Stíflurof í stjórnmálunum?

  Hjörleifur Guttormsson á heiður skilið fyrir þann málflutning sem hann hefur haldið uppi í umhverfismálum að undanförnu.

 Ég er líka ánægð með það að nú skuli vera komið fram nýtt framboð sem hefur náttúruvernd og umhverfismál á sinni stefnuskrá. Það er engin ástæða til þess að merkja þau mál vinstrinu, eins og verið hefur - og þó ég sé ekki liðsmaður þessa nýja flokks þá þekki ég fólkið sem er þar í forsvari og óska þeim velfarnaðar.

 Það  má kannski segja að með Íslandshreyfingunni hafi orðið nokkurskonar stíflurof í umhverfismálum á Íslandi - og það er ágætt. Það minnir mig á ljóðmæli sem ég setti á blað í haust þegar umræðan var hvað mest um Kárahnjúka og Draumaland Andra Snæs. Það er ekki úr vegi að deila því með ykkur.

 

Stíflurof 

Við erum fólkið neðan við stífluna,

fólkið sem reisti hana

og vann af iðjusemi og natni

dag og nótt

 

svo hún hækkaði

já, og stækkaði

og var orðin stærsta stífla

sem um getur í sögunni -

 

hugmyndastíflan.

 

Þó vissum við lítið af henni

þar sem hún hvíldi í kyrrð

að fjallabaki hugans

fyrr en maðurinn kom

með bókina.

 

Hann barði á stífluvegginn

eitt snöggt

og þungt

högg

 

eins og þegar Sæmundur

bukkaði selinn

með Saltaranum forðum

og sá gamli sökk.

 

Stíflan brast.

 

Nú flæðir aurugt jökulvatn

milli skinns og hörunds

og harður straumur

byltist í brjóstinu.


mbl.is Hjörleifur: Erum að kynnast kaupum umhverfisvænna ímynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér Ólína. Það er of lítið um skilning á því að ekkert er myndrænna en orðin. Allt of fáir skilja líka hitt að orð eru viðkvæm vopn og vandmeðfarin. Orð eru dýr og þau eiga að vera dýr. Hugmyndafræðileg stífla er hæætuleg og Kárahnjúkavirkjun er afleiðin hugmyndafræðilegrar stíflu; vitsmunalegs harðlífis. Fólk kemur úr skólum án menntunar í góðum skilningi. Mér kemur í hug Benedikt Erlingsson í sjónvarpsviðtali nú á dögunum: "Stundum eru skólar ekki góður staður til að mennta sig í". Þetta er sett hér eftir minni en nærri því að vera rétt eftir haft. Þetta veit ég líka að þú veist fullvel sem reyndur skólamaður.

Sem gamall bóndi veit ég að vönun í allri merkingu þess orðs er skelfileg fötlun. Hugmyndafrfæðileg vönun er ekki undanskilin og að mörgu leyti hverri vönun verri vegna þess að hún getur smitað út frá sér. Þakkir og góðar kveðjur!

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 12:01

2 Smámynd: IGG

Sammála og þakkir fyrir þessa vel orðuðu hugsun.

Ingibjörg G. Guðmundsd.

IGG , 29.3.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér verð ég að leggja orð í belg.

Hlaut uppeldi foreldra, sem fædd voru rétt eftir aldamótin  sumsé 1908 og 12.

Þau voru fædd vestra og ólust upp við hugarheim og siði vestra.  Það var eitur í þeirra beinum, að menn fælu fyrri orð og gerðir. 

ÞEssvegna ygla ég mig tíðum, þegar Hjölli blæs sig út sem sérlegur virkjanaandstæðingur. 

Annað dundaði hann við, þegar hann hafði til þess aðstæður emð setu í ríkisstjórn.

Kynntu þér þau mál, sem hann sérlega bar fyrir brjósti og fékk samþykkt.

Að því búnu, er þér auðvitað frjálst, að mæra karlinn sem þú hefur geð til.

Við sem erum fædd um miðja síðustu látum okkur svosem ekki allt fyrir brjósti brenna, vöndumst því í Glaumbæ, að láta stemningu ráða en uppeldið er assvíti fast og máist líklega ekkert út, þó maður nottla reynum Grænsápu og 13 13 því svona gamaldags hugarheimur passar auðvitað ekkert við nútímann, hvar allt er falt, lífsskoðanir og hvaðeina.

Kærar kveðjur

Miðbæjaríhaldið  (fyrrum Vestfjarðaríhald)

Bjarni Kjartansson, 29.3.2007 kl. 15:17

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Þakka þér Ólína fyrir þetta frábæra ljóð.Já hugmyndastíflan varð að veruleika.Þegar ég kom á Kárahnjúasvæðið fyrir nokkrum árum og dáðist af tign þess og fegurð,hefði ég aldrei trúað að þessi virkjun gæti orðið veruleiki.Það er vissulega harður straumur sem byltist í brjósinu  núna,það er vel að orði komist hjá þér.

Velkomin í bloggheima,það verður eins og alltaf áður gaman og áhugavert að lesa þínar hugleiðingar.Kær kveðja

Kristján Pétursson, 29.3.2007 kl. 17:45

5 identicon

Fínn pistill hjá Kristni Péturssyni um Hjörleif og sérstaklega kommentið frá Gunnari Th.   Smellið hér til að skoða.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 00:11

6 identicon

Já, batnandi mönnum er best að lifa. Það er engin skömm að því að skipta um skoðun - mér sýnist þessi upprifjun á sinnaskiptum Hjörleifs Guttormssonar sýna betur en margt annað að hann er hugsandi maður sem bindur ekki í afstöðu sína til lífstíðar. Gott hjá honum.

 Það er líka ánægjulegt að Ólína - sem hingað til hefur verið orðuð við félagshyggju - fagnar því að umhverfisáherslan skuli vera að færast yfir til hægri. Katrín Jakobsdóttir tók í svipaðan streng ekki alls fyrir löngu, og Staksteinar höfðu á orði að vonandi væri þetta til vitnis um breyttar áherslur í stjórnmálaumræðunni. Ég tek undir það.  

Valgerður H (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 11:16

7 identicon

Frábært ljóð Ólína - frábært!

Gunnar Bjarnason (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband