Atvinna fyrir (k)alla?
18.10.2007 | 16:38
Hvað er að gerast þegar efnt er til málþings um "atvinnu fyrir alla" og þar er boðið upp á kynjahlutfallið 2/17 í hópi framsögumanna á þinginu - konum í óhag? Hvað er að gerast í höfði þeirra kvenna sem standa að skipulagningunni? Já, þið trúið því kannski ekki - en það eru konur sem eiga "veg og vanda" af þessari skipulagningu.
Um er að ræða málþing sem verður haldið nú á laugardag, að tilhlutan bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Því mun ætlað að varpa ljósi á ýmsa vaxtarbrodda í atvinnulífi Ísafjarðarbæjar meðal annars, og þá möguleika sem eru fyrir hendi til að efla Ísafjarðarbæ sem miðstöð þekkingar og þjónustu á Vestfjörðum eins og segir í frétt um þingið. En hverjir eru þessir allir sem þingið á að höfða til?
Samkvæmt auglýsingu sem nú hefur verið dreift verða framsögumenn þingsins sautján: Þar af fimmtán karla og tvær konur. Já, TVÆR konur! Ef með eru taldar þær konur sem stjórna fundinum, og ein sem ávarpar gesti í upphafi hans, mætti með góðum vilja teygja hlutfall kvenna upp í 5/20, eða fjórðung. Slíkur útreikningur væri þó ofrausn, eðli málsins samkvæmt.
Hafa konur þá ekkert fram að færa í umræðunni um atvinnulíf staðarins? Eru þær ekki þátttakendur í ísfirsku atvinnulífi? Jú, fyrirgefið: Tvær hafa víst eitthvað til málanna að leggja. Nei, annars, bara ein því hin kemur ekki úr ísfirsku atvinnulífi hún er sérfræðingur að sunnan.
Því hefur verið haldið fram í mín eyru að konur séu ekki eigendur eða stjórnarformenn atvinnufyrirtækja; þær séu ekki ráðandi í sjávarútvegi og verktakastarfsemi og því hafi þetta bara komið svona út. Umrætt málþing sé einfaldlega spegill þess samfélags sem við búum við, og við þessu sé ekkert að gera.
Því er til að svara, að ef ekki er hægt að skipuleggja málþing um atvinnulíf á Ísafirði þannig að það endurspegli þá sem eru þátttakendur á vinnumarkaði þá er nálgun skipuleggjendanna RÖNG.
Konur eru helmingur þátttakenda á vinnumarkaði. Við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá þessar konur hér á Ísafirði sem annarsstaðar. Þær reka verslanir í bænum. Þær eru forstöðumenn stofnana og stoðþjónustu, stýra mikilvægum menntastofnunum jafnt opinberum sem einkareknum. Þær reka listastarfsemi og handverksmiðstöðvar. Þær eru uppistaða alls fiskvinnslufólks. Þær eru fyrirferðarmiklar í veitingarekstri, halda uppi þjónustu á leikskólunum og sjúkrahúsunum. Þær eru með öðrum orðum meginþorri allra þeirra sem starfa að verslun og þjónustu, auk þess að vera margar hverjar virkar á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Margar þessara kvenna hafa verið virkir þátttakendur í opinberri umræðu , félagsstörfum og menningarlífi og þar með átt sinn þátt í því að gera þetta byggðarlag svo mannvænt sem það er.
Það er því nöturlegt að á þaulskipulögðu málþingi um atvinnumál á Ísafirði skuli konum ekki ætlaður stærri hlutur í umræðunni um atvinnulíf staðarins og möguleika þess, en raun ber vitni. Er þetta málþing þó að stærstum hluta skipulagt af konum, m.a. tveim kvenbæjarfulltrúum sem komu fram á blaðamannafundi ekki alls fyrir löngu. Þar upplýstu þær að þingið ætti ekki hvað síst að leiða í ljós hversu gott er að búa í Ísafjarðarbæ.
En hversu gott er fyrir konur að búa í bæjarfélagi þar sem rödd þeirra er þögguð? Hversu góð tilfinning fylgir því að vera kona í bæjarfélagi þar sem konur við völd koma ekki auga á aðrar konur sem hafi eitthvað til málanna að leggja? Hversu heilbrigt er það bæjarfélag þar sem horft er framhjá konum sem þátttakendum í atvinnulífi og opinberri umræðu?
Nógu lengi höfum við íslenskar konur barist fyrir þeim mannréttindum að vera metnar jafningjar karla á vinnumarkaði, í stjórnmálum og opinberu lífi. Í því skyni höfum við margar hverjar a.m.k. viljað styðja aðrar konur til áhrifa. Og víst er að nógu margar konur hafa höfðað til kvennasamstöðunnar þegar þær hafa boðið sig fram til sveitarstjórna og alþingis. Meðal annars þær konur sem nú hafa - á því herrans ári 2007 - skipulagt málþing á Ísafirði um atvinnu fyrir "alla" (lesist: kalla).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:46 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa athugasemd, þetta er alvöruvandamál - sérstaklega í allri umræðu um atvinnumál á landsbyggðinni er alltaf eins og sá sem vantar vinnu fyrir hljóti að vera karlmaður á fertugsaldri með grunn- eða framhaldsskólapróf
Guðrún Helgadóttir, 18.10.2007 kl. 16:43
Heyr heyr Ólína.
Er þá ekki næsta skref að vippa einu málþingi samhliða hinu um atvinnulíf kvenna á staðnum?
Margrét (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 17:31
Það var líka það fyrsta sem mér datt í hug við lesningu þessa pistils, HEYR HEYR mikið er það magnað að það eru einhverjir á vaktinni, það er svo auðvelt að láta þetta framhjá sér fara vegna vanans sem er karlmenn + kona!
Pistillinn er sterkur og góður, lengra vildi ég að hann færi sem dæmi um ákveðna sefjun. Takk fyrir.
Edda Agnarsdóttir, 18.10.2007 kl. 17:45
Góður pistill, tek undir með Eddu, þessi pistill þarf að fara lengra.
Ásdís Sigurðardóttir, 18.10.2007 kl. 20:43
Ég er svo algjörlega kjaftstopp, bálill og stórhneyksluð og svo er ég hrygg ofan í allar hinar tilfinningarnar. Hvað er í gangi? Höfum við konur ekkert lært?
Svei mér ef það er ekki hugmynd að stofna hliðarþing við þetta k(alla)þing, þar sem konur eru með í alvöru og af fullum þunga.
Arg,
Takk fyrir Ólína, þessa færslu ætti Mogginn að birta, öllum lesendum sínum til fróðleiks.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.10.2007 kl. 22:11
Orð í tíma töluð Ólína... það má aldrei slaka á... aldrei fara úr gírnum... því þá geta slys sem umrætt málþing verður að teljast, orðið..., höldum áfram að minna hver aðra á.
Baráttukveðjur að austan frá Jónínu Rós
Jónína Rós Guðmundsdóttir, 18.10.2007 kl. 22:19
Nú er ég hissa. Og þó ekki. Hvað sagði Salvör í gær? Konur þurfa að láta til sín taka í stjórnmálum. Þær þurfa að vera sjáanlegri. Það á greinilega líka við í svona tilvikum. Hvað er þetta? Er þetta hæverska? Trúum við því ekki að við höfum eitthvað fram að færa? Það er sláandi að sjá þessa upptalningu hjá þér, hvað varðar viðkomu kvenna í atvinnulífi bæjarins, og svo hutfallið í kynjaskiptingu framsögumanna. Mér þykir þetta benda til minnimáttarkenndar kvenna. En kannski er það líka bara; margur heldur mig sig. Því ég á það til að hugsa svona sjálf.
Jóna Á. Gísladóttir, 18.10.2007 kl. 23:00
Ég verð nú að segja að ég skil ekki argumentið, með fullri virðingu fyrir þér. Er gefið að karlar með framsögu, séu hlutrægir um hag karla?? Ég botna ekkert í þessari kynjabundnu aðskilnaðaráráttu. Það er klifað á hlutfalli kvenna í áhrifa og stjórnunarstöðum en aldrei minnst á hlutföll í "óæðri" störfum. Mér finnst þetta óttalegt mjálm og finnst að konur geti tekið sig saman um sérsniðin málþing fyrir sína hagsmuni, fyrst þeir eru svona aðskildir og þetta stóra samsæri karlanna meinar þeim sanngirni. Ég sé ekkert uppbyggilegt til lausnar með svona tali.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2007 kl. 23:59
óbbobbbobbobb. Sko móðir mín ( búsett fyrir sunnan) og orðin frekar öldruð. Kaus Kvennalistann og Kvennaframboðið( 1980 ) sagði við mig í símann í dag að hún væri ekkert hissa. " Við eigum ennþá langt í land.! " Hlýtur að þekka söguna.
Alveg típískt að væna Ólínu um að fá ekki að vera með ! Líklega of pólitísk eða gift röngum pólitíkus, enda er HANN frummælandi.
Konur eru konum verstar segir einhversstaðar og það eru 2 konur sem sjá um þetta málþing.
Frekar hallærislegt þing þar sem karlar mæra eigin verk í stofnunum sínum, sbr. Matís, Háskólasetur ,Ísafjarðarbærog HAFRÓ af öllum, og fl.
Hvernig ætlar hafró að flytja erindi sem heitir atvinna fyrir alla, þegar þeir hafa stuðlað að atvinnuleysi með niðurstkurði á þorskiveiðikvóta og ýmsir , eins og Eskja hafa boðað lokun frystihúsa.
Af því Ólína er fyrir ljóðin
Atvinna fyrir alla....
Ekki konur -bara kalla
Konur sitjum hjá ----saman
þetta er ekki gaman .
Konur ekki til margs hluta brúklegar .
Mega vera fundarstjórar, hella uppá kaffið og sjá um kokkinn.
Guðfinna og Áslaug þó vænlegar.
Enda löngu gengnar í Sjálfstæðisflokkinn.
Kona á Ísafirði (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 01:20
Ég er sammála þér Ólína. það virðist ekki vera litið á reynslu okkar og þekkingu sem eitthvað sem læra má af eða eitthvað sem skiptir máli. Ef tilgangurinn með svona málþingum er að efla atvinnulífið hérna og virkja kraftinn í þeim sem hér búa er lágmarkið að safna saman því fólki sem hefur látið til sín taka í atvinnulífinu.
Það að svona fáar konur komi fram á þessu málþingi endurspeglar engan veginn atvinnulífið hérna.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 19.10.2007 kl. 01:31
Þetta er ákkúrat ástæðan fyrir því að enn er þörf fyrir sérstökum kvennaáherslum hér og þar, eins og nýji sjónvarpsþátturinn þinn þar sem á að leita til kvenna sem álitsgjafa (sem mér finnst frábær hugmynd ). Við erum enn á þeim stað, allt of oft, að þegar er að gera eitthvað fyrir "alla" og kynjabreytan er ekki tekin með í reikninginn, þá verða þessi "allir" bara annað kynið. Reynum nú að ímynda okkur að skekkjan væri annars staðar en varðandi kyn, t.d. að allir framsögumenn kæmu úr einum geira atvinnulífsins, en samt væri þingið auglýst sem almennt þing þar sem fjalla ætti um atvinnumál á staðnum. Þætti ekki flestum það skrýtið ?
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 07:43
Eiga konur ekki bara að sinna þeim hlutverkum sem þær voru skapaðar til? Þær sem eiga börn geta gjörið svo vel og verið heima að ala þau upp, semsagt sleppt því að mennta sig og sækjast eftir starfsframa, og þær sem eiga ekki börn geta leikið í klámmyndum eða erótískum auglýsingum fyrir karlmenn? Yrðu þá ekki allar sterítótýpurnar hamingjusamar? smá spaug hérna, en miðað við þessar sorglegu aðstæður verður maður nú aðeins að létta sig upp
Annars finnst mér skrítið að karlmennirnir sem hafa skrifað hérna séu svona langt á eftir einsog komment þeirra bera með sér. Öllu má nú ofgera, meira að segja jafnrétti, en ef þeir og aðrir koma ekki auga á fáránleikann í uppsetningu þessa málþings miðað við atvinnumálin í bænum þá er ENNÞÁ mjög mikið að, meira en m.a ég er tilbúin til að horfast í augu við. Það er svo barnaleg einföldun og óþolandi klisja að "besta fólkið er valið" það er næstum ALDREI rétt (t.d fulltrúar í flestöllum bæjarstjórnum og á þingi, ég bendi hiklaust á þau sem sönnun þess sem ég er að halda fram), ég myndi skammast mín ef ég væri orðinn fullorðinn og væri ennþá að hafa þessa klisju eða annað álíka yfir! Gott hjá þér Ólína að vekja athygli á þessu, þú átt heiður skilinn.
halkatla, 19.10.2007 kl. 08:26
nei heyrðu ég var að fatta dáldið, konurnar sem hafa eitthvað um atvinnumálin á vesturlandi að segja voru auðvitað allar spurðar hvort þær vildu tala, en þær voru bara alltof hræddar greyin til þess að koma fram á ráðstefnunni, enda viðkvæmar og feimnar einsog konum sómir. Best að vera pólitískt rétthugsandi hérna
halkatla, 19.10.2007 kl. 08:40
heyr heyr - engu við að bæta, sammála þér og öllum hér að ofan ...
Ester Rut Unnsteinsdóttir, 19.10.2007 kl. 10:00
Það veist þú ekkert um Jóhann Örn - og þú ættir ekki að vera með skæting og dylgjur. Þetta kynjahlutfall er hneyksli og það ættu menn bara að viðurkenna, en vera ekki með meiningar um Ólínu eða aðrar konur sem geta ekki orða bundist. Takk Ólína fyrir að vekja máls á þessu, það er full ástæða til.
Helga Kristín (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 13:21
Þið fyrirgefið - en mér finnst þessi umræða vera farin að fara aðeins út fyrir sig.
Jóhanni Erni er mikið í mun að vita hvort ég er með framsögu á þinginu. Því er fljótsvarað: Svo er ekki.
En skiptir það máli? Það hefur a.m.k. ekki nokkur áhrif á mína afstöðu til Þessa máls hverjir tala þarna og hverjir gera það ekki. Þarna er margt ágætis fólk með framsögur, m.a. maðurinn minn.
Hið óeðlilega kynjahlutfall er hrópandi eftir sem áður.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.10.2007 kl. 15:58
Er ekki sagt að konur séu konum verstar?
Gísli Bergsveinn Ívarsson, 19.10.2007 kl. 17:24
Leitt að jákvætt framtak og viðleitni til bóta í atvinnuuppbyggingu, skuli drukkna í svona metingi. Skyldi ástæðan fyrir þessum kynjahalla vera körlum eða konum að kenna? Mér finnst þetta fórnarlambatal ekki hjálpa konum í að hasla sér völl í atvinnulífinu. Þvert á móti.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.10.2007 kl. 19:52
Á mínum vinnustað er ég eina konan í 12 manna stjórnunarteymi. Fleiri konur gætu þar starfað en hafa ekki sóst eftir því vegna þess að það kostar það að vera ekki endilega laus á mínútunni kl 17, 18 eða 19 nokkurn einasta dag.... Ábyrgðinni fylgja kvaðir sem þær margar hverjar vilja einfaldlega ekki taka að sér. Konur forgangsraða sjálfar upp sínum áherslum held ég, ekki síður en karlar. Í mörgum tilvikum eru konur ekki framar einfaldlega vegna þess að þær sækjast ekki eftir því, segi það og skrifa og hef nógu lengi barist fyrir mínu og það í karllægu starfsumhverfi til að hafa vel efni á að segja þetta.
En því miður er það svo enn þann dag í dag á 21.öldinni að konur fá ekki sömu tækifæri (í sumum starfsgreinum frekar en öðrum) til að komast áfram eins og karlar fá, og kannski ekki síst er það "ergilegt" að til þess að fá tækifæri þurfa þær að margsanna hæfni sína enn frekar en karlar þurfa að gera og það er hrópleg ósanngirni.
Vanhæf kona fær sjaldnast eftirsótta stöðu, en vanhæfir karlar fá það oft
Marta B Helgadóttir, 20.10.2007 kl. 00:28
Sammála Marta! Ég segi eins og Germaine Greer: "Þann dag sem það verður jafn sjálfsagt að ráða vanhæfa konu í starf eins og það er að ráða vanhæfan karl - þann dag er fullu jafnrétti náð!"
Og Jón Ragnar - hvaða "meting" ert þú eiginlega að tala um ? Mér blöskrar að þú skulir stilla málinu upp með þessu hætti. Og "fórnarlambatal"? Hvurskonar málflutningur er þetta eiginlega?
Staðreyndirnar tala sínu máli. Fimmtán karlar, tvær konur - á málþingi sem ber heitið "atvinna fyrir alla".
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.10.2007 kl. 02:09
Fyrirgefðu Ólína mín, en það sem ég las út úr þessu var að það væri nánast eitthvað samsæri í gangi gegn konum í þessu samhengi. Þetta er staðan. Fleiri konur komu ekki fram þegar leitað var eftir frummælendu, er það ekki? Og er það eitthvað í þessu málþingi sem slíku, sem var gegn hagsmunum kvenna þegar litið er efnislega á erindin? Ég sá þetta sem jákvætt framtak og að karlar geti vafalaust drepið á efnum, er varða konur í þessum málaflokki. Ég ætlaði nú ekki að gera þig reiða eða láta þig blöskra, heldur lýsi ég skilningi mínum á framsetningu þinni og fannst hún skjóta skökku við. Það er ekkert samsæri í gangi og ekki verið að mismuna konum vísvitandi. Ég sé annars lítil tengsl milli þvingaðs kynjakvóta og jafnréttis og ég held að þið verðið að viðurkenna að konur eru bara ekki komnar lengra á veg í stjórnsýslu og atvinnurekstri, enda baráttan ung. Ég held að skilyrðin séu til í dag fyrir meiri jöfnuði á þessum sviðum en að konur hafa bara ekki tekið betur við sér enn. Það stendur þó allt til bóta skilst mér, en framrásin hlýtur að vera í höndum kvenna sjálfra og frumkvæðis þeirra. Kannski skortir enn upp á innbyrðis hvatningu og stuðning í hópi kvenna. Ég veit það ekki en vísa bara til gruns. Mér blöskrar nú bara sjálfum þessi Grýluvæðing karla og finnst þú hefðir mátt skammast í kynsystrum þínum fyrir framtaksleysið.
Ráðstefnan er hins vegar ábyggilega þörf og ég er viss um að eitthvað gott kemur út úr henni fyrir bæði kynin og jafnvel mun halla á karlkynið þegar upp er staðið. VArla tímabært að skera úr um það í bili.
Svo heiti ég Jón Steinar. (Allt í lagi, það eru margir sem gera þessi mistök)
Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 02:31
Fyrirgefðu Jón Steinar að ég skyldi misfara með nafnið þitt - það var óviljandi.
En satt að segja fannst mér þú leggja undarlega út af orðum mínum. Gagnrýni mín felur ekki í sér neinar samsæriskenningar. Það er ekkert leyndarmál að umrætt málþing (þaðan sem ég var að koma rétt í þessu) var skipulagt af konum, ekki körlum. Því sárgrætilegri var þessi niðurstaða með kynjahlutfall framsögumanna.
Þegar um er að ræða íbúaþing, eins og þetta, sem á að fjalla um hagsmuni allra samfélagshópa og höfða til þeirra líka - þá vantar mikið ef konurnar vantar. Og því miður þá vantaði ekki bara konur í hóp framsögumanna á þessu þingi - þær mættu ekki heldur, nema sárarfáar. Ég skil fjarveru þeirra vel - ég var sjálf efins í þvi hvort ég ætti að mæta. Gerði það meira af skyldurækni en löngun - því miður.
Mér reiknaðist til að um fjórðungur fundarmanna hefðu verið konur - það segir sig sjálft að það er skaði fyrir þingið og þau málefni sem því var ætlað að fjalla um að konurnar skyldi vanta. Því auðvitað á umræðan erindi við alla.
Það er augljóst að ég er ekki sú eina sem mislíkaði hvernig að þessu var staðið.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.10.2007 kl. 17:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.