Færsluflokkur: Bloggar

Allir í hundana !

krafla-ollyogaudur Nú er mikið um að vera hjá okkur í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Við erum að undirbúa viku vetrarnámskeið BHSÍ í næstu viku. Jamm - mannskapurinn ætlar að koma með hundana hingað norður í Ísafjarðardjúp, halda til í Reykjanesi og æfa snjóflóðaleit á Steingrímsfjarðarheiðinni. Þarna verða um tuttugu hundar ásamt eigendum sínum og aðstoðarfólki víðsvegar að af landinu við þjálfun og æfingar á heiðinni, samtals eitthvað á fjórða tug manna.Blidafinnur

 

Já, það verður sko líf og fjör á Steingrímsfjarðarheiðinni 8. - 14. mars: Hundar og menn á ferð og flugi, bílar, vélsleðar, snjótroðarar, surg í talstöðvum og sannkölluð björgunarsveita stemning Smile.

 

Vetrarnámskeiðið er árviss viðburður í starfi BHSÍ sem er deild í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Markmið þess er að þjálfa og taka út björgunarhunda í snjóflóðaleit og björgun við vetraraðstæður. Hundarnir eru  æfðir og prófaðir í svokölluð A, B og C- próf. A og B próf eru vottun um að hundur sé tækur á útkallslista, C-próf er vottun um að hundur sé hæfur sem björgunarhundur og tækur til þjálfunar fyrir B-próf.

 audurogskima  Af Vestfjörðum verða níu leitarteymi við æfingar á námskeiðinu, sex frá Ísafirði, tvö frá Patreksfirði og eitt úr Bolungarvík. Ísfirsku teymin eru meðlimir í Björgunarfélagi Ísafjarðar og fá þaðan aðstoð við þjálfunina. Teymin á Patreksfirði eru meðlimir í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði.  Ísfirsku hundarnir hafa allir lokið undirbúningsþjálfun og því er stefnt á B-próf fyrir þá flesta á þessu námskeiði.

Nú er að krossleggja fingur og vona að veðrið verði okkur hagstætt - hundarnir í góðu formi og svona. Hér koma nokkra myndir frá fyrri námskeiðum.

skimaBlida07krafla-velsledi


Orðum fylgir ábyrgð

bréfalúga Dómurinn sem féll í meiðyrðamáli gegn bloggara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag staðfestir að bloggsíður eru fjölmiðlar og bloggarar bera ábyrgð í samræmi við það.

Um leið vekur þessi dómur áleitnar spurningar um það fyrirkomulag að menn geti stofnað bloggsíður undir dulnefnum. Hver ber ábyrgð í slíkum tilvikum? Maðurinn á bak við nafnið, eða sá sem hýsir vefsíðuna? Getur mbl.is þurft að sæta ábyrgð vegna nafnlausra skrifa á bloggsíðu til dæmis? 

Bloggið er að þroskast sem umræðuvettvangur - og sem betur fer fækkar þeim stöðugt sem misnota málfrelsi sitt á bloggsíðum. Þó eru enn of mikil brögð að því að menn vaði fram á þessum vettvangi eins og þeir séu stikkfrí. Eins og meiðandi ummæli, brigslyrði, dylgjur og persónuárásir eigi eitthvað skylt við málfrelsi. Sumir virðast álíta að þeir eigi "rétt" á því að tala skefjalaust og að þessi meinti "réttur" helgist af skoðana- og tjáningarfrelsi.

En orð geta bitið - orð eru vopn. Og auðvitað ekkert til sem heitir takmarkalaust frelsi. Það vill stundum gleymast að frelsinu fylgir ábyrgð. Því beittari sem orðin eru, því ríkari ástæða er til að beita þeim varlega. 

Ritsóðunum fer fækkandi - sem betur fer. Vonandi verður þessi dómur til þess að fækka þeim enn frekar. Um leið er hann þörf áminning fyrir ritsnillingana að gæta sín við meðferð stílvopna.


mbl.is Sekur um meiðyrði á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að umgangast staðreyndir - enn um olíuhreinsistöð

arnarfjordur2 Í umræðunni um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hafa ýmsar upplýsingar verið að koma fram síðustu daga. Hugtakið "staðreyndir" hefur borið alloft á góma, eins og við má búast - staðreyndir um náttúrufar, samfélagsþætti, losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegsmengun, raforkuþörf og fleira. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að "staðreyndir" geta verið teygjanlegt hugtak - og stundum er hægt að skauta fram hjá þeim.

Í dag birtist t.a.m. ágæt grein eftir Ómar Smára Kristinsson, myndlistarmann á ísfirska vefnum bb.is. Þar gerir Ómar Smári að umtalsefni framsögu fulltrúa Íslensks hátækniiðnaðar á málþingi á Ísafirði og Bíldudal nú um helgina.  Sá fyrirlestur nefndist einmitt "Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - Staðreyndir".  Ómar Smári vekur athygli á því hvernig látið var í veðri vaka að upplýsingar um náttúrufar og dýralíf á þeim stöðum sem til umræðu hafa verið vegna olíuhreinsistöðvar væru framkvæmdinni hagstæðar, þegar reyndin er allt önnur sé málið skoðað nánar.

Í svonefndri staðarvalsskýrslu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga lét taka saman er talið upp hvaða plöntur og dýr þurfi að víkja og að hvaða leyti það komi til með að skaða viðkomandi stofna rísi Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þeirra á meðal eru nokkrar tegundir fugla á válista og ein mjög sjaldgæf tegund háplantna, eins og Ómar Smári bendir á. 

Talsmenn Íslensks hátækniiðnaðar skautuðu fimlega framhjá þessu í framsögum sínum um helgina. Annar þeirra lét í veðri vaka að skýrslan væri lítið rædd vegna þess að hún gæfi "of góða" niðurstöðu fyrir olíuhreinsistöð.  Þetta eru bíræfin ummæli, verð ég að segja, því þegar skýrslan er skoðuð kemur einmitt í ljós hversu víðtæk áhrif olíuhreinsistöð myndi hafa á allt sitt umhverfi, dýralíf og annað náttúrufar.

Í skýrslunni kemur einmitt fram að sjónræn og umhverfisleg áhrif olíuhreinsistöðvar verða mikil og víðtæk. Ekki aðeins vegna mannvirkjanna - stöðvarinnar sjálfrar og hafnarmannvirkja - heldur einnig vegna mengunar þaðan, sérstaklega svifryks. Fram kemur að kanna þarf nánar mengun sem berst í hafið með tilliti til fiskveiða í fjörðunum og í Arnarfirði einnig með tilliti til kalkþörunga. Þar er einnig talað um vandkvæði á samgöngum og raforkuflutningum í núverandi mynd og hættuna af hafís.

Skýrslurnar um staðarvalsathugun og samfélagsáhrif er að finna á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ennfremur framsögur þær sem fluttar voru á málþinginu um helgina.


Eins árs í dag :-)

ArnarfjordurAgustAtlason  Þá er nú eins árs bloggafmælið runnið upp - fyrir mér. Því ég var eiginlega bara að átta mig á því rétt í þessu að í dag er nákvæmlega eitt ár frá því ég kvaddi mér hljóðs hér í bloggheimum á mbl.is. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og mikill orðaflaumur á vefinn sömuleiðis.

Kæru bloggvinir og lesendur - takk fyrir samveruna þetta undanfarna ár. Takk fyrir að deila með mér vangaveltum og hugleiðingum. Takk fyrir að taka þátt í mínum hugðarefnum með athugasemdir ykkar og kveðjum.  

Fyrsta færslan mín fjallaði um ákvörðun Marels að flytja útstöð sína frá Ísafirði. Þeim voru ekki vandaðar kveðjurnar þann 23. febrúar 2007. Sjö athugasemdir bárust við þá færslu. Daginn eftir taldi ég brýnt að þjóðin fengi Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra, enda var ég nýkomin af aldeilis hreint skemmtilegum fundi með samfylkingarkonum í borginni þar sem mikill hugur var í okkur öllum. Ég fékk fimmtán athugasemdir við þá færslu. Þá einhenti ég mér í mikla messu sem ég nefndi "Hinar hljóðu hamfarir" og fjallaði um það hvernig sigið hefur á ógæfuhliðina í atvinnumálum Vestfirðinga undanfarin ár. Færri höfðu áhuga á því máli, en þó komu níu athugasemdir.

Ég man enn hvað mér þótti gaman að fá fyrstu athugasemdina - því það var tilboð um bloggvináttu, sem ég þáði að sjálfsögðu. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fljótt fólk gerði vart við sig á síðunni. Sömuleiðis var ég sæl þegar heimsóknartölurnar fóru yfir fyrsta hundraðið. Já, fyrstu vikurnar sem ég bloggaði var ég alsæl  ef tvöhundruð manns sóttu síðuna mína á einum degi. Nú kippi ég mér ekki mikið upp þó heimsóknirnar fari yfir þúsundið - en er þó alltaf ánægð með það að sjálfsögðu.

Þegar  þessi orð eru skrifuð eru komin 286.641 innlit á síðuna mína frá upphafi - en það gera að meðaltali 785 innlit á dag - sem ég er afar þakklát fyrir. Bloggvinum hefur fjölgað svo mjög að ég hef vart á þeim tölu (eitthvað á annað hundrað), og get því alls ekki sinnt þeim öllum eins og ég vildi. Vona að þeir fyrirgefi mér það.

Í tilefni dagsins ætla ég að bíða með frekara blogg þar til á mánudag.  Smile Þess í stað setti ég inn þessa ægiförgru mynd sem Ágúst Atlason tók af sólrisu í Arnarfirði nú nýlega.

 


Streitist við að sitja

Einhverntíma var sagt um mann að hann "streittist við að sitja" og þótti hláleg lýsing. Nú á hún við í nýju samhengi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ætlar að sitja áfram.  En guðfaðir nýja meirihlutans, Kjartan Magnússon, hann "kannaðist ekki við málið" !?  VilhjÞVilhj

Þessi atburðarás er orðin svo ótrúleg að engu tali tekur lengur. Samkvæmt frétt á visir.is er óeiningin í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins um framtíðarleiðtoga svo mikil að Vilhjálmur telur sig geta neytt færis til að sitja áfram. Af því að samstarfsmenn hans geta ekki komið sér saman um að hlíta niðurstöðu prófkjörsins sem setti Hönnu Birnu í annað sæti. Og auðvitað geta þessir framapotarar ekki sætt sig við lýðræðislegar leikreglur - hva? Hvernig datt mér það í hug? Nei, Hanna Birna er náttúrulega kona - auðvitað kemur ekki til greina að fara að halda henni fram. Þó flestir fylgjendur flokksins vilji það samkvæmt skoðanakönnun. Gísli gaf náttúrulega kost á sér til forystu -eins og hann segir sjálfur.

Nei, Vilhjálmur ætlar að sitja sem fastast - og nú er skrattanum skemmt.

 


mbl.is Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson víkur ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton er ótrúlega flott!

Clinton Sjáið bara þessa konu - hlustið á lokaorðin hennar í myndskeiðinu hér fyrir neðan. Svona talar sterkur karakter. Ég vona svo sannarlega að Hilary Clinton verði útnefnd sem forsetaefni demókrata. Um leið og ég harma það eiginlega að loksins þegar hyllir undir að kona eða þeldökkur maður komist í forsetastól þá skuli þau þurfa að keppa hvort við annað.

En þau eru frábærir frambjóðendur bæði tvö. Og gagnkvæmar yfirlýsingar þeirra um vilja til þess að starfa saman eftir kosningar - annað geti hugsað sér að vera varaforseti hjá hinu - eru þeim báðum til sóma.

Ég vona bara að það gangi eftir - þau eru glæsilegt forystupar.


mbl.is Vöngum velt yfir ummælum Clinton í kappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur lætur vaða

Össur Össur Skarphéðinsson er frábær rithöfundur. Ég hef verið aðdáandi hans á því sviði í fjölmörg ár enda fáum lagið að koma orðum að hugmyndum sínum og skoðunum á sama hátt og hann gerir jafnan. Að því leyti ber Össur nafn með réttu. Hann er örninn sem flýgur fugla hæst í forsal hinna pólitísku sviptivinda þegar hann beitir stílvopninu og tekst vel upp í skrifum um menn og málefni. 

Gísli Marteinn Baldursson er frambærilegur pólitíkus sem ég hef GisliMarteinnlengi haft dálæti á - aðallega fyrir það hvað hann er kurteis og vel máli farinn. Ég hef gert mér þá mynd af manninum að hann sé fulltrúi uppvaxandi kynslóðar í stjórnmálum, kynslóðar sem vill nýjar áherslur og aðferðir. Vissulega þykist ég sjá  - ekki síður en Össur - að Gísli Marteinn hefur að undanförnu viðhaft aðferðir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa reynst flokknum farsælar og verða seint skilgreindar sem foringjahollusta. Hann er svosem ekki einn um það. Ég man ekki betur en allur borgarstjórnarflokkurinn að Vilhjálmi undanskildum hafi gengið á fund formanns og varaformanns flokksins til þess að ræða um foringja sinn að honum fjarstöddum. Þeim var veitt móttaka og áheyrn - án foringja síns. Hvað segir það um móralinn í flokknum?

Gísli Martein er ungur maður - hann er enn að læra. Og ungt fólk þarf að fá svigrúm til að læra í lífinu. Það ætti Össur að vita.

Bloggfærsla Össurar um Gísla Martein Baldursson er snilldar vel skrifuð - því verður ekki á móti mælt. En hún er óvægin - allt of óvægin. Og ég spyr mig hvað valdi þessum tilfinningaþunga hjá iðnaðarráðherra í garð "sjónvarpsdrengsins" sem hann nefnir svo.

Hitt er svo annað mál, að Össur er ekki þarna að gagnrýna samstarfsmann í ríkisstjórn - og því hljóma dulbúnar hótanir Sigurðar Kára Kristjánssonar um áhrif þessa á ríkisstjórnarsamstarfið hálf kjánalega. Össur er þarna að skrifa um skoðun sína á borgarmálefnum og pólitískum vandræðagangi í Reykjavík. Hann skrifar utan síns lögbundna vinnutíma, í eigin frítíma, á eigin bloggsíðu. Skrif hans ættu ekki að bifa meira við ríkisstjórnarsamstarfinu nú en skrif Björns Bjarnasonar á sínum tíma þegar hann réðist að foringja Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem hann kallaði "pólitískan loddara" ef mig misminnir ekki.

Það var því hálf hjákátlegt að sjá Sigurð Kára standa á öndinni af hneykslan í sjónvarpinu í kvöld - ekki bara í ljósi þess hvernig Björn hefur skrifað - heldur vegna þess hvernig Sigurður Kári hefur sjálfur talað um aðra stjórnmálamenn. Ekki er ýkja langt síðan hann kallaði borgarfulltrúa í Reykjavík spilltasta og siðlausasta stjórnmálamann landsins, ef ég man rétt.

Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt.

Þar er við ýmsa að sakast, ekki síst fjölmiðlana, sem alltaf eru tilbúnir að éta upp allt sem mönnum dettur í hug að segja um náungann, hversu rætið og ómerkilegt sem það er. Er þess skemmst að minnast þegar "hnífasettsmálið" fræga komst í umræðuna. Drottningarviðtal við framsóknarmann sem taldi sig eiga harma að hefna á öðrum framsóknarmanni vegna þess að sá síðarnefndi taldi þann fyrrnefnda ekki hafa kjörþokka. Þessu var sjónvarpað yfir landslýð - rætnum sögum um óskemmtileg samskipti þessara tveggja manna. Ég hef enn ekki fengið botn í það hvað okkur landsmönnum kom þetta við. En það er annað mál.  


Á fullu tungli

ulfar Tungl er fullt í kvöld. Á fullu tungli er lífið löðrandi af magni og orku. Hundar verða órólegir, úlfar senda sín langdregnu væl út í nóttina - töfrasteinarnir og snjókristallar glitra í náttmyrkrinu. Fjöllin verða björt og hafið slegið silfurdregli.

Á fullu tungli fæðast börnin flest, elskendur finna lífsorku og ástríður ólmast í brjóstinu. Fullt tungl er tími fullkomnunar - samruna - fyllingar. Samningar eru undirritaðir, áföngum fagnað. Séu erfiðleikar í lífi fólks munu þeir trúlega ná hámarki á fullu tungli - sé lausn vandamáls í sjónmáli eða undirbúningi mun hún ná fram að ganga á fullu tungli.  fullt tungl

 

Í þrjá daga njótum við þessarar fyllingar - svo tekur tungl að myrkvast á ný. Þá dregur smámsaman úr framkvæmdagleði og atorku, kúfurinn minnkar og magn þess sem á undan er gengið sömuleiðis.

Nú er tími til að hreinsa skrifborðið, þvo þvottinn, taka til í herberginu, rífast og sættast, elskast.

Það er dásamlegt að vera til á fullu tungli. Njótum þess að horfa upp í himininn og anda að okkur birtu þessarar náttsólar - leyfa silfurgeislum hennar að streyma um æðarnar og fylla brjóstið. Þó ekki sé nema eitt augnablik. Það er þess virði.


Tímamótasamningar - jafnaðarhugsun

samningar08 Rétt í þessu var ég að hlusta á Steingrím Joð í Kastljósinu. Blekið vart þornað af undirritun nýrra kjarasamninga milli ASÍ og atvinnurekenda, samninga sem menn segja að marki tímamót. Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona. En Steingrímur er ekki alveg kátur. Hann langar augljóslega að "skemmileggja" aðeins stemninguna.

Já, þetta kom aðeins of vel út fyrir ríkisstjórnina fannst honum - og best að bíða ekki of lengi með aðfinnslurnar. Tímamótasamningar? Ja - prinsippið er auðvitað gott, sagði hann. Auðvitað alveg rétt að láglaunafólk fær meira en tíðkast hefur með þessu móti. Joóó, jooóó, útaf fyrir sig - en ríkisstjórnin átti að gera ennþá meira. Ennþá meira. Menn munu sjá það seinna, sko. Seinna, þó þeir sjái það ekki núna.

Sjálf hefði ég ekki trúað því þegar ég heyrði í formanni Rafiðnaðarsambandsins fyrir helgi að ríkisstjórnin væri á sömu stundu að leggja lokahönd á sitt rausnarlega útspil. Ég verð bara að viðurkenna það - enda held ég að Guðmundur rafiðnaðarformaður hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar "sú gamla" loks hlammaði sínum skerfi á borðið:  Hækkun persónuafsláttar, rýmra tekjusvigrúm vegna barnabóta,  lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hærri húsaleigubætur, hærri eignaskerðingamörk vaxtabóta, niðurfelling stimpilgjalda, fyrirheit um lækkun tolla og vörugjalda og hækkun atvinnuleysisbóta. Hana, hafið þetta -  þið hljótið að geta samið núna! Eins og feitlagin, ljúf frænka, sem reddar barnaafmæli.

Þetta eru óvenjulegir samningar - andinn sem svífur yfir þessum samningum minnir svolítið á gömlu þjóðarsáttarsamningana. Verkalýðshreyfingin hefur tekið þann pól í hæðina að líta til almennra kjara og aðstæðna í efnahagslífinu í stað þess að kalla einungis eftir launahækkunum. Í þessum samningum er verið að horfa á samhengi hlutanna og knýja aðila til samábyrgðar. Í því er fólgin ákveðin - tja, hvað á maður að kalla það - frelsun er sennilega rétta orðið. Frelsun undan gamalli og úr sér genginni kröfugerðarpólitík - sem sum stéttarfélög eru enn allt of upptekin af, því miður.

Atvinnurekendur hafa gengið að samningaborði með sama hugarfari. Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins slegið nýjan tón sem vonandi mun hafa áhrif til framtíðar, með auknum jöfnuði og um leið jafnvægi í efnahagslífinu og þar með almennum kjarabótum launafólks.

Já, ég gæti bara trúað að þegar fram í sækir verði þessi samningsgerð álitin hornsteinn að nýrri hugsun í íslenskri stéttabaráttu. Og það er vel.


Er íslenskan úrelt mál?

hi  Verður íslenska brátt ónothæf í vísindasamfélaginu á Íslandi? Ýmsir eru uggandi um framtíð íslenskunnar, telja jafnvel að hún sé að verða undir sem nothæft tungumál í vísindum og fræðum. Ýmsar blikur eru á lofti:
  • Kennsla í íslenskum háskólum fer sumstaðar fram á ensku.

  • Fræðaskrif á íslensku eru minna metin í vinnumatskerfi Háskóla Íslands en skrif á öðrum tungumálum, einkum ensku.

  • Margar deildir Háskóla Íslands gera kröfu um að doktorsritgerðum sé skilað á ensku.

  • Þess vegna er innan við þriðjungur doktorsritgerða sem lagðar hafa verið fram fram við HÍ á árunum 2000-2007 á íslensku.

  • Háskóli Íslands stefnir að því að komast í hóp 100 bestu háskóla heims á næstu árum og fleiri háskólar setja markið einnig hátt. Ráðstefnuhaldarar spyrja - sem vonlegt er - hvort það að tala og skrifa íslensku samrýmist þá ekki þessum markmiðum?

Tja - svari nú hver fyrir sig.

  • En  Íslensk málnefnd og Vísindanefnd Íslendinga gangast fyrir ráðstefnu á morgun um stöðu og framtíð íslenskrar tungu í vísindum og fræðum þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar kl. 14-17 í hringstofunni á Háskólatorginu.

  • Ég ætla að reyna að mæta af því ég verð í borginni ... svo fremi það verði flogið seinna í dag. Er að fara upp á Snæfellsjökul um helgina - og mun því lítið blogga næstu daga Smile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband