... og "negri sást í Þistilfirði"

Athyglisverð fyrirsögn hjá mogganum: "Náttúrufræðingur fær fálkaorðuna". Ætli það hafi sumsé aldrei gerst áður? Vantar bara formálann: "Sá fágæti viðburður hefur nú átt sér stað að ...." Blush

 Hmmm.  Minnir mig á fyrirsögn sem eitt sinn birtist í íslensku dagblaði svohljóðandi "Negri sást í Þistilfirði" - átti raunar að vera "hegri" en stafir víxluðust og útkoman varð þessi Wink.

Jack Ives er raunar vel þekktur fyrir rannsóknir sínar hér á Íslandi - mogganum hefði verið alveg óhætt að setja nafnið hans í fyrirsögn.

 

 


mbl.is Náttúrufræðingur fær fálkaorðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grunnhyggni og gusugangur" kvenna?

Auðvitað er það grunnhyggni og gusugangur í þeim stöllum /..../ að greiða atkvæði gegn þessari tillögu" segir yfirlæknir á Ísafirði í nýlegri grein á bb.is sem hann nefnir "Þeir gusa mest sem grynnst vaða" . Þessi ágæti yfirlæknir á það til að blanda sér í opinbera umræðu þegar mikið liggur við - og þá jafnan ef honum finnst halla á Sjálfstæðisflokkinn. Er ekki nema gott um það að segja þegar menn taka til máls um það sem heitast brennur hverju sinni - en kvenfyrirlitningin sem birtist í þessum ummælum er þessleg að manni fellur eiginlega allur ketill í eld.

Maður hefði haldið að á því herrans ári 2007 myndi ofangreind afstaða til kvenna heyra sögunni til í opinberri umræðu. En því er víst ekki að heilsa. Það finnast enn karlmenn - í góðum starfi, á besta aldri - sem niðurlægja konur með niðrandi ummælum um vitsmuni þeirra og skapferli, hvort sem það er nú viljandi gert eða ekki. Hvers vegna? Því get ég ekki svarað, en víst er að umræddar konur eru annarrar skoðunar en yfirlæknirinn í byggðamálum. Skal engan undra, þær eru í öðrum stjórnmálaflokki, auk þess að vera KONUR (og það bara fjandi klárar og skeleggar konur, svo ég segi nú eins og er). 

Lesendur góðir - sjáið þið fyrir ykkur að karlmaður í góðri stöðu á góðum aldri myndi skrifa um "grunnyggni og gusugang" annars karlmanns á svipuðu reki og róli í lífinu Angry  Nei, það er augljóslega enn verk að vinna í kvennabaráttunni, þó að mannsaldrar hafi liðið á þeirri vegferð, og  komið sé fram á 21 öld.

Verk að vinna.


Of léttar spurningar?

Jæja, var að horfa á ÚTSVAR, nýja spurningaþáttinn á RÚV. Mér fannst þetta skemmtilegur þáttur og fjarri því að spurningarnar væru "allt of léttar" eins og þáttastjórnendur sögðu oftar en einu sinni (full oft fannst mér).

Þetta voru ekkert "allt of léttar" spurningar. Hins vegar voru svarendur býsna vel að sér, og gaman að fylgjast með því hve jafnt var á með liðunum.

Ef þessi þáttur á að höfða til almennra sjónvarpsáhorfenda, þá eru þessar spurningar við hæfi. Þokkalega vel upplýstir sjónvarpsáhorfendur þurfa að hugsa sig um - vita margt, en alls ekki allt. Fjölskyldur og vinahópar geta samsamað sig liðunum. Þau eru þannig samsett að það er líklegt að hópurinn sem situr í stofunni viti í sameiningu álíka mikið og hvert keppnislið. Það er einmitt það sem gerir þætti sem þessa skemmtilega - og þess vegna er Gettu betur keppni framhaldsskólanna farin að fjarlægjast almenna áhorfendur. Því miður.

En hehumm-öööö - ég fylgdist að sjálfsögðu með af athygli þar sem ég er ein þeirra sem á að þreyta kapps í þessum þætti innan tíðar. Whistling Vill til að ég hef með mér góða liðsmenn, Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamann og Halldór Smárason framhaldsskólanema og Gettu-betur áhugamann með  meiru.

Ef spurningarnar verða í sama dúr og í þættinum í kvöld, má segja að heppni ráði nokkru um það hvernig fer eftir fyrstu umferð. Undecided Úr því sem komið er held ég að áherslur þáttarins þurfi að halda sér út fyrstu umferð - svo má þyngja róðurinn í þeirri næstu. Það er mín skoðun Wink

 


Ástin læknar allt

monkeypigeonUPPA_450x300  Þetta er hugljúfasta saga sem ég hef lesið lengi - og sætasta mynd sem ég hef séð.

Vesalings litli apaunginn, aðeins 12 vikna gamall, missti móður sína og var að veslast upp úti í náttúrunni þegar honum var bjargað og komið fyrir á dýraspítala í Goangdong héraði í Kína. Hann var svo aðframkominn af ástleysi að hann sýndi ekki batamerki og var að dauða kominn.

Þá birtist hvíta dúfan - sem líka var sjúklingur á dýraspítalanum - og  varð honum til huggunar. Nú eru þau óaðskiljanleg, og sá litli tekinn að braggast. 

Þetta gæti verið barnasagan í ár. Frásögnin í heild sinni er  HÉR

 


Mótvægisaðgerðir og Randver rekinn!

Ég verð að viðurkenna að ég er hálf ráðvillt heftir að hafa hlustað á blaðamannafundinn um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í þorskafla. Fór því á vefinn í morgun og fann fréttatilkynninguna. Málið skýrðist ekki við það. 

Auðvitað er góðra gjalda vert að veita 6,5 milljörðum króna á næstu þremur árum tilað styrkja atvinnulíf, auka menntun og úrræði þeirra einstaklinga sem verða fyrir atvinnumissi, eins og segir í fréttatilkynningunni og "koma til móts við fyrirtæki í sjávarútvegi og styðja sveitarfélögin í landinu."

Mér finnst bara að menn eigi ekki að skreyta sig oft með sömu fjöðrinni - t.d. með því að tína til það sem átti að gera hvort eð var og kynna það til sögunnar sem "mótvægisaðgerðir". Það grefur undan trúverðugleika þess sem gert er. Dæmi um það er Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík - sem menntamálaráðherra kallaði háskólasetur, á blaðamannafundinum í gær, en það er önnur saga. Ákvörðun um stofnun þess og ráðningu forstöðumanns var tekin við HÍ án nokkurra tengsla við svonefndar mótvægisaðgerðir á sínum tíma, en er nú kynnt til sögunnar sem mótvægisaðgerð ríkisstjórnar. 

Jæja, þetta er nú kannski bara haustkvíði og hryssingur í mér - eins og í veðrinu.

 Randver  En ekki bætir úr skák að Randver skuli hafa verið rekinn úr Spaugstofunni. Ma-ma-ma-ma bara skilur ekkert í því. Og hverskonar svör eru þetta eiginlega hjá Erni Árnasyni að þetta hafi verið ákvörðun dagskrárstjóra RÚV!? Annaðhvort standa Spaugstofumenn með Randveri (einn fyrir alla og allir fyrir einn) og mótmæla þá þessu gerræði! Eða þeir reka hann sjálfir. En að vísa frá sér með þessum hætti, og láta eins og Spaugstofan hafi sjálf ekkert um þessa ákvörðun að segja, það er kjarkleysi.

Annars finnst mér ýmislegt bogið við það ef rétt er, að dagskrárdeildin sé farin að setja puttana í það hvernig einstakir leikhópar skipa í hlutverk á sínum vegum.  Segi ekki annað.

Ætlar dagskrárdeildin næst að skipta sér af því hvernig kórarnir eru mannaðir sem syngja í útvarpinu?


Vísa Vatnsenda-Rósu um augað fagra

Ég þreytist ekki á að reyna að leiðrétta þessa vitleysu. Það er "augað mitt og augað þitt" EKKI "augun mín og augun þín" eins og svo margir syngja núorðið sem eina af vísum Vatnsenda-Rósu. Um þetta hef ég skrifað lærðar greinar ... og mun halda áfram að berjast við þessa vindmyllu. Og hér fylgir rökstuðningurinn. Hann er samantekt úr þremur blaðagreinum sem ég hef áður skrifað um þetta efni.

  • Augað mitt og augað þitt,
  • ó, þá fögru steina,
  • mitt er þitt og þitt er mitt
  • - þú veist hvað ég meina.

 

Það gerist æ algengara, einkum á seinni árum, að bjartar kvenraddir syngja af mikilli innlifun “augun mín og augun þín” – síðan “ó, þá fögru steina” eða “ó, þeir fögru steinar” eða “og þá fögru steina” eða “og þeir fögru steinar”. Þá er klykkt út með “mitt er þitt og þitt er mitt” eða “mitt var þitt og þitt var mitt” og loks “þú veist hvað ég meina” – en það er eina ljóðlínan sem allir virðast sammála um hvernig með skuli farið.

Svo allir njóti nú sannmælis er rétt að taka fram að vísan er til í mismunandi gerðum. Einkum er misjafnt hvernig farið er með 2. og 3. línu og því skiljanlegt  að þær séu sungnar á ýmsa vegu. Erfiðara er að sætta sig við þann umsnúning að setja fyrstu ljóðlínuna í fleirtölu og eyðileggja þar með rímfestu vísunnar. Þegar ég á dögunum rökræddi þetta við kunningjakonu mína sagði hún nokkuð sem trúlega varpar ljósi á það hvers vegna þessi tilhneiging er svo rík sem raun ber vitni: “Maður segir nefnilega ekki auga þegar maður meinar augu”. Hún var sigri hrósandi þegar hún bætti við: “Það hljóta meira að segja skáldin að skilja”. Séu þessi ummæli til marks um það sem gerst hefur í meðförum vísunnar, hefur merkingafræðin riðið bragfræðinni á slig.

Upptök skekkjunnar má trúlega rekja aftur til ársins 1949 þegar Snorri Hjartarson tók saman Íslenzk ástarljóð[1] og birti vísuna þar með upphafinu: “Augun mín og augun þín / ó, þá fögru steina” (bls. 83). Þannig orðuð virðist hún svo hafa ratað á nótnablöð, inn í sönghefti, á hljómplötur, diska og hljóðbönd með þeim afleiðingum að á síðustu árum ómar hún hvarvetna í þessari gerð.

 Bragfræðin

Auðséð er að þeir eru æði margir – undarlega margir – sem láta sig litlu skipta að orðið “þín” skuli eiga að heita rímorð á móti “mitt” í ferskeyttri vísu. Litlu skiptir hversu ómþýður raddblærinn er sem berst úr ungmeyjarbarkanum – jafnvel fegursti söngur getur ekki mildað hið skerandi ósamræmi vísuorðanna í sæmilega heilbrigðu brageyra.

            Eins og allir bragglöggir menn sjá og heyra þá hefur þessi vísa Vatnsenda-Rósu verið samin í dæmigerðum ferskeyttum hætti með víxlrími þar sem saman eiga að ríma síðustu orð 1. og 3. línu annars vegar (þitt / mitt) og 2. og 4. línu hins vegar (steina / meina). Sveinbjörn heitinn Beinteinsson, einn fremsti hagyrðingur landsins, sem fáir hafa staðist snúning í bragfimi, birtir vísuna í Lausavísnasafni sem hann tók saman fyrir Hörpuútgáfuna 1976. Þar er hún eins og ég hef skrifað hana hér fyrir ofan[2] 

Sveinbjörn lætur þess ekki getið hvaðan hann hefur þessa gerð vísunnar, enda ekki við því að búast í knöppu lausavísnasafni. Það gerir hinsvegar Guðrún P. Helgadóttir í sínu merka riti Skáldkonur fyrri alda þar sem hún fjallar ítarlega um ævi og skáldverk Rósu Guðmundsdóttur. Líkt og hjá Sveinbirni er upphaf vísunnar í riti Guðrúnar “augað mitt og augað þitt” en önnur ljóðlína er “og þá fögru steina”.[3] Af umfjöllun Guðrúnar má ráða að vísuna sé að finna í fjórum af þeim sjö handritum sem lagðar eru til grundvallar kaflanum um Vatnsenda-Rósu.[4]

 Samtímaheimildir

Af þeim handritum vísunnar sem Guðrún tilgreinir eru þrjú frá því um og eftir miðbik nítjándu aldar. Þau eru:

- Natans saga Gísla Konráðssonar sem Dr. Jón Þorkelsson afritaði 1884[5] og studdist þá við bæði yngri og eldri gerð Natans sögu Gísla frá 1860-1865.[6] Í uppskrift Jóns er upphaf vísunnar “Augað mitt og augað þitt” en þriðja línan er “mitt er þitt og þú er mitt”.

- Ljóðmæli eftir ýmsa tilgreinda höfunda, skráð með hendi Páls stúdents Pálssonar og varðveitt í Landsbókasafni.[7] Hér er upphaf vísunnar “Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar”.

- Kvæðasafn ýmissa höfunda skrifað upp af nokkrum skrásetjurum á fyrri hluta 19. aldar. Í þessari heimild, líkt og í uppskrift Páls stúdents, er upphaf vísunnar einnig “Augað mitt og augað þitt / og þeir litlu steinar”.[8]

  Þær heimildir sem nú eru nefndar eru allt 19. aldar uppskriftir á ljóðmælum, það er að segja úr samtíma skáldkonunnar. Svolítill blæbrigðamunur er á vísunni í handritunum en allar eru þær samhljóða um upphaf hennar: “Augað mitt og augað þitt”.  

Enginn sem lesið hefur ljóðin hennar Skáld-Rósu þarf að velkjast í vafa um hvort jafn hagmælt og listhneigð kona hefði látið frá sér fara vísu sem ekki laut rímkröfum. Þá, eins og nú, var algengt að menn hnikuðu til orðaröð og settu fleirtöluorð í eintölumynd til þess að þjóna hrynjandi og formgerð ljóðmálsins. Skáld getur því hæglega komið merkingu ljóðmálsins til skila þó það fylgi ekki ströngustu málfræðireglum. Það nefnist skáldaleyfi  og er vel þekkt. Um það vitna mýmörg dæmi frá ýmsum tímum – ekki síst önnur vísa eftir Skáld-Rósu sem Sveinbjörn Beinteinsson birti í fyrrnefndu lausavísnasafni. Má þar glöggt sjá að skáldkonunni var vel tamt að nota eintölumyndina “auga” þegar hún hugsaði um “augu” – og gerði það óhikað ef formið krafðist þess:

 

Augað snart er tárum tært,

tryggð í partast mola,

mitt er hjartað sárum sært,

svik er hart að þola.

 

PS: Þessi skrif eru byggð á greininni "Sjá betur augu en auga?" sem ég skrifaði um sama efni í bókina Á sprekamó - afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum" (bókaútgáfan Hólar) árið 2005.


[1] Íslenzk ástarljóð. Snorri Hjartarson valdi ljóðin. Hörpuútgáfan. Reykjavík.

[2] Lausavísur frá 1400 til 1900. Safnað hefur Sveinbjörn Beinteinsson. Hörpuútgáfan. Reykjavík 1993, bls. 12 (fyrsta útgáfa 1976).

[3] Guðrún P. Helgadóttir 1993: Skáldkonur fyrri alda II. Kvöldvökuútgáfan á Akureyri 1963, bls. 155. Bókin var síðar endurútgefin af Hörpuútgáfunni 1993.

[4] Auk handritanna styðst Guðrún við útgáfu Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi á Natans sögu Ketilssonar og Skáld-Rósu frá 1912 en þar er vísan sögð öðruvísi. Brynjólfur byggir á Natans sögu Gísla Konráðssonar sem neðar er getið og Natans sögu Tómasar Guðmundssonar á Þverá sem skráð var um miðbik 19. aldar og er varðveitt í Lbs 1933 8 vo.

[5] Lbs 1320 4to.

[6] JS 123 8vo og Lbs 1291 4 to.

[7] Lbs 162 8vo.

[8] JS 83 8vo; sbr. GPH II, nmgr. 274.


Rólegur afmælisdagur

Það þýðir víst ekkert að þræta - er komin "fast að fimmtugu" frá og með þessum afmælisdegi. Jebb, orðin 49 ára og hef því eitt ár enn til þess að upplifa mig sem "fjörtíuog.... eitthvað".

"Inside every old man there is a young man asking whatever happened" sagði einhver spakur maður um nírætt. Og það eru orð að sönnu.

 Mér finnst ég bara hreint ekki vera komin á ráðsettan aldur. Mér finnst ég bara vera ung, a.m.k. mun yngri en árin segja til um. Hmmmm...... svolítið óþægilegt þegar maður er svo að tala við sér yngra fólk sem kemur fram við mann eins og maður sé bara .... tja, ég segi ekki gömul, en svona .... þið vitið Errm

Annars bara rólegur afmælisdagur. Vinir og vandamenn flestir búnir að hringja eða senda SMS.  Siggi ekki heima, hann fór á fjórðungsþing Vestfirðinga í gær og kemur í kvöld. Við Hjörvar bara ein í kotinu. Tvíburarnir Fannar og Sindri hafa verið að leika við hann í dag. Þeir knúsuðu mig svo fallega þegar ég kom af leitaræfingunni eftir hádegi, og óskuðu mér til hamingju með afmælið, að ég rauk til og bakaði handa þeim háan stafla af vöfflum í tilefni dagsins. Við úðuðum þær í okkur með bláberjasultu og rjóma, svo fóru þeir út á fótboltavöll.

Í kvöld verð ég veislustjóri fyrir verkalýðsfélögin á Vestfjörðum og Norðurlandi - en þeir síðarnefndu eru hér í heimsókn. Er svona aðeins að undirbúa það í rólegheitum.

Sjáum svo til hvort ég nenni að blogga á morgun Wink


Aldrei einn á ferð

Fyrir tveimur árum stóð ég ásamt eiginmanni og yngsta syni á Anfield leikvanginum í Liverpool og söng hástöfum með tugþúsundum áhorfenda hið fallega lag Rogers og Hammerstein: You'll never walk alone! Ekki svo að skilja að ég sé neitt sérstakt fótbolta-fan, en karlmennirnir í lífi mínueru það hinsvegar,  einkum eiginmaður og yngsti sonur.

Jæja, þó ég sé lítt viðræðuhæf um þá eðlu íþróttagrein, fótboltann, þá var þetta ólýsanleg upplifun. Að sameinast tugþúsundum manna í söng sem er jafn merkingarþrunginn og þetta lag - það er eitthvað alveg sérstakt. Enn merkilegra þótti mér að verða vitni að því hvernig stuðningsmenn liðsins nota þetta lag til að segja það sem segja þarf þegar á brattann er að sækja fyrir liðið. Þarna töpuðu Liverpoolmenn á heimavelli í fyrsta skipti í árafjöld, 0-4 fyrir Chelsea. En á síðustu mínútunum, þegar ljóst var hver úrslit yrðu, hófst söngur: "Walk on, walk on, with hope in your heart ..." Og samstundis tók allur áhorfendaskarinn undir: "And you'll never walk alone". Það er ekki amalegt að eiga slíka stuðningsmenn þegar á móti blæs - segi ekki annað.

Fyrr í dag var ég að reyna að setja lagið inn á síðuna mína - það gekk ekkert. Ég kann ekkert á svona tæknihluti. En með því að smella á þennan tengil má finna lagið og hlusta á það.

Hér fyrir neðan er falleg íslensk þýðing á textanum, en því miður veit ég ekki eftir hvern hún er. Læt enska textann fylgja líka að gamni.

  • Meðan veðrið er stætt berðu höfuðið hátt
  • og hræðstu ei skugga á leið.
  • Bak við dimmasta él blikar lævirkjans ljóð
  • upp við ljóshvolfin björt og heið.
  • Þó að steypist þér gegn
  • stormur og regn
  • þó að byrðin sé þung sem þú berð
  • þá stattu fast og vit fyrir víst
  • þú ert aldrei einn á ferð.

-------------------

 

When you walk through the storm
hold your head up high
and don't be afraid of the dark.
At the end of the storm
there's a golden sky
and the sweet silver song of a lark.

Walk on, through the wind.
Walk on, through the rain.
Though your dreams be tossed and blown.
Walk on, walk on, with hope in your heart
and you'll never walk alone.
You'll never walk alone.


Sætasti fótboltakappinn!

Daði Hrafn í LiverpoolgallaDaðiHrafn og Erla Rún

Þetta er sætasti strákur sem ég hef séð í Liverpool-galla. Eins og þið sjáið á hann líka sæta mömmu. Þetta er sumsé Daði Hrafn ömmustrákur með Erlu Rún mömmu sinni. Hann er í nýja gallanum sem amma keypti handa honum í London um daginn. Ekki seinna vænna að máta hann við búninginn - snuð í stíl!


Hvað er biskup að hugsa? Það er ekkert að auglýsingunni.

Guð er mesti húmoristinn - minnir mig að biskup hafi sagt landslýð ekki alls fyrir löngu. Ég man ekki hvort það var um jól eða páska - man bara að hann talaði um viðkomandi guðspjall sem "mesta brandarann". Vona að ég fari rétt með þetta.

En hvar er nú húmorinn? Biskupi er að minnsta kosti ekki skemmt. Hann hefur uppi stór orð um "smekklausa" auglýsendur sem "leggjast lágt".

Hvað er að? Þessi auglýsing er ekki móðgun við neinn. Ég tel mig vera kristna manneskju - er a.m.k. í þjóðkirkjunni og hef stundum ómakað mig á því að verja kirkjuna þegar að henni er sótt. En nú mislíkar mér ráðdeildarsemin þar á bæ. 

Það er ekkert að þessari auglýsingu. Hún rifjar upp frægasta dæmið sem hinn kristni heimur á um breyskleika og svik - aðdraganda píslargöngunnar. Hún talar beint til áhorfandans. Vissulega er verið að selja síma - en það er ekki verið að meiða neinn, eða vanhelga nokkurn hlut.

Ég man ekki betur en að í sjálfri Biblíunni sé brugðið á létta strengi -- minni til dæmis á frásagnir af Nóa gamla þar sem hann ráfar ölóður í tjald sitt skömmu áður en drottin valdi hann til þess að lifa af syndaflóðið.

Jón Gnarr hefur hugsanlega verið undir áhrifum af biblíuhúmor - nú eða minnugur orða biskups um húmor Guðs - þegar hann bað um fund og sagði biskupi frá hugmynd sinni. Mér finnst ekki rétt af biskupi að láta sér fátt um finnast á þeim fundi en viðhafa svo sterk orð þegar auglýsingin hefur litið dagsins ljós.

Það er ekkert að þessari auglýsingu - hún er bara skemmtileg.


mbl.is Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband