Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fellur stjórnin líka?
3.10.2008 | 18:04
Fellur gengi, fellur náð,
fellur kusk á ríka.
Falla lauf og fimbulráð.
Fellur stjórnin líka?
Orðrómur um yfirvofandi stjórnarslit er ekki til þess fallinn að róa mann eins og á stendur. Nóg er nú samt.
Best að anda núna í gegnum aðra nösina og út um hina - eins og í jóganu.
Bíddu við ... ??
3.10.2008 | 15:11
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvetur alla hluthafa til að samþykkja boð íslenska ríkisins um kaup á 75% hlut í bankanum - og fagnar nú ummælum forsætisráðherra og Seðlabankastjóra um að hag viðskiptamanna Glitnis verði borgið þar með.
Er þetta örugglega sami Þorsteinn Már og sá sem ég sá í Kastljósi fyrir fáum dögjum titrandi af bræði yfir því að ríkið skyldi hafa lýst vilja til að kaupa bróðurpartinn í Glitni? Þá talaði hann um "mistök lífs síns" að hafa gengið á fund Seðlabankans - eða var Kastljóssviðtalið kannski mistök?
Þorsteinn Már hefur kannski verið vansvefta þann daginn - en þessi kúvending er vægast sagt furðuleg.
Það er eitthvað á bak við þetta.
![]() |
Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Smellin vísa um síðustu atburði
3.10.2008 | 10:33
Hárfínt sagan hefur breyst
hún er oss í fersku minni,
en Davíð kanske gekk full geyst
frá Golíat að þessu sinni.
Þessa vísu fékk ég senda í tölvupósti í morgun - höfundur vill ekki láta nafn síns getið, en hún mun vera ættuð frá Egilsstöðum. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Eldhúsdagsumræðurnar, óráðsjal um stjórnarslit og fleira fallegt
2.10.2008 | 22:10
Ég er ein af þessum vel menntuðu, dugmiklu Íslendingum sem bý í ægifögru umhverfi - þessi sem þeir voru að tala um í eldhúsdagsumræðunni í kvöld. Mér skilst að ég - og við öll sem þessi lýsing á við um - séum von Íslands um þessar mundir.
Af hverju líður mér þá ekki eins og styrkri stoð? Kannski vegna þess að ég hef ástæðu til að draga í efa að mannauðurinn í landinu fái notið sín við núverandi aðstæður. Það er alvarlegt atvinnuleysi yfirvofandi samhliða öðrum vandamálum. "Heimili landsins loga nú rafta á milli" sagði Guðni Ágústsson - eða heyrði ég það ekki rétt - í heimsósóma prédikuninni sem gekk með eldglæringum af munni hans núna áðan?
Já - staðan er vandasöm. Og ekki bætir úr skák að hlusta á æðrutal af þessu tagi. Það máttu þó aðrir þingmenn eiga, að þeir stilltu sig að mestu um skrum - allir nema Guðni. Hann tvinnaði saman hrakspám og svipuhöggum. Það er ekki góð blanda þegar hvetja þarf til dáða. Nei, Guðni minn.
Annars leið mér undir eldhúsdagsræðunum eins og það væri verið að tala til mín á stríðstímum. Og sú líking er ekki fjarri lagi - Kreppan er að skella á. Það er staðreynd, ekki kenning.
Þess vegna er það ekkert yfirborðstal að biðja menn um samhug og samstillt átak til að takast á við vandann. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Því furða ég mig hálfpartinn á því að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, skuli í alvöru leggja það til að Samfylkingin rjúfi ríkisstjórnina, knýi fram kosningar eða myndi nýja stjórn strax með núverandi stjórnarandstöðu til þess að hægt verði að setja Davíð af sem Seðlabankastjóra.
Þetta er óráðshjal. Nóg er nú samt þó við bætum ekki stjórnleysi og ringulreið við þann vanda sem fyrir er.
Nei, nú verða menn að halda kúlinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Smjörklípa Davíðs: Þjóðstjórnin!
2.10.2008 | 16:49
Nú, þegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri situr undir vaxandi ámæli fyrir yfirsjónir og hagstjórnarmistök Seðlabankans í alvarlegu árferði - skellir hann smjörklípu á nefið á fjölmiðlum til þess að drepa umræðunni á dreif. Sem við var að búast. Smjörklípan að þessu sinni er: Þjóðstjórn!
Takið eftir því að þetta er ekki einu sinni haft eftir honum beint - ó, nei. Hann á að hafa andað þessu út úr sér á lokuðum fundi. Tvisvar! Spunameistararnir hvísla þessu hljóðlega í eyru fjölmiðlamanna og álitsgjafa - og eitt augnablik eru tekin andköf! Tvisvar í sömu vikunni? Þjóðstjórn!
Hægan, hægan. Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Skoðanir hans á þjóðmálum eru okkur óviðkomandi. Við höfum stjórnvöld með styrkan meirihluta til þess að stýra þjóðarskútunni - Davíð á að standa vaktina í Seðlabankanum. Hann á meðal annars að gæta að gjaldeyrisinnstreyminu - súrefni efnahagslífsins. Hefur Davíð verið að gera þetta?
Nei - eins og menn hafa bent á síðustu daga, þá hefur Seðlabankinn ekki hirt um að gera gjaldeyrisskiptasamninga eins og seðlabankar annarra Norðurlanda, hafa gert. Hann missti af þeirri lest, virðist vera, og hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega. Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skýtur föstum skotum á Davíð fyrir þetta í dag.
Hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason er ómyrkur í máli í grein í sama blaði, þar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og uppstoppaðan hund í bandi Seðalbankastjórans.
Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins vandar Davíð ekki kveðjurnar á bloggsíðu sinni: Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur réttilega.
Ljóst er að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er lítið um þessar meiningar Davíðs gefið. Það var til dæmis auðheyrt á Össuri í hádegisútvarpinu að honum er ekki skemmt, ekkert frekar en menntamálaráðherra sem líka hefur tjáð sig um málið.
Og lái þeim hver sem vill: Nóg er nú samt að Davíð skuli hafa sest undir stýri með forsætisráðherrann í framsætinu hjá sér og fjármálaráðherrann í aftursætinu á sunnudagskvöldið. Sú ógleymanlega sjón er nokkuð sem spunameistararnir munu illa fá við ráðið í bráð.
Þannig, að það mátti reyna að skella fram hugmyndum um þjóðstjórn. Aldrei að vita nema kötturinn myndi gleyma sér við smjörklípuna.
En það mun ekki gerast að þessu sinni. Stjórn landsins er með styrkan meirihluta manna sem eru að gera það sem þeir geta til að halda þjóðarskútunni á floti - í samráði við formenn þingflokka eftir því sem efni eru til hverju sinni. Þeirra hlutverk er að stjórna landinu.
Davíð væri nær að standa vaktina sem Seðlabankastjóri - og halda vöku sinni betur en verið hefur.
![]() |
Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
... þá voru flestir hvergi!
2.10.2008 | 11:28
Nú þarf að bjarga heimilunum, og það strax - segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasmtakanna í grein sem hann skrifar á heimasíðu samtakanna. En mér kemur í hug vísan góða (og napra) eftir Friðrik Jónsson:
Heimsins brestur hjálparlið,
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.
Annars kann ég ekki glögg deili á höfundi vísunnar - held þó að hann að þetta sé Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal. Gaman væri að fá athugasemd frá einhverjum sem veit þetta.
![]() |
Nú þarf að bjarga heimilunum og það strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í bróðurfaðmi - eða gini ljónsins?
30.9.2008 | 22:06
Vafalaust hafa runnið tvær grímur á marga sem horfðu á Kastljósið nú rétt í þessu. Viðtalið við Þorstein Má Baldvinsson stjórnarformann Glitnis fannst mér athyglisvert - einkum frásögn hans af aðdraganda ríkisyfirtökunnar á Glitni. Þorsteinn Már bað hluthafa Glitnis afsökunar á þeim "mistökum" sínum að hafa snúið sér til Seðlabankans með lausafjárvanda Glitnis.
Hluthafar urðu af hundruðum milljarða króna við yfirtökuna en ríkið gerði "dúndurkaup" eins og Pétur Blöndal orðaði það - keypti á genginu 1,80 á mánudagsmorgun. Þegar markaður lokaði í dag var verðið 4,50.
Glitnismenn standa titrandi af vanmáttugri reiði og telja sig hafa gengið í gin ljónsins. Það var jú stór lántaka Seðlabankans í Þýskalandi sem varð til þess að skrúfað var fyrir frekari lántökur þaðan til Glitnis, sem leiddi svo aftur til þess að þeir urðu að snúa sér til Seðlabankans um lánsfjármagn. "Stærstu mistök sem ég hef gert" sagði Þorsteinn Már.
Það snart mig undarlega að sjá manninn sitja i viðtalinu, fölan af stilltri, vanmáttugri bræði. Ég trúði honum - skildi einhvern veginn hvernig honum leið. Ábending hans um hugsanlegt vanhæfi Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, til að taka ákvarðanir um málefni Glitnis vegna fyrri samskipta hans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, er líka umhugsunarefni.
Nú velti ég því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi verið ginnt í málinu - hafi hún á annað borð fjallað um það. Hvenær fjallaði ríkisstjórnin annars um málið - var það aðfararótt mánudags?
"Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð" segir Valgerður Sverrisdóttir í beittri grein á heimasíðu sinni í dag. Hún er ekki bara að lýsa fréttamyndinni sem birtist af þeim félögum þegar þeir óku saman í einum bíl til fundarins örlagaríka - heldur hugsanlegri merkingu hennar.
Var myndin kannski táknrænni en mann hefði grunað í fyrstu?
Það er ýmsum spurningum ósvarað í þessu máli um aðdraganda kaupanna. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að ákvörðun ríksins hafi verið röng - sjálf vil ég trúa því að hún hafi verið rétt. En stundum gerast réttir hlutir á röngum forsendum - og þá er ég að vísa til efasemda manna um hlutleysi Davíðs Oddssonar gagnvart Jóni Ásgeiri. Sú hugsun er óþægileg.
Svo mikið er víst að upplýsingarnar sem nú hafa verið bornar á borð gefa nokkuð aðra mynd en þá sem dregin var upp í fyrstu. Og það truflar mig.
![]() |
Sameining Glitnis og Landsbanka ólíkleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Sarah Palin - úff!
29.9.2008 | 23:45
Jæja, þá er gríman endanlega fallin af Söru Palin. Útslagið gerði þetta viðtal á CBS sjónvarpsstöðinni. Og fyrir vikið fékk hún þessa útreið hjá bandarískum álitsgjafa að nafni Jack Cafferty. Það var verðskulduð útreið.
Sara Palin kom með glæsibrag inn á sviðið á flokksþingi repúblikana fyrir fáeinum vikum - leynivopnið sem McCain skellti fram öllum að óvörum þegar hann tilnefndi hana sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti snilldar ræðu, kom vel fyrir og sjarmeraði alla upp úr skónum.
Síðan hefur lítið til hennar heyrst - og sennilega er skýringin hér lifandi komin. Konan veit ekkert um utanríkismál. Hún er óörugg í návígi. Hún er ekki með stefnu sína á hreinu, hvorki í utanríkismálum né velferðarmálum. Skoðanir hennar á lífinu og tilverunni eru undarlega afturhaldssamar og kreddufullar. Þá er ég ekki að tala um trúarlíf hennar, sem hefur verið dregið inn í umræðuna. Auðvitað má konan hafa sína trú. En það er margt í málflutningi hennar sem vekur manni ugg. Jafnvel repúblikönum er nóg boðið, sumum hverjum.
Það er kannski ekki nema von að hún skuli þiggja fyrirbænir og handayfirlagnir úr ýmsum áttum - henni veitir sjálfsagt ekkert af.
Satt að segja leist mér ekkert á blikuna fyrir demókratana fyrst eftir að Palin kom fram, sérstaklega í ljósi þess að Obama hafði ekki vit á að taka Hilary Clinton sem sitt varaforsetaefni. Ég bloggaði meira að segja um það hversu flott og sjarmerandi kona þetta væri - og uppskar ótrúlega sterk og heiftúðug viðbrögð.
Það er augljóst að Palin kallar fram sterkar tilfinningar hjá fólki - og það kemur því miður ekki til af góðu. Ég sé það núna.
En - svo ég gerist nú sek um svolitla "skadeglæde" - þá er þetta ekki slæmt fyrir demókratana.
Hispurslaus eineltisumræða
28.9.2008 | 11:23
Margir eiga sárar minningar um einelti frá barnæsku. Í Morgunblaðinu hefur ungur maður nú ákveðið að deila með lesendum vanlíðan sinni og erfiðum tilfinningum sem hann mátti kljást við vegna eineltis í skóla. Hann segir hispurslaust frá því hvernig honum leið - hafi hann þökk fyrir.
Þessi ungi maður segir frá því hvernig hugsanir hans á þeim tímasem eineltið gekk næst honum koma heim og saman við það sem lesa má úr játningum og skilaboðum þeirra sem framið hafa ódæðisverk á skólafélögum sínum á borð við fjöldamorðið sem framið var nú síðast í finnskum framhaldsskóla.
Ég bendi líka á bloggsíðu Róberts Björnssonar sem varð fyrir einelti í æsku, og fjallar hreinskilnislega um þá reynslu sína. Róbert segir einnig frá því hvernig umfjöllun hans varð í reynd til þess að opna augu eins af fyrrum skólafélaga hans sem tók þátt í eineltinu gegn honum. Það er líka athyglisvert að lesa viðbrögð Jens Guðmundssonar á sömu síðu, þar sem hann segir heiðarlega frá því hvernig hann lagði félaga sinn í einelti sem barn fyrir það að sá síðarnefndi skaraði fram úr honum í gítarleik. Viðbrögð Jens stöfuðu af því að hann kunni ekki að bregðast við eigin vanmætti gagnvart öðrum.
Einelti er alvarlegt mál - sama hvernig að því er staðið eða á hvaða aldursskeiði það á sér stað. Þess vegna er heldur ekki sama hvernig menn nota hugtakið "einelti". Það er með þetta hugtak eins og önnur ofbeldishugtök, til dæmi "nauðgun", "pynting", "kúgun" , "kvalari", o.fl. að í ýtrustu merkingu sinni eru þau svo grafalvarleg að það er ekki sama hvernig með þau er farið.
Eitt af því sem gerir einelti flókið er að þeir sem taka þátt í því gera sér oft ekki grein fyrir því sjálfir. Þeir taka óbeinan þátt með þögninni, með því að fylgja kvalaranum að málum og láta sér líðan og afdrif fórnarlambsins í léttu rúmi liggja. Þetta er jafnvel gert í nafni einhvers málstaðar - því vitanlega þarf réttlætingar fyrir illverkum. Það þekkjum við frá tímum Gyðingaofsóknanna, McCarty-ismans í Bandaríkjunum, galdraofsóknanna á 17. öld, og þannig mætti lengi telja. Einelti getur að sjálfsögðu beinst gegn hópi fólks og er oft hagsmunadrifið.
Þess vegna viðgengst einelti víða í samfélaginu - víðar en margan grunar. Við sjáum stjórnmálamenn sem lagðir eru í einelti af flokksfélögum og fjölmiðlum ár eftir ár. Sömuleiðis opinbera embættismenn og poppstjörnur. Einelti á sér oft flóknar félagslegar orsakir sem full ástæða er til að taka alvarlega og reyna að átta sig á. Það getur verið vafið inn í einhverskonar "ágreining" eða "skoðanamun" sem er oft ekkert annað en fyrirsláttur til þess að geta sótt að einstaklingum.
Sérstaklega er mikilvægt að kennarar og uppalendur séu á varðbergi gagnvart einelti í skólum og grípi inn í það umsvifalaust. Dæmin sanna að ef einelti er látið óátalið nærir það heift og haturstilfinningar í brjósti þolenda um leið og það ýtir undir yfirgang og skeytingarleysi gagnvart mannlegum tilfinningum hjá þeim sem komast upp með það.
Þetta er þörf umræða.
![]() |
Ætlaði að pynta þau og drepa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Rán en ekki lán?
25.9.2008 | 10:42
Haustið 2005 keypti ég hús hér vestur á Ísafirði og tók af því tilefni 12 mkr lán á föstum 4,15% vöxtum út lánstímann. Greiðslubyrði lánsins var á þeim tíma 50 þús kr á mánuði.
Nú - þremur árum síðar - hef ég greitt um 1,8 mkr af þessu láni - en það hefur á sama tíma hækkað úr 12 mkr. í 14,5 mkr. Það er þriðjungi hærri upphæð en nemur afborgunum.
Mánaðarleg afborgun hefur hækkað úr 50 þús í 64 þúsund kr.
Ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda, hvernig staðan verður eftir önnur tvö ár - ég tali nú ekki um tíu ár - ef áfram heldur sem horfir.
Þessi saga er sambærileg fjölmargra annarra sem hafa þurft að taka lán til að fjármagna fasteignakaup að undanförnu. Einn þeirra kemur fram í meðfylgjandi frétt í 24 stundum sem mbl gerir að umtalsefni í dag. Það hljóta allir að sjá hvílík hít blasir við þeim sem skulda hærri upphæðir - ég tala nú ekki um ef fólk hefur tekið lán með breytilegum vöxtum.
Mér er skapi næst að kalla þetta rán - en ekki lán.
![]() |
"Sem betur fer fór maður ekki til bankanna" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.9.2008 kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)