Er einhver þarna?
27.12.2017 | 21:26
Eins og glöggir lesendur hafa sjálfsagt tekið eftir þá hef ég ekki sett inn bloggfærslu á þessa síðu í mörg ár. Sem er eiginlega undarlegt í ljósi þess hvað mér fannst alltaf gaman að blogga hér á moggablogginu. Vinnuhamurinn fannst mér skemmtilegur, auðvelt að setja inn myndir og einhhver léttleiki yfir því sem maður setti hér inn. Það sé ég nú þegar ég lít til baka og fer yfir gömlu bloggfærslurnar.
Nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að taka þráðinn upp aftur. Það myndi hjálpa mér að vita hvort einhverjir eru yfirleitt að lesa þetta. Ef svo er þá mættuð þið gjarnan gera vart við ykkur í athugasemd hér fyrir neðan. Ef ekkert gerist ... þá verður bara að hafa það.
Gleðilega jólarest ... þið sem þetta lesið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Veggjakrot og veggjalist - enn og aftur
25.3.2015 | 12:44
Nú þegar borgarlandið er að koma undan snjó og hvarvetna blasir við rusl og drasl eftir lægðirnar að undanförnu hefur vaknað umræða um borgarumhverfið. Af því tilefni langar mig að endurvekja nokkurra ára gamla umræðu um veggjakrot og veggjalist.
Ég hef áður gert að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.
Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja sér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.
Svo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).
Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.
Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu ;-)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í minningu góðs vinar
19.6.2013 | 12:05
Í dag verður til jarðar borinn kær vinur, Baldur Þórhallur Jónasson frá Árholti á Húsavík.
Hann kvaddi þetta líf eftir stutta en stranga sjúkralegu. Það var um vornótt, þegar kraftur náttúrunnar er mestur, gróðurinn að lifna af vetrardvala og birtan að taka völdin. Hringrás lífs og dauða.
Á viðskilnaðarstundinni var sumarnóttin var að verða albjört fyrir norðan. Þar ríktu árniður, fuglasöngur og ilmandi kjarr í litum þingeyskrar sveitar, þaðan sem sögur hans og ljóð áttu uppruna sinn. Laxinn að ganga í árnar.
Baldur, vinur okkar, bar ekki aðeins nafn hins bjarta áss, heldur líka svipmót og fas. Ljós yfirlitum með gáfublik í auga, rólegur í fasi og alvörugefinn. Þannig kom hann okkur fyrir sjónir þegar fundum bar fyrst saman sumarið 1987 í Hollandi. Hann var þá fararstjóri en við ferðalangar með fjögur börn. Strax á flugvellinum fangaði hann athyglina, öruggur í fasi með auga á hverju úrlausnarefni, boðinn og búinn til aðstoðar. Þarna tókust kynni sem urðu að lífslangri vináttu, þegar Baldur og Margrét vinkona okkar gengu í hjónaband nokkrum árum síðar.
Baldur var góður félagi og mikill vinur vina sinna. Hjálpsemi hans var einstök, ekki síst við þá sem lífið fór um ómjúkum höndum, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra sem hann tók að hjarta sínu.
Baldur var maður með ríka réttlætiskennd og áhuga á þjóðmálum. Marga rökræðuna tókum við um landsins gagn og nauðsynjar ekki alltaf sammála um leiðir, en alltaf samhuga um markmið og meginsjónarmið. Við skynjuðum fljótt, að maðurinn hafði ýmislegt reynt. Einmitt þess vegna, gat hann gefið svo mikið. Hann veitti óspart af gnægtarbrunni sagna og ljóða um náttúru Þingeyjarsýslu, af laxveiði í drottningu íslenskra áa í Aðaldal, úr sveitinni við Mývatn og af minnisverðu fólki hvort sem var frá Húsavík eða fjarlægum löndum. Heimamaður og heimsmaður, það var Baldur. Það var sama hvar borið var niður, aldrei var komið að tómum kofa.
Baldur greindist fyrst með krabbamein árið 1999 og gekkst undir vandasama aðgerð á hálsi og barka. Eftir það þurfti hann að þjálfa nýja taltækni með nýrri rödd, og sættast við gjörbreytingu á lífi sínu. Hann tókst á við vandann af aðdáunarverðu æðruleysi. Þá, líkt og síðar, kom það í hans hlut að vera sá sterki, sá sem hughreysti sorgbitna ástvini og taldi í þá kjark og von.
Baldur var næmur á umhverfi sitt og næmur fyrir fólki. Dagfarsprúður og barst ekki mikið á, en húmoristi sem gladdist með glöðum. Skáldmæltur var hann eins og hann átti kyn til og eftir hann liggur mikið magn lausavísna og kvæða sem hann greip ósjaldan til á góðum stundum. Þannig naut hann sín best: Í töfrum orðanna, bundnum í ljóð eða óbundnum í rökræðum, þegar hugurinn hóf sig til flugs, yfir daglegt amstur. Sagan og lífið fléttuð saman í eina heild.
Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Erfiðu sjúkdómsstríði er nú lokið. Í því stríði sýndi Baldur styrk sem fáum er gefinn.
Eitt mun þó dauðinn aldrei ná að vinna,
orstír sem sprottinn er af sönnum toga.
Minning þín hlý í hugum vina þinna
og hjörtum lifir, eins og bjarmi af loga. (ÓÞ)
Nú hefur sálin vitjað skapara síns laxinn er genginn í ána.
Blessuð sé minning góðs vinar.
Ólína og Sigurður.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krafan um jöfnuð er ekki klisja
11.4.2013 | 09:37
Súðavíkurgöng
5.4.2013 | 08:17
Í janúar varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að leggja fram fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið á Alþingi um ný jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fékk ég til liðs aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis sem eru meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögu um að Súðavíkurgöng verði næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum. Lagt er til að jafnhliða verði efldar snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum allt þar til jarðgangagerðinni er lokið. Er þá einkum horft til stálþilja, víkkunar rása og grjótvarnarneta.
Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá Ísafirði, Bolungarvík, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri yfir vetrarmánuðina. Íbúar Súðavíkur þurfa enn fremur að sækja mest alla grunnþjónustu til Ísafjarðar um þennan veg. Í því ljósi má furðu sæta að Súðavíkurgöng skuli aldrei hafa komist inn á samgönguáætlun og að aldrei skuli hafa verið flutt þingmál þar um fyrr en nú.
Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga fyrir þinglok og það voru vonbrigði. Það verður því verkefni þingmanna kjördæmisins á næsta kjörtímabili að tryggja framgang málsins. Ekki mun skorta stuðning heimamanna, því undirtektir hafa verið mjög góðar hér á heimaslóðum. Það sáum við til dæmis þegar hópur fólks kom saman á Súðavíkurhlíðinni í gær til áréttingar kröfunni um jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Við það tækifæri var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu á síðunni www.alftafjardargong.is þar sem skorað er á stjórnvöld að hefja rannsókn og undirbúning að jarðagangagerðinni hið fyrsta. Á síðunni er réttilega minnt á að þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Þetta kom átakanlega glöggt í ljós í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði skömmu fyrir síðustu áramót þegar fjöldamörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Aðstæðurnar sem þarna sköpuðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.
Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum sínum - það hefur reynslan kennt okkur. Nægir að nefna Dýrafjarðargöng. Þau voru talin brýnasta jarðgangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun vegagerðarinnar fyrir mörgum árum, en voru við upphaf þessa kjörtímabils komin aftur til ársins 2022 á þágildandi samgönguáætlun. Sem fulltrúi í samgöngunefnd þingsins gekk ég í það ásamt fleiri þingmönnum kjördæmisins að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Það tókst og samkvæmt núgildandi áætlun á þeim að ljúka 2018. Má þakka það einarðri samstöðu í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, því hún skipti sköpum. Nú er brýnt að frá þessu verði hvergi hvikað.
Á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga ((2015-2018) þarf að nota tímann vel og undirbúa næstu brýnu samgöngubót - þá samgöngubót sem mikilvægt er að verði næst í röðinni. Það eru Súðavíkurgöngin.
Krían er komin
3.4.2013 | 08:24
Fögur er krían á flugi
fimlega klýfur hún vind
flugprúð og fangar hugi,
fránleikans sköpunarmynd.
Ég fyllist alltaf fögnuði innra með mér þegar ég sé fyrstu kríur vorsins. Þó mér þyki afar vænt um lóuna og elski blíðlega ba-bíííið hennar, þá jafnast ekkert á við kríuna, þann hugrakka, fima og fallega fugl.
Og nú er hún komin - þessi litla lifandi orustuþota. Veri hún velkomin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýravelferð í siðvæddu samfélagi
22.3.2013 | 08:58
Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok. Markmið laganna er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.
Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.
Gelding grísa og sumarbeit grasbíta
Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum Borgen þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.
Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu í þessa veru. Nefndin leggst gegn lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð beit á grónu landi á sumrin.
Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.
Tilkynningaskylda og nafnleynd
Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.
Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.
Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ofviðrið og afleiðingar þess - aðgerða er þörf
26.1.2013 | 11:42
Um síðustu áramót gekk ofviðri yfir norðvestanvert landið, með þeim afleiðingum að allar leiðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tepptust vegna fjölda snjóflóða. Rafmagn fór af fjölmörgum byggðum allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Rafmagnsleysið olli því meðal annars að síma og fjarskiptasamband lagðist af um tíma, þ.á.m. tetra-kerfið sem almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á í hættuástandi.
Í veðrinu afhjúpuðust m.ö.o. alvarlegir veikleikar í samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum Vestfirðinga.
Dómínóáhrif
Það sem við var að eiga voru samverkandi þættir dómínóáhrif. Óveður teppti samgöngur sem olli því að bjargir komust hvorki til né frá og ekki var hægt að gera við bilaðar rafmagnslínur. Rafmagnsleysi olli röskun á vöktun og fjarskiptum sem ofan á annan upplýsingaskort olli alvarlegu öryggisleysi með tilliti til almannavarna. Einungis munaði fáeinum mínútum að allir Vestfirðir yrðu alveg fjarskiptasambandslausir. Með öllu óásættanlegt sögðu fulltrúar neyðarlínu og almannavarna á fundi sem ég kallaði til í umhverfis og samgöngunefnd nokkrum dögum síðar með yfirmönnum samgöngu, raforku, og fjarskiptamála auk fulltrúa frá neyðarlínu og almannavörnum.
Umrædda daga var því ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum í raun og veru ríkti þar neyðarástand um tíma.
Sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist getur hvenær sem er skapast aftur. Við Íslendingar höfum nú á fáum mánuðum fengið óveður af þeim toga sem einungis þekktust með ára millibili hér áður fyrr. Veðuröfgar verða æ tíðari en kerfið í dag er hið sama og það var um jólin. Það er slíkt áhyggjuefni að þing og ríkisstjórn hljóta að endurskoða nú framkvæmdahraða, verkefnaröð og áætlanir varðandi alla þá þætti sem þarna brugðust, samgöngur, raforku og fjarskipti.
Flóðavarnir og jarðgöng
Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er flýting Súðavíkurganga svo þau geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum. Ég vænti þess líka á meðan beðið er eftir jarðgöngum að lagt verði ofurkapp á að koma upp viðunandi snjóflóðavörnum á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð.
Þeir atburðir sem urðu um áramótin voru viðvörun. Til allrar hamingju hlaust ekki manntjón eða óbætanlegur skaði af. En það væri óafsakanlegt ábyrgðarleysi að láta sér ekki þetta að kenningu verða. Óhjákvæmilegt er að endurskoða nú áætlanir í samgöngu-, raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga.
Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða, séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerist núorðið á hverjum vetri, og gerðist einnig að þessu sinni. Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa sex þéttbýlisstaða (Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Súðavíkur) við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina.
Þekkt eru 22 snjóflóðagil á þessari leið. Íáramótaveðrinu komu flóð úr 20 þeirra.
Þetta sýnir að Súðavíkurgöng verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum. Um leið blasir við að nú dugir ekki lengur að tala og þæfa um aðgerðir í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga nú þurfa verkin að tala.
Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum
21.1.2013 | 13:53
Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.
Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.
Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði 14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda.
Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.
Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið.
Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.
Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.Veiðileyfagjaldið ...
10.1.2013 | 10:15
Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti. Hreinn hagnaður útgerðarinnar á síðasta ári var 60 milljarðar samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, það jafngildir 22,6% af heildartekjum greinarinnar sem voru 263 milljarðar króna. Framlegð útgerðarinnar (svokölluð EBIDTA) var 80 milljarðar sem er mun betri afkoma en 2010 þegar hún nam 64 milljörðum króna. Eiginfjárstaðan batnaði um 70 milljarða milli ára.
Þessar jákvæðu fréttir tala sínu máli. Þær sýna okkur hve mikið er að marka harmagrát talsmanna útgerðarinnar sem undanfarin misseri hafa fullyrt að þessi stönduga atvinnugrein myndi líða undir lok, færi svo að veiðigjald yrði lagt á umframhagnaðinn í greininni. Eins og sjá má af þessum afkomutölum er engin slík hætta á ferðum, nema síður sé.
Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá þ.á.m. arðgreiðslur útgerðarinnar til sjálfrar sín. Það sem eftir stendur umframhagnaðurinn myndar gjaldstofn fyrir töku veiðileyfagjalds á greinina alla. Þar fyrir utan geta skuldug útgerðarfyrirtæki sótt um lækkun veiðileyfagjalds nú og næstu þrjú árin ef sýnt verður fram á að tiltekið skuldahlutfall stafi af kvótaviðskiptum fyrri ára. Gert er ráð fyrir að heildarlækkun gjaldtökunnar vegna þessa geti numið allt að tveimur milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, þannig að tekjur ríkisins af veiðileyfagjaldi verði nálægt 13 milljörðum króna (hefði annars orðið 15 mia).
Það munar um þrettán milljarða í fjárvana ríkissjóð, því nú er mjög kallað eftir framkvæmdum og fjárfestingum til þess að herða snúninginn á hjólum atvinnulífsins.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast strax í gerð Norðfjarðarganga, og síðan í beinu framhaldi Dýrafjarðarganga/Dynjandisheiðar sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að hefjist 2015 og ljúki eigi síðar en 2018.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú hægt að veita stórauknum fjármunum til tækniþróunar og nýsköpunar, aukinna rannsókna og styrkingar innviða í samfélagi okkar, eins og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður sjávarútvegurinn enn styrkari stoð í samfélagi okkar en verið hefur raunverulegur þátttakandi í endurreisn atvinnulífs og byggðarlaga og sannkölluð undirstöðuatvinnugrein í víðum skilningi.
En veiðileyfagjaldið er einungis eitt skref vegferðinni er ekki lokið.
Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd. Stjórnvöld mega ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.
---------------
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.