Færsluflokkur: Ferðalög
Suðurlandsvegur, Vaðlaheiði eða ...
30.6.2009 | 16:17
Nú takast menn á um það hvort samgönguráðherra eigi frekar að leggja áherslu á Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðargöng. Já - þeir tala eins og þetta séu valkostirnir.
Nú sýður á mér.
Þeir sem þannig tala vita augljóslega ekki að til eru staðir á landinu þar sem fullnægjandi samgöngum hefur enn ekki verið komið á. Þar sem hið svokallaða "stofnkerfi" er einfaldlega ekki fullfrágengið. Dæmi um það er Vestfjarðavegur sem er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði og Hrafneyrarheiði er auk þess eina tengingin milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum (Patreksfjarðar og Ísafjarðar). Sá vegur er ófær 9 mánuði ársins. Ef Patreksfirðingur á erindi til Ísafjarðar um hávetur, þarf hann að leggja á sig 10 klst. ferðalag um 700 km leið fyrir kjálkann - í stað 2 klst ferðalags yfir heiðarnar um sumartímann. Báðir þessir vegir teljast þó til þjóðvega.
Þegar skorið er niður skiptir miklu að forgangsraða verkefnum. Við forgangsröðun vegaframkvæmda er brýnt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða
- Samgöngubætur (að bæta og viðhalda samgöngum sem eru þokkalegar fyrir líkt og víðast hvar á Suðvesturlandi) eða:
- Grunnkerfið sjálft (að koma á viðunandi samgöngum sem eru ekki til staðar að heitið geti (líkt og á Vestfjörðum).
Samfélagslegir þættir eiga að skipta máli við forgangsröðun verkefna á borð við vegaframkvæmdir. Ástand vega getur ráðið úrslitum um það hvort atvinnulíf fær þrifist á sumum stöðum, hvort þar er yfirleitt búandi. Samgöngurnar eru æðakerfið í byggðarlögunum. Ástand veganna getur þannig ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðanna í landinu.
Þandi mig aðeins um þetta á Rúv í hádeginu (hlusta hér)
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Ómetanlegt starf björgunarsveita
28.6.2009 | 17:14
Það er mikið gleðiefni að þessi björgunaraðgerð skyldi takast giftusamlega. Ég veit að björgunarsveitarmenn um land allt gleðjast ævinlega í hjarta sínu þegar vel tekst til eins og í þessu tilviki. Það er nefnilega sama hvar á landinu þeir eru staddir þegar aðgerð er í gangi - þeim verður alltaf hugsað til þeirra sem bíða björgunar, og félaga sinna sem eru á vettvangi. Þannig er það bara.
Atvik sem þetta minna okkur á það hve björgunarsveitir landsins vinna ómetanlegt starf. Björgunarsveitarmaður spyr aldrei hvað klukkan sé, hvernig veðrið sé úti, hvort ekki geti einhver annar farið, þegar þörf er fyrir aðstoð. Hann stekkur af stað, hvernig sem á stendur.
Þarna tókst vel til - og því ástæða til að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með það.
Talandi um björgunarsveitir: Við Skutull brugðum okkur í blíðviðrinu í dag á æfingu með Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar upp á Seljalandsdal. Það var svo yndislegt veðrið að það var eiginlega full mikið af því góða fyrir hundana. Þeim reynist oft erfitt að vinna í miklum hita. Samt stóðu þeir sig allir vel ... og á öndinni, eins og við mátti búast.
Sjálf er ég orðin sólbrennd og sælleg eftir þennan dásamlega sólardag.
Dreng bjargað úr jökulsprungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fundaferð Samfylkingarinnar
25.6.2009 | 01:27
Þessa dagana eru þingmenn Samfylkingarinnar á fundum með fólki úti í kjördæmunum að ræða þau mál sem hæst ber í þinginu, Ice-save, ríkisfjármálin, efnahagsráðstafanirnar, ESB, sjávarútvegsmálin og fleira sem brennur á fólki.
Í kvöld var ég á ágætum fundi í Grundarfirði ásamt Jónínu Rós Guðmundsdóttur, samflokkskonu minni og þingmanni í NA-kjördæmi og Davíð Sveinssyni bæjarfulltrúa.
Við Jónína Rós ókum saman vestur í sumarblíðunni nú síðdegis og nutum fegurðar Borgarfjarðar og Snæfellsness á leiðinni. Áttum svo ágætan fund með heimamönnum í kvöld þar sem margt var skrafað um landsins gagn og nauðsynjar.
Í gær var vel sóttur og skemmtilegur fundur á Ísafirði með mér, Kristjáni Möller samgönguráðherra og Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa. Á morgun verð ég á Akranesi ásamt Guðbjarti Hannessyni þingmanni.
Þetta eru afar gagnlegir fundir, ekki síst fyrir okkur þingmennina.
Það er nauðsynlegt að komast út úr þinginu af og til og hitta fólk. Tala við kjósendur, og ekki síst að hlusta (mun skemmtilegra heldur en að taka við fjöldapóstum svo dæmi sé tekið ).
En nú er ég orðin sybbin, enda komið fram yfir miðnætti. Góða nótt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dottað undir stýri
21.6.2009 | 21:55
Komin heim frá Gufuskálum af helgaræfingu með Björgunarhundasveitinni. Kúguppgefin.
Ég var svoooo lúin þegar ég ók heim núna seinnipartinn að ég dottaði undir stýri í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Um hábjartan dag.
Það var áreiðanlega engill sem hnippti í mig í tæka tíð áður en bíllinn fór út af - en hann var kominn yfir á rangan vegarhelming þegar ég áttaði mig.
Úff! Þarna munaði sannarlega mjóu.
Lifandi fegin að ekki fór verr, sá ég mitt óvænna, lagði bílnum í vegkanti og lagði mig í tíu mínútur. Fór svo út úr honum og fékk mér frískt loft áður en ég hélt ferð minni áfram.
En námskeiðið var í alla staði frábært. Skutull minn stóð sig mjög vel. Á þessu námskeiði náði hann því risastóra skrefi í þjálfuninni að koma til mín þegar hann hefur fundið mann og gelta á mig áður en hann vísar mér til þess týnda. Í síðasta rennslinu "fann" hann þrjá og vísaði mér á þá alla.
Annars stóðu allir hundarnir sig frábærlega og þetta var mjög skemmtilegt námskeið við rætur Snæfellsjökuls.
Á morgun er það svo þingið - þá skipti ég aftur um gír.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sól slær silfri á voga ...
31.5.2009 | 14:27
"... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.
(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir)
En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.
Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.
"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.
Njótið helgarinnar.
PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Eins og steiktur tómatur
22.5.2009 | 23:06
Ég er sólbrennd eins og steiktur tómatur eftir daginn. Það er ekki sjón að sjá mig.
En þessi fyrsti dagur björgunarhunda-námskeiðsins gekk vel. Skutull stóð undir nafni. Hann þeyttist um móana á ógnarhraða, svo mér komu í hug orð Gríms Thomsen í Skúlaskeiði:
Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti ...
Hann var léttur á sér og leysti sín verkefni vel; gelti eins og herforingi úti hjá þeim týnda (fígúrantinum) og þurfti ekki hvatningu til. Ég er ekki enn farin að taka hann til mín í vísun - en mig grunar að þess verði ekki langt að bíða.
En ... á morgun ætla ég að muna eftir sólarvörninni - þó hann rigni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Farin í hundana
22.5.2009 | 08:21
Nú er ég á leiðinni austur á Úlfljótsvatni með Skutul minn. Björgunarhundasveit Íslands verður þar með æfinganámskeið um helgina eins og oft áður um þetta leyti árs. Ég mun því taka frí frá bloggi og pólitík meðan á þessu stendur og einbeita mér að þjálfun hundsins.
Hann stendur sig annars vel litla skinnið - er vinnusamur, áhugasamur og hlýðinn eins og hann á kyn til. Border-Collie er alveg einstök hundategund, og hann sver sig vel í ættina, blessaður.
Góða helgi öllsömul.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veðurteppt á Ísafirði >:-(
11.5.2009 | 13:50
Nú sit ég veðurteppt á Ísafirði - kemst ekki á þingflokksfund. Horfi út á úfinn og hvítfyssandi fjörðinn á meðan hryssingslegt hvassviðrið hamast á glugganum. Grrr ....
Í morgun var meinleysisveður hér fyrir vestan með hægum andvara. Þá fóru þeir að fresta fluginu vegna "óhagstæðrar áttar" við flugvöllinn. Þeir frestuðu því nógu lengi til að stormurinn næði hingað vestur. Nú er ekkert ferðaveður.
Ætli maður taki ekki bílaleigubíl á morgun - þeir eru að spá áframhaldandi hvassviðri.
Jamm ... svona eru nú samgöngumálin hér á þessum slóðum. Ef ekki er flogið, þá er það 7 klst keyrsla suður til Reykjavíkur.
En ég anda með nefinu - orðin vön.
Þingflokkurinn bjargar sér án mín.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fyrsti þingflokksfundurinn
27.4.2009 | 20:50
Sól skein í heiði og það var bjart yfir miðbænum þegar ég arkaði yfir Austurvöllinn að Alþingishúsinu á minn fyrsta þingflokksfund. Í anddyri nýju viðbyggingarinnar mættu mér brosandi starfsmenn sem buðu nýja þingmanninn velkominn. Fyrir innan biðu fjölmiðlarnir og enn innar þingflokksherbergið.
Þetta var góður fundur og yfir honum svolítill hátíðarbragur. Allir 20 þingmenn flokksins voru mættir ásamt áheyrnarfulltrúum og starfsliði . Nýir þingmenn tæplega helmingur, eða níu talsins. Kossar, faðmlög og hlýjar kveðjur í upphafi fundar. Svo var sest á rökstóla um aðalmálefni dagsins: Stjórnarmyndunarviðræðurnar og málefnastöðuna.
Já. nú eru sannkölluð kaflaskipti í mínu lífi. Svosem ekki í fyrsta sinn.
En á þessum tímamótum finn ég til þakklætis í garð þeirra fjölmörgu sem stutt hafa flokkinn og okkur frambjóðendur Samfylkingarinnar á öllum vígstöðvum fyrir þessar kosningar. Fjölmarga hef ég hitt á ferðum mínum um kjördæmið sem hafa miðlað mér af reynslu og sinni og lífsafstöðu. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að hitta kjósendur að máli, hlusta eftir röddum þeirra og skiptast á skoðunum.
Ég er jafnframt þakklát mótframbjóðendum mínum úr öðrum flokkum fyrir skemmtilega framboðsfundi og umræður um það sem betur má fara og hæst ber á hverjum stað. Yfirleitt hafa þessi skoðanaskipti verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla aðila.
Nú tekur við nýtt tímabil - erfitt tímabil. Óhjákvæmilega finnur nýkjörinn þingmaður frá Vestfjörðum til ríkrar ábyrgðar og um leið umhyggju gagvart heimaslóðum þar sem mjög ríður á úrbótum í samgöngu- og raforkumálum. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða og almenn búsetuskilyrði. Sjálf vil ég auk þess gera það sem í mínu valdi stendur til þess að fjölga menntunarkostum heima í héraði, ekki síst á háskólastigi.
Forsenda þess að eitthvað miðið í úrbótum fyrir einstaka landshluta er þó að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar og verja jafnframt velferðina eftir fremsta megni. Það er forgangsverkefni og um leið frumskilyrði þess að nauðsynleg atvinnu uppbygging geti átt sér stað. Sókn um inngöngu í ESB er mikilvægur þáttur í að þetta takist. Síðast en ekki síst þarf að endurreisa ábyrgð og traust í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálasviðinu og innan stjórnsýslunnar sjálfrar.
Jebb ... þetta verður ekki auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn, en við sjáum hvað setur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sumrinu fagnað í snjómuggu
23.4.2009 | 12:31
Þeir hleyptu í herðarnar, otuðu fánastöngunum fram og héldu af stað með hálfpírð augun mót snjómuggunni - ungskátarnir sem fóru fyrir skrúðgöngunni eftir skátamessuna í morgun. Í humátt á eftir gengum við, nokkrir vetrarbúnir bæjarbúar, og fylgdum trommuslættinum um götur bæjarins.
Sumarið heilsar heldur hryssingslega hér á Ísafirði í ár. Þetta kann þó að vera góðs viti, því sumar og vetur frusu saman í nótt. Það veit á góða tíð samkvæmt þjóðtrúnni.
En þar sem ég þrammaði á eftir skrúðgöngunni í morgun kom mér til hugar þessi vísa:
Okkur lengi í ljóssins yl,
líf og yndi þyrsti,
þá í svölum sortabyl
kom sumardagur fyrsti.
Gleðilegt sumar öllsömul og takk fyrir veturinn sem er að líða. Fari hann vel með öllu því sem honum fylgdi.
Megi Harpan og sumarmánuðirnir boða okkur betri og gjöfulli tíð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)