Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
Ofviðrið og afleiðingar þess - aðgerða er þörf
26.1.2013 | 11:42
Um síðustu áramót gekk ofviðri yfir norðvestanvert landið, með þeim afleiðingum að allar leiðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tepptust vegna fjölda snjóflóða. Rafmagn fór af fjölmörgum byggðum allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Rafmagnsleysið olli því meðal annars að síma og fjarskiptasamband lagðist af um tíma, þ.á.m. tetra-kerfið sem almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á í hættuástandi.
Í veðrinu afhjúpuðust m.ö.o. alvarlegir veikleikar í samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum Vestfirðinga.
Dómínóáhrif
Það sem við var að eiga voru samverkandi þættir dómínóáhrif. Óveður teppti samgöngur sem olli því að bjargir komust hvorki til né frá og ekki var hægt að gera við bilaðar rafmagnslínur. Rafmagnsleysi olli röskun á vöktun og fjarskiptum sem ofan á annan upplýsingaskort olli alvarlegu öryggisleysi með tilliti til almannavarna. Einungis munaði fáeinum mínútum að allir Vestfirðir yrðu alveg fjarskiptasambandslausir. Með öllu óásættanlegt sögðu fulltrúar neyðarlínu og almannavarna á fundi sem ég kallaði til í umhverfis og samgöngunefnd nokkrum dögum síðar með yfirmönnum samgöngu, raforku, og fjarskiptamála auk fulltrúa frá neyðarlínu og almannavörnum.
Umrædda daga var því ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum í raun og veru ríkti þar neyðarástand um tíma.
Sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist getur hvenær sem er skapast aftur. Við Íslendingar höfum nú á fáum mánuðum fengið óveður af þeim toga sem einungis þekktust með ára millibili hér áður fyrr. Veðuröfgar verða æ tíðari en kerfið í dag er hið sama og það var um jólin. Það er slíkt áhyggjuefni að þing og ríkisstjórn hljóta að endurskoða nú framkvæmdahraða, verkefnaröð og áætlanir varðandi alla þá þætti sem þarna brugðust, samgöngur, raforku og fjarskipti.
Flóðavarnir og jarðgöng
Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er flýting Súðavíkurganga svo þau geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum. Ég vænti þess líka á meðan beðið er eftir jarðgöngum að lagt verði ofurkapp á að koma upp viðunandi snjóflóðavörnum á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð.
Þeir atburðir sem urðu um áramótin voru viðvörun. Til allrar hamingju hlaust ekki manntjón eða óbætanlegur skaði af. En það væri óafsakanlegt ábyrgðarleysi að láta sér ekki þetta að kenningu verða. Óhjákvæmilegt er að endurskoða nú áætlanir í samgöngu-, raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga.
Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða, séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerist núorðið á hverjum vetri, og gerðist einnig að þessu sinni. Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa sex þéttbýlisstaða (Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Súðavíkur) við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina.
Þekkt eru 22 snjóflóðagil á þessari leið. Íáramótaveðrinu komu flóð úr 20 þeirra.
Þetta sýnir að Súðavíkurgöng verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum. Um leið blasir við að nú dugir ekki lengur að tala og þæfa um aðgerðir í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga nú þurfa verkin að tala.
Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum
21.1.2013 | 13:53
Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.
Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.
Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði 14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda.
Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.
Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið.
Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.
Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.Veiðileyfagjaldið ...
10.1.2013 | 10:15
Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti. Hreinn hagnaður útgerðarinnar á síðasta ári var 60 milljarðar samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, það jafngildir 22,6% af heildartekjum greinarinnar sem voru 263 milljarðar króna. Framlegð útgerðarinnar (svokölluð EBIDTA) var 80 milljarðar sem er mun betri afkoma en 2010 þegar hún nam 64 milljörðum króna. Eiginfjárstaðan batnaði um 70 milljarða milli ára.
Þessar jákvæðu fréttir tala sínu máli. Þær sýna okkur hve mikið er að marka harmagrát talsmanna útgerðarinnar sem undanfarin misseri hafa fullyrt að þessi stönduga atvinnugrein myndi líða undir lok, færi svo að veiðigjald yrði lagt á umframhagnaðinn í greininni. Eins og sjá má af þessum afkomutölum er engin slík hætta á ferðum, nema síður sé.
Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá þ.á.m. arðgreiðslur útgerðarinnar til sjálfrar sín. Það sem eftir stendur umframhagnaðurinn myndar gjaldstofn fyrir töku veiðileyfagjalds á greinina alla. Þar fyrir utan geta skuldug útgerðarfyrirtæki sótt um lækkun veiðileyfagjalds nú og næstu þrjú árin ef sýnt verður fram á að tiltekið skuldahlutfall stafi af kvótaviðskiptum fyrri ára. Gert er ráð fyrir að heildarlækkun gjaldtökunnar vegna þessa geti numið allt að tveimur milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, þannig að tekjur ríkisins af veiðileyfagjaldi verði nálægt 13 milljörðum króna (hefði annars orðið 15 mia).
Það munar um þrettán milljarða í fjárvana ríkissjóð, því nú er mjög kallað eftir framkvæmdum og fjárfestingum til þess að herða snúninginn á hjólum atvinnulífsins.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast strax í gerð Norðfjarðarganga, og síðan í beinu framhaldi Dýrafjarðarganga/Dynjandisheiðar sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að hefjist 2015 og ljúki eigi síðar en 2018.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú hægt að veita stórauknum fjármunum til tækniþróunar og nýsköpunar, aukinna rannsókna og styrkingar innviða í samfélagi okkar, eins og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.
Vegna veiðileyfagjaldsins verður sjávarútvegurinn enn styrkari stoð í samfélagi okkar en verið hefur raunverulegur þátttakandi í endurreisn atvinnulífs og byggðarlaga og sannkölluð undirstöðuatvinnugrein í víðum skilningi.
En veiðileyfagjaldið er einungis eitt skref vegferðinni er ekki lokið.
Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd. Stjórnvöld mega ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.
---------------
Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.
Kvótamálin og vegferðin framundan
7.1.2013 | 14:20
Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd. Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.
Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá. Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.
En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.
Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn og vaxandi leigumarkaður með aflaheimildir og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.
Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt skref sem ég tel rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand. Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um allt eða ekkert getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.
Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.
----------------
Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.
Afleiðingar ofsaveðurs - skýringa er þörf
3.1.2013 | 17:38
Veðurofsinn sem gekk yfir Vestfirði nú um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku, samgöngu- og fjarskiptamálum okkar Vestfirðinga. Af því tilefni hef ég nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforkumál Vestfirðinga og mun fara þess á leit að yfirmenn samgöngu og fjarskiptamála verði kallaðir til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd til þess að skýra fyrir nefndinni hvað gerðist, og hvaða áætlanir séu uppi um að hindra að annað eins endurtaki sig.
Vestfirðingar geta ekki unað því lengur að vera svo berskjaldaðir sem raun ber vitni þegar veðurguðirnir ræskja raddböndin af þeim krafti sem nú varð, hvorki varðandi raforkumál, fjarskipti né samgöngur. Það gengur ekki öllu lengur að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerðist að þessu sinni (og ekki í fyrsta sinn). Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi - en þessi vegur er helsta samgönguæðin milli Ísafjarðar og umheimsins yfir vetrarmánuðina. Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum. Þetta sýnir að jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, og þetta þarf að ræða við fyrsta tækifæri á vettvangi þingsins.
Þá getum við ekki unað því að fjarskipti fari svo úr skorðum sem raun bar vitni, bæði GSM kerfið og Tetra-kerfið sem almannavarnirnar reiða sig á, bæði björgunarsveitir og lögregla.
Þá finnst mér Orkubú Vestfjarða skulda Vestfirðingum skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda, þar af tvær stöðvar á Ísafirði. Varaaflsstöðvarnar eru vélar sem þarfnast eftirlits, viðhalds og álagsprófunar. Eitthvað af þessu þrennu hefur farið úrskeiðis, og stjórnendur fyrirtækisins þurfa að skýra betur hvað gerðist. Enn fremur þarf að skýra það fyrir Vestfirðinum, almannavörnum og fleiri aðilum hvað fór úrskeiðis í upplýsingagjöf fyrirtækisins til íbúa á svæðinu.
Orkubú Vestfjarða er fyrirtæki í almenningseigu þannig að Vestfirðingar eru ekki einungis viðskiptavinir fyrirtækisins heldur einnig eigendur þess. Það hlýtur að vekja furðu að ekki skyldu strax gefnar út tilkynningar í gegnum almannavarnir um það hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu. Fólk sat í köldum og dimmum húsum tímunum saman án þess að vita nokkuð. Það er ekki nóg að setja ótímasettar tilkynningar inn á heimasíðu fyrirtækisins, þegar rafmagnsleysi ríkir liggur netsamband að mestu niðri. Tilkynningar í gegnum almannavarnir til útvarpshlustenda og í GSM síma hefðu þurft að berast. Svör orkubússtjóra um að "panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara.
Þessi uppákoma afhjúpaði að mínu viti svo alvarlega veikleika í kerfinu að það þarfnast nánari skoðunnar, m.a. á vettvangi þingsins. Ég tel því óhjákvæmilegt að farið verði vel yfir þessi mál í þinginu strax að loknu jólaleyfi.