Ullað framan í landslýð
10.1.2008 | 17:56
Yfirlýsing matsnefndarinnar sem fjallaði um hæfi umsækjenda um tíðrætt héraðsdómarastarf sem hlotnaðist Þorsteini Davíðssyni er ekki aðeins skiljanleg viðbrögð við ráðningunni, heldur sjálfsögð.
Rökstuðningur Árna Matthiesen er hinsvegar furðulegur. Ekki er ég dómbær á meintar rangfærslur sem Pétur Kr. Hafstein fullyrðir að séu í yfirlýsingu ráðherrans. Mér nægir að horfa á þá staðreynd að matsnefndin áleit þrjá umsækjendur hæfari en þann sem ráðinn var - og að sá sem ráðinn var er sonur fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þaulsætnasta forsætisráðherra í íslenskri stjórnmálasögunni, núverandi Seðlabankastjóra.
Enn furðulegri fannst mér þó leiðari moggans í dag. Þar er nefndin snupruð fyrir að andæfa gjörðum ráðherrans og henni beinlíni sagt að hypja sig - hún eigi bara að segja af sér og þegja.
Já, það er hlaupin harka í varðliða gamla sjálfstæðisveldisins. Nú sýna þeir tennurnar - urra að almenningi og svara illu einu þeim sem vilja halda í nútímalegar leikreglur um fagleg vinnubrögð og óhlutdræg. Leiðarahöfundur bendir nefndarmönnum pent á það að álit þeirra hafi enga lagalega þýðingu - og ráðherra beri því engin skylda til þess að hlýða því.
En til hvers er þá verið að setja á fót faglegar mats- og dómnefndir, skipa þær virtustu fræðimönnum í hverri grein? Til þess að ráðherra geti skemmt sér við að nota svo vald sitt og hunsa fagálit? Það læðist að manni sá grunur að kannski sé nefndum af þessu tagi bara ætlað að vera leiðitamar afgreiðslustofnanir sem þjóna lund ráðherra á hverjum tíma. Kannski hefur aldrei verið ætlast til þess í alvöru að þær ynnu starf sitt af neinni alúð - því auðvitað getur verið gott fyrir ráðherrana að geta vísað í fyrirframpöntuð nefndarálit til stuðnings gjörðum sínum, hvort sem það eru mannaráðningar eða aðrar tiltektir.
Nú höfum við fyrir augunum eitt alversta dæmið um pólitíska misnotkun valds. Hér hefur einfaldlega verið ullað framan í landlýð. Og ef dómnefndin hefði ekki mótmælt þessu vinnubrögðum - þá væri illa komið fyrir íslenskri stjórnsýslu. Nóg er nú samt.
Nei - þetta er vont mál, hvernig sem á það er litið. VONT mál.
Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:21 | Facebook
Athugasemdir
Gleðilegt ár Ólína!
Er að mörgu leyti sammála þér, hef skrifað um þetta aðeins sjálfur. Hvað finnst þér hinsvegar um ráðningar iðnaðarráðherra í embætti ferðamála- og orkumálastjóra?
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 10.1.2008 kl. 18:28
Fínn pistill og er ég honum algjörlega sammála.
Varðandi rangtúlkanir Árna, þá hef ég gert þeim skil hér.
Þarfagreinir, 10.1.2008 kl. 18:39
Hefur ráðherra ekki síðasta orðið og hann hefur leyfi til að fara að sinni sannfæringu, er málið nokkuð flóknara en það ?
Ráðherra hefur skipunarvaldið og er ábyrgur fyrir sínum gjörðum - þannig hefur þetta verið og verður-alveg óháð stjórnmálaflokkum.
Er ekki var rétt að viðurkenna þetta og bara að sætta sig við það ?
Það verður aldrei svo að allir verði sáttir við hverja ráðningu ráðherra- það er alveg klárt.
Sævar Helgason, 10.1.2008 kl. 19:04
Sævar! Ég get aldrei sætt mig við að valdi sé misbeitt eins og gert er í þessu máli.
Helgi Viðar Hilmarsson, 10.1.2008 kl. 20:47
Mér finnst þetta hið vandræðalegasta mál. Finnst að það verði að fara að taka á þessum málum af einhverri alvöru, ekki bara mas og mas.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.1.2008 kl. 20:54
Sammála Ólína, svo hjartanlega sammála.
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.1.2008 kl. 22:39
Ráðherrar hverju sinni segja að hæfur hafi verið valinn. Okkur er sagt að við höfum ekkert fyrir okkur þegar við við teljum að embættaveiitingar séu pólitískar. En ég held ekki að "fólk sé fífl" og skal nefna dæmi.
Þrívegis síðustu áratugi hafa ráðherrar valið á milli þriggja hæfra manna til að stýra Veðurstofu Íslands eða spádeildar. Fyrst varð allt vitlaust þegar Framsóknarráðherra tók framsóknarmann fram yfir allaballa.
Síðan snerist þetta við þegar allaballaráðherra valdi fyrrnefndan allaballa sem yfirmann spádeildar.
Í þriðja sinn varð allt vitlaust þegar Alþýðuflokksráðherra valdi frambjóðanda flokksins sem Veðurstofustjóra.
Okkur var sagt að allar þessar ráðningar hefðu verið réttar og aðeins tilviljun hefði ráðið því að í öll skiptin valdi ráðherra flokksbróður. Okkur var nánast sagt að við værum fífl að halda öðru fram.
Allir mennirnir voru hæfir og ég hygg að allir hafi gegnt störfunum með sóma. Þeir voru og/eða eru allir góðir vinir mínir. Það finnst mér grátlegast af öllu því að ég get ekki samþykkt að endalaus fylgni á milli stjórnmálaskoðana ráðherra og þeirra sem þeir velja sé alltaf tilviljun.
Nú erum við með þrjár embættaveitingar á sama tíma og í öllum tilfellunum á það að vera tilviljun hvar í pólitíska litrófinu hinir ráðnu eru, en í öllum tilfellinum passar liturinn við ráðherrann. Og þegar við setjum spurningamerki við ráðningarnar eigum við víst að vera fífl.
Ef svo er hef ég verið fífl frá því að ég fór að fylgjast með pólitík fyrir 58 árum en allan þennan tíma hefur þetta verið í gangi. Til dæmis var manni sagt að það væri tilviljun þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skiptust á að hafa dómsmálin að enginn sýslumanna og bæjarfógeta landsins hefði aðra opinbera stjórnmálaskoðun en að vera annað hvort sjálfstæðismaður eða framsóknarmaður.
Ómar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 00:26
Verð að taka undir með þér Ólína varðandi þetta mál. Finnst viðbrögð ráðherra við yfirlýsingu nefndarinnar heldur sérstök, er jafnvel hálf smeyk við valdhrokann sem viðbrögð hans lýsa.
En langaði annars bara að óska þér og þínum liðsmönnum góðs gengis í kvöld
Kveðja,
Albertína Friðbjörg.
Albertína Friðbjörg, 11.1.2008 kl. 09:23
Hvergi í lögum er tekið fram, að ráðherra beri að ráða annann en þann, sem er talin ná hæfi af nefndinni.
Sú lenska að raða eftir hæfi er ekki bundið í lög en rökstuðningur um hæfi er í reglum, sem nefndinni ber að fylgja.
Ráðherra hefur RÁÐNINGARVALDIÐ í þessu tilfelli en ekki bara STAÐFESTINGARVALD.
Ef menn vilja breyta þessu, verða þeir að koma því í gegnum Alþingi með lögum, þangaðtil verður þetta svona.
Líttu til ,,þíns" ráðherra í hans skipunarmálum. Hvurgi gekk hann í bág við flokkslitinn þar, blessaður.
Þessi kækbundnu upphlaup ykkar þarna á ,,vinstri vængnum" er ekki bara hvimleið, heldur alls laus við samfellu, þið hamist gegn frómustu mönnum í öðrum flokkum en kjósið að setja kíkinn fyrir staurblinda augað, þegar ykkar ráðningar eiga í lut.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 11.1.2008 kl. 11:18
smá leiðréttin á texta (3) :
Þarna átti að standa
"Ráðherra hefur skipunarvaldið og er ábyrgur fyrir sínum gjörðum - þannig hefur þetta verið og verður-alveg háðir sínum stjórnmálaflokki."
Sævar Helgason, 11.1.2008 kl. 11:19
Er ekki einfaldlega treyst á að ekkert verði gert í þessu og málið löngu gleymt fyrir næstu kosningar?
Hrannar Baldursson, 11.1.2008 kl. 15:32
Ykkar og okkar ráðningar - þarna hittir "miðbæjaríhaldið" naglan á höfuðið og skammast sín ekki einu sinni. Ég er hægri maður, en mér ofbíður samt þessi gjörningur Sjálfstæðismanna, og ekki sýst viðbrögð ráðherrans við gagnrýninni. Mér finnst heldur ekki hægt að bera saman ráðningar Árna og Össurar, og enn síður viðbrögð þeirra við gagnrýninni, Össur getur réttlætt sínar ráðningar meðan Árni getur bara kvartað yfir "frekjunni" í nefndinni.
Hörður Bragason (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 15:49
Já, það hefur margoft verið minnst á VALDIÐ í þessari umræðu - valdið liggur auðvitað hjá ráðherra. En vald er vandmeðfarið og því fylgir ábyrgð. Þó að maður hafi vald til að hygla sínum - er það þá náttúrulögmál að maður VERÐI að nota það? Ekki finnst mér það - en mér er ljóst að þeir finnast enn sem eru annarrar skoðunnar.
Þeir sem spyrja hér um afstöðu mína til nýlegra ráðninga iðnaðarráðherra geta lesið nýlega bloggfærslu mínar um þær.
Hæfir menn eiga auðvitað ekki að gjalda þess þó þeir séu með ráðherra í flokki eða synir feðra sinna - þeir eiga hinsvegar ekki að njóta þess neitt sérstaklega heldur. Það er mín skoðun.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.1.2008 kl. 16:06
Og Össur tekur undir bullið í 24 stundum í dag ;(
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 12.1.2008 kl. 11:37
ÆÆ...
Nú er ég ekki sammála.
Nefndinni var ætlað að gefa umsagnir um umsækjendur. Um það er ekki ágreiningur. - Hún gerði það.
Ráðherranum var ætlað að ráða í starfið. Um það er ekki ágreiningur. - Hann gerði það.
Og mikið væri vinnumarkaðurinn skrautlegur ef allir gætu valið sér vinnufélaga og/eða stéttarfélaga.
Hér er mál að linni.
Mér bauðst að gera athugasemd við þetta blogg. Um það er vonandi ekki ágreiningur. - Ég gerði það.
Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.