Ferðahrakningar um jól
25.12.2008 | 15:13
Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.
Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.
Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.
Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.
Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði. Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI!
En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ...
Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Góð var skatan - gleðileg jól!
23.12.2008 | 20:01
Skötuveisla dagsins var sko veisla í lagi! Það var vel þess virði að keyra út í Bolungarvík í hvassviðrinu til þess að gæða sér á þessu góðgæti. Skatan var hreint lostæti - borin fram á heitum diskum með soðnum kartöflum og vestfirskum hnoðmör, meðlætið nýtt rúgbrauð og ískaldur brennivínssnafs. Slurrrrrp!
Nú mallar þvottavélin værðarlega inni vaskahúsi. Jólakveðjurnar óma í útvarpinu. Það gerist ekki betra.
Gleðileg jól kæru lesendur.
Megi hátíðarnar færa ykkur frið og gleði.
Allt að koma: Fuglar í jólahreiðrinu - hundarnir skínandi hreinir - skötuveisla á morgun ...
23.12.2008 | 00:34
Jæja, þá eru komnir tveir litlir fuglar ofan í hreiðrið sem fylgdi jólatrénu mínu inn í stofu. Eins og þið sjáið er búið að koma þeim makindalega fyrir þarna inn á milli skreyttra greina. Ég þorði þó ekki annað en að spreyja rausnarlega yfir allt heila klabbið, minnug viðvarana um starrafló og hvaðeina sem getur fylgt svona fuglshreiðrum.
Annars er þetta nú ekkert venjulegt jólatré skal ég segja ykkur. Það kom í ljós þegar átti að fara að skreyta það að þetta er sannkallað villitré. Það stingur nefnilega frá sér svo um munar - augljóslega öðru vant en að standa sem stásstré inni í stofu. En það tekur sig sannarlega vel út þegar búið er að skreyta það - þó það hafi kostað sár og skrámur, því við berum þess menjar heimilisfólkið að hafa komið því í skartbúninginn. Já, sannkallaður ,,villingur í sparifötunum" eins og Saga dóttir mín orðaði það. Tré með karakter.
Það hefur verið siður á okkar heimili að skreyta jólatréð daginn fyrir Þorláksmessu frekar en bíða með það fram á Þorláksmessukvöld. Það er oft svo mikið að gera á sjálfa Þorláksmessu að okkur finnst þetta þægilegra. Þá er hægt að ryksuga og skúra allt út úr dyrum á sjálfa Þorláksmessu, og njóta svo ljósanna af trénu þegar maður slakar aðeins á þá um kvöldið eftir allt atið.
Hér fyrir vestan er siður að halda (eða mæta í) skötuveislu á Þorlák. Við erum boðin einu sinni sem oftar til frændfólks í Bolungarvík. Það er ævinlega tilhlökkunarefni að fara í skötuna til Dísu og Boga, hún bregst aldrei. Það er líka gott að geta svo komið heim og skellt í eina þvottavél eða svo (fötunum eftir skötuveisluna).
Síðan á ég eftir að baka Rice-crispies tertuna sem er orðin ómissandi hluti af eftirréttamatseðli fjölskyldunnar á jólum, ásamt ísnum og ensku jólakökunni (þegar ég man eftir að byrja á henni í tæka tíð, klikkaði á því núna).
Þá er þetta að mestu komið held ég bara. Ég er búin að baða hundana - þeir tipla hér á tánum svo skínandi hreinir og ilmandi að þeir þekkja varla sjálfa sig.
Á morgun verður skipt á rúmum. Annars erum við mest í því að vera bara hvert innan um annað að þessu sinni, enda langt síðan við höfum verið öll undir einu þaki.
Jebb ... þetta er bara allt að koma held ég, svona að mestu.
Vinir og fjölskylda | Breytt 27.12.2008 kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hreiður í jólatrénu
22.12.2008 | 10:20
Það er undarlegt að hugsa um storm í aðsigi þegar horft er á svarblátt lognið á pollinum fyrir utan gluggann minn - en þannig er lífið, ekki allt sem sýnist.
Tréð er komið nýhöggvið inn á stofugólf - það var nú bara tekið úr garðinum að þessu sinni þar sem því var ofaukið. Fallegasta tré.
En þar sem við vorum að stilla því upp á sínum stað tókum við eftir haganlega gerðu hreiðri inni á milli greinanna, þétt við stofninn. Ég fékk sting í hjartað og hugsaði ósjálfrátt til fuglsins sem hefði lagt á sig erfiði við að útbúa þetta hreiður handa ungum sínum - af natni og dugnaði hefur hann tínt hvert einasta strá með litla gogginum sínum, fléttað og snúið í fallega körfu sem er svo bara orðin að jólaskrauti í stofunni hjá einhverju fólki.
Jæja - en hreiðrið verður látið kyrrt þar sem það er. Ég treysti því að í því leynist ekkert kvikt, flær eða annað álíka, því það hefur verið grimmdarfrost að undanförnu. En þetta er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt jólaskraut - ekki síst í ljósi þess að ég hef alla tíð haft lítinn fugl á jólatrénu okkar. Ástæðan er saga sem fylgdi fallegu kvæði sem mamma söng oft fyrir okkur systurnar þegar við vorum litlar. Læt það fljóta hér með að gamni:
Hér er bjart og hlýtt í kvöld,
helgi, ró og friður,
en mun þó engum ævin köld?
Ó, jú því er miður.
Úti flýgur fuglinn minn
sem forðum söng í runni,
ekkert skjól á auminginn
og ekkert sætt í munni.
Frostið hart og hríðin köld
hug og orku lamar.
Æ, ef hann verður úti í kvöld
hann aldrei syngur framar.
Ljúfi Drottinn líttu á hann
og leyfðu að skíni sólin.
Láttu ekki aumingjann
eiga bágt um jólin.
Þegar þarna var komið sögu sátum við systur tárvotar yfir örlögum litla fuglsins svo mamma bætti við farsælum sögulokum um opinn glugga, lítinn fugl sem flaug inn og settist á tréð þar sem hann gat nartað í nammið úr jólakörfunum (en í minni bernsku voru alltaf settar fallegar jólakörfur og kramarhús á tréð með litlum súkkulaðimolum).
Ég get bætt því við mína útgáfu sögunnar að hann hafi haft lítið hreiður að hlýja sér í - og því til sönnunar hef ég þessa mynd að sýna barnabörnunum.
-----------------------------
PS: Kvæðið mun vera eftir Sigurð J. Jóhannesson en ég hef þó hvergi rekist á fyrstu og síðustu vísurnar á prenti.
![]() |
Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóð | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Nú mega jólin koma
22.12.2008 | 00:31
Jæja, þá geta jólin komið - ég er búin að fá "börnin" vestur. Að vísu söknum við elsta sonar míns, konu hans og (ömmu)barnsins, en maður fær víst ekki alltaf allt. Saga, Pétur og Maddý eru komin heim, Maddý alla leið frá Árósum í Danmörku. Það er yndislegt að hafa þau öll í húsinu. Við erum í sæluvímu hérna. Borðuðum fiskibollur í kvöld, tókum það svo rólega, spjölluðum, kíktum á sjónvarpið. Við Saga fórum í góðan göngutúr í vetrarkvöldkyrrðinni með hundana. Gerðum engla í snjóinn á leiðinni og horfðum upp í vetrarhimininn.
Það má eiginlega segja að jólin séu komin - þau eru komin í hjartað.
Milli hátíðanna fáum við svo að hitta nýja tengdasoninn (tilvonandi), þannig að það er ýmislegt spennandi framundan. Jebb ... lífið lætur ekki að sér hæða.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stundum er þörf - stundum nauðsyn
21.12.2008 | 14:54
Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt. Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.
Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.
Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið. Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.
Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.
Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.
----------
PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.
![]() |
Fundust heilir á húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Búálfarnir stríða mér
20.12.2008 | 14:22
Sagt er að um jól og áramót sé huldufólkið að hafa vistaskipti og því verði þess meira vart í mannheimum á þessum tíma en venjulega. Ég verð að játa að það þessa dagana virðist óvenju mikil huldu-umferð í húsinu hjá mér. Hér hverfur allt sem ég legg frá mér - sérstaklega pappírar.
Fyrir fáum dögum var ég að þýða texta - hann hvarf. Í gær hélt ég á miða með rúgbrauðsuppskrift sem ég setti inn á bloggið. Þegar ég stóð upp frá tölvunni og ætlaði að setja miðann á sinn stað var hann horfinn.
Myndir sem ég var að skoða í tölvunni fyrir fáum dögum og ætlaði síðan að prenta út áðan til að setja inn í jólakort til kunningjafólks - þær eru horfnar.
DVD mynd sem ég ætlaði að gefa í jólagjöf gufaði einhvernveginn upp. Og nú er örkin með jólafrímerkjunum horfin af eldhúsborðinu.
Þetta mun allt skila sér aftur - það gerir það venjulega. En það sem er óvenjulegt við háttalag búálfanna að þessu sinni er að nú sækja þeir sérstaklega í pappíra og sjónræna hluti, ekki lykla, skæri, eða aðra smáhluti. Ég er vanari því að slíkt sé fengið "að láni" um þetta leyti.
Nei, nei - nú er greinilega verið að lesa og skoða í hulduheimum, því þeir eru óvenju lærdómsfúsir og hnýsnir blessaðir búálfarnir að þessu sinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hverjum ber að biðjast afsökunar?
19.12.2008 | 12:29
"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.
Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.
Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars?
Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.
Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt. Að þurfa ekki að standa skil á einu eða neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann.
----
PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)
Hamagangur í öskjunni
18.12.2008 | 11:44
Það hefur verið hamagangur í öskjunni hjá mér síðasta sólarhringinn. Rassinn á mér stóð úr bókahillum og geymslum í allan gærdag þar sem ég var að sortera skjöl, henda og sameina í möppur. Þvílíkt og annað eins.
Ég held ég hafi losað einar tíu möppur og hent samsvarandi magni af gömlum pappírum. Ég er nefnilega að hætta í vinnunni og ganga frá á skrifstofunni. Og af því að starfið hefur verið m.a. kennsla og rannsóknir eru allskyns hlutir sem ég þarf að taka með mér heim - hitt og þetta sem ég hef sankað að mér, bæði skjöl og bækur. Þessu þarf ég öllu að koma fyrir á skrifstofunni heima - þar sem bóndi minn blessaður er nú þegar búinn að fylla hvern krók og kima með sínum skjölum og bókum. Þannig að ... það er margt sem þarf að skipuleggja.
Á meðan seyddust rúgbrauðin í ofninum hjá mér, stillt og rótt, óháð fyrirganginum í húsmóðurinni. Þau rýrnuðu talsvert - og voru ekki tilbúin fyrr en í morgun. En mikið lifandis ósköp eru þau samt bragðgóð. Ooohhhh, ég fékk mér eina volga sneið núna áðan með miklu smjöri.
5 bollar rúgmjöl
3 bollar heilhveiti
5 tsk matarsódi
3 tsk salt
1 1/2 lítri súrmjólk (eða ab-mjólk)
500 gr. sýróp
Öllu hrært vel saman og deiginu hellt til hálfs ofan í fjórar 1-líters mjólkurfernur sem látnar eru standa upp á endann í ofninum á neðstu rim. Sett inn í 150° heitan ofn og lækkað strax í 100°. Bakað í 8-10 klst eða lengur. Verður dökkbrúnt að utan fullbakað.
Sumir geyma brauðin í fernunum, ég tek þau úr þeim hálf volg.
Njótið vel - nú er ég að fara að baka kryddbrauð.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Máninn hátt á himni skín
17.12.2008 | 10:53
Fyrir skammri stundu voru litirnir hér í Skutulsfirinum nákvæmlega eins og á myndinni hérna fyrir ofan: Svartalogn og dögun yfir fjöllunum. Nú hefur birt aðeins meira og "máninn hátt á himni skín - hrímfölur og grár" (ekki "blár" eins og Elín Hirst missti út úr sér í kvöldfréttatíma fyrr í vikunni).
Ég er að baka rúgbrauð - er með fjögur stykki í ofninum. Bara góð.