Fiskveiðistjórnun þriggja landa
16.9.2009 | 20:13
Nýlega fjallaði ég hér um þau áform Vestnorræna ráðsins að taka sérstaklega fyrir fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands, Færeyja og Grænlands á þemaráðstefnu ráðsins sem haldin verður á Sauðárkróki næsta sumar. Það vorum við Íslendingar sem lögðum til á ársfundi ráðsins í ágúst að sjónum yrði beint að fiskveiðistjórnun landanna sem hafa hvert sinn háttinn á í þessu efni. Grænlendingar og Íslendingar hafa kvótakerfi, en Grænland er auk þess með nokkuð viðamikinn fiskveiðisamning við Evrópusambandið. Færeyingar hentu sínu kvótakerfi og tóku upp sóknardagakerfi. Þeir fullyrða að þar með hafi kvótasvindl, brottkast og framhjálandanir horfið eins og dögg fyrir sólu.
Víst er að þjóðirnar þrjár geta lært margt hver af annarri og hugsanlega haft áhrif á stefnumótun ESB sem nú er að fara í endurskoðun á sinni fiskveiðistjórnunarstefnu.
Málið kom til tals Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær (hlustið hér).
Og ef einhver skyldi nú hafa gaman af að lesa dönskuna mína þá er hér grein sem ég skrifaði á heimasíðu NORA um Vestnorræna samstarfið um þessar mundir.
Verði ykkur að góðu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fangelsismál í ólestri
16.9.2009 | 11:46
Sannarlega eru fangelsismál á Íslandi "sagan endalausa" eins og bent hefur verið á. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að enn skuli menn vera vistaðir í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ég minnist þess þegar ég heimsótti þann stað fyrir um tveimur áratugum - þá ungur og ákafur fréttamaður að fjalla um ólestur fangelsismála. Þrengslin innandyra runnu mér til rifja, og ég hefði ekki trúað því þá að þessi húsakynni myndu enn verða í notkun sem fangelsi árið 2009. En þannig er það nú samt - þessi myrkrakompa við Skólavörðustíg er ennþá fangelsi, rekið á undanþágum frá ári til árs.
Á wikipediu er húsakynnunum þannig lýst:
Fangaklefarnir í hegningarhúsinu eru litlir og loftræsting ónóg, fangarkvarta gjarnan yfir bágri salernisaðstöðu, en ekkert herbergjanna 16 er svo vel búið að menn geti gengið þar örna sinna svo vel sé, því þar eru hvorki salerni né handlaugar.
Já, byggingarsaga fangelsismála hér á landi er mikil raunasaga og lýsingar á vandræðaganginum við þennan málaflokk eru orðnar ófagrar.
Margar ríkisstjórnir hafa setið að völdum frá því ég fór að kynna mér fangelsismál. Þær hafa allar vandræðast með þennan málaflokk, og litlu þokað áleiðis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að lausnum í nær fimmtíu ár, án þess að nýtt fangelsi hafi risið. Áratugum saman hafa áætlanir og teikningar legið á borðinu sem ekkert hefur orðið úr. Eitt árið var meira að segja byggður húsgrunnur sem lá óhreyfður í jörðu árum saman og eyðilagðist loks.
Þetta er sagan af óhreinu börnunum hennar Evu sem enginn vill sjá eða vita um.
Vanræksla - er eina orðið sem mér kemur í hug um þennan málaflokk. Og sú vanræksla hefur varað áratugum saman. Því miður.
Nú leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leiða til að fjölga plássum (og væntanlega öðrum úrræðum) fyrir dæmda brotamenn, og til greina kemur að leigja húsnæði í því skyni. Ég vona að dómsmálaráðherra verði eitthvað ágengt að þessu sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kvæðamannafélagið Iðunn 80 ára
15.9.2009 | 17:06
Kvæðamannafélagið Iðunn er 80 ára í dag, en það var stofnað 15. sept. 1929. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að viðhalda og kenna íslenskan kveðskap og vísnagerð, safna kvæðalögum og varðveita þar með þessa merkilegu menningarhefð okkar Íslendinga sem rekja má langt aftur í aldir.
Nafn félagsins vísar til gyðjunnar Iðunnar. Hún gætti eplanna sem æsir átu til að viðhalda æsku sinni. Nafnið hæfir vel félagi sem varðveitir og heldur lífi í aldagamalli hefð.
Ég hef verið félagi í Iðunni í mörg ár, var varaformaður þess um tíma, og á margar góðar minningar frá skemmtilegum félagsfundum. Þá var oft glatt á hjalla, með kveðskap og leiftrandi ljóðmælum sem flugu milli manna. Þarna hafa margir ógleymanlegir hagyrðingar stigið á stokk í gegnum tíðina, snillingar á borð við Sveinbjörn Beinteinsson, Andrés Valberg, bræðurna Hákon og Ragnar Aðalsteinssyni, o.fl. Sömuleiðis hafa sprottið þar upp frábærir listamenn í kveðskap, menn á borð við Steindór Andersen sem hefur lagt einna drýgstan skerf til lifandi kveðskaparlistar af núlifandi Íslendingum.
Þegar félagið fagnaði 75 ára afmæli sínu árið 2004 voru gefnar út 100 kvæðastemmur af silfurplötum Iðunnar ásamt veglegu riti með nótum að kvæðalögunum öllum og ritgerðum um íslenska kvæðahefð og rímnakveðskap. Silfurplötur Iðunnar nefndist þessi merka útgáfa sem er einstök í sinni röð og mikið þing.
Nú fagnar Iðunn áttræðisafmæli. Ég verð fjarri góðu gamni, og verð því að láta mér nægja að vera með í anda. En héðan úr Skutulsfirðinum sendi ég félögum mínum hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins - það er braghenda:
Iðunn, til þín æsir sóttu æskuþróttinn.
Eplin rjóð í öskju þinni
yndi bjóða veröldinni.
Enn við þráum ávextina' af eski þínum,
af þeim lifna ljóð á vörum,
lífsins glóð í spurn og svörum.
Áttræðri þér árna viljum allra heilla.
Megi ljóðsins mátar finna
máttugan kraftinn epla þinna.
Menning og listir | Breytt 16.9.2009 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laufið titrar, loga strá ...
15.9.2009 | 11:32
Ég elska haustið - það er minn tími. Þá fyllist ég einhverri þörf fyrir að fylla búrið og frystikistuna, gera sultu og endurskipuleggja híbýlin.
Á haustin færist hitinn úr andrúmsloftinu yfir á litina sem við sjáum í lynginu og á trjánum - síðustu daga hafa fjallshlíðarnar logað í haustlitum umhverfis Ísafjörð.
Þetta er fallegur tími, þó hann sé alltaf blandinn einhverri angurværð. Sumarið liðið, fuglarnir horfnir, og svona. En litadýrðin vegur sannarlega upp á móti.
Einhverntíma gerði ég þessa vísu á fallegu haustkvöldi:
Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Klisjan um kvendyggðina
12.9.2009 | 11:39
Í Sigurdrífumálum Eddukvæða er sagt frá því þegar Sigurður Fáfnisbani reið á Hindarfjall og vakti upp af dásvefni valkyrjuna Sigurdrífu, sem lá þar í skjaldborg sinni, umlukin vafurloga. Hún hafði hjálm á höfði, íklædd brynju sem var svo rammgerð að Fáfnisbaninn þurfti að rista hana af með sverði sínu. Við það brá hún sínum langa svefni, reis upp af beði og heilsaði degi:
Heilir æsir.
Heilar ásynjur.
Heil sjá hin fjölnýta fold.
Mál og manvit
gefið okkur mærum tveim
og læknishendur meðan lifum.
Síðan setjast þau tvö, valkyrjan og hetjan. Hún kennir honum rúnir þær sem ráða þarf til sigurs, lækninga, lífsnautna og gæsku. Að lokum biður hann hana um holl ráð sem hún leggur honum í lokaþætti kvæðisins og ráðleggur honum þar að sýna baráttuhug og þegja ekki við mótgerðum.
Sjálf er Sigurdrífa brynjuð herklæðum, varin inni í skjaldborg, umlukin vafurloga. Þær eru því margar hindranirnar sem Fáfnisbaninn þarf að yfirstíga til þess að eiga samneyti við valkyrjuna. Maður hefði haldið að fyrir innan allar þessar varnir myndi hann kannski komast í tæri við hin helgu vé kvenleikans - eitthvað viðkvæmt og mjúkt, huggandi, vaggandi og blítt - það hefði a.m.k. verið í anda klisjunnar um kvenleikann. En hvað finnur Sigurður? Stolta bardagahvöt, hugmóð og vitræn rök.
Það er athyglisvert að sjá þarna, í fornu kvæði, hermannlega hugmyndafræði flutta fram af konu sem leggur hetjunni lífsreglurnar. Hún varar hann beinlínis við þeim konum sem "sitja brautu nær" og "deyfa sverð og sefa." Hetjan á að berjast - hún á ekki að láta bifast af úrtölum og gráti kvenna. Um leið biður hún guðina um "mál og manvit" handa þeim tveim sem þarna sitja "og læknishendur meðan lifum".
Hver er eiginlega Sigurdrífa? Fyrir hvað stendur hún og hver væri hennar samnefnari í samtímanum?
Sigurdrífa er í senn hermaðurinn og læknirinn, stjórnmálaskörungurinn, stjórnandinn, hugsjónakonan. Henni hugnast illa ákveðnir þættir í fari kvenna, sjálf er hún þó samnefnari fyrir allt sem kvenlegt getur talist í fornum sið. Hún býr yfir þekkingu völvunnar og kynngi valkyrjunnar sem hún helgar lífi og lækningu. Hún er líka kennari, sérfræðingur, ráðgjafi.
Sigurdrífa kemur oft upp í huga minn þegar ég þarf að hlusta á margtuggnar klisjur um konur, eðli þeirra og einkenni. Ætli Sigurdrífa hefði komið sér vel á kvennavinnustað? Hvernig hefði hún rekist í stjórnmálaflokki eða í samstarfi við aðrar konur?
Klisjurnar um kveneðlið er víðar að finna en í hugmyndafræði og orðræðu karla. Þær eru oft rauður þráður í gegnum orðræðu kvenna, ekki síst þeirra sem kenna sig við kvennabaráttu og kvenréttindi. "Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".
Ein er sú klisja sem tröllriðið hefur kynjaumræðunni undanfarin ár, og það er klisjan um hina "kvenlegu stjórnunarhætti" -- en það hugtak ber að skilja sem "góða stjórnunarhætti". Í hugtakinu felst krafa um valddreifingu, en ekki endilega um dreifingu ábyrgðar, því stjórnandinn verður jú alltaf að standa klár á ábyrgð sinni og þar með mistökum annarra starfsmanna. Krafan felur það eiginlega í sér að kvenstjórnandi sé vinkona, ráðgjafi, móðir og þjónn, allt í senn og með þessum meðulum er ætlast til þess að hún ái árangri.
Sjálf hef ég aldrei verið aðnjótandi nokkurs sem kalla mætti kvenlega stjórnunarhætti, og hef ég þó oft unnið með og undir forystu kvenna. Ég hef bara kynnst góðum eða lélegum stjórnendum á mínum ferli.
En hví skyldi það eiga að vera dyggð að vera kona? Hvers vegna erum við konur svona kröfuharðar við sjálfar okkur, og hver við aðra að ætlast til þess að við séum alltaf í einhverju alltumlykjandi móður- og systurhlutverki gagnvart öllu og öllum, sérstaklega öðrum konum? Ekki voru þær það fornkonurnar, gyðjurnar, völvurnar, læknarnir og húsfreyjurnar sem við lesum um í fornbókmenntum. Þær sögðu fyrir um veðurfar og forlög, höfðu búsforráð á bæjum, hvöttu eiginmenn, bræður og syni til dáða og læknuðu svo mein þeirra að orrustu lokinni. Það var ekki þeirra hlutverk að "deyfa sverð og sefa" hvorki í vörn né sókn - eða koma sér vel við aðrar konur. Nei, þær áttu ekki að koma sér vel, heldur reynast vel.
Kvenpersónur fornsagnanna voru til á eigin forsendum "máls og manvits", eins og Sigurdrífa er hún heilsaði degi og goðheimi öllum á Hindarfjallinu forðum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Að tengja lán við launavísitölu?
9.9.2009 | 11:56
Það hljómar skynsamlega að tengja verðtryggingu lána við vísitölu launa fremur en neyslu, eins og Joseph Stiglitz bendir á. Hugmynd Stiglitz á vissan samhljóm í hugmynd Þórólfs Matthíassonar hagfræðings um afkomutengingu lána, þó hugmynd Þórólfs miðist fremur við greiðslugetu fólks en verðlagsforsendur lánanna. Báðir hagfræðingarnir eru hinsvegar að leita réttlátra leiða til þess að leysa almennan og yfirþyrmandi greiðsluvanda. Í því samhengi vilja báðir líta til afkomu fólks.
Vitanlega er það alveg rétt hjá Stiglitz að verðtryggingin eins og hún hefur verið praktíseruð á Íslandi er óréttlát. Hann hefur líkt henni við lyf sem gefið er við höfuðverk en drepur í reynd sjúklinginn (og þar með höfuðverkinn). Að miða afborganir lána við síhækkandi neysluvísitölu sem þróast öðruvísi en launavísitala, felur í sér verulega hættu fyrir lántakandann. Þetta hlýtur að vera hægt að leiðrétta.
Þó er ein hlið á þessu máli sem þarf að hugleiða, og það er svarti vinnumarkaðurinn. Hann hlýtur að skekkja myndina, hvort sem við erum að tala um að afkomutengja afborganir eða miða verðtryggingu við launavísitölu.
Er hægt að finna "rétta" launavísitölu í landi þar sem svartur vinnumarkaður þrífst undir (og jafnvel ofan á) yfirborðinu?
Þó ég spyrji svona - er ég samt höll undir þessar hugmyndir að breyta við miði lánanna þannig að afborganir þeirra og verðþróun fylgi fremur afkomu fólks en annarri verðlagsþróun. En til að slík breyting feli í sér eitthvert réttlæti, þurfa forsendur að vera réttar. Málið er því ekki einfalt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Stiglitz mælir gegn almennum afskriftum
7.9.2009 | 10:36
Það var athyglisvert að hlusta á hagfræðiprófessorinn og Nóbels- verðlaunahafann Joseph Stiglitz í Silfrinu í gær. Þessi hagfræðingur er maður að mínu skapi. Sérstaklega þótti mér athyglisvert það sem hann sagði um afskriftir skulda - þegar hann benti á að almennar afskriftir skulda fela ekki í sér neitt réttlæti, þar sem þeir eru þá lagðir að jöfnu, auðmaðurinn og stórfyrirtækið sem voru í ofurskuldsetningunni annarsvegar, og hinsvegar Jóninn og Gunnan sem tóku íbúðalánið.
Ég hef áður bloggað um þetta mál á sömu nótum og Stiglitz talaði Silfrinu í gær. Flest bendir til þess að flöt niðurfærsla lána - almenn aðgerð - myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja. Við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.
Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við. Sú hugmynd sem Þórólfur Matthíasson hagfræðingur hefur sett fram um afkomutengingu lána, er í þeim anda, og ég tel að þá leið beri að skoða vel, eins og ég bloggaði um fyrir stuttu. Afkomutengin lána hefur þann kost að vera almenn aðgerð sem þó tekur tillit til greiðslugetu og afkomu skuldarans.
Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái "eins" - heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Samkeppnin um fólkið og fiskinn
5.9.2009 | 17:55
Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.
Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum; vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.
Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.
Vestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja - hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.
Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.
Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum. Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.
Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna. Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.
Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna.
Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis. Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.
Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.
Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.
----------------
PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.
Reynslan af strandveiðunum
3.9.2009 | 10:04
Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.
Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).
Samkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi.
Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.
Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.
Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.
Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.
En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.
Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Hver er þá staða Icesave málsins?
2.9.2009 | 13:50
Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.
Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:
Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:
- Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
- Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
- Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
- Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
- Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.
Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moodys að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og bent hefur verið á.
Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.
Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.
Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.
En nú spyrjum við að leikslokum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)