Eftirmáli við orðarimmu á Sprengisandi:
5.4.2009 | 12:08
Úff! Ég lenti í svakalegri rimmu við Tryggva Þór Herbertsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson á í Sprengisandinum á Bylgjunni í morgun. Ég er enn að jafna mig.
Þarlét ég falla orð um tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við fyrirtækið Kögun - sem ég þarf að útskýra betur. Í atgangi umræðunnar tókst mér ekki að gera það sem skyldi, og ég vil síður láta orð mín standa óútskýrð þannig að þau hljómi sem dylgjur.
Það sem ég átti við með tengslum Sigmundar Davíðs er eftirfarandi:
Fyrirtækið Kögun var á sínum tíma í eigu fjölskyldu Sigmundar Davíðs. Faðir hans Gunnlaugur Sigmundsson var framkvæmdastjóri og stór eigandi þess. Þetta fyrirtæki hefur nú verið selt úr eigu fjölskyldunnar og ég skal ekkert um það segja hvernig þeim auðæfum hefur verið varið. Hins vegar var Kögun dæmi um fyrirtæki sem naut góðs af ríkulegum stjórnmálatengslum í formannstíð Steingríms Hermannssonar og síðar Halldórs Ásgrímssonar. Fyrirtækið sat einsamalt að þjónustu við ratsjárstöðvar NATÓ í kringum landið.
Það eru hagsmunatengsl af þessu tagi sem eru undirrót þeirrar tortryggni og úlfúðar sem ríkt hefur í samfélagi okkar í kjölfar fjármálahrunsins. Tengsl af þessu tagi eru undirrót þess einokunar og fákeppniumhverfis sem hefur komið okkur hvað mest í koll.
Af orðum mínum hefði e.t.v. mátt ráða að Sigmundur Davíð ætti hagsmuna að gæta varðandi Kögun í dag. Hann þvertekur fyrir það - ég trúi honum og mér þykir leitt ef ég hef varpað rýrð á hann persónulega. Ég bið hann einfaldlega velvirðingar á því, hafi svo verið.
Annars var atgangurinn í þættinum þvílíkur, að ég hef aldrei lent í öðru eins. Dónaskapur og yfirlæti þeirra félaga hleypti í mig illu blóði strax í upphafi. Þeir efuðust um að ég hefði kynnt mér það mál sem til umræðu var, drógu vitsmuni mína og annarra í efa, þ.á.m. þeirra sem unnu skýrslu fyrir Seðlabankann um kostnað af 20% niðurfærsluleiðinni. Þær niðurstöður voru að þeirra mati öldungis ómarktækar enda unnar af "dularfullum" starfshópi sem vissi ekki hvað hann var að gera. Svona var málflutningurinn.
Af þessu lærði ég heilmikið og mun gæta mín á því að láta ekki svona hrokagikki kippa mér upp úr farinu framvegis.
Eftir situr sú staðreynd að 20% niðurfærsluleiðin fær ekki staðist sem raunveruleg lausn fyrir þá sem verst standa. Hún mun hinsvegar gagnast vel efnuðum stórskuldugum fyrirtækjum eins og skýrsla Seðlabankans sýnir.
-------------
PS: Rétt í þessu fékk ég símtal frá Gunnlaugi Sigmundssyni, föður Sigmundar þar sem hann útskýrir eignarhald sitt í Kögun. Mér er ljúft og skylt að koma hans útskýringu á framfæri:
Fyrirtækið Kögun var stofnað árið 1988 en fór ekki af stað að marki fyrr en rúmu ári síðar. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri þess í fyrstu og eignaðist síðar um 20%. Síðar fór eignarhlutdeild hans minnkandi og þegar fyrirtækið var selt í mars 2006 átti hann og fjölskylda hans um 2% í því. Hann segir að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei komið nálægt samningum fyrirtækisins vegna þjónustu við ratsjárstöðvarnar.
Því skal haldið til haga að sá samningur var gerður í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar, þegar Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra.
Við þetta er því að bæta að á heimasíðu tímaritsins Heimur.is kemur fram að upphaflega átti ríkið 2/3 hluta fyrirtækisins (Þróunarfélag Íslands) en 1/3 áttu íslensk hugbúnaðarfyrirtæki. Árið 1993 seldi Þróunarfélag Íslands 20% í félaginu - þá var Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri beggja félaganna, sem vakti gagnrýni og umræður á sínum tíma (sjá Morgunblaðið 15. maí 1998).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2009 kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (85)
Rysjótt tíð en líf í tuskum á Snæfellsjökli
2.4.2009 | 00:28
Það hefur verið vindasamt hér á Snæfellsjöklinum það sem af er vikunni. Í dag var hvassviðri með slydduéljum. Hundarnir létu það ekkert á sig fá - mannfólkið ekki heldur. Hér koma nokkrar myndir sem ég náði rétt áður en hleðslubatteríið dó á myndavélinni minni (að sjálfsögðu gleymdi ég hleðslutækinu heima, þannig að það verða ekki fleiri myndir birtar í bili).
Skutull minn stendur sig vel það sem af er. Hann sýnir bæði áhuga og sjálfstæði og þykir almennt efnilegur. Vonandi tekur hann gott C-próf á föstudaginn.
Það er ekki slegið slöku við hér á þessu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar: Klukkan níu á morgnana er haldið upp á jökul þar sem æfingar standa fram eftir degi. Við erum venjulega komin niður aftur milli kl. fimm og sex, síðdegis. Þá eru flokksfundir. Síðan kvöldmatur kl. sjö og að honum loknum taka við fyrirlestrar til kl. 10. Þá eru hundarnir viðraðir - síðan spjallað svolítið fyrir svefninn.
Annars er netsambandið afar lélegt hérna. Ég er með svona NOVA-internet tengil sem byggir á GSM sambandi og það er ekki upp á marga fiska. Þessi bloggfærsla er því ekki hrist fram úr erminni skal ég segja ykkur.
En þrátt fyrir rysjótt veðurfar er létt yfir mannskapnum eins og venjulega þegar við komum saman Björgunarhundasveitin. Hér sjáið þið tvo félaga vora taka léttan bumbubana. Annað þeirra hefur það sér til málsbóta að bera barn undir belti, en hitt ... hmmm
Nú það er nóg að gera við að grafa snjóholur fyrir hundana að leita - þær þarf svo að máta - og eins og sjá mér er æði misjafnt hversu rúmt er um menn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vikufrí frá pólitík - nú er það Snæfellsjökull
30.3.2009 | 17:17
Nú tek ég vikufrí frá pólitíkinni. Er mætt á Gufuskála ásamt á þriðja tug félaga minna úr Björgunarhundasveit Íslands. Hópurinn verður við æfingar á Snæfellsjökli út þessa viku. Það er alltaf mikil stemning á þessu námskeiðum og glatt á hjalla bæði kvölds og morgna. Þessu fylgir heilmikið stúss - hér eru björgunarbílar frá flestum landshornum, hundar og menn með mikinn útbúnað. Svo getur veðrið verið með ýmsu móti.
Hér sjáið þið mynd frá vetraræfingu á Snæfellsjökli í fyrra - ég mun trúlega setja inn fleiri eftir því sem tilefni gefst næstu daga.
Pólitíkinhefur bara sinn gang á meðan - ætli hún fari langt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hugur í Samfylkingarfólki
29.3.2009 | 11:16
Í þessum skrifuðum orðum sit ég á Landsfundi Samfylkingarinnar þar sem verið er að leggja lokahönd á málefnastarfið. Í gær var kjörin ný forysta fyrir flokkinn og í dag er verið að kjósa framkvæmdastjórn, flokksstjórn, nefndir og ráð.
Þetta hefur verið frábært þing og augljóslega mikill hugur í mönnum, ekki síst í velferðarmálum, sjávarútvegsmálum og Evrópumálum.
Ég bind miklar vonir við þá stefnu sem nú er að fæðast í meðförum þingsins.
Tvær ræður: Önnur með hugmóði, hin með tárum.
28.3.2009 | 00:38
Það var skeleggur stjórnmálamaður sem steig á svið á landsfundi Samfylkingarinnar í dag til þess að kveðja með reisn. Þróttur í röddinni og öryggi í fasi. Henni var fagnað lengi og innilega um leið og hún steig á svið og henni var klappað lof í lófa að lokinni ræðu. Fundargestir risu úr sætum.
Já það var stemning á setningu landsfundarins í dag. Um leið skynjuðum við öll að nú eru að verða þáttaskil. Ingibjörg Sólrún stígur nú út af sviðinu eftir langan og merkan stjórnmálaferil, oft stormasaman, einkum síðustu mánuðina.
Við keflinu tekur Jóhanna Sigurðardóttir sem óumdeildur foringi og fyrsta konan til að gegna starfi forsætisráðherra á Íslandi. Um varaformannsembættið keppa tveir efnilegir stjórnmálamenn, hvor öðrum frambærilegri. Mikið og gott mannval.
Í gær hélt Ingibjörg Sólrún aðra og öðruvísi ræðu. Þá kvaddi hún konurnar í flokknum á ársþingi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar sem haldið var á Hótel Loftleiðum. Sú ræða var ekki síður sterk en ræðan í dag, en hún sló á allt aðra strengi. Í henni var fjallað um hlutskipti og erindi kvenna í stjórnmálum; komið inn á samkennd og samstöðu - ekki síst mikilvægi þess að við konur hlúum vel hver að annarri - einkum þeim sem við sendum út á vígvöllinn fyrir okkur.
Sterk ræða í meitluðum, vel völdum orðum.
Ræða sem þrýsti fram tárum og kallaði fram faðmlög.
Ræða sem við gleymum aldrei.
Siðrof í íslensku samfélagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hver ætlar að sjá um fólkið? Endurtekin hugleiðing.
26.3.2009 | 23:27
Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og baráttuþrek til þess að vinna "Íslandi allt" eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir fóru til starfa í stórfyrirtækjum og í "útrásir" erlendis. Samtímis fækkaði þeim stöðugt sem horfðu umhyggjuaugum á landið sitt.
Skeytingarleysið varð að algleymi og svo hrundi bankakerfið - þar með traustið. Þegar ég var lítið barn var mér kennt að setja aurana mína í bauk. Svo fór ég með baukinn í bankann. Honum var treystandi til að geyma þá og ávaxta. Þetta var manni kennt. Það var þá.
Nú er tími landsfeðranna liðinn. Þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig - en hver ætlar að sjá um fólkið?
Skáletraða hlutann hér fyrir ofan fann ég á vafri mínu um bloggsíðuna mína. Þetta eru hugleiðingar frá því fyrir tveimur árum. Sannleikshlaðin orð - án þess ég hafi fyllilega gert mér grein fyrir því þegar þau voru skrifuð hversu nöturlega sönn þau voru.
Já - hver ætlar að sjá um fólkið?
Persónuárás í formi fréttar
25.3.2009 | 17:46
Svo virðist sem veiðileyfi hafi verið gefið á Svein Harald Øygard, nýráðinn Seðlabankastjóra. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem lengi hefur látið lítið fyrir sér fara veður nú fram með miklu offorsi gegn Seðlabankastjóranum. Hann frýjar honum vits, telur að hann hafi ekki gáfur til að sinna starfi sínu. Til marks um það nefnir Hannes að Øygard hafi ekki kannast við einhverja skammstöfun.
Það er athyglisvert að bera þennan málflutning Hannesar Hólmsteins saman við þekktar eineltis skilgreiningar. Eitt einkenni eineltis eru uppnefni og sú tilhneiging að svipta þann sem fyrir verður persónuleika sínum og því sem gæðir hann reisn.
Hannes hefur t.d. ekki fyrir því að nafngreina Seðlabankastjórann. "Maður þessi" segir hann og velur honum uppnefni, kallar hann "fjallamann" og snýr út úr starfsheiti hans, talar m.a. um "bráðabirgðaseðlabankastjórann".
Athyglisverðast af öllu finnst mér þó að visir.is skuli birta þessa persónuárás Hannesar Hólmsteins sem einhverskonar frétt þar sem vammir Hannesar og skammir gegn Øygard eru birtar gagnrýnislaust - svo ómálefnalegar sem þær annars eru.
Ég kann ekki við þetta, verð að segja eins og er. Þetta er engin frétt, þetta er bara persónuárás. Skætingur sem á ekkert erindi inn á fréttasíðu.
Sjálf þekki ég ekki Svein Harald Øygard. Ég veit þó að hann var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs um tíma, leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Í fréttum af ráðningu hans kom fram að hann er með meistarapróf í þjóðhagfræði, tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda í banka- og gjaldmiðilskreppunni þar í landi árið 1992. Hann hefur starfað við seðlabanka Noregs, í fjármálaráðuneytinu og á norska- Stórþinginu.
Það er býsna bratt af að frýja þessum manni vits, svo ekki sé meira sagt.
Og það er leitt að sjá fjölmiðla lepja sorann úr lófa Hannesar Hómsteins.
Viðskipti og fjármál | Breytt 26.3.2009 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Rífandi gangur!
25.3.2009 | 00:30
Það veitti mér ákveðna vongleði - á ferð minni um Skagafjörð í dag - að finna bjartsýni og framkvæmdahug heimamanna. Já, mitt í öllu krepputalinu sem dynur á okkur dag eftir dag, líta Skagfirðingar vondjarfir fram á veg.
Á Sauðárkróki eru öflug atvinnufyrirtæki. Eftirtektarvert er að sjá hvernig Kaupfélag Skagfirðinga nýtir afl sitt til þess að styðja við nýsköpun og byggja upp atvinnulífið á staðnum. Það á og rekur fiskvinnslu, vélaverkstæði, verslun og fleira - er sannkallaður máttarstólpi í héraði.
Í Verinu - sem er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur - eru stundaðar rannsóknir í líftækni, fiskeldi og sjávarlíffræði á vegum Háskólans á Hólum og Matís. Þar er hugur í mönnum og þeir eru að tala um stækkun húsnæðisins.
Í fjölbrautaskólann er líka verið að tala um stækkun húsnæðis þar sem verknámið er að sprengja allt utan af sér. Á öðrum stað í bænum, í fyrirtækinu Íslenskt sjávarleður hf., er verið að framleiða og þróa vörur úr fiskroði og lambskinni og gengur vel.
Skagfirðingar standa nú í hafnarframkvæmdum. Ferðaþjónusta er þar vaxandi atvinnugrein í Skagafirði, sömuleiðis hestamennskan. Er það ekki síst að þakka Háskólanum á Hólum þar sem starfræktar eru ferðamáladeild og hestafræðideild auk fiskeldis- og fiskalíffræðideildar. Þar var líka gaman að koma og sjá gróskuna í skólastarfinu (vel hirt hross í hundraða tali og nemendur einbeitta við nám og störf).
Ég notaði tækifærið og heimsótti líka Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd. Það var gaman að koma á þessa staði. Á Skagaströnd eru líka ýmsir sprotar að vaxa. Þar er sjávarlíftæknisetrið BioPol, og fyrirtækið Sero þar sem unnið er með fiskprótein. Þar er líka Nes-listamiðstöð sem er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamönnum er gefinn kostur á vinnuaðstöðu og húsnæði um tíma. Þegar ég leit þar inn voru fjórir listamenn að störfum, þrír erlendir og einn íslenskur.´
Mér var hvarvetna vel tekið. Ég var leidd um fyrirtæki og stofnanir, kynnt fyrir fólki og frædd um hvaðeina sem laut að atvinnulífi staðanna, sögu, menningu og staðháttum.
Er ég nú margs vísari og þakklát öllum þeim sem aðstoðuðu mig og upplýstu.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Landbúnaðurinn og ESB
22.3.2009 | 23:07
Ég er ein þeirra sem lengi vel óttaðist inngöngu í ESB. Ég taldi að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég ímynda mér að svipaða sögu sé að segja af þeim sem hvað harðast tala gegn ESB aðild. Þeir vita hvað þeir hafa en virðast ekki átta sig á því hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu. Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.
ESB hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Gengið er út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu og styrkjakerfi sambandsins samþætt byggðastefnu þess. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Það er engin ástæða til að halda að stuðningskerfi ESB sem er aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás sé neitt lakara en íslenska styrkjakerfið í landbúnaði.
Geta má nærri að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi hljóta að reynast íslenskum bændum þung í skauti. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku Evrunnar má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum. Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna tollfrjálsan markað sem Íslendinga fengju fullan og aðgang að.
Grundvallaratriðið er þó að vita eftir hverju er að slægjast. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB. Sækja síðan um aðild, fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eina færa leiðin. Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.
(Efnislega samhljóða greinar um þetta mál hafa nýlega birst í Mbl og Bændablaðinu)
Búsáhaldabylting á Ásvöllum
22.3.2009 | 17:53
Það var ekki leiðinlegt að sjá íslensku strákana sigra Eistana með 14 marka mun í leiknum áðan. Guðjón Valur og Björgvin stóðu sig fádæma vel, báðir - já og liðið í heild sinni.
Stemningin á vellinum var galdri líkust - ég hefði viljað vera þar. Þetta var eins og í búsáhaldabyltingunni. Enda árangurinn eftir því.
Myndinni hnuplaði ég af visir.is - ég vona að mér fyrirgefist það.
Áfram Ísland !
Ísland vann stórsigur á Eistlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)