"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"
7.10.2007 | 20:32
Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.
Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.
Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð".
Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):
- Er það satt þig velgi við
- vinur, íslenskunni,
- og haldir lítinn herrasið
- hana að bera í munni?
Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:
- Íslenskan er eitt það mál
- sem allir lærðir hæla
- og aldrei mun þín auma sál
- annað fegra mæla.
Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.
Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...
- móðurmálið mitt góða,
- hið mjúka og ríka,
- orð áttu enn eins og forðum
- mér yndið að veita.
Vituð ér enn - eða hvað?
Verzló vill fá enska námsbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bloggar, Bækur, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:18 | Facebook
Athugasemdir
Ekki vil ég að íslenskan verði sett til hliðar. Hún er og verður okkar mál, eða eins og segir " Á íslensku má alltaf finna svar/og nefna stórt og smátt sem er og var/ og hún á orð sem geyma gleði og sorg/ um gamalt líf og nýtt í sveit og borg. Er samt ekki alveg viss um að þetta sé hárrétt tilvitnun hjá mér, þú leiðréttir mig þá. Kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 7.10.2007 kl. 20:39
Ég er mjög sammála þér í þessu, íslenskan er ein okkar dýrmætasta arfleið og þykir það merkilegt úti í hinum stóra heimi að þessi litla þjóð á lítilli eyju eigi og tali sitt eigið tungumál.
Mín skoðun er að það þurfi einmitt að efla íslenskukennslu og þá aðallega málnotknun til muna í skólum því að sjá og heyra ungt fólk tala og skrifa í dag (og er ég nú rétt ríflega 2ja tuga gömul) á einhverju ísl-ensku blandi og alveg hryllilega afbakað finnst mér ömurlegt. Svo er nú til dæmis farið að bera á þessu töluvert í fjölmiðlum...eða hvort ég er bara að taka eftir því núna, en það er mjög algengt að sjá stafsetningarvitleysur eða öfugsnúnar setningar á þessum miðlum á netinu.
Eins finnst mér að það ætti að skylda alla atvinnurekendur sem ráða til sín erlent vinnuafl, sérstaklega í þjónustugeiranum, til að kosta til grunn íslenkunám fyrir þá sem þurfa og ná ekki einhverju stöðuprófi í íslensku. Þetta er svona í mörgum erlendum háskólum að fólk verður að standast svona stöðupróf í tungumálinu til að komast inn. Þetta myndi hjálpa starfsmanninum líka mikið til að aðlagast og komast inn í starfið. Ég vinn mjög mikið með erlendu vinnuafli og það getur verið alveg hrikalega erfitt fyrir þá og mig að skilja hvort annað.
Eitt sem ég skil heldur ekki alveg, afhverju þurfum við alltaf að sleikja kanann svona upp? Maður fær nú alveg nóg af því.. eru ekki mörg önnur tungumál en enskan innan viðskiptaheimsins sem við lærum aldrei staf í? Til dæmis rússnenska, spænska eða japanska? Held að fólk í skóla í dag læri það mikla ensku frá því í 5.bekk og uppúr að það sé orðið vel málvant og eigi bara að geta notað bæði íslensku og ensku þegar þörf er á án þess að þurfa að taka til svona aðgerða inan stofnanna.
Svo finnst mér svolítið fyndið og kaldhæðnislegt að skólinn sem fer fram á þetta er einnig íhaldssamur og heldur í gömlu zetuna...sem fyrir löngu síðan var "alþjóðavædd" og lögð niður. Afsakaðu lengdina á þessu hjá mér... þetta er greinilega hjartans mál :)
Ásta Hrönn (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 22:08
Tek undir það sem sem þú segir, og við þurfum að efla kennslu í íslensku.Á 18 öld var litið niður á íslenskuna af Dönum,jafnvel þá reyndi íslenskur almúgi að halda málinu við.
María Anna P Kristjánsdóttir, 7.10.2007 kl. 22:35
Kæra Ólína
Enn og aftur þakkir fyrir góðu pistlana þína. Það er skemmtilegt að fá stuttar en áhugaverðar sögur af fornum atvikum sem hægt er að tengja nútímanum. Tilvitnun þín frá Bjarna frá árinu 1771 er einmitt þannig. Það er ákaflega mikilvægt að geta rýnt í nútímann með því að skilja hvað sé sambærilegt fortíðina. Hefur þetta gerst áður? Hvaða rök voru þá uppi? Hver var niðurstaðan þá?
Á ekki ferskeytla Stephans G. Stephanssonar vel við um íslenskuna sjálfa í nútímanum:
Ellihnignun hrærir mig.
Heilsubrestur tærir mig.
Áhyggjurnar æra mig.
Erfiðleikar særa mig.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um fávísi þeirra sem ræða að leggja íslenskuna til hliðar. Þar er ekki verið að hugsa um hagsmuni allra, heldur einungis afar fáa. Þetta snýst um að lífið er auðvitað ríkara ef íslenskunni er gert hátt undir höfði; án hennar er allt fátækara: menning, ritmál og menn.
Með kveðjum
Hallgrímur Óskarsson
Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 00:51
Erum að koma Vestur með Bubba til að leita að nýjum söngstjörnum. Það verður sungið á íslensku. Einarshúsi, Bolungarvík á miðvikudagskvöldið: Kveðja.
Eyþór Árnason, 8.10.2007 kl. 01:33
Ég held að það megi ekki leggja að jöfnu praktíska notkun erlendra tungumála og sameiginlega ákvörðun um að leggja niður íslensku.
Í litla fyrirtækinu okkar höfum við haft þann sið að skrifa allar lýsingar, tækniskjöl og annað á ensku. Það gerum við vegna þess að reynslan hefur kennt okkur að í alþjóðlegu umhverfi er fyrr eða síðar þörf á þessum skjölum á ensku og talsvert vesen, umstang og vafstur fólginn í að þýða þau. Enn höfum við ekki rekist á það að íslenskir samstarfsaðilar geti ekki stafað sig fram úr þessu, þannig að þetta einfaldar okkur lífið.
Litla fyrirtækið okkar hefur hins vegar einnig komið að því að gera íslensku tölvutæka með því að standa að gerð íslensks talgreinis, sem er hugbúnaður sem gerir tölvum kleift að skilja talaða íslensku, sem og nýrrar íslenskrar tölvuraddar, sem gerir tölvum kleift að tala íslensku.
Notkun ensku sem samskiptamáls þýðir því engan veginn að íslenska sé sett til hliðar.
Á menntaskólaárum mínum þótti maður svalur ef maður hafði á takteinum fjölbreyttan orðaforða á íslensku, gæti brugðið fyrir sig kjarnyrtu nútímamáli þar sem staðfærð voru slanguryrði og gömul ónotuð orð fengu endurnýjun lífdaga. Man enginn lengur eftir því þegar menn fóru skyndilega að pæla í hinu og þessu?
Það skal hins vegar fúslega viðurkennt að rætnisfullar rægitungur, illkvittnar og illyrmislegar, létu skrifa í Faunu eftirfarandi tilvitnun í mig; Hver slettir mest í bekknum? Not me, kids.
Þórarinn Stefánsson (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 11:42
Ég er þér hjartanlega sammála Ólína og enn einn ganginn kemur þú með skemmtilegan vinkil í umræðuna. Ég elska pistlana þín kona. Já ég veit, ég er dramadrottning. Híhí.
Takk fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 14:06
Takk öll, fyrir góðar undirtektir við þessa færslu. Það eykur mér von og þrótt í málflutningnum
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.10.2007 kl. 14:30
Tafist hefur að tala við
á tungunni fögru minni
þig að blíðum sveitasið
í sænginni mjúku þinni.
Steini Briem (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 16:03
Vaaáá!
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.10.2007 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.