Ekki batnar það.
23.8.2007 | 11:23
Ekki batnar málstaður Selfosslögreglunnar eftir að lögfræðingur konunnar hefur komið nánari upplýsingum til fjölmiðla um tildrög þvagleggsmálsins, sbr. þessa frétt á RÚV (http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item167229/) Þó að sýslumaður hafi komið sínum sjónarmiðum að í gær - er of mörgu ósvarað enn um framgöngu þeirra sem stóðu að hinni umdeildu þvagsýnistöku: 1) Hvers vegna kom lögreglan konunni ekki undir læknishendur eftir að ljóst var að hún hafði misst stjórn á bíl sínum þannig að hann hafnaði utan vegar? Er það ekki lögbundin borgarleg skylda að aðstoða fólk á slysstað og koma því undir læknishendur - jafnvel refsivert að láta slíkt undir höfuð leggjast? 2) Hvers vegna fékk konan ekki lögmann um leið og hún óskaði þess? Eru það ekki líka lögbundin mannréttindi þeirra sem hafna í höndum lögreglu að kalla til lögmann? 3) Var það ákvörðun sýslumanns að konan skyldi beitt valdi við töku þvagsýnis - eða tóku lögregluþjónarnir þetta upp hjá sjálfum sér? 4) Hver var hlutur læknis og hjúkrunarkonu sem nefnd hafa verið í þessu sambandi - voru þau einungis "viðstödd" eins og ráða mátti af orðum sýslumanns í gær, eða tóku þau þetta þvagsýni? 5) Fékk konan læknisskoðun vegna hugsanlegra áverka eða afleiðinga útafakstursins, eða voru læknir og hjúkrunarkona einungis kölluð til svo hægt væri að afla sönnunargagna úr líkama hennar? 6) Ekki hefur komið fram að dómur sé fallinn í ölvunarakstursmáli konunnar - sýslumaður hefur þó kveðið upp úrskurð í fjölmiðlum um sekt hennar. Fær það staðist réttarfars- og siðaregluna um að hver maður sé saklaus uns sekt hans sannast? 7) Á hvaða lagagrunni byggir ríkissaksóknari þá ákvörðun sína að vísa málinu frá án rannsóknar? Allar þessar spurningar lúta að grundvallarreglum réttarfars okkar - leikreglunum sem almenningur og opinberir þjónar hennar eiga að virða. Sýslumaður getur ekki látið þeim ósvarað. Ekki heldur lögreglu- og heilbrigðisyfirvöld þau sem bera ábyrgð á þeim aðilum sem komu að þessu máli. Viðkomandi siðanefndir verða að taka afstöðu til þess sem þarna átti sér stað. Það er ekki nóg að almenningur þekki ábyrgð sína og axli hana þegar út af bregður. Það verða hinir opinberu þjónar og yfirvöld einnig að gera. Ef ríkissaksóknari hunsar að taka mál þetta til rannsóknar eiga fulltrúar almennings - stjórnmálamenn og fjölmiðlar - að taka í taumana og rannsaka málið ofan í kjölinn. |
Athugasemdir
Mér þykir afar leitt að hafa í ógáti eytt öllum athugasemdum við þessa færslu. Ég var að reyna að leiðrétta tengilinn inn á fréttina í meginmáli færslunnar - og í því brasi eyddust út tíu athugasemdir.
Biðst velvirðingar - þetta var óvart.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.8.2007 kl. 11:25
Ég er svo sammála þér og skil hreinlega ekki þau viðbrögð sem meirihluti íslendinga er að sýna.... Mér finnst þetta skammarlegt og já kórinn ekkert betri.
Dídí (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 13:19
Heil og sæl, Ólína og aðrir skrifarar !
Gunnar Th. ! Athugaðu, hvað þú ert að garfa. Ólína er einfaldlega að opna augu fólks, fyrir ýmsum meinsemdum okkar samfélags. Eigum, að vera þakklát henni; fyrir vel rökstuddar greinar og skörugleik allann, ekki veitir af, á þessum göróttu tímum, Gunnar minn.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 14:25
Takk fyrir stuðninginn Óskar Helgi - verst að ég var búin að taka út athugasemdina hans Gunnars Th., - hún var of meiðandi. Ýmsar athugasemdir hans sjást þó enn undir færslu gærdagsins, þannig að menn geta kynnt sér þar hvað hann hefur haft til málanna að leggja.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.8.2007 kl. 14:32
Ólína - þetta er allt satt og rétt hjá þér. Það er með ólíkindum hve ófagmannleg vinnubrögð virðast á stundum vera hjá lögreglu þessa lands. Ástæður í mínum huga eru einfaldar: Það þarf að herða allt innra eftirlit - gera meiri kröfur og krefjast meiri menntunar. Eitt sinn var nóg að vera með hreint sakavottorð og vera 180cm á lengd - en eins og við vitum þá er greind ekki í hlutfalli við stærð!
Og til að ná þessu fram þá þarf að hækka laun þessa starfshóps - um er að ræða mjög krefjandi starf þar sem afleiðingar óvandaðra vinnubragða koma fram líkt og í þessu máli. Mér er líka óskiljanlegt hvaða læknir/hjúkrunarfræðingur tók þátt í þessum hryllingi fyrir austan fjall. Ömurlegt.
Þorleifur Ágústsson, 23.8.2007 kl. 14:48
Kæra Ólína
Takk fyrir að leggja fram þessar mikilvægu spurningar. Númer eitt í mínum huga er afhverju konan endaði í fangaklefa og var beitt ofbeldi af fulltrúum lögreglu fremur en að fá aðhlúningu og rannsókn á heilsugæslu/sjúkrahúsi. Ég er auk þess sammála nöfnu minni Önnu K, að mikilvægt sé að fylgja slíku máli eftir til að koma í veg fyrir að gengið verði lengra næst.
Anna Karlsdóttir, 23.8.2007 kl. 18:22
Aldrei skal ég styðja þá sem aka undir áhrifum áfengis, og allra síst þá sem bregðast við eins og bestíur. Að kunna ekki að skammast sín er ljótur löstur, og að sjá konur á borð við Ólínu Þorvarðardóttur taka upp hanskann fyrir þessa ógæfusömu stúlku, finnst mér sorglegt. Ég er búin að tjá mig á örðu bloggi um þetta mál, „http://hallarut.blog.is/blog/hallarut/entry/292778/#comments “ og ætla ekki að gera það hér. En ég held að þið séuð að hengja bakara fyrir smið.
Við munum aldrei geta stoppað ölvunarakstur, en við eigum að beita öllum þeim ráðum sem við höfum yfir að ráða til að sporna við því að það gerist. Við eigum heldur ekki að láta frekjudós komast upp með það að neita að gefa þvagsýni ef lögregla óskar eftir því. Það er ekki stór aðgerð og ekkert að óttast ef maður er saklaus. Ef konukindin hefði hagað sér eins og siðmenntaðri manneskju sæmir, þá hefði hún iðrast, skammast sín, og verið ein með lækni og hjúkrunarfólki.
Við getum ekki, og megum ekki gefa út þau skilaboð, að þegar við misstígum okkur, og jafnvel stofnum lífi og limum annarra í hættu, þá sé um að gera að henda sér í gólfið, öskra, hrækja og bölva nógu mikið, þá mögulega sleppi maður.
Mér finnst það svo ógeðfell, að umrædd kona hafi samúð þjóðarinnar, vegna þessa tiltekna atviks, að réttlætiskennd minni er misboðið.
Ég hef samúð með öllum siðblindingjum, því þeir vita oft ekki hvað er rétt og hvað er rangt.
Ég hef samúð með lögreglunni að lenda í því trekk í hvað, að lenda í svona fólki.
Mig langar hvorki að meiða né dæma neinn, en þeir sem hafa misst ástvini sína vegna ölvunarakstur, hafa varla samúð með þeim sem aka fullir og kunna svo ekki einu sinni að skammast sín.
Ég vona Ólína, að þetta komment sé ekki þannig vaxið, að þú sjáir þig knúna til að eyða því.
Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að ég hef af því áhyggjur.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.8.2007 kl. 18:23
Ingibjörg, ég sá alveg að þú beindir orðum þínum til Ólínu og veit alveg að hún getur svarað fyrir sig enn ég vil aðeins benda þér á að það er ekki verið að tala um að stoppa eða stoppa ekki ölvunnarakstur hedlur er verið að tala um aðferð.
Mér finnst fólk vera að velta þessum bolta svolítið útum allt, það fer ekkert á milli mála, að konan er beitt al-ofbeldi hvort það má eða ekki skiptir bara ekki máli það stafaði engum hætta af konunni hún var lokuð inni, hvurslags vinnubrögð eru það að setja upp þvaglegg um leið og staðið er í áflogum við konuna það eru einfaldlega til annarskonar vinnubrögð við þetta og marg hefur komið fram í umræðunni, það er einfaldlega málið.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.8.2007 kl. 18:37
Afsakið, ég sagðist ekki ætla að tjá mig hérna um þetta mál, en eins og svo oft áður, missti ég mig. Miðað við nýjar fréttir sem bárust frá Jylland póstinum, þá lifa eftirlátar konur skemur en hinar sem gefa hvergi eftir en standa á sínum.
Bíð ykkur í 100 ára afmælið mitt hér með.
sjá: http://fridust.blog.is/blog/fridust/
Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.8.2007 kl. 18:39
Högni, takk fyrir þetta. Ég er ekki að mæla þessarri aðferð bót. ALLS EKKI! En hvað er til ráða þegar fólk hagar sér eins og þessi kona. Við megum allsekki, að mínu mati, taka tilliti til ölvunar hennar, því Bakkus ber enga ábyrgð á þeim sem hans neyta.
Ekki mátti sprauta konuna niður, til að eyðileggja gögn. Ég er þess fullviss, að lögreglunni og þeir sem að þessu máli komu hafa ekki haft gaman afþ Ég þekki ekki þessa lögreglumenn, en ég er hef búið út á landi og ég veit um mörg tilvik þar sem lögreglan hefur orðið að beita ofbeldi, til að ná niður snældusnar brjáluðu fólki sem er stórhættulegt sjálfu sér og öðrum, og ég veit það að það er ekki vanþörf á því að veita þessum laganna vörðum áfallahjálp eftir útistöður við þessa brjálaðinga.
Mér finnst þessi umræða vera komin út af sporinu. Engin fjallar lengur um það að konan hefði getað drepið mann í stað þess að keyra útaf og skemma bílinn.
Lögreglunni bar skylda til að fá tekið úr henni þvagsýni, en þar sem hún gaf sig ekki.
Vill einhver segja mér, hvernig átti að fara að konunni?
Hættum að ráðast á lögregluna, styðjum hana, svo að fólk fari ekki að ímynda sér að sókn sé besta vörnin, þegar það hefur skitið upp á bak.
Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.8.2007 kl. 19:03
Hvaða aðferð átti að nota spyrðu, skoðaðu spurningarnar sem Ólína setur fram hér að ofan, það eru til lögmenn, sálfræðingar, læknar og allavega einn geðlæknir á Suðurlandi.
Það að hún hafi ekið undir áhrifum kemur þessari umræðu ekki við þ.e. hvort að þurft hafi ofbeldi gegn henni, spyrja mætti kanski hvort að þau hafi hist áður og annað hvort verið búið að fá nóg af hinu.
Veistu það Ingibjörg að ég held að lögreglan á Selfossi fá seint yfirgnæfandi stuðning Sunnlendinga.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.8.2007 kl. 19:57
Viltu kíkja á mitt blogg og hjálpa til! Please!!
Heiða B. Heiðars, 23.8.2007 kl. 20:41
Ólína, er enginn vafi í þínum huga að þessi kona segir allan sannleikann og ekkert nema sannleikann?
Það er nú ýmislegt í þessari frétt sem virkar ekki mjög trúverðugt. Hún segist aðeins hafa drukkið tvö rauðvínsglös áður en hún ók út af, en hafi síðan verið gefið meira áfengi eftir það. Ég trúi því ekki að það sé nokkur svo heimskur að fá sér áfengi eftir útafakstur þegar líklegt er að lögreglan komi á vettvang.
Svo segist hún hafa sturlast eftir að þvagleggurinn var settur í hana. En svo virðist sem hún hafi veitt talsvert mikinn mótþróa á meðan á því stóð.
Ég er ekki að réttlæta vinnubrögð lögreglunnar en gott væri að vita hvað satt er áður en farið er að fordæma.
Kristján Magnús Arason, 23.8.2007 kl. 21:01
Út frá þeirri einföldu staðreynd að lögreglumönnumum mátti vera það ljóst að um 100% líkur voru á því að ekki væri hægt að sakfella konuna fyrir ölvunarakstru án þvagprufu, hvað áttu lögreglumennirnir þá að gera þegar konan neitaði að gefa þeim þvagprufu? Hvað ætli væri sagt ef þeir hefðu ekki tekið þvagprufu og konan síðan verið sýknuð vegna þess að sú sönnun, sem hægt er að ná með þvagprufu er ekki fyrir hendi? Hvað ætli menn myndu síðan segja ef konan dræpi einhvern eða limlesti næst þegar hún æki full? Ætli menn myndu þá ekki fordæma lögreglumennina fyrir að taka ekki á máli hennar þegar færi var á?
Sigurður M Grétarsson, 23.8.2007 kl. 22:12
Sigurður ef að þessi einstaklingur er gjörn á að keyra full þá skiptir það hana engu máli hvar ökuskírteinið hennar er og það eru til aðrar leiðir við þetta sú besta sem ég hef séð er frá landlækni minnir mig, bara bíða þangað til hún þyrfti að pissa.
Enn ekkert af þessu sem þú varst að segja eða ég sagði hér til baka kemur málinu við sem að er, þurfti að beita konuna ofbeldi?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 23.8.2007 kl. 22:44
í þessu máli er ég sammála þessum atriðum sem Högni kemur inná
Marta B Helgadóttir, 23.8.2007 kl. 23:42
Sæl verið þið.
Ég þakka Högna fyrir að halda rökræðunni gangandi fyrir mína hönd á meðan ég var fjarverandi (akandi á leið til Reykjavíkur - á leið á STONES TÓNLEIKA í London um helgina (hitti kannski sýslumann Selfyssinga þar, hver veit?).
Ég hef engu að bæta við það sem Högni hefur lagt til mála hér í athugasemdum. Það þýðir ekkert að spyrja mig hvort ég trúi konunni eða saka mig um að mæla ölvunarakstri bót. Andúð mín á ölvunarakstri eða öðrum lögbrotum kemur þessu máli ekkert við. Það verður fólk að skilja.
Málið snýst um framkomu lögreglunnar - og ég neita að trúa því að þessar aðferðir séu dæmigerðar fyrir lögregluembættin um land allt. Ég hef meira álit á íslensku löggæslunni almennt en svo
Það er einmitt þess vegna sem ég furða mig á þessum aðferðum - ég hef hingað til haft álit á íslensku lögreglunni, og tel að við eigum að gera kröfu til faglegra vandaðra vinnubragða þar á bæ. Lögreglan verður að geta tekið gagnrýni þegar svo ber undir.
Raunar hefur komið fram einhversstaðar í umræðunni að þetta þvagleggs-atvik muni vera einsdæmi - sem betur fer.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.8.2007 kl. 00:12
Mér finnst alveg ótrúlegt hvað margir virðast verja athæfi lögreglunnar. Í mínum huga er einungis stigsmunur á að styðja svona verknað og að styðja pyntingar til að knýja fram játningar. Ég skil ekki hvaðan öll þessi mannvonska kemur.
Þeir sem er mótfallnir pyntingum á mönnum sem eru grunaðir um hryðjuverk eru það ekki vegna þess að þeir styðji hryðjuverk. Á sama hátt eru þeir sem fordæma verknað lögreglunnar auðvitað ekki að lýsa því yfir að þeim finnist í lagi að fólk keyri ölvað.
Það er með ólikindum að lögreglumenn geti upp á sitt einsdæmi ákveðið að beita fólki í haldi þeirra svona miklu ofbeldi. Ég er innilega sammála síðust málsgrein þinni. Við skulum heldur ekki gleyma þvi hvaða stjórnmálamenn styðja svona ofbeldi.
Það þarf að setja skýrar reglur um hvað lögreglumenn megi gera við fólk sem er í haldi þeirra. Ef einhverjar reglur eru til þá hljóta þær að hafa verið brotnar í þessu tilviki.
Það skiptir svo auðvitað nákvæmlega engu máli í þessu tilviki hvort að konan hafi verið kurteis. Lögreglumenn eiga ekki að geta refsað fólki fyrir ókurteisi með ofbeldi.
Oddgeir Ágúst Ottesen, 24.8.2007 kl. 04:22
Sumsé er ráð, að hafa Klóróform við hendina til að róa snarbandvitlausa brotamenn????
Það er gersamlega klárt og kvitt, að miklu minni inngrip er það í líf manns, að þræða þvaglegg hvar þræða ber en sú háttsemi, sem grunur lá á, að aka undir áhrifum áfengis og hugsanlega valda skaða, sem óafturkræfur er, svosem dauði og örkuml.
Aldeilis er ég þess fullviss, að undir þetta taka heilshugar, aðstandendur þeirra sem orðið hafa fyrir með einum eða öðrum hætti.
Rétt hjá Selfossi við Kögunarhól eru minnisvarðar um þa´sem látist hafa í umferðaslysum á Suðurlandsvegi. Leiða má að þ´vi sterkum líkum, að þar væru mun færri krossar, hefði ölvunarakstur ekki komið við sögu.
Vonandi minnast menn þess, þegar þeir hamast á Lögreglu Sýslumanni og Heilbrigðisstarfsmönnunum, sem verkið unnu.
Misskilin góðsemi er jafn hvimleið og aðrir öfgar.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 24.8.2007 kl. 12:52
Bjarni þú ert að blanda saman málum, það að ökumenn þeir sem minnst er við Kögunnarhól hafi að þinni ályktan verið drukknir undir stýri hefur ekkert með það að gera, að lögreglan, sýslumaður og heibrigðisstarfskólk hafi ekki ráðið við þetta verkefni, frekar en mörg önnur, það er bara svoleiðis Bjarni og það hefur komið fram í þessari umræðu álit fagmanna á þessari aðferð og það segir okkur að þetta hafi ekki verið nauðsynleg aðferð við að ná vatni af konunni.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 24.8.2007 kl. 14:08
Aðeins í viðbót Bjarni (ég held nebblega að Ólína sé í flugvél núna og þá er rétt að blaðra hér) það er mikil þörf á að taka umræðu um ökumenn og háttalag þeirra í umferðinni almennt og við ættum að gera það, ég hef reyndar og fleiri gert það í mínu bloggi og annarsstaðar, en blöndum því ekki við allta aðra umræðu og blöndum hana svo ekki með veiðisögum eða neinu öðru sem kemur þeirri umræðu ekkert við.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 24.8.2007 kl. 14:20
Ólína, ég sá þig í kastljósinu, þú stóðst þig vel. Ætli Ólafur Helgi sé með þvaglegg í skúffunni hjá sér, svona til öryggis?
Bryndís G Friðgeirsdóttir, 24.8.2007 kl. 20:38
Takk fyrir það - verst hvað gafst naumur tími til að ræða málið almennilega.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.8.2007 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.