Færsluflokkur: Fjármál

Þó fyrr hefði verið

Jæja, loksins sá efnahagsbrotadeildin ástæðu til að fara ofan í saumana hjá fyrrum forstjóra FL-Group. Þó fyrr hefði verið.

 Maður hefur velt því fyrir sér undanfarna mánuði hvers vegna ekki var gerð húsleit hjá forkólfum útrásarinnar strax í fyrstu vikunni eftir hrun.

Hvers vegna stjórnarformennirnir og forstjórar umdeildustu útrásarfyrirtækjanna hafa allir  fengið svo ríflegt svigrúm?

Hvers vegna þeir sem tengdust bönkunum fengu sumir hverjir að athafna sig á vettvangi - eða því sem næst - sitjandi sem fastast í stjórnunarstöðum og skilanefndum vikum og mánuðum saman.

Já - þeir fengu ríflegt svigrúm. Og mér er stórlega til efs að nokkuð handbært muni finnast í fórum þeirra, hvorki í bókhaldi né á bankareikningum, nú, eftir allt sem á undan er gengið.

En ... ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.


mbl.is Efnahagsbrotadeild með húsleitir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt er svo með öllu illt ...

Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.

bensinÁ hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði  um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.

Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna. 

Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.

Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli.  Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur. 

En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt.  Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs. 


Bensínhækkun og ESB

Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.

Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.

Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið  nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.

Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.


Erfiður dagur í þinginu

vín Gærdagurinn var býsna viðburðaríkur í þinginu. Fram undir kvöld stóðu linnulausar ræður um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að þingið samþykkti aðildarumsókn að ESB sem síðan yrði að loknum aðildarviðræðum borin undir þjóðaratkvæði. Fjölmargir voru á mælendaskrá, og komust færri að en vildu.  Umræðan heldur áfram á morgun svo málið er ekki fjarri því að vera fullrætt.  

Ég komst ekki að með ræðu í dag, en fór upp í einu andsvari (sjá hér).

Um kvöldmat var gert hlé á umræðunni, en að því loknu voru tekin fyrir öllu erfiðari mál. Þar á meðal hækkun á áfengi, tóbaki, olíu og bensín. Um þetta spunnust miklar umræður sem vonlegt er.

Þetta er því miður aðeins byrjunin - því fleira mun á næstunni fylgja í kjölsogið.


Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu er þörf

Stundum er talað um það að sama hugmyndin skjóti rótum á mörgum stöðum samtímis. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessarar kenningar þegar ég las meðfylgjandi frétt um afstöðu ASÍ til þess sem gera þarf fyrir heimilin í landinu. Eitt af því sem samtökin leggja áherslu á er að ráðnir verði "a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar strax til að aðstoða fólk í greiðsluvanda". Síðast í gær sett ég inn þessa bloggfærslu, en þar var ég m.a. að hvetja til þess að gert yrði stórátak í því að veita almenningi fjármálaráðgjöf. Ekki er vanþörf á.

Þar fyrir utan þarf að koma upplýsingum mun betur á framfæri en verið hefur um þau úrræði sem fólki standa til boða í greiðsluvanda. Fjölmiðlar bera þar ríka ábyrgð - sömuleiðis stjórnvöld og fjármálastofnanir.

Vandi skuldsettra heimila eykst dag frá degi. Annars vegar er brýn þörf á björgunaraðgerðum vegna bráðavanda - hinsvegar er aðkallandi að grípa til almennra aðgerða sem létt geta byrðunum af fólki. Þessi úrlausnarefni geta ekki beðið.

Verkalýðshreyfingin hefur nú komið fram með tillögur sem stjórnvöld hljóta að hlusta eftir. Í þeim vanda sem við er að eiga verða allir að hjálpast að. Vinnumarkaðurinn, félagasamtök, menntastofnanir, fjölmiðlarnir og stjórnkerfið.

Þjóðin á heimtingu á því að við núverandi aðstæður leggi menn léttvæg ágreiningsefni til hliðar og sameinist um mikilvægustu aðgerðir og ... hlusti eftir raunhæfum tillögum og góðum ráðum.

 


mbl.is ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar hafa brugðist

Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í því að upplýsa fólk og útskýra fyrir því þau úrræði sem skuldurum bjóðast sem aðstoð í greiðsluvanda. Það er furðulegt að fjölmiðlar skuli eyða meira púðri í að ýta undir þá falsvon hjá örvingluðu fólki að það geti bara hætt að borga skuldir sínar - að greiðsluverkfall sé valkostur - heldur en að greina frá þeirri aðstoð sem fólki stendur til boða.

Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á. Það gæti hinsvegar leitt af sér annað hrun. Hver er bættari með því?

Nú þegar stendur fólki til boða margvísleg aðstoð í greiðsluvanda, eins og sjá má á listanum hér neðar. Margt mætti auðvitað gera betur og meira af. Til dæmis mætti stórauka frá því sem nú er ráðgjöf til fólks í skuldavanda. Er ekki landið fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum sem  ráða mætti til þeirra starfa að hlusta á fólk í greiðsluvanda, setja sig inn í stöðu þess og aðstoða það við að ráða fram úr honum? Ég veit að það er verið að vinna að heilmikilli ráðgjöf nú þegar - en  slíka ráðgjöf tel ég að mætti margfalda að umfangi. (Þetta er nú svona vinsamleg ábending).

Já, svo mætti auðvitað laga löggjöfina þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.

Margt fleira mætti auðvitað betur fara. En lítum nánar á þau úrræði sem í boði eru nú þegar:

  1. Skuldajöfnun verðtryggðra lána sem þýða 10-20% lægri greiðslubyrði en ella.
  2. Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána sem þýðir 40-50% lægri greiðslubyrði.
  3. 66% hækkun vaxtabóta.
  4. Útgreiðsla séreignasparnaðar sem nemur 1 mkr á einstakling og 2 mkr á hjón.
  5. Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa verið stórefld og samið við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig, þ.e: a)Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður. b)Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár. c) Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.  d) Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir.
  6. Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf.
  7. Lögum breytt um ábyrgðarmenn þannig að ekki má lengur ganga að húseign ábyrgðarmanns.
  8. Ekki má lengur skuldfæra barnabætur upp í skattaskuldir
  9. Ekki má lengur skuldfæra hvers konar inneignir hjá ríkinu upp í afborganir Íbúðalánasjóðs.
  10. Frestun nauðungaruppboða fram í ágúst, sé þess óskað.
  11. Aðfararfrestur lengdur úr 15 dögum í 40.
  12. Aukinn stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota.
  13. Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
  14. Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.

Nú er mér ljóst að þessi úrræði eru engin töfralausn sem leysir hvers manns vanda. En þau létta álagið mjög og skapa skuldaranum svigrúm til þess að láta enda ná saman og komast af í kreppunni, þar til eðlilegri forsendur skapast í efnahagslífinu.

Fjölmiðlum væri nær að kynna þessi úrræði betur en gert hefur verið heldur en að ýta undir að örvinglað fólk hætti að borga. Þeim væri nær að skýra fyrir fólki hvaða lög gilda í landinu um afleiðingar slíkra aðgerða, heldur en að elta hasarinn og skemmta skrattanum.

Nóg er nú samt í  okkar hrjáða landi. Angry


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formannafundur Sjónvarpsins: Framtíðarsýn andspænis dylgjum og úrræðaleysi ... Saari grípur fyrir eyrun

Þá er formannafundurinn nýafstaðinn á RÚV og komið að því að meta frammistöðu manna.

SigmundurDavidSigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, dylgjaði stórum um leyndarskjöl og meintar yfirhylmingar sem svo kom í ljós að fær ekki staðist. Sigmundur Davíð lét í það skína að hann hefði upplýsingar upp úr skýrslu sem hvorki fjármálaráðherra né forsætisráðherra hafa aðgang að. Það þýðir að eini maðurinn sem er með yfirhylmingar er þá líklega hann sjálfur, því hann vildi hvorki upplýsa hvernig hann hefði komist yfir umræddar upplýsingar, né heldur vildi hann gera nánari grein fyrir þeim. Hélt sig þess í stað við stóryrði og hálfkveðnar vísur og var hvorki trúverðugur né traustvekjandi.

AstthorMagnusson Það hvarflaði að mér að Ástþór hefði hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um þá sem stjórna Framsóknarflokknum bak við tjöldin.

Ástþór var annars ... Whistling BjarniBenediktsson

 

Bjarni Ben var úrræðalaus og virtist stressaður - jafnvel reiður á köflum. Hann bauð kjósendum engar lausnir á þeim vanda sem við er að eiga. Samkvæmt honum má ekki hækka skatta, samt á að fara í flatan niðurskurð - þó ekki á öllum sviðum. Og samhliða þessu ætlaði hann að skapa 20 þúsund störf Shocking sem hann gat þó ekki tilgreint nánar. Eins og Sigmundur Davíð hljóp hann í hræðsluáróður  og yfirboð inn á milli.

thor-saariÞór Saari var bestur þegar hann greip fyrir eyrun. Grin Annars bauð hann ekki upp á neinar lausnir frekar en ofannefndir. Hann sagði þó ýmislegt skynsamlegt um menn og málefni. Það háir Borgarahreyfingunni að hún hefur skýrari sýn á vandann en lausnina, veit hvað hún vill gagnrýna en bendir á fátt til bóta. Fyrir vikið verður málflutningur þeirra árásargjarn og hneykslunarkenndur sem verður yfirborðslegt til lengdar.

 GudjonArnar

Guðjón Arnar er alltaf skynsamur - maður að mínu skapi, þó okkur greini á um margt. Hans flokkur stendur mjög höllum fæti núna og óvíst að Guðjón Arnar komist inn á þing. Það væri þó að mínu viti mikill skaði ef hann félli út. Hann talar ævinlega hreint út eins og  Vestfirðingum er tamt. 

 SteingJSigf                                                                                                                                                 Steingrímur Joð var góður. Hann lenti í vandræðum varðandi ESB umræðuna og álverið á Bakka en leysti það þolanlega. Hann hefði mátt fá meira næði á köflum til að svara ýmsu sem til hans var beint.

 

 Nú er ég auðvitað ekki hlutlaus varðandi Jóhönnu. Ég var mjög sátt við hennar framöngu í johannadv_835281.jpgþættinum. Hún svaraði hispurslaust öllu sem um var spurt. Útskýrði vel og nákvæmlega hugmyndir Samfylkingarinnar um þau verk sem vinna þarf.  Þar kom glöggt fram sá vilji að verja velferðina eftir því sem kostur er í erfiðu árferði.

Upp úr stóð að Samfylkingin er eini flokkurinn með skýra stefnu og framtíðarsýn. Nú ríður á að við fáum skýlaust umboð til að tryggja vinnu og velferð með ábyrgri efnahagsstjórn. Við erum sammála stærstu samtökum launafólks og atvinnurekenda um að hefja eigi samningaviðræður við ESB strax í vor á grundvelli skýrra markmiða og gefa þjóðinni kost á að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst að undangenginni aðildarumsókn.  Þá fyrst veit þjóðin hvaða kostir eru í boði með aðild, og þá kosti getur hún kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef bjargfasta trú á því að við jafnaðarmenn munum ná þjóðinni út úr erfiðleikunum  Til þess þurfum við umboð og styrk. Ekkert nema atkvæði greitt Samfyklingunni getur  tryggt okkur þann styrk sem  þarf til að gera þessa leið að veruleika.

 


Jóhanna vill opna fjármál flokka og frambjóðenda til 1999

Fréttir dagsins af háum styrkjum til einstakra prófkjörsframbjóðenda flokkanna hér um árið sýna gildi þess að settar séu reglur um þessa hluti. Samfylkingin hefur sett sér strangar reglur um auglýsingar og hámarks kostnað í sínum prófkjörum eins og t.d. fyrir nýafstaðið prófkjör.

Vegna þeirra reglna gat ég t.d. ekki eytt neinu í mína prófkjörsbaráttu. Hefði ég þó í hégómakasti vel getað hugsað mér að sjá nokkur plaköt af sjálfri mér, vel sminkaðri á nýrri dragt, utan á húsum og strætisvögnum. Það var bara ekki í boði - engir peningar til, hvorki hjá mér né mótframbjóðendum. Og ég er auðvitað fegin því  - sjálfrar mín vegna og pyngju minnar. Sjálfsagt væru sumir þeirra prófkjörsframbjóðenda sem nú hafa orðið uppvísir að því að taka við stórum fjárstyrkjum fegnastir því að hafa reglur til að miða við, og þar af leiðandi minna svigrúm til að eyða peningum í glansmyndir og dýrar auglýsingar.

 johannadv_835281.jpgEn í tilefni af þessu öllu saman hefur Jóhanna Sigurðardóttir nú ritað formönnum allra stjórnmálaflokka bréf og beðið þá að skipa fyrir 1. maí fulltrúa í nefnd til að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Markmiðið er að tryggja að Ríkisendurskoðun verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006. Ríkisendurskoðun skili síðan niðurstöðum um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga og frambjóðenda þeirra vegna prófkjara á sama tímabili.

Gott framtak hjá Jóhönnu. Það er mikilvægt að fá þetta allt upp á borðið. Ekki síst er mikilvægt að kjósendur fái sambærilegar upplýsingar fyrir alla flokka og frambjóðendur þeirra.

Og ef þetta kallar á nýja löggjöf, þá treysti ég henni vel til þess að stýra þeirri vinnu.

 


Sannleikann fram í dagsljósið

gu_laugur_or_or_arsongudfinna3illugibjorn_ingi 

Nú er ekki seinna vænna að þeir stjórnmálamenn sem hér um ræðir upplýsi helgihjorvarstrax hversu háar fjárhæðir þeir þáðu í styrki frá FL-Group og Baugi. Hér er talað um allt að 2 mkr styrki til ákveðinna einstaklinga. Af hverju eru  þeir ekki nafngreindir? Þess í stað eru taldir upp þrír Sjálfstæðismenn, tveir Samfylkingarmenn og einn Framsóknarmaður, og allir lagðir að jöfnu.

steinunnvaldisÉg skora á Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi að upplýsa nú þegar hversu háa styrki þau þáðu frá þessum fyrirtækjum í prófkjörsbaráttu sinni. 

Þá verður heldur ekki undan því vikist að upplýst verði nú þegar, hvaða "stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands" það eru sem fengið hafa "óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum fyrir bankahrunið í haust" eins og fullyrt hefur verið í fréttum Stöðvar 2. Þar segir að í sumum tilvikum hafi verið um að ræða "tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að lögð væru fram nein veð".

Þetta verður að upplýsa - fyrir kosningar. Ef fréttastofa Stöðvar 2 er með þessar upplýsingar er það skylda hennar að gefa þær. Ef ekki þá er hún ómerkingur.

Eins og einhver sagði: Allt upp á borðið! Angry

 


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband