Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Nú vandast málið: Hverjir eiga landið?
22.9.2008 | 09:42
Landeigandi í Mývatnssveit hefur sótt um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingu jarðvarmaorku á eignarlandi sínu. Hann vill reisa 50 megawatta virkjun. Nú vandast málið - jarðvarmaorkan er nefnilega ekki til skiptanna. Það er búið að taka hana frá handa Landsvirkjun. Og eins og iðnaðarráðherra bendir á þá er "ekki hægt að fara með neinni rányrkju gagnvart jarðhitanum" því það verða "ekki meira en 90 megavött miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir teknar upp úr þessum sama geymi".
Þetta er athyglisvert mál. Það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum að landeigendur sjálfir hefðu bolmagn til þess að nýta landgæði af þessu tagi. En hvers vegna ætti Landsvirkjun að eiga meiri rétt en sjálfur landeigandinn til þess? Af hverju ætti hann ekki að mega rannsaka sjálfur og virkja á sínu landi? Hann gæti þá selt virkjun sína til Landsvirkjunar í stað þess að selja henni aðganginn að jarðvarmanum. Báðir gætu hugsanlega haft hag af þeim skiptum.
Já, nú vakna nokkrar áleitnar grundvallarspurningar: Hverjir eiga landið? Hvernig skal farið með auðlindir þess?
Nærtækt dæmi er fiskurinn í sjónum. Í sjávarútveginum ganga leyfi til nýtingar kaupum og sölum milli útgerða. Þar er engin formleg "landsútgerð" (þó að LÍÚ sé það kannski í raun) sem á forgangsrétt að þeirri takmörkuðu auðlind.
Kannski gætu menn lært eitthvað af því að skoða gæði lands og sjávar í einu samhengi til þess að átta sig á því hvernig réttast sé að fara með auðlindirnar og nýta þær.
Í því samhengi mættu menn líka líta á vítin sem varast ber.
![]() |
Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Aðalþing Neytendasamtakanna - hvar voru fjölmiðlar?
20.9.2008 | 00:29
Í dag hófst aðalþing Neytendasamtakanna sem stendur þar til síðdegis á morgun. Ég var í hlutverki þingforseta og gat því fylgst vel með umræðum dagsins, sem voru áhugaverðar. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var með fróðlegt erindi í upphafi þings, byggt á tölulegum upplýsingum, um stöðu neytendamála í Evrópu. Í kjölfarið var svo fjallað um hagsmuni heimilanna gagnvart hugsanlegri Evrópusambandsaðild. Jón Sigurðsson fv. ráðherra (og fv Framsóknarformaður) og Ragnar Árnason hagfræðingur fluttu framsögur um það efni. Hvorugur er raunar hlynntur aðild - en báðir voru með athyglisverðar ábendingar og upplýsingar sem vöktu mann til umhugsunar um ýmislegt varðandi bæði kost og löst á Evrópusambandsaðild.
Þá var einnig fjallað um tryggingamarkaðinn á Íslandi og nýlega rannsókn sem gerð hefur verið á starfsemi og umsvifum tryggingafélaganna hér á landi í samanburði við tryggingamarkaðinn í nágrannalöndum.
Eins og gefur að skilja var staða neytenda í landinu í brennidepli og möguleikar þeirra til þess að fá leiðréttingu sinna mála sem og upplýsingar um vörur og þjónustu, m.a. erfðabreytt matvæli, upprunaland framleiðsluvöru og fleira. Satt að segja hefur ekki gengið allt of vel að fá íslensk stjórnvöld til að móta reglur um rétt neytenda til vitneskju um erfðabreytt matvæli, svo dæmi sé tekið.
Fjarvera fjölmiðla vakti athygli mína. Enginn fulltrúi útvarps- eða sjónvarpsstöðva var þarna sjáanlegur. Öðruvísi mér áður brá, þegar aðalþing neytenda í landinu þótti sjálfsagt fréttaefni ásamt viðtölum og ítarlegum umfjöllunum um það sem heitast brynni á neytendum. Hvað veldur? Hafa fjölmiðlar misst áhugann? Skortir eitthvað á upplýsingagjöfina til þeirra?
Ég veit ekki - segi bara það eitt, að mér hefði fundist vel við hæfi að sjá þarna eins og einn eða tvo fréttmenn að fylgjast með þinginu og þeim umræðum sem þar fóru fram í dag.
En kannski segir það allt sem segja þarf um stöðu íslenskra neytenda, að fjölmiðlar skuli ekki sjá ástæðu til að sinna því þegar Neytendasamtökin þinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fylleríinu lokið - vondir timburmenn yfirvofandi
17.9.2008 | 10:35
Undanfarinn áratug hafa íslensku útrásarfyrirtækin siglt seglum þöndum við fagnaðarlæti og hvatningaróp hérlendra ráðamanna og fjölmiðla sem kepptust við að dilla og hossa íslensku strákunum í viðskiptalífinu. Þeir voru jú að meika það drengirnir með tugmilljónir króna í mánaðarlaun og kaupréttarsamninga á fáheyrðum kjörum.
Þetta myndband á síðunni hennar Láru Hönnu segir ákveðna sögu um það sem að baki lá.
En nú er fylleríinu líklega lokið og óhjákvæmilegir timburmenn framundan. Íslensku útrásarjöfrarnir eru í svipuðum sporum og bóndinn sem fór í kaupstaðarferð og fékk sér of mikið neðan í því hjá kaupmanninum lyktandi af ævintýrum gærdagsins og líður ekkert allt of vel undir augnaráði heimilisfólksins.
![]() |
Nýsir á barmi gjaldþrots |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landsföðurlegur Geir - í vandræðum vegna Árna Matt
15.9.2008 | 10:43
Athyglisvert var að hlusta á ræður manna í Silfri Egilsí gær. Augljóst er að Sjálfstæðismenn vilja sem minnst gera úr þessu útspili Árna Matthiesen að lögsækja ljósmæður í miðri kjaradeilu. Forsætisráðherra talaði eins og lögsóknin væri "lagatæknilegt" úrskurðaratriðið sem "breytti ekki deilunni um kjörin" eins og þetta væru tvö aðskilin mál algjörlega úr tengslum hvert við annað.
Jebb ... menn eru í stökustu vandræðum, sem vonlegt er. Því það er auðvitað alveg sama hvað hver segir, lögsókn fjármálaráðherra á ljósmæður nú þegar verkföll eru hafin, er auðvitað innlegg í sjálfa deiluna og fjarri því að vera óháð henni. Hafi þetta legið fyrir frá því í júlí að efasemdir væru uppi um lögmæti uppsagna ljósmæðra, þá er þetta vægast sagt undarleg tímasetning núna.
Annars var Geir Hilmar bara landsföðurlegur og traustvekjandi í samtalinu við Egil. Það var gott að heyra hann tala af föðurlegri visku eftir hrunadans efnahagsumræðunnar í fyrri hluta þáttarins þar sem allt var á fallanda fæti, ævisparnaður fólks horfinn í kreppuhít og ég veit ekki hvað. Ef Kristinn H hefði ekki verið til staðar að stemma þau ósköp öllsömul af, veit ég ekki nema maður sæti enn stjarfur af skelfingu fyrir framan skjáinn.
En sumsé - svo kom Geir og sagði mér og fleirum að verðbólgan myndi minnka hratt á næsta ári. Í stjórnarráðinu væru menn að takast á við vandann og finna á honum lausnir af ábyrgð og yfirvegun. Hann náði mér úr þeim skelfingargreipum sem ég var komin í eftir að hlusta á Andrés Magnússon fyrr í þættinum. Og maður skyldi ekki vanmeta það hlutverk landsfeðra að tala til fólksins og róa það á viðsjárverðum tímum.
Geir er viðkunnanlegur maður - mildur og rökfimur. Maður hefur tilhneigingu til að trúa honum. Sem er gott eins og á stendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvað segja konurnar í ríkisstjórninni?
12.9.2008 | 12:15
Formaður samningarnefndar ríkisins hefur haldið því fram að kjaradeila ljósmæðra snúist ekki endilega um menntun ljósmæðra heldur "eðli starfans". Eiginlega veit ég ekki hvort er meiri móðgun við ljósmæður að halda því fram að eðli starfs þeirra eða menntunin sé ekki launahækkunar virði.´
Sem margra barna móðir þekki ég af eigin raun - líkt og fjölmargar kynsystur mínar - hið djúpa þakklæti sem hver kona finnur í garð sinnar ljósmóður þegar barn er farsællega fætt inn í þennan heim. En kannski verður slík tilfinning aldrei útskýrð fyrir karlmanni í samninganefnd ríkisins eða fjármálaráðuneytinu. Karlmenn þar á bæ hafa kannski engar forsendur til að skilja helgi fæðingarstundarinnar og mikilvægi ljósmóðurinnar í aðdraganda hennar. Að minnsta kosti verður það ekki ráðið af orðum þeirra eða gjörðum.
Í þessu myndbandi sem Lára Hanna Einarsdóttir setti saman má heyra Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðhera marglýsa yfir stuðningi við málstað ljósmæðra. Hann talar um að "allir" hafi ríkan skilning á þeirra stöðu enda sé á næsta leyti "myndarlegt" útspil af hálfu ríkisins inn í kjaradeiluna.
Hmm... næstu fréttir eru lögsókn fjármálaráðherra á hendur Ljósmæðrafélaginu. Sannarlega útspil í lagi.
"Sínum augum lítur hver á silfrið" segir máltækið. Það er augljóst af öllu að hinn "ríki" skilningur stjórnvalda á stöðu ljósmæðra er ekki af einum toga.
Fjármálaráðherra og formanni samninganefndar ætlar að takast það ótrúlega - að skipa allri íslensku þjóðinni í sveit með ljósmæðrum í þessari kjaradeilu. Það er í sjálfu sér þarft verk - en aðferðin óneitinalega óhefðbundin, þ.e. að ganga fram af af fólki með lítilsvirðandi ummælum og óbilgirni.
Skyldu konurnar í ríkisstjórninni engu fá ráðið í þessu máli? Ég trúi því ekki að þeim sé skemmt núna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ráðherra hótar ljósmæðrum lögsókn!
11.9.2008 | 22:33
Árna Matthiesen væri nær að semja við ljósmæður en lögsækja þær. Hann hefur nú stefnt þeim fyrir dómstóla fyrir það sem hann kallar "ólöglegar uppsagnir". Ég held barasta að maðurinn sé að missa alla veruleikatengingu.
Þessi stefna fjármálaráðherrans er það eina sem gerst hefur í kjaradeilu ríkisins við ljósmæður frá því þær sigldu í strand. Sumsé: Ef ekki semst við þessar kellingar - lögsækjum þær þá bara. Hræðum þær ærlega - þær hljóta einhverntíma að hætta þessari vitleysu.
Hvað er maðurinn að hugsa? Heldur hann að þetta sé vænlegt til þess að leysa kjaradeilu sem snýst um margra ára uppsafnaða óánægju yfir augljósu óréttlæti?
Það er staðreynd að ljósmæður fá ekki menntun sína metna til jafns við aðrar stéttir. Um það eru skýr og óhrekjanleg dæmi. Viðsemjandinn er ríkið - og samkvæmt stjórnsýslulögum ber ríkinu að virða jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þið fyrirgefið, en ég sé engan grundvallarmun á því hvort fólki er mismunað við stjórnsýsluákvarðanir eða í kjarasamningum þar sem ríkið er viðsemjandi. Eiginlega finnst mér vel athugandi fyrir ljósmæður að láta reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þær í kjarasamningum allar götur frá því að núverandi menntun ljósmæðra varð viðtekin regla. Þær eru ekki að fara fram á neinar hækkanir, heldur hreina og klára leiðréttingu - afnám óréttar og mismununar.
Árni Matthiesen hefur orðið sér til skammar með þessari lögsóknarhótun. Og ef ríkisstjórnin situr þegjandi og horfir upp á þetta, þá er ekki orð að marka það sem stjórnarflokkarnir hafa sett á blað um jafnréttismál.
Svei.
![]() |
Ljósmæður: Uppsagnir löglegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.9.2008 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Nú er lag fyrir ríkisstjórnina ...
3.9.2008 | 21:50
Gott hjá læknunum að styðja ljósmæðurnar í sinni kjarabaráttu. Fyrir utan okkur sem höfum upplifað barnsfæðingar eru læknar líklega sá hópur fólks sem skilur hvað best mikilvægi ljósmóðurstarfsins.
Það er ótrúlegt en satt, að laun ljósmæðra eru með því sem lægst gerist innan Bandalags háskólamanna þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af ríkisstarfsmönnum. Byrjunarlaun ljósmæðra eru til dæmis mun lægri en byrjunarlaun verkfræðinga með meistaragráðu.
Ég vona líka að fólk hafi tekið eftir frétt sjónvarpsins í kvöld um launamun á ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Þar kom fram að hjúkrunarfræðingur sem bætir við sig ljósmæðranámi og fer að starfa sem ljósmóðir getur lækkað við það í launum. Í öðrum tilvikum hækkar hann lítillega, en þó aldrei jafn mikið og ef hann hefði bara unnið áfram sem hjúkrunarfræðingur og sleppt því að fara í ljósmóðurnámið - tveggja ára nám.
Nei, það er löngu tímabært að störf ljósmæðra verði endurmetin miðað við þá miklu ábyrgð sem þær gegna.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þá stefnu að jafna óútskýrðan kynbundinn launamun hjá hinu opinbera. Nú er lag fyrir ríkisstjórnina að stíga mikilsvert skref í þá átt og semja um kjör handa ljósmæðrum sem standast samanburð við sambærilegar karlastéttir.
Slíkt framtak gæfi íslenskum konum a.m.k. von um að jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar næðu einhvern tíma fram að ganga.
![]() |
Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Semjið við ljósmæður
2.9.2008 | 11:52
Íslenskar ljósmæður eru trúlega friðsamasta starfsstétt landsins og langlundargeði þeirra við brugðið. Árum saman hafa þær með friðsemd reynt að fá menntun sína og störf metin að verðleikum í samræmi við aðrar stéttir í þjónustu hins opinbera með svipaða menntun. Viðsemjendur hafa skellt við skollaeyrum.
Menntuð ljósmóðir þarf að ljúka fullgildu hjúkrunarnámi og bæta síðan við sig ljósmóðurfræðum. Þetta er tvöfalt háskólanám - álíka langt og læknisnám. Engu að síður eru hjúkrunarfræðingar í mörgum tilvikum (ef ekki öllum) með hærri laun en ljósmæður. Fyrir því eru engin rök - bara gamall arfur frá því að ljósmóðurmenntun var með öðrum hætti. Það er langt síðan.
Nú er þolinmæði ljósmæðra á þrotum og þær hafa boðað til tímabundinna verkfalla sem hefjast á fimmtudag hafi samningar ekki tekist. Þær eru þó ekki bjartsýnar - viðsemjendurnir eru stífir og enn strandar á kröfunni um að menntun þeirra sé metin til launa.
Auðvitað er óverjandi að landa ekki viðunandi samningi um kaup og kjör þessarar mikilvægu kvennastéttar áður en kemur til verkfalls. Og það er ólíðandi að menntun kvenna skuli ekki metin til jafns við það sem gerist annarsstaðar á vinnumarkaði. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða konur í jafn mikilvægum störfum og ljósmóðurstörf eru.
Það er heldur ekki ásættanlegt að konur komnar að fæðingu skuli þurfa að vera í óvissu um aðbúnað sinn og aðstæður þegar kemur að fæðingu. Kvíði og óöryggi eru óholl barnshafandi konum, og ef eitthvað er líklegt til að valda þungaðri konu kvíða, þá hlýtur það að vera yfirvofandi verkfall ljósmæðra.
Ég skora á ríkisstjórnina - að minnsta kosti Samfylkinguna - að beita sér fyrir því að samningar náist við ljósmæður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Opinber meiðyrði afsökuð í einkasamtali?
1.9.2008 | 10:00
Matthías Johannessen hefur á opinberum vettvangi borið meiðandi álygar á Guðjón Friðriksson sagnfræðing. Fréttir herma að hann hafi beðist afsökunar í einkasímtali. Á vefsíðu Matthíasar er enga slíka afsökunarbeiðni að finna - en Guðjón hefur staðfest í fréttum að hann hafi beðist munnlega afsökunar og málinu sé lokið af hálfu Guðjóns.
Guðjón Friðriksson sýnir Matthíasi mikið drenglyndi að sætta sig við þessi málalok. Þá á ég við það að sætta sig við einkasímtal sem afgreiðslu á opinberri ávirðingu. Matthías er þó ekki meiri maður fyrir vikið. Maður með sjálfsvirðingu sem gerst hefði sekur um að bera álygar á saklausan mann myndi að sjálfsögðu biðjast afsökunar á sama vettvangi og meiðingarnar hefðu komið fram. Ég hefði búist við því af Matthíasi Johannessen að hann væri maður til að gera slíkt.
Ég hef áður bloggað um dagbækur Matthíasar sem mér finnast á köflum varða við siðareglur blaðamanna, og nú einnig við ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga. Það er illt til þess að vita að ritstjóraskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli heldur "áburðarverksmiðja" - svo ég noti nú gamalt orð í nýjum tilgangi.
Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt.
Fyrir þá sem hafa orðið fyrir slíkum vinnubrögðum - og þekkja hvernig þau svíða á sálartetrinu - er átakanlegt að verða vitni að öðru eins hjá mikilsvirtum ritstjóra og skáldi sem margir hafa hingað til litið upp til og í ýmsu tekið sér til fyrirmyndar.
Sorglegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Það sem höfðingjarnir hafast að ...
29.8.2008 | 14:36
Ekki alls fyrir löngu hvatti Geir Haarde almenning til aðhalds í peningamálum vegna versnandi efnahagsástands (sjá hér ). Í opinberum ummælum ráðamanna og atvinnurekenda um kjaraviðræður er hamrað á því að fólk verði að sýna nægjusemi í erfiðu árferði. Á sama tíma sjáum við og heyrum í fjölmiðlum um milljónaútlát vegna ferðalaga einstakra ráðherra sem fara með fríðu föruneyti á Ólympíuleikana, ekki einu sinni heldur tvisvar. Við heyrum af rándýrum boðsferðum ráðamanna í laxveiðiár og lesum í tekjuyfirliti Frjálsrar verslunar um stjórnendur í fjármálageiranum sem hafa tugi milljóna á mánuði í laun.
Er nema von þó að almenningi sé um og ó?
Í ljósi þessarar umræðu er svolítið vandræðalegt að lesa varnarræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar á bloggsíðu hans í dag. Þar ber hann í bætifláka fyrir menntamálaráðherra sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir mikinn ferðakostnað vegna Ólympíuleikanna. Sigurður Kári beitir því bragði að reyna að draga forsetann inn í umræðuna, augljóslega ergilegur yfir því að fólk skuli ekki beina athyglinni að honum en hlífa flokkssystur Sigurðar Kára, menntamálarðaherranum. Sá er þó munur á að forseti Íslands er þjóðhöfðingi, kjörinn af þjóð sinni til þess að vera fulltrúi hennar á alþjóðavettvangi. Ráðherra hins vegar er yfirmaður tiltekins málaflokks í umboði alþingis. Á þessu er allverulegur munur. Forsetahjónin voru tvö í för - í föruneyti menntamálaráðherra voru fjórir að ráðherra meðtöldum.
"Það sem höfðingjarnir hafast að - hinir ætla að þeim leyfist það" segir máltækið. En satt að segja, held ég að engum venjulegum manni dytti þó í hug að fara tvær opinberar ferðir á einn og sama viðburðinn við fjórða mann. Sannleikurinn er nefnilega sá að venjulegu fólki dettur ekki svona bruðl í hug. Þetta er ekki veruleikinn sem almenningur býr við í eigin aðstæðum.
Þeir sem mæla svona óráðsíu bót eru einfaldlega ekki í tengslum við raunveruleg kjör almennings. Þannig er nú það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)