 þúsund krónum.

10. Það á mikið að gerast hinn 1. júlí. Aldurstengd uppbót á að hækka. Ok ágætt mál. En hvers vegna nýtti ráðherra sér ekki tækifærið og afnam alla bótaflokka sem mismuna fólki gríðarlega? Eitt frumvarp, ein lög, auðveld framkvæmd, gegnsætt kerfi. Kannski það verði Hinn 1. júlí á næsta ári.

11. Þarna er virkilega gott mál á ferðinni. Kemur þeim tekjulægstu sér mjög vel. Þeir geta leyst úr séreignasparnaðinn sinn, úps, æ, sorrý þeir eiga hann ekki. Það eru þeir sem eru í tekjuhærri flokkunum. Jæja en gott samt.

12. Hér er komið af stað mjög þörfu máli en ég skil ekki flokk sem er á móti tekjutengingum að búa til enn eina tenginguna. 80% skal það vera af meðaltali yfir tiltekið viðmiðunartímabil. Kannski verður þetta hækkað Hinn 1. júlí á næsta ári í 81%. Hver veit?

13. Já blessuð skattleysismörkin. Fyrir kosningar sagði formaður Samfylkingar aðspurð hvað hún teldi rétt að hækka skattleysismörkin í (hún var jú búin að segja að þau skyldu hækkuð) að þau ættu að hækka fljótlega í 130 þúsund krónur og fylgja síðan verðlagi. Þannig ætlar Samfylkingin ekki að standa við loforð sín nema að hluta. Maður hreykir sér ekki af því að gjaldfella sig.

14. Þarft og gott mál. En það vantar eitthað meira í sambandi við börn. Það var rifist um 147 milljónir vegna tannlækninga barna. Hvað skyldi afnám komugjalda barna á heilsugæslu kosta ríkið?

15. Einn ein skerðingarmörkin sem verða hækkuð. Nú skerðing barnabóta. Hvers vegna þarf að skerða barnabætur?

16. Hér er reyndar rangt með farið. Það er lágmarkið sem er hækkað um 50% en síðan koma auðvitað til hvorutveggja skerðingar en einning hugsanlegar hækkanir með sérstökum húsaleigubótum.

17. Enn ein skerðingarmörkin hækkuð. Svo sem allt í lagi en er þessi hækkun sambærileg hækkun húsaleigubóta?

18. Stimpilgjöldin átti að afnema að öllu leyti sagði Björgvin G. Sigurðsson fyrir kosningar. Veit ekki, kannski ágæt byrjun þetta.

19. Hvað felst í nýju jafnréttislögunum Ólína?

20. Aðgerðaáætlun minnir óþyrmilega á Landspítala háskólasjúkrahús. Og það fyrir börn.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 14:45

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ingólfur - nú ert þú farinn að sverta það ágæta fólk sem skrifar fréttir á skutul.is án þess að hafa nokkuð máli þínu til sönnunar. Ég fullyrði að á þeirri ágætu vefsíðu hefur þú aldrei séð hlutdræga eða ósanngjarna umfjöllun um sveitarstjórnarmál. Þér væri nær að setja fram einhver rök en að fara með svona fleipur um fólk sem er ekki einu sinni aðili að þessari umræðu hér.

Hafþór - á þessari upptalningu þinni sannast það sem oft hefur verið sagt að sínum augum lítur hver á silfrið. Sumir sjá alltaf hálftómt glas þegar aðrir sjá það hálf-fullt Það er lífsafstaða. Eigum við ekki bara að skála þannig - ég með hálffullt glasið mitt, þú með þitt hálftómt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.5.2008 kl. 15:18

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Ólína - Minni þitt er greinilega betra en hins almenna kjósanda.

Júlíus Valsson, 8.5.2008 kl. 18:47

10 Smámynd: HP Foss

Góð færsla hjá þér Ólína, eins og þér einni er lagið.

Við söknum þín hér fyrir sunnan.

HP Foss, 8.5.2008 kl. 19:47

11 identicon

Gott er að geta gumað sig af því sem ógert er, hvenær voru stimpilgjöld felld niður fyrir fyrstu kaupendur? Það er eitt að lofa og annað að framkvæma

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 12:41

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Tja, nú kemurðu mér alveg að óvörum Jón Sigurðsson. Ég veit að ákvörðunin um stimpilgjöldin hefur verið tekin - hélt að hún væri komin til framkvæmda. Ef ekki, þá er það sjálfsagt bara tímaspursmál.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.5.2008 kl. 14:02

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

http://www.althingi.is/altext/135/s/0849.html

Þorsteinn Briem, 9.5.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband