Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára

íslenskiFáninn Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar. Frown 

Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.

Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.

Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Woundering Sögulegt. 

Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.

skutull-nyrÉg kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst. 

Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir). 

En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:

Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.

Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir. 

Wink 


Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist

Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.

En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.

orðsendingar Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.

Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.

Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag. Whistling

 


Veðurteppt á Ísafirði >:-(

snjor9feb08 Nú sit ég veðurteppt á Ísafirði - kemst ekki á þingflokksfund. Horfi út á úfinn og hvítfyssandi fjörðinn á meðan hryssingslegt hvassviðrið hamast á glugganum.  Grrr ....

Í morgun var meinleysisveður hér fyrir vestan með hægum andvara. Þá fóru þeir að fresta fluginu vegna "óhagstæðrar áttar" við flugvöllinn. Þeir frestuðu því nógu lengi til að stormurinn næði hingað vestur. Nú er ekkert ferðaveður.

Ætli maður taki ekki bílaleigubíl á morgun - þeir eru að spá áframhaldandi hvassviðri.

Jamm ... svona eru nú samgöngumálin hér á þessum slóðum. Ef ekki er flogið, þá er það 7 klst keyrsla suður til Reykjavíkur.

En ég anda með nefinu - orðin vön. Cool

Þingflokkurinn bjargar sér án mín.


Söguleg umskipti

 Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins tekur félagshyggjuríkisstjórn tveggja flokka til valda með skýrt og óskorað umboð meirihluta þjóðarinnar - og undir forsæti konu, í þokkabót. Þetta er sögulegur viðburður.  Tímamót sem vert er að minnast í framtíðinni.

Velferðarstjórnin er orðin til.

Áratugum saman hafa íslenskir vinstrimenn átt undir högg að sækja andspænis harðneskju og skeytingarleysi hægri aflanna. Þeim hefur kerfisbundið verið haldið frá áhrifum og opinberum ítökum, ekki aðeins á vettvangi stjórnmála heldur á öllum sviðum samfélagsins. Á sama tíma hefur áherslan legið á forréttindi fárra á kostnað velferðar fjöldans. Fyrir þá hugmyndafræði hefur almenningur liðið .... og greitt dýru verði.

En ... (eins og skáldið sagði, og megi það nú rætast) ...

... í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans.

Það er maísólin okkar
okkar einingabands.
Fyrir þér dreg ég fána
þessa framtíðarlands!

 Wizard

Megi farsæld fylgja störfum þessarar nýju ríkisstjórnar, landi og þjóð til heilla.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo slæmt

húsnæði Fréttablaðið segir frá því í dag að leiguverð sé að lækka mikið á húsnæðismarkaði, um þriðjung eða þar um bil.

Það var tími til kominn, segi ég. Verð á leiguhúsnæði var komið upp úr öllu valdi. Nú er þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu leigð á 80 til 120 þúsund á mánuði, en var í mesta góðærinu á bilinu 110 til 160 þúsund. Hver hefur efni á slíku - jafnvel í góðæri?

Nú veit ég að þetta helst í hendur við fasteignaverð - en þið fyrirgefið - fasteignaverðið var líka orðið of hátt. Það mátti lækka.

Neibb - þetta eru ekki svo slæmar fréttir. Og vonandi skapast nú forsendur fyrir því að hér geti orðið til stöðugur og heilbrigður leigumarkaður fyrir húsnæði. Það hefur skort lengi. 


Heimsendaspár og hræðsuáróður LÍÚ

fiskveiðar Það er auðséð á þeim ályktunum og yfirlýsingum sem nú dynja á fjölmiðlum um yfirvofandi hrun sjávarútvegsins, gjaldþrot útgerðanna og ... þið vitið, allan pakkann ... að LÍÚ ætlar ekki að vinna með stjórnvöldum að því að leiðrétta hið óréttláta kvótakerfi sem hefur kallað  hrun yfir svo margar sjávarbyggðir á undanförnum 20 árum. 

Nei - njet. Þeir ætla í stríð og eru komnir í skotgrafirnar.

Hræðsluáróður og heimsendaspár - það eru einu orðin sem ég á yfir máflutning þessara manna. Sá málflutningur er grímulaus sérhagsmunagæsla sem á fátt skylt við rökræðu.

Þeir tala eins og það standi til að "umbylta" kerfinu - þegar staðreyndin er sú að menn eru að tala um að endurheimta auðlind þjóðarinnar úr höndum einstaklinga á tuttugu árum. Ná aftur því sem frá byggðunum var tekið á nánast jafnmörgum árum og aldur kerfisins segir til um. Auk þess er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um útfærsluna - já kalla þá að borðinu og gefa þeim kost á að vera með í ráðum.

Samt halda menn áfram í skotgrafahernaðinum - eins fjarri rökræðunni og hugsast getur.

Og þetta skal á sig lagt í vörn fyrir kerfi sem hefur með tímanum þróast í yfirveðsett og ofurskuldsett leiguliðakerfi. Kerfi  þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni. Kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun. Kerfi sem hefur innbyggða samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Innköllun aflaheimilda á áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarvilji - þingvilji

ESBÞessi könnun tekur af öll tvímæli um það að aðildarumsókn í ESB er ekki bara eitthvert gæluverkefni og draumsýn Samfylkingarfólks heldur vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Auðvitað hafa stjórnmálamenn skynjað þetta, hvort sem þeir eru sjálfir hlynntir eða andvígir sjálfri aðildinni. Þess vegna er ástæða til að vona að VG muni samþykkja það að farið verði í þessar viðræður - þau finna vilja fólksins. Og þar sem meira er - þau virðast ætla að virða þann vilja.

Formenn íhaldsflokkanna í stjórnarandstöðu, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hafa farið mikinn að undanförnu með hneykslunarhrópum yfir þeim möguleika sem orðaður hefur verið að þingið fái að ákveða hvort farið verði í aðildarviðræður. Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafa fussað og sveiað og báðir sagt það fjarri þeim að ætla að "hjálpa" Samfylkingunni að fara í aðildarviðræður. Já, þeir tala eins og forystumenn Samfylkingarinnar en ekki fulltrúar þjóðarinnar verði sendir til þessar viðræðna - sem er auðvitað fráleitt. Þeir tala af fyrilitningu til þingsins - virðast telja það veikleikamerki að fela þjóðþinginu aðra eins ákvörðun.

En þegar þingmenn taka til starfa vinna þeir drengskaparheit um að hlýða samvisku sinni. Nú vitum við að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum.  Þá liggur fyrir flokkssamþykkt Framsóknarflokksins um aðildarviðræður. Hvernig ætla þá formenn þessara flokka að múlbinda þingmenn sinna flokka gegn málinu? Halda þeir að það sé rétta svarið við kalli tímans um ný stjórnmál og aukið lýðræði? Halda þeir að það skori hjá almenningi - þessum almenningi sem hefur kosið þingið til starfa fyrir sig (ekki fyrir flokkana).

Já - það verður fróðlegt að sjá hvað gerist ef svo fer að ákvörðun um aðildarumsókn verði vísað til þingsins. Þá mun væntanlega koma í ljós hversu mikils stjórnarandstaðan metur sjálft Alþingi Íslendinga og raunverulegan vilja þess.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu er þörf

Stundum er talað um það að sama hugmyndin skjóti rótum á mörgum stöðum samtímis. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessarar kenningar þegar ég las meðfylgjandi frétt um afstöðu ASÍ til þess sem gera þarf fyrir heimilin í landinu. Eitt af því sem samtökin leggja áherslu á er að ráðnir verði "a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar strax til að aðstoða fólk í greiðsluvanda". Síðast í gær sett ég inn þessa bloggfærslu, en þar var ég m.a. að hvetja til þess að gert yrði stórátak í því að veita almenningi fjármálaráðgjöf. Ekki er vanþörf á.

Þar fyrir utan þarf að koma upplýsingum mun betur á framfæri en verið hefur um þau úrræði sem fólki standa til boða í greiðsluvanda. Fjölmiðlar bera þar ríka ábyrgð - sömuleiðis stjórnvöld og fjármálastofnanir.

Vandi skuldsettra heimila eykst dag frá degi. Annars vegar er brýn þörf á björgunaraðgerðum vegna bráðavanda - hinsvegar er aðkallandi að grípa til almennra aðgerða sem létt geta byrðunum af fólki. Þessi úrlausnarefni geta ekki beðið.

Verkalýðshreyfingin hefur nú komið fram með tillögur sem stjórnvöld hljóta að hlusta eftir. Í þeim vanda sem við er að eiga verða allir að hjálpast að. Vinnumarkaðurinn, félagasamtök, menntastofnanir, fjölmiðlarnir og stjórnkerfið.

Þjóðin á heimtingu á því að við núverandi aðstæður leggi menn léttvæg ágreiningsefni til hliðar og sameinist um mikilvægustu aðgerðir og ... hlusti eftir raunhæfum tillögum og góðum ráðum.

 


mbl.is ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hveitibrauðsdagar þingmanna

5mai09Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.

Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér. Cool 

Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.

Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.  

Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því. Wink

-----------

Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband