Rökin þrotin?

c_arni_mathiesen geir-eyjanIs sigurdurlindal-DeiglanIs thorst_dav

Alveg er ég undrandi á þeim ummælum sem ráðherrar fjármála og forsætis hafa látið sér um munn fara að undanförnu vegna ráðningar Þorsteins Davíðssonar í starf héraðsdómara.

Í þinginu sagði Geir Haarde forsætisráðherra að Sigurður Líndal, sem er einn virtasti lögspekingur landsins, hefði orðið sér "til minnkunar" í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið. Fjölmiðlar höfðu þetta eftir forsætisráðherra athugasemdalaust. Ekki kom þó fram hvaða ummæli Sigurðar hann átti við. Samt var þessi niðrandi fullyrðing höfð eftir ráðherranum eins og það væri bara sjálfsagt mál. Forsætisráðherra þurfti ekkert að færa frekari rök fyrir sínu máli.

Ég las grein Sigurðar, og gat ekki betur séð en þar væri fjallað af skynsemi og viti um þessa umdeildu ráðningu, lagaforsendur hennar og áhrif. Ummæli forsætisráðherra eru að mínu mati ómakleg - en þau sýna líka að ráðamenn eru komnir í harða vörn vegna þessara ráðningarmála.

Árni Matthiesen fjármálaráðherra var á sömu slóðum í Kastljósinu í gær. Hann valdi þann kostinn að gera lítið úr nefndarálitinu sem lagði mat á umsækjendur um starf héraðsdómarans. Talaði um að það væri gallað og hann hefði átt þann kost einan að ganga í berhögg við nefndina.  Lét í það skína að nefndin væri ekki starfi sínu vaxin. Úff! Þvílíkir loftfimleikar.

Það er þekkt taktík að niðra andstæðinga sína. Þegar rökin þrýtur taka hnefarnir við.

Nú ganga hnefarnir á þeim sem hafa leyft sér að efast um ákvarðanir þeirra sem með valdið fara. Það er leitt að verða vitni að slíku.


mbl.is Ósammála ráðherra um mat á umsækjendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Þetta 'lið' mun aldrei svara þessari grein Sigurðar á málefnalegan hátt, alla vega ekki með einhverjum vitrænum hætti. Hið sama gildir um alla þá gagnrýni sem fram hefur komið.

Allt er gert til að rægja nefndina, skrumskæla málflutning hennar, leyna mikilvægum staðreyndum fyrir almenningi, og þar fram eftir götum - allt til að reyna að sannfæra fólk um, að þetta sé allt bara nefndinni að kenna.

Það sem er hins vegar ekki gert er að svara hlutunum með málefnalegum hætti og taka á málunum eins og þau eru í veruleikanum. 

Skammarlegt. 

Hversu lengi ætlar þetta fólk að gera sjálft sig að trúðum með því að verja það sem er óverjandi? 

Þarfagreinir, 16.1.2008 kl. 15:22

2 identicon

Takk Ólína. Þetta er hneyksli

ee (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 17:04

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Frá mínum bæjardyrum séð hefði þessi dómaraskipun ekki verið möguleg án míns stuðnings, ég kaus Samfylkinguna síðast.

Og nú stendur karfinn í vélindanu á mér ekki síður en uppúr rauðhærðum þingflokksformanninum. Ekki er annað að gera en að kyngja.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.1.2008 kl. 19:54

4 identicon

Skil ekki svona ráðningu, rökin hans hvað þá heldur, níð hans á nefndina og varnartilburðir forsætisráðherra. Þetta er ekkert annað en pólitísk ráðning og finnst mér mál til að kæra þessa ráðningu til dómstóla og láta þá skera úr.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 21:03

5 identicon

Ég mæli með kæruleiðinni og vona að hún verði farin.  Þessi ráðning er slík hneisa að réttast væri að hnekkja henni.  Við Íslendingar verðum að muna hvað það er sem við viljum alls ekki þegar kemur að næstu kosningum.

Jóna Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 22:06

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessir menn eru greinilega forhertir. Það að sjálfur forsætisráðherrann skuli segja að ekkert þurfi að aðhafast þó sjálf mannréttidanefnd SÞ sem í sitja ýmsir af bestu fræðimönnum í lögfræði í heiminum skuli úrskurða afdráttarlaust að í kvótakerfinu felist mannréttindabrot, það sé óréttlátt og mismuni borgurum landsins!  "Jú jú það væri auðvitað  sjálfsagt að lesa þetta yfir".  Ég bind vonir við að Samfylkinngin verði ekki jafn meðvirk og Framsókn var á sínum tíma.

Sigurður Þórðarson, 16.1.2008 kl. 22:28

7 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Eitthvað var rætt um þetta mál í fjölmiðlum í kvöld. Þar sagði einn fréttamaður m.a. að fréttastofan hafi leitað logandi ljósi að löglærðum manni sem ekki væri bæði innvígður og innmúraður í Sjálfstæðisflokkinn og væri tilbúinn til að verja gjörðir setts dómsmálaráðherra. Slíkur maður hefur ekki enn fundist. Það eitt og sér er ágæt sönnun þess þvílíkt klúður þessi ráðning er.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 16.1.2008 kl. 23:18

8 identicon

 

Hver er kunnátta núverandi dómsmálaráðherra ?

Kom að síðu núverandi dómsmálaráðherra þar sem hann skrifar um virkni Árna Þórs Sigurðssonar þingmanns í sambandi við ráðninguna umtöluðu.

Meðal annars skrifar hann um að Árni Þór “af velþóknun” hafi vitnað til greinar Sigurðar Líndal um: “Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýskalandi eftir 1930.” Með þessu tekur Björn þá ályktun að Sigurður sé að líkja þessum íslenska stjórnmálamanni, hann segir ekki ráðherra, við nasista.

Einkennilegt að rökfræði núverandi dómsmálaráðherra haldi sér eingöngu á einstaklingssviði, því hér er Sigurður að vísa til afleiðinga ákveðins stjórnarkerfis um 1930 og þarf varla að kynna hvers konar afleiðingar svona skipulagskerfi á samfélagssviði hafði á miljónir manna. Með það í huga er þessi faglærði lögmaður að kynna þá hættu sem stafar að því að eftir eigin geðþótta, án hliðsjónar til niðurstöðu faglegrar dómsnefndar eins og raunverulegt dæmi er, sniðganga þær reglur sem eru settar til að – einmitt – hefta slíkar framfarir og fremja aðhald til að halda dómsvaldi sjálfstæðu.

Það hjálpar ekki dómsmálaráðherra að vitna til forsætisráðherra, hann getur og hefur krafta til að svara fyrir sig sjálfur, en ef rökfræðilegar skýringar eru ekki nægar þá er létt að vitna til annarra.

Lát forsætisráðherra tala fyrir sig, eða er það svo að dómsmálaráðherra sé talsmaður forsætisráðherra?

Hvernig leyfir dómsmálaráðherra sér að gefa mat á það sem hann kallar “mat- og hæfnisnefndir” sem góðar til að fara yfir mál. Ristir ekki kunnátta dómsmálaráðherra dýpra en svo að tala um þýðingu þessara fagnefnda með einhverju algildu lýsingarorði? Og að “þær séu nauðsynlegar til þess að fara yfir mál”. Má ég minna hæstvirtan dómsmálaráðherra á kynna sér grundvallarástæðu fyrir sköpun slíkrar nefndar og er það hörmung að lesa þessa rökfærslu hans sem vitnar um gjörsamlegt þekkingarleysi á þeim málum sem hann hefur ábyrgð á sem dómsmálaráðherra.

Að lokum vísar núverandi dómsmálaráðherra til sinnar eigin reynslu í sambandi við dómskipanir og færir það sem einhvers konar réttlætingu fyrir aðferðum flokksbróður sins nýlega . Svo grunn er sú rökfræðilega aðferð að skerið sést.

Þar að auki að notfæra sér ráðningar Össurar í þessu sambandi og blanda því saman við ráðningaraðferðir Árna er skýrasta dæmið um að grein Sigurðar Líndal hefur margfaldast í sinni rökfræðilegu þyngd eftir að hafa lesið þessa grein núverandi dómsmálaráðherra.

 

 

ee (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 23:20

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hið klúðurslegasta mál. Veit ekki hvernig þetta leysist en vona samt að menn hætti að verða sér til minnkunar.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.1.2008 kl. 00:10

10 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Er ekki samt sanngjarnt að gefa Birni Bjarnasyni prik fyrir að reyna þó að svara Sigurði með málefnalegum rökum, þótt ég sé þeim alls ekki sammála. Betur væri að hinir ráðherrarnir reyndu þó amk.

Gestur Guðjónsson, 17.1.2008 kl. 00:10

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég bind vonir við það að Samfylkingin segi stopp.Þetta er hið ömurlegasta mál

Hólmdís Hjartardóttir, 17.1.2008 kl. 04:07

12 identicon

Sæl Ólína.

Þetta er EKKI hneyksli.    Hverjum dettur það í hug?

ÞETTA ER Í GENUNUM.       Og hvað get ég gert að því!

Þetta er einn af fáránleikum sem við virðumst þurfa að búa við!

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 07:29

13 identicon

Maður er alveg gáttaður á þessu öllu saman, og liggur við ógleði. Það er alveg ljóst að dýralæknirinn er búinn að gera upp á bak í þessu máli, og hann veit það, og liðið í kringum hann er að reyna að verja gjörðir hans, þó það viti að málstaðurinn er MJÖG slæmur. En hvað gera menn ekki til að tryggja sér velþóknun guðanna, eða þannig......  

Björn Baldursson (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 08:57

14 identicon

Það er nú meira hvað (Samfylkingar)fólk getur velt sér upp úr þessari ráðningu Þorsteins Davíðssonar.  Ég segi bara; "sá kasti steininum sem syndlaus er".

Látið ykkur ekki detta í hug að Samfylkingin sé eitthvað betri í þessum málum.  Bæði Ingibjörg og Össur hafa verið að ráða sitt fólk (les; Samfylkingarfólk) í lykilstöður hjá hinu opinbera undanfarið.  Það verður t.d. athyglisvert að sjá hvaða Samfylkingarkona fær forstjórastöðu hinnar nýju Varnarmálastofnunar þegar hún verður sett á laggirnar.  Án efa verður fleira "gott" Samfylkingarfólk þar innandyra í lykilstöðum. 

Víkingur Traustason (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 10:02

15 Smámynd: Einar Jón

Gestur: helstu rökin sem ég hef séð Björn nota eru:

A) Persónuleg óvild er undirrót flestra óánægjuraddanna, og því ber ekki að svara þeim.

B) Sigurður Líndal hefur sjálfkrafa rangt fyrir sér fyrir að nefna nasisma á nafn (því  hann sagði að vinnubrögðin minntu á Þýskaland í upphafi nasismans). Þar með eru öll hans rök ógild, og því ber ekki að svara þeim.

Er þetta málefnalegt? Hvað með að svara spurningum Þarfagreinis, og hætta þessu yfirklóri?

Einar Jón, 17.1.2008 kl. 10:10

16 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Einar Jón. Það var ekki það sem ég átti við. Björn telur að Sigurður væri að hvetja til dómstólaræðis, ekki þingræðis. Það er í sjálfu sér réttmæt gagnrýni, en ég er henni reyndar ekki sammála. Dómstólar eiga ekki að vera afgreiðslustofnanir fyrir framkvæmdavaldið, heldur eiga að hafa ákveðið sjálfstæði og frumkvæði, en frumkvæðið, sem Björn vill alls ekki að dómstólarnir sýni, er vandmeðfarið.

Gestur Guðjónsson, 17.1.2008 kl. 10:21

17 Smámynd: Einar Jón

Gestur: Ég er að mestu leyti sammála. En Björn er að hvetja til "ráðherraræðis", þar sem hann segir berum orðum að ráðherrar eigi bara að gera það sem þeim þettur í hug, og svo sé það bara á valdi kjósenda að stramma þá af á 4 ára fresti. Yeah.. right!

Ef dómstólar eru valdir af sitjandi meirihluta, án nokkurs tillits til annars, gef ég lítið fyrir sjálfstæði þeirra.

Einar Jón, 17.1.2008 kl. 10:37

18 identicon

domaraskipan.net

domaraskipan.net (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 11:11

19 Smámynd: Þarfagreinir

Það er óþarfi að ræða málið frekar á þessum nótum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er svo gott sem búinn að viðurkenna, hvaða hugmyndafræði lá að baki skipun Þorsteins og allra hinna.

Næsta spurning er hvort þjóðin ætli að styðja þessa hugmyndafræði! 

Þarfagreinir, 17.1.2008 kl. 11:41

20 Smámynd: Þarfagreinir

Og já - Gestur, þú gerir þér engan vegin grein fyrir alvarleika þessarar hugmyndafræði, og hversu mikið hún miðast við að algjörlega afmá þrískiptingu valdsins! Ég ætla rétt að vona að þú áttir þig á þessu fyrr eða síðar!

Þarfagreinir, 17.1.2008 kl. 11:43

21 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þarfagreinir: Ég er alls ekki að verja eða lýsa því að ég sé sammála Birni. Ekki á nokkurn hátt. En hann gerir þó, einn Sjálfstæðismanna, tilraun til að verja málið með rökum. Rökum sem mér hugnast engan veginn. En hann svarar þó málefnalega. Það er virðingarvert.

Gestur Guðjónsson, 17.1.2008 kl. 16:11

22 Smámynd: Þarfagreinir

Gott að fá þetta á hreint, Gestur. Afsakaðu misskilninginn.

Og já, það er gott að menn skuli þó koma svona hreint fram.

Þarfagreinir, 17.1.2008 kl. 16:20

23 Smámynd: Yngvi Högnason

Mig langar til að fá að vita hvaða máli það skiptir hinn almenna borgara hver er dómari, orkumálastjóri eða eitthvað annað. Þetta skiptir líklega eingöngu þann sem að ráðinn er, einhverju.Ég vill ekki gera neinn greinarmun á þessu fólki varðandi hæfi eða ekki hæfi. Mér finnst að þessi geðhræring út af dómaranum sé að mestu vegna þess að hann er Davíðsson og nefuppáfitjun út af ráðningu í orkumálstjórann sé vegna þess að ekki var ráðin kona. Ísland er og verður um sinn land kunningsskapar, þar sem fólk er ráðið til starfa eftir því hvern það þekkir, þó að ekki sé verra að hafa próf og reynslu eftir þörfum. Í stuttu máli: Ísland er bananalýðveldi þar sem að ráðið er í stöður pólitískt og ef að stjórn hér í dag væri önnur en að hún er, þá væru bara aðrir að nöldra og hneykslast yfir öðrum úrslitum í þessum mannaráðningum.

Yngvi Högnason, 17.1.2008 kl. 18:35

24 Smámynd: Þarfagreinir

Yngvi - kemur það til dæmis ekki þeim við, í allra minnsta lagi, sem lenda fyrir dómi, hverjir dómararnir eru? Að það séu sem hæfastir menn? Auðvitað kemur það almenningi algjörlega við, hverjir eru ráðnir dómarar - og reiðin hefur ekkert með það að gera hver var ráðinn í þessu tilfelli. Það er grútþreytt klisja.

Þarfagreinir, 17.1.2008 kl. 18:41

25 identicon

Hvernig er þetta með ráðningu Þorsteins?

Kom í fréttum 20. desember að Þorsteinn væri ráðinn frá og með 1. janúar 2008. Hafði hann engan uppsagnartíma frá sínu fyrra starfi, sem ég hélt væri minst mánaðartími, eða var hann þegar búinn að segja upp  stöðunni svo hann gæti byrjað 1. jan. ´08?

Kunnið þið eitthvað um þessa hluti?

ee (IP-tala skráð) 17.1.2008 kl. 23:13

26 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er óvenjulegt að maður taki til starfa hjá hinu opinbera tíu dögum eftir að hann er ráðinn - sé hann á annað borð í öðru starfi fyrir. Löglegur uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, og í sumu tilvikum sex mánuðir.

Frá þessu má að sjálfsögðu gera undantekningar ef um semst milli vinnuveitanda og starfsmanns. En svona stuttur fyrirvari er yfirleitt ekki ... nema um sé að ræða ráðningu á einkamarkaði, og þá helst milli samkeppnisfyrirtækja, eða fyrirtækja þar sem ekki þykir samræmandi að einn maður sé viðloðandi bæði á sama tím.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.1.2008 kl. 23:28

27 identicon

Gefur þetta þér einhverjar hugleiðingar um hvort þörf sé fyrir því að athuga þetta nánar? Ég bíð ekki svars, en einhverra hluta vegna olli þetta hugleiðingum hjá mér.

ee (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 00:17

28 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ætli það sé ekki best að leyfa hverjum að hugsa sitt um þetta atriði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.1.2008 kl. 10:16

29 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég er dálítið hissa að sjá litla sem enga umræður um skipun Össurar á aldavini sínum í embætti orkumálastjóra um svipað leiti og Davíðsson var skipaður í sitt starf, en það er auðvitað allta annað mál.

Gísli Sigurðsson, 21.1.2008 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband