Umsnúningur auðlindaákvæðis?

Vaxandi eru áhyggjur mínar af þeirri breytingu sem  nú er orðin á auðlindaákvæði verðandi stjórnarskrár. Ég tel því óhjákvæmilegt að hugað verði nánar að  afleiðingum þeirrar "orðalagsbreytingar" - enda óttast ég að hún geti snúið ákvæðinu upp í andhverfu sína. Það hringja allar viðvörunarbjöllur hjá mér yfir þessu, og lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála mér um að þetta sé (eða geti a.m.k. verið) efnisbreyting.

Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár - og á atkvæðaseðlinum sem almenningur tók afstöðu til í kosningunni 20. október síðastliðinn - sagði þetta um auðlindir í 34. grein:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar." 

 74% þeirra  sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu þetta orðalag.

Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eftir yfirferð sérfræðinganefndarer hins vegar talað um þær auðlindir „sem ekki eru háðar einkaeignarrétti".

Ég óttast að þar með sé verið að vísa því til ákvörðunar dómstóla framtíðarinnar að færa t.d. kvótahöfum eignarrétt yfir fiskveiðiauðlindinni, svo dæmi sé tekið. Það er ekki það sem þjóðin kaus um þann 20. október. Þá tóku kjósendur jákvæða afstöðu til þess að auðlindirnar - þar með talin fiskveiðiauðlindin - séu í ævarandi eigu þjóðarinnar.

Hér þarf að búa þannig um hnúta að engin hætta sé á því að þetta ákvæði sem á að vernda eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum snúist upp í andhverfu sína. Því hef ég óskað eftir því að fjallað verði um þetta sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd, sem og atvinnuveganefnd í tengslum við stjórnarskrárvinnuna. Ég hef líka vakið athygli nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á málinu, og óskað eftir því að þetta verði tekið til sérstakrar umfjöllunar.

Hér má enginn vafi leika á inntaki auðlindaákvæðisins eða ævarandi eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband