Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum
19.4.2009 | 00:43
Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.
Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og taka allt upp á borðið án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.
Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?
Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?
Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.
Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.
----------
PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
17.4.2009 | 09:59
Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:
Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu
Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.
Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.
Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.
Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.
Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.
Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
Málþófið sigraði - lýðræðið tapaði
15.4.2009 | 00:20
Með málþófi og fundatæknilegum bolabrögðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að ýta stjórnlagaþinginu út af borðinu. Málinu sem vakti vonarneistann með þjóðinni um að nú væri hægt að byrja eitthvað frá grunni: Semja nýjar leikreglur, veita fólkinu vald til þess að koma að samningu nýrrar stjórnarskrár - virkja lýðræðið í reynd. Já, málinu sem var til vitnis um það - að því er virtist - að stjórnvöld, þar á meðal Alþingi, hefðu séð að sér; að þau vildu raunverulega sátt við þjóð sína, fyrirgefningu og nýtt upphaf.
Það var auðvitað allt of gott til að geta verið satt. Og auðvitað var það Sjálfstæðisflokkurinn sem þumbaðist og rótaðist um eins og naut í flagi til að stöðva málið. Til þess þurftu þeir að skrumskæla leikreglur lýðræðisins og málfrelsið sem því fylgir; halda uppi málþófi og tefja störf þingsins.
Það var þeim líkt.
![]() |
Stjórnarskráin áfram á dagskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Kjarkur og siðbót
14.4.2009 | 11:41
Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.
Þetta hógværa orð er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.
Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.
Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.
Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.
Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar. Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.
- Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.
- Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
- Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
- Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
- Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.
Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.
-----------------
PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ríkisendurskoðun gefur ekki út siðferðisvottorð til stjórnmálamanna
14.4.2009 | 00:22
Ætlast Guðlaugur Þór til þess að Ríkisendurskoðun gefi honum siðferðisvottorð í REI málinu? Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að túlka athafnir manna sem sitja við pólitíska kjötkatla.
Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hún endurskoðar ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana.
Hvað ætti Ríkisendurskoðun að geta lagt til málanna varðandi risastyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins í stjórnarformannstíð Guðlaugs Þórs hjá OR?
Svar: Ekki neitt. Nákvæmlega ekkert.
Mér er til efs að stofnunin taki það í mál að fara að gefa út vottorð í siðferðilegu álitamáli sem þessu. Máli sem snýst ekki um reikningshald Orkuveitur Reykjavíkur, heldur himinháa peningagreiðslu frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins á sama tíma og samningar stóðu yfir um eignatilfærslu á gífurlegum almenningsverðmætum frá OR í hendur einkaaðila. Já, einkaaðilans sem greiddi risastyrkinn inn á reikning Sjálfstæðisflokksins sem fór með málið á þessum tíma og hafði sinn fulltrúa sem stjórnarformann í OR.
![]() |
Óskar úttektar á störfum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geta skal þess sem gott er ...
13.4.2009 | 15:00
Mér hefur að undanförnu orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hlífa þeim sem hlífa skyldi í þeim sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðum sem grípa þarf til í kjölfar efnahagskreppunnar. Það er á slíkum tímum sem það skiptir máli að forgangsraða í þágu velferðarhugsunar.
Sé litið til árangurs af stjórnarsetu Samfylkingarinnar undanfarin tæp tvö ár, má sjá hvers virði það er að hafa jafnaðarmannaflokk við stjórnvölinn þegar á reynir. Lítum á lífeyrismál aldraðra og öryrkja til dæmis.
Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur aldrei hækkað jafn mikið og á þeim tíma sem liðinn er frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru óskertar bætur lífeyrisþega færðar undir láhgmarkslaunm á vinnumarkaði og þeim haldið þar, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára.
Eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu Samfylkingarinnar hefur tekist að snúa þróuninni við. Greiðslur til lífeyrisþega hafa vaxið um 42% eða 19,2 milljarða milli áranna 2007-2008.
Óskertar bætur lífeyristrygginga eru nú 13% hærri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og hafa aldrei áður erið hærri. Þær munu hafa hækkað um 43% í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar.
Í reynd má segja að kjör lífeyrisþega hafi verið varin mun betur en kjör almennra launþega eftir hrun bankanna. Það er í samræmi við þá eindregnu velferðaráherslu Safmylkingarinnar að standa vörð um kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna.
Það skiptir máli hverjir stjórna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.4.2009 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Samfylking gerir hreint fyrir dyrum
10.4.2009 | 20:16
Þá hefur Samfylkingin gert hreint fyrir sínum dyrum og opnað bókhald sitt fyrir árið 2006 þannig að nú má sjá hverjir greiddu flokknum styrki. Það er vel.
Á þessu ári eru 14 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka. Slík lög tóku loks gildi í ársbyrjun 2007. Fram til þess hafa ársreikningar Samfylkingarinnar verið aðgengilegir á vef hennar - og svo hefur verið allt frá stofnun flokksins. Þar má sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafa hinsvegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.
En þó að Samfylkingunni beri ekki lagaleg skylda til þess að opna bókhald ársins 2006 með þeim hætti sem nú hefur verið gert, var hárrétt ákvörðun að gera það engu að síður í ljósi síðustu atburða.
Yfirlitið ber með sér að Samfylkingin hefur ekkert að fela. Þarna kemur fram að ennfremur er verið að taka saman styrki kjördæmis- og fulltrúaráða og einstakra félaga fyrir árið, og verða þeir einnig birtir opinberlega þegar tölur liggja fyrir. Slíkar upplýsingar virðist enginn annar flokkur ætla að veita.
Fram kemur í þessari frétt á eyjan.is að styrkir frá bönkunum hafi skv. almennum reglum bankaráðanna verið farnir að nema fjórum til fimm milljónum kr. árið 2006. Það er há upphæð - en virðist hafa verið það sem aðrir stjórnmálaflokkarnir fengu. Hins vegar er eftirtektarvert að hæsti einstaki styrkur til Samfylkingarinnar er 6 sinnum lægri en sá sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá FL Group.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aðrir stjórnmálaflokkar munu opna bókhald sitt fyrir árið 2006 með þessu hætti.
![]() |
Samfylking opnar bókhaldið 2006 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2009 kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Styrkur eða mútur?
9.4.2009 | 17:03
"Ertu að segja að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað - er það það sem þú ert að segja?" sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins reiðilega þegar hann var spurður i sjónvarpsviðræðum um 55 mkr greiðslur frá FL-Group og Landsbankanum síðla árs 2006. Í beinu framhaldi talaði hann um "nýja forystu" Sjálfstæðisflokksin og gerði hvað hann gat að skilgreina sig frá málinu. Með "nýrri forystu" á Bjarni væntanlega við sjálfan sig og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann flokksins, sem er nú ekki beint nýkjörin í það embætti.
Er nema von þó að orðið "mútur" beri á góma vegna þessa máls? Tímasetningarnar eru a.m.k. afar óheppilegar eins og fram kemur í þessari frétt á visir.is.
Málið er grafalvarlegt.
Í OR/REI málinu munaði einungis hársbreidd að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest yrði seldur í hendur einkaaðilum. Þar með hugvit og verðmætt raforku- og gagnaflutningakerfi sem varð til fyrir fjármuni almennings og í hans þágu. Og hverjir skyldu nú hafa viljað koma þessum verðmætum í einkaeign? Það voru Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hverjir áttu hagsmuna að gæta að komast yfir verðmætið? Það var m.a. FL-Group.
Því skal til haga haldið að Guðlaugur Þór var á þessum tíma stjórnarformaður OR.
Hér má rifja það upp að umrætt haust sameinuðustu tvö fyrirtæki, Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) og báru eftir það nafn þess fyrrnefnda sem við skammstöfum REI.
REI var 93% í eigu OR en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI.
GGE var 43,1% í eigu FL Group (sem var í eigu Baugs m.a.), 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Ráðgjafi GGE í sameiningarferlinu var Glitnir.
Það kom í hlut Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI og Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns í GGE og forstjóra FL-Group, að kynna samruna félaganna á fjárfestafundi FL- Group í London þann 4.október 2006.
Þannig voru sumsé eignatengslin á þessum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihlutavald í Borgarstjórn Reykjavíkur og hlutaðist til um að koma þessari almenningseign í hendur einkaaðilanna. Því var naumlega forðað.
Sá möguleiki blasir við hverjum sem vill sjá, hvað hér gæti hafa gerst.
Á sama tíma og verið var að taka ákvörðun um að færa gífurleg verðmæti úr almenningseigu í hendur einkaaðila berast 30 mkr frá þeim sem á að hreppa hnossið (FL-Group) inn á bankreikning stjórnmálaaflsins sem ræður afdrifum málsins.
Og nú keppast menn við að þræta fyrir aðkomu sína að málinu. Það er beinlínis vandræðalegt á að hlýða. Geir Haarde - sem eins og allir vita er að vikinn af vettvangi - reynir að bjarga flokknum með því að taka á sig alla ábyrgð. Já, hann heldur því m.a. fram að hvorki Kjartan Gunnarsson fv. framvkæmdstjóri flokksins (og stjórnarmaður í Landsbankanum) né Andri Óttarsson, núverandi framkvæmdastjóri, hafi vitað um þetta. Ja hérna! Hvorugur framkvædastjórinn hafði vitneskju um 50 mkr sem bárust flokknum. Þeir hafa ekki litið oft yfir bókhaldið blessaðir.
Nei, nú duga engin vettlingatök. Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál.
![]() |
Styrkir endurgreiddir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.4.2009 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Jóhanna bar af
8.4.2009 | 09:46
Jóhanna Sigurðardóttir flutti þá albestu ræðu sem ég hef heyrt hana flytja lengi, í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gær. Hún stóð upp úr sem málsverjandi íslensks almennings. Gjörsamlega laus við lýðskrum, yfirboð eða upphrópanir flutti hún mál sitt og gerði grein fyrir þeim verkefnum sem unnið er að og fyrir liggja af tilhlýðilegri festu og ábyrgð.
Þau verkefni eru mörg og stór:
- Endurreisn efnahagslífsins,
- endurskipulagning stjórnsýslunnar,
- að verja velferðina og heimilin,
- byggja upp atvinnulífið og
- reisa við banka- og fjármálakerfið.
Þá er ónefnf eitt veigamesta viðreisnarstarfið sem er
- að endurheimta traust okkar á alþjóðavettvangi og ennfremur
- að endurvinna traust almennings á leikreglum samfélagsins og framgöngu þeirra sem þar ráða málum.
Það leynir sér ekki að síðustu vikur hafa verkin verið drifin áfram í stjórnarráði Íslands. Menn þar á bæ segja að forsætisráðherrann hreinlega andi niður um hálsmálið á þeim til að halda þeim að verki. Þar er unnið nánast myrkranna á milli. Enda veitir ekki af.
Annars fannst mér Helga Sigrún Harðardóttir líka standa sig býsna vel í þessum eldhúsdagsumræðum. Þó að ég sé henni fullkomlega ósammála varðandi ýmislegt, þá var einhver sjálfsgagnrýninn og heiðarlegur tónn í málflutningi hennar sem snerti mig vel. Vonandi munu fleiri slá svipaðan tón í störfum sínum á Alþingi eftir kosningar. Það er tími til kominn að nálgast viðfangsefnin þar á bæ með öðru hugarfari en verið hefur síðustu ár. Það er að segja af aukinni einlægni og minni meinbægni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Brask, spilling og ... ríkisaðstoð?
7.4.2009 | 22:01
Kastljós Sjónvarpsins fjallaði í kvöld um eins milljarðs króna lánveitingu stjórnarformanns Byrs Sparisjóðs til félags sem notaði fjármunina til þess að kaupa stofnhlut stjórnarformannsins í Byr stuttu eftir bankahrun.
Ekki nóg með það. Stjórnarmenn fyrirtækjanna Byrs Sparisjóðs, Exeter og MP-banka virðast hafa höndlað með lánsfé til hlutbréfakaupa sín á milli, þar sem þeir sátu beggja vegna borðsins í samofnum eigna- og hagsmunatengslum.
Til að kóróna allt annað mun Byr Sparisjóður nú hafa óskað eftir ríkisaðstoð í kjölfar "kreppunnar". Ó já, þegar stjórnarformaðurinn hefur fengið það sem hann þurfti og forðað sér á þurrt, þá er farið fram á ríkisaðstoð. Þá má blessaður almenningurinn aðstoða fyrirtækið.
Umræddur stjórnarformaður mun nú hafa látið af störfum - en ekki kom fram hvert framhald málsins verður.
Þetta er líklega bara skólabókardæmi um það hvernig kaupin hafa gengið á eyrinni í íslenskum fjármálaheimi bæði fyrir og eftir hrun.
Horfið á þessa umfjöllun Kastljóssins HÉR - hún er fróðleg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)