Færsluflokkur: Lífstíll
Reykjavík er ljót borg
9.6.2008 | 01:04
Þegar ég ók Vesturlandsveginn í átt til höfuðborgarinnar í fyrradag ætlaði ég að venju að líta í átt til Korpúlfsstaða sem ævinlega gleðja augu mín frá þjóðveginum. En þá blasti við mér allt önnur sjón: Risastórt gímald - ferhyrndur álkassi sem á víst að heita hús og mun eiga að hýsa Rúmfatalagerinn.
Þetta hræðilega mannvirki dregur að sér alla athygli þarna sem það stendur. Það skyggir á formfagrar byggingar gamla stórbýlisins á Korpúlfsstöðum sem Thor Jensen reisti af metnaði og rausn og sem hafa verið héraðsprýði. Nú stendur Korpúlfsstaðabýlið eins og hálfgerður hundakofi í skugga þessarar risabyggingar sem virðist frá veginum séð vera tíu sinnum stærri. Hinumegin við Vesturlandsveginn er svo Bauhaus að reisa annan kumbalda. Álíka stóran - ef marka má húsgrindina sem komin er upp - og líklega jafn ljótan.
Sundurgerðin og skipulagsleysið í íslenskum arkitektúr held ég að hljóti að vera einstök í veröldinni. Með örfáum undantekningum er nánast allt sem hér er byggt einhverskonar formtilraunir eða skipulagsfúsk. Engin virðing fyrir því sem fyrir er. Gler og álkössum er troðið niður innan um gömul og falleg hús, í hrópandi ósamræmi við umhverfið.
Hér áður fyrr voru hús hönnuð og byggð til þess að fegra umhverfi sitt. Múrsteinar og falleg náttúruefni sjást varla lengur. Ég held bara að hér á Íslandi hafi ekki komið arkitekt sem stendur undir nafni frá því Guðjón Samúelsson leið. Hann hannaði byggingar inn í umhverfi og heildarmynd. Því miður var skipulagsuppdráttum hans ekki fylgt nema að takmörkuðu leyti - en það virðist vera þjóðareinkenni á okkur Íslendingum að geta aldrei fylgt skipulagi.
Borgin ber þessa merki þar sem hálfar húsaraðir blasa hvarvetna við með sína æpandi brandveggi. Sumar götur í Reykjavík eru eins og skörðóttur tanngarður þar sem misleitar byggingar og hver sundurgerðin tekur við af annarri. Á góðum degi reynir maður að telja sér trú um að þetta sé nú hluti af hinum Reykvíska sjarma - en sannleikurinn er sá að það er ekkert sjarmerandi við þetta. Þetta er bara ljótt.
Kaldur arkitektúr er það sem hefur tröllriðið allri byggingarlist undanfarna áratugi. Hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða opinberar byggingar. Þetta eru allt einhverjar klakahallir. Af hverju er ekki bara hægt að byggja eitthvað fallegt? Formfagrar byggingar í samræmi við umhverfi sitt?
Mér þykir vænt um Reykjavík. En hún ljót borg.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Vonandi verður notuð deyfibyssa
3.6.2008 | 10:37
Nú væri óskandi að menn gripu til deyfibyssunnar en ekki riffilsins - og að þessum ísbirni yrði hjálpað til heimkynna sinna. Það veltur á því hversu fljótir menn verða í að samhæfa aðgerðir án þess að fólki sé stefnt í voða. Spurning hvort vilji er til þess yfirleitt - eða geta. Við Íslendingar erum svosem ekkert mjög vanir því að taka á móti ísbjörnum ... eða hlífa þeim.
Ég vona samt að þetta endi ekki með hinu hefðbundna blóðbaði og birninum uppsoppuðum einhversstaðar. Vona að það verði hægt að setja vakt á hann meðan útvegað er deyfilyf.
En það er bara von .... ég óttast að þetta muni hafa önnur málalok.
Ísbjörn við Þverárfjall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin aftur :-)
3.6.2008 | 00:09
Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina.
En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur.
Tengslanetið á Bifröst
Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.
Dásamlegur dagur við Þingvallavatn
Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.
Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.
Útkallsæfing á Hellisheiði
Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.
Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur.
Ekkert bloggað af viti
Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.
Sjáumst.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kærleiksstjórnun á Litla-Hrauni
28.5.2008 | 15:38
Margrét Frímannsdóttir er að gera góða hluti á Litla-Hrauni. Endurhæfingardeildin sem hún hefur komið upp, þar sem fangar fá tilsögn í húshaldi, matreiðslu og þessháttar til að undirbúa þá fyrir athafnir daglegs lífs, er í mínum huga dæmi um betrunarviðleitni þessarar stofnunar sem svo allt of lengi hefur verið geymslustaður fyrir afbrotamenn. Staður þar sem þeir áttu litla möguleika á að skapa sér tækifæri til endurkomu inn í samfélagið. Vonandi er að verða breyting á núna.
Síðasta tiltækið - að fá Margréti Sigfúsdóttur, hússtjórnarskólaskólastjóra og kennara, til þess að kenna föngunum um almennt húshald - á þann hátt sem henni einni er lagið - er frábært framtak.
"Kærleiksstjórnun" er hugtakið (eða nýyrðið) sem mér kom til hugar þegar ég las um þessa nýjung á Hrauninu. Þessir stjórnunarhættir Margrétar Frímannsdóttur bera vott um umhyggju og uppbyggingu sem er allt of sjaldséð í opinberri stjórnsýslu.
Kærleikurinn er mikils megnugur þar sem hann fær notið sín. Ég óska Margréti Frímannsdóttur til hamingju með það sem hún er að gera og sendi henni og hennar skjólstæðingum bestu velfarnaðaróskir.
Sorglegt að sjá
27.5.2008 | 16:52
Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu.
Ég velti fyrir mér afleiðingum þessa atviks á sálarlíf piltsins og tilfinningar þeirra sem voru með honum til lögreglunnar framvegis. Svo mikið er víst að þetta eykur ekki traust almennings á lögreglunni. Innra með sjálfri mér hafa vaknað alvarlegar efasemdir um að lögreglumönnum sé innrætt rétt hugarfar gagnvart borgurum þessa lands, þ.á.m. unglingum.
Ef íslenskir lögreglumenn þola ekki að þeim sé svarað á vettvangi - hvar stöndum við þá? Hver eru réttindi borgaranna ef þeir mega ekki tjá sig við lögregluna án þess að eiga á hættu meiðingar og lítillækkun?
Löggæslustörf eru vissulega krefjandi - þau eiga að vera það. En þessar aðstæður voru ekkert sérlega krefjandi. Hver einasti grunn- eða framhaldsskólakennari hefði leyst betur úr þessu máli en lögreglumaðurinn gerði þarna. Þetta var einfaldleg ástæðulaus árás á varnarlausan ungling. Lögregluoflæti - paranoja.
Og hvað skyldu lögregluyfirvöld gera í málinu, nú þegar atvikið er lýðum ljóst?
Hvað hefðu þau gert ef þetta myndband væri ekki til staðar? Spyr sú sem ekki veit.
Mál lögreglumanns til ríkissaksóknara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Eiturúðun á almenningssvæðum
23.5.2008 | 12:00
Í morgun þegar ég var á leið til vinnu blasti við mér undarleg sjón. Tveir unglingspiltar með hanska á höndum og grímur fyrir andlitum stóðu á litlu grasflötinni neðan við húsið hjá mér og úðuðu torkennilegu efni úr bláum dunki yfir grasið. Af múnderingunni að dæma voru þeir að eitra fyrir einhverju þarna á flötinni - þar sem er svosem enginn gróður annar en gras. Og þessi flöt er nú bara svolítil brekka þar sem gaman er að setjast niður í góðu veðri.
Ég varð því hugsi yfir þessu: Gat verið að að verið væri að setja einhverskonar eitur ofan í grasið? Til hvers? Í hvers þágu? Og hvar voru merkingarnar - viðvaranirnar? Og hversvegna voru piltarnir ekki betur útbúnir? Þarna stóðu þeir - annar á rifnum gallabuxum með stóru gati rétt ofan við hné - og eiturúðinn sprautaðist í allar áttir í nokkurra sentímetra fjarlægð.
Við hjónin stöðvuðum bílinn og maðurinn minn skrapp yfir til þeirra að spyrjast fyrir. Kom þá í ljós að piltarnir skildu hann ekki . "Við sprauta" sögðu þeir bara - og héldu iðju sinni áfram.
Nú spyr ég: Hvað er verið að eitra í grasflatir í almenningsumgengni? Og ef svo er, hversvegna eru þá ekki settar upp viðvaranir og merkingar? Ef ég hefði ekki beinlínis gengið fram á þetta, þá hefði ég verið allt eins líkleg til þess að koma stuttu seinna og setjast í grasið. Börnin sem búa í götunni leika sér oft í brekkunni - velta sér í grasinu - og enginn hefur hugmynd um að þetta sama gras hefur verið úðað með einhverri óhollustu stuttu áður.
Og útgangurinn á strákunum - ef ég hefði átt þessa drengi og komið að þeim svona útbúnum að úða eitri, þá hefði ég bókstaflega trompast.
Þar fyrir utan held ég að þessi eitrunarárátta sé gengin allt of langt. En það er önnur umræða.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði
19.5.2008 | 10:07
Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.
Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.
Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.
Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.
"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.
Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...
17.5.2008 | 11:42
Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) - hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.
Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn!
Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!
Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.
Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þoka og fréttaþurrð
15.5.2008 | 09:43
Það er þoka í Skutulsfirðinum núna og stafalogn. Maður finnur samt fyrir sólinni einhversstaðar fyrir ofan - hún vefur birtu sína í þokumistrið, gerir það hlýrra. Kyrrð og værð yfir öllu. Hálfsofandi fuglar líða einn og einn um hafflötinn og skilja eftir sig V-laga rák.
Í morgun átti ég MSN-fund með mínu fólki á Skutli.is, líkt og alla aðra virka morgna. Þetta eru svona fréttafundir þar sem við ræðum atburði líðandi stundar og ákveðum hvað verður sett inn á vefsíðuna þann daginn. Nú brá svo við að það er ekkert í fréttum. Bara þoka.
Jamm, það koma svona dagar. Svo koma ráð.
Eigið góðan dag í dag.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Brautargengiskonan útskrifuð
13.5.2008 | 22:53
Í dag útskrifaðist ég af Brautargengisnámskeiði sem Impra - Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur staðið fyrir hér á Ísafirði í vetur. Ég fékk meira að segja sérstaka viðurkenningu fyrir "bestu viðskiptaáætlunina" - og vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið. Það var óvænt ánægja og heilmikil hvatning.
Ástæða þess að ég skellti mér á þetta námskeið var sú að mig hefur lengi langað til þess að standa fyrir stofnun söguseturs eða -sýningar um Spánverjavígin 1615. Ég sé fyrir mér afþreyingarsafn og sýningu ekki ósvipaða Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt leiðsöguferðum um söguslóð þessara dramatísku atburða þegar héraðshöfðingjar hér vestra - með Ara í Ögri fremstan í flokki - eltu uppi Baskneska hvalveiðimenn, sem hér höfðu lent í skipstrandi, og stráfelldu þá í tveimur aðförum 1615. Þessi atburður á engan sinn líka í Íslandssögunni - og af honum má ýmislegt læra um samfélag 17. aldar, atburða- og atvinnusögu okkar, hugmyndasöguna og margt fleira. Safnið gæti öðrum þræði verið fræðasetur þar sem fræðimenn gætu dvalið til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir sínar. Það gæti verið vettvangur menningarviðburða og menningartengsla auk þess að bjóða upp á margvíslega afþreyingu og fróðleik.
Þegar ég, fyrr í vetur, fékk svo undirbúningsstyrk úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og frá félagsmálaráðuneytinu til að vinna viðskiptaáætlun, þá var að hrökkva eða stökkva.
Þannig að ég fjárfesti einfaldlega í þessu Brautargengisnámskeiði - hugsaði með mér að það gæti verið gaman að skipta aðeins um gír og læra eitthvað nýtt. Brautargengisnámskeiðin eru ætluð konum í frumkvöðlaverkefnum. Og þarna hef ég setið á miðvikudögum, ásamt tíu konum hér úr nágrenninu, og stúderað innstu rök markaðs- og rekstrarfræða, bókhalds- og fjármögnunaráætlanir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Leiðbeinendur okkar hafa verið allir af vilja gerðir að aðstoða okkur og kenna - og satt að segja var þetta ný og áhugaverð reynsla fyrir mig.
Í dag vorum við svo útskrifaðar allar saman - með ræðum, blómum, skírteinum og viðurkenningum.
Með þá hvatningu í veganesti býst ég við að hóa saman hinum væntanlegu samstarfsaðilum. Og hjóla svo í sveitarstjórnirnar hér í kring, þingmenn kjördæmisins og væntanlega fjárfesta og kynna þeim áætlunina.
Nú sjáum við hvað setur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)