Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sól á fjörðum sindrar

Vebjarnarnupur Í dag hefur veðurblíðan leikið við okkur Vestfirðinga - það var ekki amalegt að horfa yfir lognkyrran og sólgylltan fjörðinn snemma í morgun.  Morgnarnir eru alltaf fallegastir, finnst mér.

Á svona degi er vel við hæfi að taka bloggfrí - verðskuldað bloggsumarfrí. Wink

Ég veit ekkert hvenær ég má vera að því að koma inn aftur - það kemur bara í ljós.

Á meðan læt ég standa ljóðið sem varð til hjá okkur mæðgum - mér og mömmu - þegar við heimsóttum Rauðasandinn í fyrrasumar, sælla minninga. Þá var veðurblíða líkt og nú þegar andinn kom yfir okkur. Þetta var afraksturinn:

Sól á fjörðum sindrar.
Sveipar gullnum ljóma
ljóssins tíbrá, tindrar
tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.


Sjóbað á sautjándanum

P1000840 (Medium)Afrek dagsins hjá okkur mæðgum var: Sjóbað! Cool

Brrrrrrrrr - við dembdum okkur í sjóinn framundan lítilli sandfjöru á Seltjarnarnesinu í góða veðrinu í dag. Þetta var svona skyndihugdetta.

Skömmu áður stóðum við nefnilega eins og ratar á tröppunum við Vesturbæjarlaugina - höfðum ekkert hugsað út í það að auðvitað eru sundlaugarnar lokaðar á 17. júní.

Hálf vonsviknar fórum við út á Seltjarnarnes - komum þar við í ísbúð til að bæta okkur upp fýluferðina, og meðan við vorum að sleikja ísinn var tekinn svolítill rúntur um nesið. Þá sáum við mann á sundskýlu sem var að þurrka sér á bílastæðinu við golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Við litum hvor á aðra: Hann hlýtur að vera að koma úr sjónum, þessi! Við í sjóbað!

Og það gerðum við. Ekki eins kalt og við héldum - en kalt samt.  Og hressandi. Cool

Svona gekk þetta fyrir sig.

Fyrst var tekin upplýst ákvörðun og náð í handklæði og sundföt

P1000835 (Medium) 

Svo var farið á staðinn og fötum fækkað

P1000837 (Medium)
Þá var tánni dýft út í og sjórinn aðeins mátaður
P1000839 (Medium)
Og svo var látið vaða!
P1000841 (Medium)
Dásamlegt!
P1000840 (Medium) 

Allt á öðrum endanum!

Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).

Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.

Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír  vörpulegir iðnaðarmenn Undecided  komnir til að gera við baðherbergið.  Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.

Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.

En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur. InLove

Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn. Wink

 En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera  hreint.


Sól slær silfri á voga ...

snaefellsjokull "... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.  

(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir) Blush

En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.

Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.

"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.

Njótið helgarinnar.

 PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.


Eins og steiktur tómatur

 Ég er sólbrennd eins og steiktur tómatur eftir daginn. Það er ekki sjón að sjá mig.

En þessi fyrsti dagur björgunarhunda-námskeiðsins gekk vel. Skutull stóð undir nafni. Hann þeyttist um móana á ógnarhraða, svo mér komu í hug orð Gríms Thomsen í Skúlaskeiði:

Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti ...

Hann var léttur á sér og leysti sín verkefni vel; gelti eins og herforingi úti hjá þeim týnda (fígúrantinum) og þurfti ekki hvatningu til.  Ég er ekki enn farin að taka hann til mín í vísun - en mig grunar að þess verði ekki langt að bíða.

En ... á morgun ætla ég að muna eftir sólarvörninni - þó hann rigni.

skutull08


Farin í hundana

skutull-nyr Nú er ég á leiðinni austur á Úlfljótsvatni með Skutul minn. Björgunarhundasveit Íslands verður þar með æfinganámskeið um helgina eins og oft áður um þetta leyti árs. Ég mun því taka frí frá bloggi og pólitík meðan á þessu stendur og einbeita mér að þjálfun hundsins.

Hann stendur sig annars vel litla skinnið - er vinnusamur, áhugasamur og hlýðinn eins og hann á kyn til. Border-Collie er alveg einstök hundategund, og hann sver sig vel í ættina, blessaður.

Góða helgi öllsömul.


Blíðan á Austurvelli - þingsetningin - morgundagurinn

Austurvöllur Í svona veðri er ekki annað hægt en að lita björtum augum á lífið og tilveruna. Stemningin í miðbænum hefur verið frábær í allan dag. Prúðbúnir Norðmenn spígspora um í þjóðbúningum sínum með fána í hönd. Hjá þeim sameinast nú þjóðhátíðardagur Norðmanna og sigurvíman yfir sigri gærkvöldsins í söngvakeppninni.

Og ekki er minna þjóðarstoltið í fasi Íslendinganna í dag. Á Austurvelli flatmagar fólk í sólinni og bíður þess að bjóða Jóhönnu Guðrúnu velkomna með silfrið úr Júróvisjón seinna í dag. Allir skælbrosandi.

Já þetta er nú meiri rjómablíðan sem hefur gælt við okkur þessa helgi. Og ekki spillti veðrið við þingsetninguna á föstudag. 

Ég skal að vísu viðurkenna að mér varð um og ó þegar við gengum út úr þinghúsinu framhjá hópi af hrópandi fólki sem hafði raðað sér meðfram heiðursverðinum til þess að kalla að okkur ókvæðisorðum, skipa okkur til andsk.... og ota að okkur löngutönginni. En það þýðir ekkert að armæðast yfir því - svona er bara mórallinn í samfélaginu um þessar mundir og þá verður bara að hafa það.

En semsagt - á dögum eins og þessum er gaman að vera til. 

Á morgun hefst svo sjálf alvaran með nefndafundum fyrir hádegi og eldhúsdagsumræðum annað kvöld. Eftir það taka sjálf þingstörfin við.

Ætli hveitibrauðsdagarnir í pólitíkinni séu ekki þar með taldir. Trúað gæti ég því. Wink


Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára

íslenskiFáninn Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar. Frown 

Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.

Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.

Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Woundering Sögulegt. 

Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.

skutull-nyrÉg kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst. 

Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir). 

En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:

Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.

Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir. 

Wink 


Maísólin okkar skein í dag

1.maí07.gangan.gústi 1. maí gangan á Ísafirði í dag var sú fjölmennasta frá því ég flutti hingað vestur. Það var frábært að sjá hversu margir fylktu sér á bak við fána verkalýðsfélaganna við undirleik Lúðrasveitar Vestfjarða sem leiddi gönguna. Dagskráin var létt og skemmtileg og ræður góðar.

Ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku er vafalaust efnahags- og atvinnuástandið í landinu. Það er líka vert að vekja á því athygli - eins og einn ræðumanna dagsins benti á - að baráttusöngur verkalýðsins sem ortur var á frönsku árið 1870 á við enn þann dag í dag. Kannski hefur hann aldrei verið betur viðeigandi en einmitt nú - sérstaklega niðurlag fyrsta erindis, sem ég letra hér með rauðu í tilefni dagsins (þýð. Sveinbjörn Egilsson).

Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök
nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burt vér brjótum!
Bræður, fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt vér hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:/  Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd./:

skutull08Annars var þetta frábær dagur. Við,  félagar Björgunarhundasveitinni, notuðum góða veðrið til þess að taka æfingu með hundana nú síðdegis. Við fórum inn í Álftafjörð þar sem sólin skein á lognværan og sindrandi sjóinn. Það var maísólin okkar. Smile

Við heyrðum í fugli og fundum lykt af rekju og vaknandi gróðri í vorblíðunni. Hundarnir réðu sér ekki af kæti og vinnugleði. Yndislegt.

 


Frábær ritdómur - móðurhjartað þrútið og heitt

Humanimal09 (Medium) Um helgina frumsýndi hópur ungra listamanna nýtt dansleikverk í Hafnarfjarðarleikhúsinu sem nefnist Húmanímal. Dóttir mín Saga var þátttakandi í þessu verki sem Páll Baldvinsson gefur hæstu einkunn í ritdómi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.  Móðurhjartað sló ört og ótt við lestur ritdómsins eins og nærri má geta. Hann er svo frábær að ég stenst ekki freistinguna að birta hann hér:

Það er vissulega erfitt að draga sýninguna Húmanímal í dilka: stundum er hún hrein myndlist, stundum dramatískt samtal sem hverfist í tvídans, raddtilraun eða söngatriði, erótísk slagsmál, kyrrstæður sólódans án hreyfingar: hún er tilraunakennd hreyfing sem er bæði skopleg og sársaukafull, tvíræð en tilfinningaþrungin. Verkið er unnið í hópi en samt með leikstjórum, einfaldlega hugsað í rými með færanlegri dýpt tveggja veggbrota sem geta lifnað við á óvæntan og undurfagran máta.

Það var yndislega gaman að sjá verkið skríða fram, finna fjölbreytnina kveikja undrun og hrífast með í einfaldleika kyndugra hugmynda sem klæddust holdi og hreyfingu og stundum röddum. Þau hafa verið heppin krakkarnir sem standa að sýningunni að ná utanum svo óskyld konsept sem eru fyrst og fremst sjónræn og koma þeim í svo glæsilega heild. Þau eru misjafnlega á sig komin: Álfrún slíkt múltitalent að mann undrar það, Jörundur að þreifa sig inn á ný svið, Margrét nánast himnesk í sínum makalausa bakskúlptúr og víkur ekki undan erfiðum orðaleik undir lok verksins. Saga dýrslega líkamleg, Dóra tvíbent í ræðu sinni um hvatirnar og Friðgeir fáránlega þurr í erótískri útlistun á ertisvæðum kvenlíkama. Og allt er þetta borið fram af hispursleysi, taktskynjun og alvarlegri nálægð svo undrum sætti. Allt framkvæmt af fullnustu og slíkum krafti að aðdáunarvert var.

Víst gerir grunnhugmynd um liti og áferð búninga og leikmyndar mikið og hljóðheimurinn samsvarar fullkomlega tínslu hugmynda í atburðarásina.

Þetta var bara gaman og furðulegt og fallegt og maður ók glaður heim úr Firðinum. Það er á slíkum stundum að maður þakkar fyrir Leiklistarráð og það þrekfólk sem smíðar stórkostlega sýningu úr litlu. Og hina ungu og óreyndu leikstjóra sem binda pakkann saman að lokum.

Svo mörg voru þau orð.

Það er svolítið gaman að því að slá kjördæmapólitísku eignarhaldi á sýninguna. Það er nefnilega þannig að tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi eiga "börn" í þessari sýningu. Það erum við Ragnar Jörundsson sem skipar 6. sæti listans og er faðir Jörundar Ragnarssonar. 

Jebb ... og nú slær móðurhjartað - þrútið og heitt. InLove


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband