Línurnar skýrast - stjórnin fallin?
8.5.2007 | 15:51
Jæja, þá er ríkisstjórnin fallin samkvæmt Capacent-Gallup. Það hlaut að koma að því.
Um leið og óákveðnum fækkar taka línur að skýrast - væntanlegir kjósendur eru farnir að raða sér á básana og kannanirnar verða marktækari en áður.
Samfylking eykur fylgi sitt um 2% á fáum dögum og hefur þá aukið fylgið um 4% frá þarsíðustu könnun. Hún mælist nú með 18 þingmenn í stað 16 í síðustu könnun. Framsókn og Íslandshreyfingin sækja líka í sig veðrið.
Fylgisaukning Samfylkingarinnar er skiljanleg. Málefnaáherslur flokksins hafa komist vel til skila að undanförnu, frambjóðendur hafa staðið sig vel í umræðuþáttum og blaðaskrifum. Ingibjörg Sólrún hefur sýnt glæsileg tilrif í ræðu og riti. Málflutningur hennar og annarra frambjóðenda er trúverðugur. Allt hefur þetta áhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn dalar hratt um þessar mundir - fylgi flokksins minnkar um 3,5% á fáum dögum og þingmönnum fækkar um tvo. Það vekur ekki sérstaka furðu. Annarsvegar vitum við að flokkurinn hefur ævinlega fengið meira í könnunum en kosningum. Hinsvegar hafa frambjóðendur hans ekki verið að koma neitt sérlega vel út fyrir þessar kosningar. Formaður flokksins, sjálfur forsætisráðherrann, hefur verið dauflegur í sjónvarpsumræðum, allt að því áhugalítill. Sjávarútvegsráðherrann hefur hrakist út í tóm vandræði þegar málefni hans eigin heimabyggðar hafa komið til tals. Menntamálaráðherra, varaformaður flokksins, hefur ekki komið vel fyrir í umræðuþáttum, verið ágeng og hávær. Verstur var þó líklega Ástu þáttur Möller nú nýlega - en "framlag" hennar til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forsetans á sér trúlega engar hliðstæður í íslenskum stjórnmálum.
Jamm, stjórnin gæti verið fallin - guð láti gott á vita. En við spyrjum þó að leikslokum. Kannanir eru ekki kosningar.
Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Facebook
Athugasemdir
Hæ - er munur á þessu og blogginu í gær - nú er Nettósvarhlutfall var 63,7%. ? En málfluttningurinn í blogginu er allt annar? Er það marktækt? Ég kann bara ekki nægilega mikið í kannanafræði til að svara hvort að um marktækan fjölda sé að ræða???? kannski getur einhver kommentað á það. En þetta er spennandi - það er klárt mál. kv, tolli.
Þorleifur Ágústsson, 9.5.2007 kl. 10:56
Hæ Tolli. Auðvitað er ekkert mikill munur á svarhlutfallinu - mér bara líkar niðurstaðan betur
Nei, grínlaust - þá held ég að allar þessar kannanir séu að sýna of hátt fylgishlutfall hjá Sjálfstæðisflokknum vegna þess hvað stór hlutur aðspurðra er óviss eða vill ekki taka afstöðu. Það hefur alltaf gagnast Sjálfstæðisflokknum best allra flokka. Þetta sýnir reynslan.
Mistök fjölmiðla hafa hinsvegar alltaf verið þau að túlka niðurstöður fyrstu kannana fyrirvaralaust sem gríðarlegt fylgi við Sjálfstæðisflokkinn. Það kann að hafa skoðanamótandi áhrif - þó veit ég það ekki, þetta er bara pæling.
En svo þegar dregur nær kosningum hefur fylgið farið að raðast niður með raunhæfari hætti, og þá kemur í ljós hvað hinir flokkarnir eiga raunverulega inni.
Semsagt - nú er minn flokkur á uppleið, óvissusvörunun fækkar dag frá degi, og uppleiðin mun því vonandi halda áfram
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.5.2007 kl. 11:36
Tja - sjáðu hér.... held að það sé lítið að marka þetta ....
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1268571
Þorleifur Ágústsson, 9.5.2007 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.