Hefðirnar og tæknin
9.4.2007 | 12:59
Tæknin er ótrúleg. Fyrir þessa páska gerði ég tvo þætti um kveðskap, þulur og þjóðlagahefð. Þeir voru fluttir í útvarpinu með viku millibili, sá fyrri 1. apríl, sá síðari í morgun.
Fyrir fáum árum hefði maður þurft að sitja um að heyra tiltekinn þátt í útvarpi. Og ef maður missti af honum varð maður að vona að hann yrði endurfluttur við tækifæri. Fólk á mínum aldri man sjálfsagt vel eftir "Lögum unga fólksins" sem voru flutt kl. 21:00 á miðvikudagskvöldum árum saman. Þá sátu unglingar landsins límdir við útvarpið. "Óskalög sjómanna" og "óskalög sjúklinga" áttu líka sínar stundir, og fyrir kom að maður beit á vör yfir að missa af þætti.
Nú eru aldeilis aðrir tímar. Þættirnir hafa ekki fyrr verið fluttir í útvapinu en þeir eru komnir á netið, og þar getur maður tengt inn á þá, t.d. af bloggsíðunni sinni, eins og ég er skemmta mér við að gera núna.
Já, tæknin hefur opnað ótrúlega möguleika á því að varðveita og miðla efni af margvíslegu tagi. Mér er málið skylt þar sem ég sýsla við gamlar hefðir og fræði. Satt að segja finnst mér sem það hafi orðið bylting í möguleikum menningarmiðlunar með tölvutækninni. Og það er vel.
Reyndar er sá galli á gjöf Njarðar varðandi heimasíðu RÚV, að hver þáttur fær ekki að vera á netinu nema tvær vikur. Hlekkirnir sem ég setti inn hér ofar munu því renna út 14. og 23. apríl. Þau ykkar sem áhuga hafið á að forvitnast um gamla kvæðahefð, þjóðlög og þulur, hvet ég til þess að smella á hlekkina fyrir þann tíma, og leggja við hlustir
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:11 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Ólína. Það vildi svo skemmtilega til að ég var stödd við útvarpið í morgun þegar seinni þátturinn þinn var fluttur - hann var stórskemmtilegur og fróðlegur. Mest kom mér á óvart hvað þú sjálf kveður vel. Kærar þakkir.
Erla Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 14:25
Skemmtilegir þættir og fræðandi. Ljómandi ístunga í kvintinn hjá kvensunum :D. Kveðja Ninna
Ninna (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.