Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
Heildræn meðferð - heilsubót eða kukl?
29.11.2012 | 16:45
Þingsályktunartillaga - sem ég er meðflutningsmaður að - um að kannaðar verði forsendur þess að niðurgreiða heildræna meðferð græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu, hefur vakið augljósan áhuga í samfélaginu, jafnvel hörð viðbrögð hjá sumum. Eitt dæmi er þessi vanhugsaða fordæming á heimasíðu Vantrúar þar sem því er haldið fram að umræddir þingmenn - Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og undirrituð - séum að leggja það til að ríkið "niðurgreiði skottulækningar" eins og það er orðað svo smekklega.
Verði hin ágæta þingsályktunartillaga okkar þriggja samþykkt gerist einfaldlega þetta:
Skipaður verður starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, Bandalagi íslenskra græðara, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti. Sá hópur metur það í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um gagnsemi heildrænnar meðferðar græðara hvort efni standi til þess að bjóða fólki upp á niðurgreiðslu slíkrar meðferðar - hvort sem hún er þá liður í t.d.
- eftirmeðferð (td eftir krabbameinsmeðferð, áfengismeðferð eða dvöl á geðsjúkrahúsi svo dæmi sé tekið)
- stoðmeðferð við aðrar læknisfræðilegar/hefðbundnar meðferðir (t.d. stuðningur við kvíðastillandi meðferð, meðferð við þunglyndi eða vegna meðferðar langvinnra, álagstengdra sjúkdóma)
- eða sjálfstæð meðferð vegna óskilgreindra heilsufarslegra vandamála sem læknavísindin ráða jafnvel ekki við með hefðbundnum aðferðum.
Heildrænar meðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna undanfarna áratugi sem liður í almennri heilsuvakningu og auknum skilningi læknavísindanna á því að sjúkdómar eru sjaldnast einangrað fyrirbæri, heldur afleiðing samverkandi þátta í lífi fólks: Lifnaðarhátta, andlegs álags, erfða o.s.frv.
Náttúrulækningafélag Íslands reið á vaðið á síðustu öld með stofnun heilsuhælisins í Hveragerði, þar sem fólk fær einmitt heildræna meðferð við ýmsum kvillum t.d. eftir skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir: Slökun, nudd, leirböð, hreyfingu, nálastungur o.fl.
Verði þessi starfshópur skipaður má vænta þess að hann muni líta til þeirra rannsókna og annarra gagna sem fyrir liggja um gagnsemi slíkra meðferðarúrræða, ræða við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og leita álits þeirra.
Fyrir nokkrum árum spratt upp mjög heit umræða um ágæti eða gagnsleysi höfuðbeina og spjaldhryggjameðferðar. Fram á sviðið þrömmuðu læknar sem höfðu allt á hornum sér í því sambandi. Þá skrifaði ég þessa grein á bloggsíðu mína sem mér finnst raunar eiga fullt erindi inn í þessa umræðu enn í dag.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Umsnúningur auðlindaákvæðis?
27.11.2012 | 14:47
Vaxandi eru áhyggjur mínar af þeirri breytingu sem nú er orðin á auðlindaákvæði verðandi stjórnarskrár. Ég tel því óhjákvæmilegt að hugað verði nánar að afleiðingum þeirrar "orðalagsbreytingar" - enda óttast ég að hún geti snúið ákvæðinu upp í andhverfu sína. Það hringja allar viðvörunarbjöllur hjá mér yfir þessu, og lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála mér um að þetta sé (eða geti a.m.k. verið) efnisbreyting.
Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár - og á atkvæðaseðlinum sem almenningur tók afstöðu til í kosningunni 20. október síðastliðinn - sagði þetta um auðlindir í 34. grein:
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar."
74% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu þetta orðalag.
Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eftir yfirferð sérfræðinganefndarer hins vegar talað um þær auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti".
Ég óttast að þar með sé verið að vísa því til ákvörðunar dómstóla framtíðarinnar að færa t.d. kvótahöfum eignarrétt yfir fiskveiðiauðlindinni, svo dæmi sé tekið. Það er ekki það sem þjóðin kaus um þann 20. október. Þá tóku kjósendur jákvæða afstöðu til þess að auðlindirnar - þar með talin fiskveiðiauðlindin - séu í ævarandi eigu þjóðarinnar.
Hér þarf að búa þannig um hnúta að engin hætta sé á því að þetta ákvæði sem á að vernda eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum snúist upp í andhverfu sína. Því hef ég óskað eftir því að fjallað verði um þetta sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd, sem og atvinnuveganefnd í tengslum við stjórnarskrárvinnuna. Ég hef líka vakið athygli nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á málinu, og óskað eftir því að þetta verði tekið til sérstakrar umfjöllunar.
Hér má enginn vafi leika á inntaki auðlindaákvæðisins eða ævarandi eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert er þá öryggi aldraðra á hjúkrunarheimilum?
20.11.2012 | 15:59
Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar vekur margar áleitnar spurningar.
Hér er um að ræða sjálfseignarstofnun sem rekin er á dagpeningum frá ríkinu. Stofnun sem hefur tekið við háum greiðslum frá skjólstæðingum sínum og ríkinu - en meðhöndlað þá fjármuni eins og þeir væru ráðstöfunarfé stjórnenda, e-s konar risnu fé fyrir vini og vandamenn þeirra sem treyst var fyrir þessum fjármunum. Örlætisgjörningur" er orðið sem Ríkisendurskoðun notar yfir þann gjörning. Ekki er ég viss um að aðstandendur íbúa Eirar myndu velja það orð. Verður mér þá hugsað til aðstandenda gamla mannsins sem kom með 24 mkr í ferðatösku fyrir fáum árum til þess að greiða fyrir íbúðina sem hann fékk að flytja inn í á Eir. Síðan greiddi hann 63 þús. kr. mánaðarlega fyrir að fá að búa þar.
Þetta ógeðfellda mál hlýtur að verða rannsakað frekar og óhugsandi annað en að stjórn heimilisins segi af sér, eða verði látin segja af sér, sjái hún ekki sóma sinn í því að víkja sjálf.
En þetta mál vekur áleitnar spurningar fyrir okkur alþingismenn, sem varða öryggi, eignastöðu og réttindi aldraðs fólks sem dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins.
Í þinginu í dag beindi ég þeim tilmælum til formanns velferðarnefndar Alþingis, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að taka málefni hjúkrunarheimilanna upp með heildstæðum hætti í velferðarnefnd þingsins. Það þarf að endurskoða og fara vel yfir það fyrirkomulag sem nú viðgengst varðandi framlag aldraðra til búsetu- og dvalarréttinda á þessum heimilum. Fólk greiðir háar fjárhæðir í upphafi, og þarf auk þess að sæta upptöku lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Þess eru dæmi að fólk missi nánast öll fjárforráð við það að fara inn á slík heimili. Þetta er gert í nafni öryggis" og umönnunar" sem reynist svo ekki betra en dæmið um Eir sannar.
Það er kominn tími til að endurskoða mál þessi í heild sinni.
Byggðaröskun er ekki náttúrulögmál
18.11.2012 | 20:05
Það er gott að búa úti á landi, í námunda við hreina náttúru, í göngufæri við vinnustað og skjóli umhyggjusams nærsamfélags. En þessi lífsgæði kosta sitt.
Húshitun á köldum svæðum er margfalt dýrari en í Reykjavík. Það er mannleg ákvörðun. Vöruverð er umtalsvert hærra vegna flutningskostnaðar - því er hægt að breyta.
Samöngur, raforkuöryggi, gott internetsamband: Allt eru þetta forsendur þess að atvinnulíf og byggð fái þrifist og dafnað - og allt eru þetta mannlegar forsendur sem hægt er að breyta, ef vilji og heildarsýn eru fyrir hendi.
Höfuðborgin aflar 42% ríkistekna, en hún eyðir 75% þess sem kemur í ríkiskassann. Það er ekki náttúrlögmál.
Þróunin á landsbyggðinni er afleiðing ákvarðana, t.d. þeirrar ákvörðunar að afhenda fiskveiðiauðlindina útvöldum hópi og færa þeim óðalsrétt að þjóðarauðlind án eðlilegs endurgjald til samfélagsins. Af þeirri ákvörðun hefur hlotist mikil atvinnu- og byggðaröskun. Hin margrómaða hagræðing útgerðarinnar varð á kostnað samfélagsins - byggðarlögin borguðu. Daginn sem skipið er selt í hagræðingarskyni eða útgerðarmaðurinn selur kvótann og fer með auðævi sín úr byggðarlaginu, situr eftir byggð í sárum: Atvinnulaust fólk með verðlitlar fasteignir sem kemst hvergi, en unga fólkið lætur sig hverfa til náms, og kemur ekki aftur. Hvernig byggðinni farnast eftir slíka atburði, er háð öðrum skilyrðum, m.a. samöngum, fjarskiptum og raforkuöryggi - en ekki síður innra stoðkerfi og opinberri þjónustu.
Það þýðir ekki að tala um byggðaröskun sem eðlilega þróun", því þessi þróun er mannanna verk. Hún stafar af ákvörðunum og skilningsleysi misviturra stjórnmálamanna sem í góðærum fyrri tíða misstu sjónar af almannahagsmunum og skeyttu ekki í reynd um yfirlýst stefnumið laga um jafnan búseturétt.
Til þess að jafna stöðu byggðanna þarf einfaldega að taka réttar ákvarðanir, í samgöngumálum, í atvinnu- og auðlindamálum og við uppbyggingu stofnana og þjónustu. Búsetuval á að vera réttur fólks í nútímasamfélagi.
Stefnan er til á blaði í öllum þeim byggða-, samgöngu- og sóknaráætlunum sem til eru, en þeirri stefnu þarf að koma í verk.
Byggðahnignunin er ekki náttúrulögmál - hún er mannanna verk.
Allan afla á markað
15.11.2012 | 20:04
Gunnar Örn Örlygsson, stjórnarmaður í SFÚ flutti einnig tölu. Í hans máli kom fram að fiskvinnslur SFÚ greiða þriðjungi hærra verð fyrir hráefni til vinnslu en fiskvinnslur LÍÚ.
Það er furðulegt hversu lítill hljómgrunnur hefur verið meðal ráðamanna í gegnum tíðina við þau sjónarmið að aðskilja veiðar og vinnslu og setja "allan fisk á markað" (eða a.m.k. aukinn hluta). Hægt er að sýna fram á það með gildum rökum að aðgerðir í þá átt myndu stuðla að eðlilegri verðmyndun, heilbrigðari samkeppnisskilyrðum, aukinni atvinnu og ekki síst -- sem skýrsla KPMG leiðir í ljós -- auknum tekjum hins opinbera.
Það er auðvitað undarlegt að sjá hvernig þeir sem mest hafa viðrað sig upp við markaðsöflin gegnum tíðina hafa staðið fastast gegn þessu í reynd. Í ljós kemur að hinir meintu markaðspostular þessa lands eru ekki að berjast fyrir heilbrigðum markaðsskilyrðum heldur fákeppni og sérhagsmunum stórfyrirtækja og samsteypa. Merkin sýna verkin.
Í því sambandi var fróðlegt að hlusta á Jóhannes I Kolbeinsson framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar lýsa okkar bágborna, íslenska samkeppnisumhverfi - slöku eftirliti, veikburða Samkeppnisstofnun, slöppu lagaumhverfi. Ofan á allt bætist að hans sögn að helstu hagsmunasamtök atvinnulífsins SAA hafa lagst á sveif með stórfyrirtækjum að slaka á framkvæmd samkeppnislaga.
Já, það hefur lengi skort á heildarsýn í þessum efnum í okkar litla samfélagi þar sem sterk öfl takast á um mikla hagsmuni, og svífast einskis. Umhverfið í útgerð og fiskvinnslu er ekki hvað síst dæmi um það.
Ég hef lengi talað fyrir aðskilnaði veiða og vinnslu sem og því að allur afli (eða a.m.k. vaxandi hluti) fari á markað, og lagt fram tillögur þar að lútandi.
Í ljósi þess hvernig aðrir þingmenn tjáðu sig í pallborði fundarins, er þess vonandi að vænta að skilningur á þessu sjónarmiði sé eitthvað að glæðast, og að við munum sjá þess merki í tillöguflutningi á Alþingi innan tíðar.
Þjóðkirkjan okkar
13.11.2012 | 22:18
Í dag ræddum við í þinginu um stöðu Þjóðkirkjunnar.
Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi: Íslendingar vilja þjóðkirkju.
Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagin okkar. Hún hefur lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar. Kirkjan hefur verið það skjól sem tugþúsundir Íslendinga hafa leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, t.d. þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.
Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi ekki síst fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur þjóðkirkjan tekist á við mikinn niðurskurð, sem þegar grannt er skoðað virðist umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað.
Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem Þjóðkirkjan afsalaði til ríkissjóðs 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts.
Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa báðir ofangreindir tekjustofnar þjóðkirkjunnar verið skertir umtalsvert.
Að teknu tilliti til verðþróunar, nemur skerðing sóknargjalda um 20% . Við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar því hún hefur mátt sæta umtalsverðri skerðingu á lögbundnum og samningsbundnum framlögum. Þá hefur einnig orðið tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land, þar á meðal grunnþjónustuna - sjálft helgihaldið, sálgæsluna, æskulýðsstarfið og líknarmálin. Það er mikið áhyggjuefni.
Fjárhagsstaða margra kirkna úti á landi er þannig að hún rétt nægir til að greiða hita, rafmagn og önnur lögbundin útgjöld, fjármunir til safnaðarstarfs eru ekki til staðar. Guðsþjónustum er því fækkað og fjármunir til venjulegs viðhalds eigna er ekki fyrir hendi. Þeir varasjóðir sem til voru eru víða þurrausnir og komið að enn frekari niðurskurði.
Í stærri sóknum í þéttbýli er barna- og æskulýðsstarf í hættu vegna þess að sóknir geta ekki greitt fyrir það, en það er það starf sem víðast hvar var reynt að hlífa. Sömu sögu er að segja um eldriborgarastarf, fullorðinsfræðslu, kærleiksþjónustu og líknarmál.
Við svo búið má ekki standa. Á meðan við höfum þjóðkirkju í landinu, verðum við að búa svo að henni að hún geti sinn lögbundnu hlutverki sínu og skyldum.
Andleg umönnun er allt eins mikilvægt og önnur umönnun ekki síst á erfiðum tímum líkum þeim sem við höfum upplifað undanfarin ár. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman.