Skafla-Björn skal hópurinn heita

Ekkert jafnast á við nokkurra daga dvöl á Hornströndum. Hvergi er loftið hreinna, sjórinn blárri, fjöllin fegurri, víkurnar friðsælli.

Kjaransvík Ferðin okkar tók fjóra daga. Hún hófst í Veiðileysufirði þangað sem siglt var með okkur á föstudagsmorgni. Farangurinn hafði áður verið fluttur í Hlöðuvík og þangað var ferðinni heitið. Við  vorum sautján saman í hópi og fengum gott veður, sólskin en ekki mikinn hita. Það var ágætt, því manni hitnar á svona göngu. Leiðin lá upp úr Veiðileysufirði í Hlöðuvíkurskarð. Það var tiltölulega létt ganga, aflíðandi halli og ekki mikið erfiði. Efst í skarðinu var vindkul og næðingur, en ómótstæðilegt útsýni yfir Hlöðuvík.  Við stöldruðum við þarna, tókum myndir og hresstum okkur áður en haldið var niður snarbratta grjóturðina hinumegin. Sú leið er ekki fyrir lofthrædda, enda varð nokkrum í hópnum um að fara þetta. Þegar við komum á tjaldstæðið í Búðum undir kvöld, brá okkur svolítið í brún því farangurinn var ekki þar. Hann hafði verið settur í fjöruna all langt frá tjaldstæðinu, líklega 600-700 metra þaðan. Við vorum þreytt eftir gönguna og treystum okkur ekki til þess að bera tjöld og matarkistur yfir mýrarfláka, ár og fjörugrjót svo það varð þrautarlending að tjalda fyrir ofan sjávarkambinn þar sem dótið hafði verið sett af. Þetta var ekki besta tjaldstæði sem ég hef verið á, enda blautur jarðvegur og nokkur spölur í rennandi vatn. Klósettferðin tók 20 mínútur fram og til baka, ef menn vildu nýta sér þau þægindi - það var 1,4 km leið.

 Skálakambur08 Daginn eftir gengum við á Skálakamb og yfir í Hælavík.  Það var í þeirri ferð sem við rákum augun í tvo dularfulla díla sem hurfu úr fjallshlíðinni ofan við Hvannadalsvatn, eins og ég hef sagt frá í fyrri færslu. En við gengum á Hælavíkurbjarg þennan dag í dásamlegu veðri. Það var ólýsanlegt að standa efst á Hælavíkurbjargi, framundan dimmblátt hafið svo langt sem augað eygði, Hælavík á vinstri hönd og fagurmótaðir fjalladrangar í vesturátt. Við Saga dóttir mín settumst undir barð efst á brúninni og nutum útsýnisins dágóða stund - orðlausar báðar. Okkur gekk vel til baka - en ekki þarf að fara fleiri orðum um það sem síðar gerðist þegar víkur fylltust af þyrlum, flugvélum og björgunarbátum.

Á þriðja degi tókum við það rólega, enda uppgefin eftir atburði kvöldsins ogÍsbjarnarútkall næturinnar á undan, og ísbjarnarvaktina sem staðin var um nóttina. Við röltum yfir í Kjaransvík og vorum nokkra klukkutíma í þeirri ferð. Um kvöldið var fjara, og ég skrapp með Sögu dóttur minni og Pétri syni mínum í sandfjöruna inn af Búðum þar sem við skelltum okkur í sjóbað í lognöldunni. Við vorum svo heppin að geta notið veðurblíðu og kvöldkyrrðar á meðan. Á leiðinni til baka fór að rigna, og hvessa í framhaldi af því. Um nóttina gerði slagveðursrigningu. 

Við vöknuðum snemma á mánudagsmorgni, enda heimferðardagur og löng ganga framundan. Ætlunin var að ganga yfir á Hesteyri, 18 km leið, svo ekki veitt af tímanum til að pakka öllu hafurtaskinu, nesta sig fyrir daginn og bera dótið niður í fjöru. Tveir úr hópnum treystu sér ekki með í þessa göngu heldur ákváðu að bíða eftir bátnum og fylgja farangrinum.

Við vorum lögð af stað um kl. 10 um morguninn og sóttist ferðin vel. Pétur sonur minn var slæmur í hné - en í Búðum voru staddir þrír læknar með ferðafélagshópi. Þeir bjuggu um hnéð á honum og gáfu honum verkjalyf svo hann komst alla leið, klakklaust. Kann ég þessum heiðursmönnum bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Ferðin yfir til Hesteyrar gekk vel. Það hafði dregið úr rigningu og vindi, svo við gengum þetta í meinleysisveðri átta tímum. Vorum komin stundvíslega kl. 18 að bryggjunni á Hesteyri, en þangað átti báturinn að vera kominn um sama leyti. Hann kom tveim tímum síðar. Á Hesteyri var allt fullt af ferðafólki og ekki nokkur leið að setjast inn í hús. En við vorum svo heppin að geta beðið í þokkalegu veðri. Við notuðum tækifærið og skoluðum fætur í fjörunni - tókum nesti - og biðum svo á bryggjunni eftir bátnum. Það stóðst á endum að þegar við vorum komin um borð gekk yfir með rigningarhryðju og allir fjallatoppar voru þá horfnir inn í grámóskuleg úrkomuský.

heimleid (Small) Það var yndislegt að fara í sturtu þetta kvöld og leggjast í tandurhrein sængurföt heima hjá sér. Hjördís tengdamóðir mín - sú raungóða kona - var meira að segja búin að sjóða dýrindis kjúklingasúpu sem hún skildi eftir í potti á eldavélinni hjá mér ásamt nýbökuðu heilhveitibrauði. Það var ekki amalegt að næra sig á heitri súpunni eftir volkið. Heart

Í gærkvöld kom svo hópurinn saman heima hjá okkur Sigga - fjórtán manns - þrír gátu ekki verið með okkur vegna skyldustarfa og anna. Við grilluðum lambalæri og áttum góða stund saman. Það var glatt á hjalla og mikið hlegið.

Í tilefni af fimm ára afmæli gönguhópsins hefur honum nú verið gefið varanlegt nafn - enda þykir einsýnt að við munum ekki rata í önnur eins ævintýri og í þessari ferð. Skafla-Björn skal hópurinn heita. það nafn hefur nú þegar verið rist með rúnum í snæbreiðu á Hornstrandahálendinu.

 Smile

Ferðafélagar að þessu sinni voru (í stafrófsröð): Bergsteinn Baldursson, Bjarney Gunnarsdóttir, Edda Pétursdóttir, Einar Már Sigurðsson, Helga Magnea Steinson, Heiða Einarsdóttir, Hjörtur A. Sigurðsson, Kolbrún Jarlsdóttir, Kristín Böðvarsdóttir, Maríanna Friðjónsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Ragnheiður Davíðsdóttir, Rakel Sigurbjörnsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Sigurður Pétursson.


Ísbjarnarblúsinn - sagan eins og hún var

HælavíkHlöðuvík Voru þetta ísbirnir? Veit ekki. Voru það álftir? Útilokað. Mávager? Nei. Snjóskaflar? Hugsanlega. Þennan dag var heiðskír himinn og mikil sólbráð á fjöllum. Tveir litlir skaflar gætu hugsanlega hafa bráðnað niður á sjö klukkutímum, hafi þeir verið orðnir mjög þunnir. Þetta gætu líka jafnvel hafa verið hvít lítil tjöld sem búið var að taka saman síðdegis. En hver tjaldar við vatn þar sem krökkt er af fugli í 200 m hæð? Hugsanlega náttúruvísindamenn. En hefðu þá ekki einhverjir vitað af ferðum þeirra? Nota menn hvít tjöld lengur?

Já spurningarnar eru margar og svörin fá. En svo mikið veit ég, að það sem við sáum yfir Hvannadalsvatni þar sem við stóðum efst í Skálakambi á milli Hlöðuvíkur og Hælavíkur um hálfeittleytið á laugardag, var engin "missýn" eða ímyndun. Við vorum fjórtán sem skoðuðum þetta vel - og okkur brá í brún sjö tímum síðar þegar við stóðum á sama stað og sáum þetta ekki lengur, hvorki með berum augum né í sjónaukum.

Skálakambur08 Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að tilkynna þetta. Upp skutust hugsanir eins og: Nú verðum við álitin ímyndunarveik. Þetta verður ekki tekið alvarlega!  En þó að spéhræðsla sé sterkt afl þá varð nú umhyggja okkar fyrir ferðalöngum á Hornströndum hégómanum yfirsterkari. Á leiðinni höfðum við mætt fimm manna hópi sem var á leiðinni yfir í Hvannadal um Hvannadalsskarð. Þau ætluðu að tjalda þarna í námunda við staðinn þar sem við sáum fyrirbærið. Okkur var hugsað til þessa fólks og annarra ferðalanga á nálægum slóðum. Niðurstaðan varð því sú að tilkynna þetta. Enda vorum við ekki í neinum vafa um að það sem við sáum var greinilegt berum augum, á meðan það var þarna. Jafn augljóslega var það horfið síðar um daginn.

BúðabærHlöðuvík Við létum það því verða okkar fyrsta verk þegar við komum niður í Hlöðuvík um níuleytið um kvöldið að láta ferðafélagshópinn vita sem þar var staddur í Búðum. Að höfðu samráði við Guðmund Hallvarðsson, leiðsögumann og óðalsherra í Hlöðuvík, var haft samband við 112. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síðar um kvöldið ómuðu þyrluspaðar og flugvélagnýr um alla fjallatinda. Björgunarskip kom inn í víkina frá Ísafirði með björgunarsveitarmenn og sérsveitarmenn lögreglunnar innanborðs. Við fylgdumst með þyrlunni leita svæðið og það gerðu þeir afar nákvæmlega, eftir því sem við gátum best séð. Okkur var því óneitanlega rórra því það er ekki skemmtileg tilhugsun að liggja í tjaldi, óvarinn, með grun um ísbirni í nánd. Við vorum sammála um að viðbrögð löggæslunnar voru til fyrirmyndar.

 Ferðafélagshópurinn var í húsi - við hinsvegar vorum í tjöldum ca 700 metrum utar í víkinni. Við áttum þess ekki kost að komast öll í hús - en lögreglan bauð okkur að fara um borð í skipið og sigla til Ísafjarðar. Þetta íhuguðum við. En þegar leið á nótt og leitin bar ekki árangur ákváðum við að halda kyrru fyrir en hafa vakt. Við skipulögðum vaktaskipti - og höfðum talstöðvarsamband í ferðafélagsskálann, þar sem menn voru líka á vakt. Við vorum með tvö neyðarblys, eitt handhelt og annað til að skjóta upp. Og með þetta að "vopni" ásamt sjónauka og talstöðvum, létum við fyrirberast um nóttina og skiptumst á að ganga sjávarkambinn og skima til fjallaskarða með sjónaukum.

Ég skal viðurkenna að okkur var þó ekki rótt það sem eftir lifði ferðarinnar - lái okkur hver sem vill.

Annars var þetta aldeilis hreint frábær ferð. Meira um það á morgun ...   Smile

 

Hér sjáið þið nokkrar myndir af hluta hópsins í Hlöðuvíkurskarði og Veiðileysufirði. 

 Hlöðuvíkurskarð4        Veiðileysufjörður        Hlöðuvíkurskarð08 


Ísbjarnarævintýri á Hornströndum

Svo vorum það VIÐ - gönguhópurinn minn - sem gerðum allt vitlaust með því að reka augun í tvo hvíta depla yfir Hvannadalsvatni í Hælavík þar sem við stóðum efst í Skálakambi á laugardag. Sáum þessa tvo sakleysislegu depla, eins og tvo snjóskafla, skoðuðum þá í kíki og spekúleruðum hvað þetta væru sérstakir skaflar, næstum því eins og sofandi ísbirnir. Whistling

Svo gengum við á Hælavíkurbjarg, eyddum deginum í rólegheitum þar og hugsuðum ekkert um þetta meir. Þegar við komum sömu leið til baka - sjö tímum síðar - voru deplarnir HORFNIR Crying ....

Já, ég er sumsé komin af Hornströndum - heil á húfi en steinuppgefin eftir fjögurra daga viðburðaríka reisu. Skrifa meira um hana og ísbjarnaævintýrið á morgun.  Þá fáið þið söguna alla: "Straight from the horse's mouth". Cool

Svo mikið er víst að það sem við sáum voru engar álftir eða mávager. Ónei. Og "missýn" var þetta ekki heldur, þó svo það sé haft eftir lögreglunni. Við vorum fjórtán manneskjur sem sáum þetta, og virtum það vel fyrir okkur í sjónauka. En ... meira um þetta á morgun.


Klúður og hrakföll en ... Hornstrandir á morgun

Úff, þvílíkur dagur! Í dag hefur lögmál Murphy's náð áður óþekktri fullkomnun: Allt sem hugsanlega gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis í dag.  Jæja - segi það nú ekki (svolitlar ýkjur) - en samt nóg til þess að ég er uppgefin. Er svo á leið á Hornstrandir í fjögurra daga göngu eldsnemma í fyrramálið.

 Hæst náðu hrakföll dagsins þegar Vésteinn systursonur minn MISSTI af flugvélinni vegna þess að ÉG misskildi mætingartímann, og drengurinn varð OF SEINN út á völl. SeinnHann þurfti virkilega að ná ÞESSARI VÉL því við hin erum að fara norður á Hornstrandir eldsnemma á morgun. Nei, nei - þá klúðraðist það. Á Reykjavíkurflugvelli beið móðir hans (Halldóra systir mín) komin austan úr Rangárvallasýslu að taka á móti elsku drengnum - en greip í tómt. Blush Til allrar hamingju á hún góða vini þar eystra sem gátu sinnt búpeningi fyrir hana (því hún er ein á bænum þessa daga) svo hún gæti gist í borginni og beðið fyrstu flugferðar á morgun í trausti þess að drengurinn komist þá. Og sem betur fer á ég góða tengdaforeldra Heart sem ætla að bjarga málum og fylgja drengnum út á flugvöll á morgun svo við Siggi getum náð bátnum sem á að fara með okkur í Veiðileysufjörð. Þau ætla síðan að sjá til þess að yngsti sonur okkar komist klakklaust í fótboltaferðalagið sem framundan er. Já - það er sko gott að eiga góða að þegar eitthvað liggur við.

argintæta En sumsé: Húsið hefur verið á öðrum endanum í dag. Það er náttúrulega verið að pakka alla niður. Saga og Pétur eru mætt - þau ætla með á Hornstrandir. Vésteinn er ekki farinn - svo farangurinn hans er hér að sjálfsögðu. Svo þurfti auðvitað að pakka fyrir Hjörvar, hann er jú á leið í fótboltaferðalag. Nú enginn fer nestislaus í langferð - þannig að eldhúsið hefur verið eins og verksmiðja. Þess utan þurftu jú allir að borða í dag ... hvolpurinn skeit þrisvar á gólfið, meig tvisvar - hefur sennilega farið úr sambandi við allt stressið á heimilinu. Hann er nú blessunarlega kominn út í Bolungarvík til móður sinnar og bróður, og verður þar á meðan Hornstrandaferðinni stendur. Ýlfraði og gólaði eins og verið væri að drepa hann þegar við settum hann í búrið í bílnum og ókum úteftir í kvöld.

Úff - þvílíkur dagur. Mamma á spítala. Já, hún kom að heimsækja dóttur sína vestur á Ísafjörð í síðustu viku. Ekki hafði hún lengi dvalið - nánar tiltekið í sólarhring - þegar hún varð fyrir því óláni að detta á rennisléttu klósettgólfinu hjá mér og brjóta hryggjarlið. Frown Ó, jú. Nú liggur hún á sjúkrahúsinu á Ísafirði. En hún er í góðum höndum og á batavegi, sem betur fer. Kannski blessun fyrir hana að vera ekki á heimilinu eins og á stendur.

Jebb - en nú er þessi dagur að kveldi liðinn. Á morgun kemur nýr dagur, vonandi  með góðu í sjóinn og mildu gönguveðri. Við ætlum úr Veiðileysufirði yfir í Hlöðuvík fyrsta daginn. Það tekur 5-6 tíma hugsa ég, því við ætlum nú ekki að spana neitt. Setjum svo upp tjaldbúðir í Hlöðuvík og höfum bækistöðvar þar fram á mánudag - þá verður gengið yfir á Hesteyri.

Þetta heitir líf og yndi - og vissulega getur verið gaman þegar mikið er um að vera (þó þetta sé nú kannski full mikið af því góða ... eða ég að verða gömul ... eða eitthvað).

En ég verð sumsé fjarri bloggheimum næstu daga.  Segi ykkur kannski ferðasöguna seinna.


Dýravernd í lamasessi

kria Það er ekki um að villast. Dýraverndunarmál á Íslandi eru í lamasessi. Þau samtök, eða félög sem kenna má við dýravernd eru fá og óaðgengileg. Þetta er mín niðurstaða eftir leit á netinu og í símaskrá:

Engin virk heimasíða er til um dýraverndunarmál. Heimasíðan www.dyravernd.is var síðast uppfærð árið 2003.

 

BlidaogHjorvar

Í símaskrá er að finna Dýraverndarsamband Íslands með símanúmer 5523044. Þar ískrar í faxtæki ef hringt er - enginn símsvari. Samkvæmt símaskránni á þó að vera hægt að senda póst á dyravernd@dyravernd.is Ég hef ekki látið reyna á þann möguleika.

Á vafri mínu rakst ég hinsvegar á greinargóða bloggfærslu frá árinu 2006 um stöðu dýraverndamála hérlendis, eftir ungan mann, Snorra Sigurðsson að nafni. Hér er tengillinn á hana. Þó að greinin sé 2ja ára gömul virðist allt eiga við enn, sem þar er sagt.

 Á vegum umhverfisstofnunar er starfandi Dýraverndarráð sem í eiga yrðlingursæti fulltrúar frá bændasamtökum, dýralæknum, Dýraverndarsambandi Íslands og samtökum náttúrufræðinga. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn. Hlutverk þess er að vera Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra til ráðgjafar um dýraverndarmál. Ólafur Dýrmundsson, sem í Kastljósþætti í fyrradag var kynntur sem formaður Dýraverndarsambands Íslands hefur verið fulltrúi bændasamtakanna í ráðinu undanfarin ár. Svo er að skilja sem hann hafi nú skipt um sæti - og vonandi verður það Dýraverndarsambandinu til góðs og umræðunni í heild sinni. Fyrsta skrefið mætti verða það að koma upp nothæfri heimasíðu um málefnið.

  Hrefna 

Það er nefnilega staðreynd að starfsemi áhugasamtaka um dýravernd er afar lítil hér á landi; upplýsingar óaðgengilegar og torsóttar og lítil opinber umræða um dýraverndunarmál. Það er til vansa fyrir okkur Íslendinga og löngu tímabært að við hysjum upp um okkur.


Refir með myllustein um háls

yrðlingur Refur með senditæki á stærð við lítið útvarp um hálsinn er sannkölluð hryggðarmynd. Þetta hef ég þó séð norður í Hornvík. Mér brá í brún, satt að segja, því á Hornströndum er refurinn friðaður og maður býst ekki við að sjá hann í þessu ástandi.

Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hugtökunum "friðun" og "verndun" dýra. Ná þau einungis til þess að dýr haldi lífi? Skiptir þá engu hvernig dýrið lifir?

Mér rann til rifja þessi sjón. Tækið er svo stórt að það hlýtur að vera kvalræði fyrir refinn að hafa þetta á sér. Sérstaklega þar sem hann þarf að smjúga um gjótur og ofan í greni - það getur ekki annað verið en að þetta sé fyrir honum. Hugsanlega getur hann drepist af þessu ef hann festir sig - hvað veit ég? Mér var sagt að þetta væri vegna rannsókna - einhverjir vísindamenn hefðu fengið leyfi til þess að fylgjast með ferðum refsins og setja á hann þessi senditæki.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég hlustaði á viðtal við formann Dýraverndarsamtaka Íslands í Kastljósi. Mér hefur stundum fundist skorta á að dýraverndarsinnar láti til sín taka hér á landi - og satt að segja mátti skilja á viðtalinu að enn værum við eftirbátar annarra þjóða á því sviði. Til dæmis efast ég um að eftirlit með dýrarannsóknum sé nægjanlegt hér á landi - eins og ofangreint dæmi er til vitnis um. Hvað veit ég nema sú rannsókn standi enn, og ennþá séu refir að dragnast um í Hornstrandafriðlandinu með þennan "myllustein" um háls í nafni vísindanna.

Það vill stundum gleymast að dýrarannsóknir og dýravernd þurfa ekki að fara saman. Þvert á móti geta rannsóknir á dýrum verið afar ómannúðlegar.

Að þessu sögðu skal ég viðurkenna að ég skammast mín svolítið, því sjálf hef ég ekki beitt mér mikið í dýraverndarmálum. Refina sá ég í Hornvíkinni fyrir þremur árum - og tilkynnti það ekki. Gleymdi því eiginlega.Vissi ekki heldur hvert ég átti að snúa mér - og gerði því ekkert. Hrædd er ég um að viðlíka aðgerðaleysi eigi við um ýmsa sem verða vitni að illri meðferð dýra - taka það nærri sér, segja frá því við vini og kunningja, en láta þar við sitja.

Svona til umhugsunar.


Himnaríki og helvíti, Kórvilla á Vestfjörðum og fleira gott

windownb9 Í sumar hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar bækur sem ekki vannst tími til að lesa um jólin. Rétt í þessu var ég að leggja frá mér Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta er afar vel skrifuð bók og sterk á köflum - sérstaklega fyrri hlutinn sem er í raun sjálfstæð frásagnarheild. Þarna er lýst lífsbaráttu og lifnaðarháttum verbúðarfólks fyrir hundrað árum eða svo. Líf og dauði, mannúð og grimmd, ást og örvænting kallast þar á og halda lesandanum í heljargreipum. Seinni hluti bókarinn hélt mér ekki eins vel - eins og söguþráðurinn renni svolítið út í sandinn. En Jón Kalman er stílsnillingur - orðfæri hans er svo fallegt á köflum að maður les aftur og aftur. Þetta er afar góð bók og vel þess virði að lesa.

Ég hef líka legið í sakamálasögum. Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur olli mér svolitlum vonbrigðum. Fyrsta bókin hennar, Þriðja táknið, fannst mér grípandi og skemmtileg. Þessi er of langdregin - og ég verð að viðurkenna að ég missti hreinlega áhugann þegar komið var fram á seinni hluta sögunnar. Það er nú ekki beint það sem á að gerast í sakamálasögu.

Arnaldur hinsvegar klikkar ekki. Harðskafann las ég mér til mikillar ánægju. Stílbrögð Arnaldar styrkjast með hverri bók - og þegar saman fara skemmtilegt plott og styrk stíltök - þá er blandan pottþétt.

Ég hef líka verið að rifja upp að gamni mínu smásögur Halldórs Laxness. Dóttir mín gaf mér lítið kver sem Vaka-Helgafell hefur gefið út undir heitinu Kórvilla á Vestfjörðum. Þarna eru nokkrar smásögur eftir Nóbelsskáldið. Ég hafði raunar lesið þær allar nema eina - en las þær nú aftur mér til ánægju. Komst þá að því að Dúfnaveislan er ekki það stórvirki sem stundum hefur verið talað um og mig minnti að mér hefði sjálfri fundist þegar ég las hana fyrir löngu. Ég hef augljóslega breyst - kannski þroskast - sem lesandi. Wink

Maður gefur sér yfirleitt allt of skamman tíma til lestrar - þá á ég við yndislestur. Fátt er meira gefandi en lestur góðrar bókar í kyrrð og næði.

  • Þegar andann þjakar slen
  • og þyngist hugar mók,
  • fátt er lundu ljúfar en
  • að lesa góða bók.        Smile

Hjáveituleið Björns Bjarnasonar

Evra-AlvaranCom Af hverju telur forsætisráðherrann að íslenska krónan henti best sem gjaldmiðill? Gengi krónunnar er með lægsta móti. Ofan á geigvænlegar eldsneytishækkanir sem eiga upptök úti í heimi, er krónan að falla frá degi til dags með keðjuverkandi afleiðingum á verðlag. Af hverju hentar hún okkur sem gjaldmiðill? Af hverju?

Menn komast allt of oft upp með það að svara með almennum orðum - án þess að færa rök fyrir máli sínu. En það er ekkert - nákvæmlega ekkert - nú um stundir sem bendir til þess að íslenska krónan sé hentugasti gjaldmiðillinn. Þið leiðréttið mig þá, ef ég fleipra. En ég hef bara ekki séð nein haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Ég hef hins vegar bölvað því í hljóði að Sjálfstæðismenn skuli vera svo flæktir í andstöðu sína við ESB-aðild að umræðan um að taka hér upp Evru hefur strandað á því atriði. Á meðan líður efnahagskerfið fyrir vanmátt íslensku krónunnar.

Leiðin sem Björn Bjarnason hefur vakið máls á á heimasíðu sinni (sjá hér) er hinsvegar athyglisverð. Björn segir: 

 ,,Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.''

Snjallt - eitursnjallt. Og þó svo að Björn segi á heimasíðu sinni í gær, að fjölmiðlar hafi snúið út úr orðum hans - þá vona ég að meginhugsunin í tillögu hans hafi skilist rétt. Því þá gætum við verið hér að tala um nokkurskonar hjáveituleið, sem ég leyfi mér að kalla svo.  Hún felur það í sér að hugsanlega verði hægt að taka upp nothæfan gjaldmiðil án þess að láta það standa og falla með rótgrónu ágreiningsmáli sem litlar líkur eru á að leysist í bráð; að hægt verði að fara framhjá ágreiningnum í átt að viðunandi lausn á aðsteðjandi og vaxandi vandamáli - sem er veik staða íslensku krónunnar.

Menn ættu að skoða þetta vel.

 GetLost

PS: Rétt í þessu var ég að lesa viðbrögð Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanns fastanefndar Evrópusambandsins við þessari hugmynd (sjá hér). Verst hvað kallinn er neikvæður.


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaði gögnum eða fjarlægði þau um miðjan dag í gær? Svo er það bíllinn.

 Eitthvað er nú bogið við þessa tilvísanasetningu. Fjarlægði Guðmundur gögnin af skrifstofu OR um miðjan dag í gær? Var það ekki þá sem hann skilaði þeim?

 Svona klaufaleg notkun tilvísanatenginga stingur stundum upp kollinum í blaðafréttum, og er oft býsna kátleg. Einhverju sinni las ég myndatexta sem var eitthvað á þessa leið: Módelið er með sumarlegan varagloss frá Dior sem herrann leiðir nú um salinn.

Annars er ágætt að þetta dæmalausa gagnamál er afstaðið. Þá tekur sjálfsagt bílamálið við.

toyota_land_cruiser_2_bw Nú skal ég ekki að ætla Guðmundi Þóroddssyni það að hafa tekið bílinn ófrjálsri hendi - hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því að bíllinn sé hluti af starfskjörum hans, meðan starfslokasamningur er í gildi. Hinsvegar tek ég heilshugar undir með þeim sem telja svona bílasamninga óviðfelldna óráðsíu og flottræfilshátt.

 Laxá Talandi um flottræfilshátt. Í fréttablaðinu í gær las ég lýsingar Ingva Hrafns Jónssonar á því hvernig flottheitin gerast á bökkum laxveiðiáa landsins, þar sem svarthvítir þjónar ganga um með silfurbakka, sérráðnir matreiðslumeistarar ýta matráðskonum veiðihúsanna út fyrir dyr og sérstakur "riverguide" fylgir hverjum veiðimanni.

Ég veit ekki hvað menn sem haga sér svona í íslenskri náttúru halda sig vera - þeir geta varla litið á sig sem hluta af íslensku samfélagi. Sama má kannski segja um þá sem aka um á tugmilljónkróna farartækjum og líta á það sem eðlilegan hluta af starfskjörum. Guðmundur Þóroddsson er ekki einn um það - því miður.


mbl.is Guðmundur skilaði gögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pakkað fyrir Hornstrandaferð

IMG_0282 (Medium) Ég er farin að pakka fyrir hina árlegu Hornstrandaferð sem við í gönguhópnum "Höldum hópinn" ætlum að fara um næstu helgi. Þriðja helgin í júlí - það er fastur liður. Að þessu sinni verður siglt með okkur í Veiðileysufjörð á föstudagsmorgni, og við göngum yfir í Hlöðuvík. Þar setjum við upp bækistöðvar, en farangurinn verður sendur þangað á undan okkur, með báti. Það mun vera brimasamt í Hlöðuvik og því stundum erfitt með lendingu. Fyrir vikið verður farangurinn sendur með þriggja daga fyrirvara, svo nægur tími gefist, ef lending tekst ekki í fyrstu tilraun.

Úr Hlöðuvík ætlum við að ganga um nágrennið á laugardag og sunnudag, dagleið í hvort skipti. Á mánudag verður síðan gengið yfir til Hesteyrar þaðan sem við tökum bátinn heim.

Gönguhópurinn fer stækkandi ár frá ári, enda eru börnin okkar farin að koma líka. Hópurinn skiptir um nafngift eftir hverja ferð, því ævinlega bíða okkar ný ævintýri sem kalla á nýtt heiti. Við höfum heitið Skítugur skafl, Ropandi örn, Höldum hæð og Höldum hópinn - allt eftir tilefnum.

Árið sem við nefndumst Ropandi örn, gengum við í niðaþoku á Straumnesfjall. Í þokunni birtist okkur gríðarstór fugl á steini. Hrifin og uppnæm virtum við fyrir okkur þessa sjón - bæði með  berum augum og kíki. Gott ef ekki blasti líka við myndarlegur laupur og fjöldi arnarunga. Þegar nær dró, minnkaði skepnan - og loks - þegar við vorum alveg komin að fuglinum flaug hann ropandi á braut. Errm Þetta var þá rjúpa.

Um þetta var ort:

  • Á Straumnesfjallið stikar greitt,
  • stafir blika og skína,
  • gönguhópur, brosir breitt
  • með bakpokana sína. 
  • Í gegnum þoku grilltum þar,
  • gáttuð eins og börn,
  • hvar á stórum steini var
  • stæðilegur ÖRN. 
  • Enginn þó að öðrum laug
  • eða bar við skopi
  • fyrr en óvænt fuglinn flaug
  • með fjaðrabliki og ROPI.

c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_burfell2_medium_265031 c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_hesteyri2_small Vestfirðir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband