Olíuhreinsunarstöð og aðrar smjörklípur
18.4.2007 | 11:19
Jæja, þá er maður kominn inn aftur eftir nokkurra daga hlé. Og ekki fyrr búinn að jafna sig eftir landsfund Samfylkingarinnar en næsta umræða tekur völdin: Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum - fimmhundruð störf!
Hjartað tekur kipp og eldur þýtur um æðarnar rétt sem snöggvast. Getur það verið? Er mönnum alvara - og engin mengun? Dýrafjörður!
Jæja, svo áttar maður sig - púlsinn róast. Smám saman kemur betur í ljós að málið er uppþot í umræðunni. Hugdetta sem svífur í lausu lofti - ekkert sem hönd á festir. Í raun hefur ekkert gerst annað en það að Ólafur Egilsson hefur blásið ryki af átta ára gamalli hugdettu - sem þá dúkkaði upp rétt fyrir kosningar eins og núna, nema hvað Skagafjörður var inni í umræðunni í það sinnið. Nú eru það Vestfirðir. Þetta er smjörklípa.
Eða hvað á maður annars að halda þegar svona umræða er sett af stað tveim dögum áður en nefndin, sem forsætisráðherra skipaði til að leggja fram tillögur um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum, skilar af sér? Eiginlega sætir furðu að þetta skuli vera meðal þess sem sett er fram í skýrslu nefndarinnar - í ljósi þess hve lítið virðist vera á bak við hugmyndina - engin formleg erindi, engin hagkvæmniathugun, hvað þá framkvæmdaáætlun. Sá vondi grunur læðist að manni að hugmyndin hafi verið sett fram til þess að draga athygli frá annars máttlitlu nefndaráliti.
Tillögur nefndarinnar, eins og þær hafa verið kynntar í fjölmiðlum, eru vonbrigði. Þarna gefur að líta almennt orðaðar ályktanir um að "efla" þetta, "auka" hitt, "stefna að" og "kanna". Raunar fylgir sögunni að í viðauka við skýrslu nefndarinnar komi fram 37 tillögur um tilflutning starfa og verkefna sem nemi áttatíu stöðugildum. Engin framkvæmdaáætlun fylgir þó tillögunum, og það sem birt hefur verið vekur litla von. Þvert á móti fær maður á tilfinningna að tillögur nefndarinnar séu sama marki brenndar og umræðan um olíuhreinsunarstöðina: Hugmyndir í lausu lofti, lítið annað en orð á blaði.
Það verður fróðlegt að sjá hvort forsætisráðherra sér ástæðu til þess að halda fund með íbúum Vestfjarða til þess að kynna okkur afrakstrur nefndarstarfsins og gera grein fyrir því hvað muni komast til framkvæmda og hvenær. Verði það ekki gert er þetta marklaust plagg. Og kannski var því aldrei ætlað að vera neitt annað.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Facebook
Athugasemdir
Já Ólína - sumar hugmyndir koma úr lausu lofti - en ekkert þýðir annað en dusta ryk pólítíkur af hugmyndinni og setja hana í faglegan farveg. Því ef faglegt mat á þessari hugmynd er jákvætt þá er það gott fyrir Vestfirði - og landið allt. En miður er ef hugmyndin - sama hver hún er - drukknar í pólítísku argaþrasi. Það er okkar að skilja þar á milli. Velkomin heim - kv, tolli.
Þorleifur Ágústsson, 18.4.2007 kl. 12:29
Þetta kallast "Smokescreen" og er sett fram svona rétt fyrir kosningar til að fela frammistöðuleysi stjórnvalda í fjórðungnum og slá ryki í augu Vestfirðinga. Ef Vestfirðingar kjósa stjórnarflokkana út á þetta sjónarspil þá er það bara þeirra mál. Hugmyndin um olíuhreinsunarstöð hefur komið fram af og til síðustu 60 árin og ekki orðið af henni enn. Og verður ekki næstu 60 árin.
Burkni (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 14:10
Dýrafjörður? Nei takk.
Edda Agnarsdóttir, 18.4.2007 kl. 17:58
Hugmyndir um olíuhreinsistöð hafa alla tíð verið skotnar út af vellinum vegna þeirrar einföldu ástæðu að mjög dýrt væri að sigla hingað með olíu, hreinsa hana hér, og flytja hana síðan aftur á markaði. Nú hafa aðstæður breytst og siglingar um norðurhöf með stóra olíufarma eru staðreynd. Allt í einu er "klakinn" í alfaraleið og þá er rykið dustað af hugmyndinni. Þessi iðnaður er í dag rekinn um allan heim og jafnvel inni í borgum eins í góðri sátt við umhverfið. Til hvers að slá hendi á móti hugmyndum án nokkura raka. Mér finnst Vestfirðingar ekki eiga það skilið.
Sveinn Ingi Lýðsson, 18.4.2007 kl. 20:37
Er þetta ekki alveg merkilegt með liðsmenn Samfylkingarinnar það er aldrei neitt nógu gott. Ég segji nú bara að það á alls ekki að henda hugmyndum um olíuhreinsunnarstöð út af borðinu án þess að skoða þær af mikilli alvöru, sama hvort að einhverjum finnist þær kanski koma korter fyrir kostningar. Það er alveg ljóst að verkefni af þessari stærðargráðu er eitthvað sem gæti lift Vestfjörðum á annan og betra plan. Margfeldiáhrifin af þessu yrðu gríðarleg. Meira en maður getur ímyndað sér.
Með skýrslu Vestfjarðarnefndarinnar þá veit ég ekki alveg við hverju fólk var að búast, þó að ég hafi ekki lesið skýrsluna alla þá skilst mér að þarna komi fram margar góðar hugmyndir, þó svo að frumkvæðið eigi að koma innanfrá, frá fólkinu sjálfu.
Ef þér finst þetta allt svona ómögulegt Ólína min, hvernig væri þá að þú myndir nú kalla saman liðs félaga þína í Samfylkingunni og kæmuð fram með eitthvað betra!!!
Hlynur Kristjánsson, 18.4.2007 kl. 21:16
Ég er band -sjóðandi......enn ein skýrslan um...ekki neitt. Og nú eigum við að segja takk og hneigja okkur pent fyrir olíuhreinsistöð.
Það má vel vera að eitthvert vit sé í því máli en þegar menn eru tilbúnir að ræða málið án tillits til staðsetningar þá skal ég taka upp jákvæðu gleraugun. Eða er kannski einhver not-in-my-backyard - andi sem svífur yfir vötnum? Fínt fyrir ykkur fyrir vestan en ómögulegt fyrir okkur fyrir sunnan.. Mér dettur það svona í hug
Kata (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 22:08
Það er sjálfsagt mál að skoða möguleika á olíuhreinsunarstöð frá öllum hliðum - þegar máið kemst á það stig að hægt sé að skoða það. Svo er ekki að svo komnu málil. Þess vegna er þetta innantómt tal, og ÞAÐ eiga Vestfirðingar ekki skilið eins og staðan er. Nóg er nú samt.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.4.2007 kl. 23:58
ég kippti mér svosem ekki mikið upp við þessi skrif þín. þetta eru bara klassísk orð sem koma út úr Samfylkingunni, gætu þess vegna hafa komið útúr Ingibjörgu Sólrúnu sjálfri. þið gagnrýnið og gagnrýnið allt sem á borðið kemur, en þegar uppi er staðið hafið þið aldrei neitt að segja um málin! innantóm gagnrýni og svo kemur þögn þegar spurt er, hvað á að gera þá. málflutningur samfylkingarinnar minnir oft á leikskólabarn sem segjir alltaf "bara" þegar það er spurt.
hvað með þessa ólíuhreinsistöð og þín orð um það, villtu þá lofa okkur að kjósa e-ð annað en samfylkingunna ef þau verða að veruleika? standa við stóru samsæriskenningu þína?
sjálfur er ég fæddur og uppalinn Ísfirðingur, og hef sjaldan eða aldrei á minni lífsleið heyrt jafn góðar fréttir fyrir mitt byggðarlag. vona svo innilega að þinn flokkur standi með þér í þínum skrifum svo ég viti þá hvern ég á aldrei að kjósa.
Leifur (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 01:09
Gleðilegt sumar gott fólk!
Ha, er kominn 1. apríl aftur? Það var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði fréttirnar af hugsanlegri olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. En það er víst ekki, að því best er vitað er þetta alvara. Hversu mikil veit nú enginn, kemur vonandi í ljós hið fyrsta.
En tillagan er fyllilega verð allrar athygli og skoðunar. Ég get a.m.k. ekki hent henni umhugsunarlaust með einhv. "fussumsvei". Má vel vera að í ljós komi að þetta hentar ekki, einnig á hinn veginn - að þetta henti vel.
Þetta þarf fyrst og fremst að skoða vel og vandlega með opnum huga, án flokkspólitískra gleraugna, sem og allar hinar 36 eða 37 tillögurnar sem "Nefndin" skilaði af sér.
Með von um betri tíð og blóm í haga, - þó ekki væri nema vegna sumarkomunnar!
Eggert Stefánsson (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 09:21
Ólína, það er gott að einhverjir komi með umræðu um skýrsluna í "loftið"
Ég get verið sammála því að þessi olíuhreinsustöð er varla til umræðu. Frekar að hún trufli málið. Margir halda að nú sé búið að leysa atvinnumál Vestfirðinga. Í fyrsta lagi koma olíuflutningaskip varla til að sigla hér milli Vestfjarða og Grænlands og í öðru lagi er Dýrafjörður varla fyrir fleiri tuga þúsunda tonna olíuskip í roki. EF þessi - segi EF - þá væri Hvalfjörður betri - bæði fyrir "peningamennina" og stjórnmálamennina.
Mjög margt í tillögum er áhugavert - samt slæmt að þessar tillögur séu samhliða kosningabaráttu í umræðunni. Fyrir bragðið verður umræðan of klisjukennd.
Samt verður mjög spennandi að sjá hvernig málið þróast, t.d. þegar Bæjarstjórinn á Ísafirði fer til viðræðna við formann Samb. ísl. sveitafélaga að ræða eina tillöguna;
3. Innheimtustofnun sveitafélaga. Því er beint til stjórnar Sambands íslenskra sveitafélag að beita sér fyrir því að starfsemi Innheimtustofnunnar sveitafélaga verði flutt til Vestfjarða. Sú starfsemi og þjónusta, sem stofnunin inner af hendi tengist landinu öllu og getur verið veitt á Vestfjörðum allt eins og á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá heimasíðu Innheimtustofnunnar vinna þar 19 manns og þar af 4 lögfræðimenntaðir. Þarna er væntanlega verið að "stefna að" flutningi á ALLRI starfsemi Innheimtustofnunnar, en ekki bara smá deild eða símasvörun.
En áfram með jákvæðar umræður um tillögur og fylgjum þeim fast eftir - líka eftir kosningar.
Fylkir Ágústsson
Fylkir Ágústsson (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.