Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Krafan um jöfnuð er ekki klisja

Jafnaðarhugsjónin er auðlind – það sjáum við þegar við lítum til öflugustu velferðarsamfélaga heims, eins og Norðurlanda.  Krafan um jöfnuð er lifandi stefna að verki. Hún miðar að því að byggja upp samfélag af sömu umhyggju og við byggjum upp heimili. Því er ætlað að veita öryggi og vera skjól.  Þess vegna hefur það haft ótvíræða þýðingu fyrir íslenskt samfélag að það skuli hafa verið jafnaðarmenn sem haldið hafa um stjórnartauma hin erfiðu ár eftir hrun.  Á síðustu fjórum árum hafa jafnaðarmenn á Íslandi náð að jafna lífskjör í landinu. Við breyttum skattkerfinu – og já, við hækkuðum skatta á þá hæstlaunuðu, en um leið hlífðum við láglaunahópunum og vörðum millitekjuhópinn. Við jukum stuðning við ungar barnafjölskuldur, hækkuðum barnabætur, hækkuðum húsaleigubætur og drógum úr skerðingum. Við stórhækkuðum vaxtabætur og greiddum samtals hundrað milljarða í þær og barnabætur á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni komist nálægt. Kaupmáttur lægstu launa er hærri nú en hann var í góðærinu. Skattbyrðin er lægri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er nú helmingi minni en árið 2007 þegar hann varð mestur. Það skiptir máli hverjir stjórna. Okkur tókst það sem engri annarri þjóð hefur tekist, sem hefur lent í kreppu: Að verja kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að náðist að minnka halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, lækka verðbólgu úr 18% í 4,5%, minnka atvinnuleysi um helming og ... verja velferðarkerfið. Nei, krafan um jöfnuð er ekki klisja – hún er lifandi stefna. Félagslegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í samfélögum þar sem jöfnuður er í hávegum hafður er minna um öfga og glæpi. Jafnaðarstefnan vinnur gegn félagslegum vanda og andlegri vanlíðan. Hún vinnur gegn kynjamismunun og menntunarskorti. Jafnaðarstefnan stuðlar að almennri velmegun, sjálfbærni og minni sóun.Hún stuðlar að samheldni, gagnkvæmu trausti og mannvirðingu. Þannig samfélag vil ég. 

Súðavíkurgöng

Í janúar  varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að leggja fram fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið á Alþingi um ný jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fékk ég til liðs aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis sem eru meðflutningsmenn  mínir á þingsályktunartillögu um að Súðavíkurgöng verði næstu jarðgöng  á eftir Dýrafjarðargöngum. Lagt er til að jafnhliða verði efldar snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum allt þar til jarðgangagerðinni er lokið. Er þá einkum horft til stálþilja, víkkunar rása og grjótvarnarneta.

Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá  Ísafirði, Bolungarvík, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri  yfir vetrarmánuðina. Íbúar Súðavíkur þurfa enn fremur að sækja mest alla grunnþjónustu til Ísafjarðar um þennan veg. Í því ljósi má furðu sæta að Súðavíkurgöng skuli aldrei hafa komist inn á samgönguáætlun og að aldrei skuli hafa verið flutt þingmál þar um fyrr en nú.

Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga fyrir þinglok og það voru vonbrigði. Það verður því verkefni þingmanna kjördæmisins á næsta kjörtímabili að tryggja framgang málsins. Ekki mun skorta stuðning heimamanna, því undirtektir hafa verið mjög góðar hér á heimaslóðum. Það sáum við til dæmis þegar hópur fólks kom saman á Súðavíkurhlíðinni í gær til áréttingar kröfunni um jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Við það tækifæri var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu á síðunni www.alftafjardargong.is þar sem skorað er á stjórnvöld að hefja rannsókn og undirbúning að jarðagangagerðinni hið fyrsta. Á síðunni er réttilega minnt á að þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Þetta kom átakanlega glöggt í ljós í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði skömmu fyrir síðustu áramót þegar fjöldamörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Aðstæðurnar sem þarna sköpuðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.

Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum sínum - það hefur reynslan kennt okkur. Nægir að nefna Dýrafjarðargöng. Þau voru talin brýnasta jarðgangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun vegagerðarinnar fyrir mörgum árum, en voru við upphaf þessa kjörtímabils komin aftur til ársins 2022 á þágildandi samgönguáætlun. Sem fulltrúi í samgöngunefnd þingsins gekk ég í það ásamt fleiri þingmönnum kjördæmisins að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Það tókst og samkvæmt núgildandi áætlun á þeim að ljúka 2018. Má þakka það einarðri samstöðu í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, því hún skipti sköpum.  Nú er brýnt að frá þessu verði hvergi hvikað.

Á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga ((2015-2018) þarf að nota tímann vel og undirbúa næstu brýnu samgöngubót  - þá samgöngubót sem mikilvægt er að verði næst í röðinni. Það eru Súðavíkurgöngin.


Krían er komin

Krijan_IMG_3569

   Fögur er krían á flugi
   fimlega klýfur hún vind
   flugprúð og fangar hugi,
   fránleikans sköpunarmynd.

Ég fyllist alltaf fögnuði innra með mér þegar ég sé fyrstu kríur vorsins. Þó mér þyki afar vænt um lóuna og elski blíðlega ba-bíííið hennar, þá jafnast ekkert á við kríuna, þann hugrakka, fima og fallega fugl.

 Og nú er hún komin - þessi litla lifandi orustuþota. Veri hún velkomin. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband