Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Ill nauðsyn - eða hvað?
3.6.2008 | 13:01
Sorgleg endalok voru það að björninn skyldi felldur - en ill nauðsyn er ég hrædd um. Ekki hefði ég viljað vera þarna og sjá dýrið koma á móti mér.
Athugasemdir héraðsdýralæknisins á Blönduósi eru þó umhugsunarefni (sjá hér ) og þær vekja spurningar um hvort raunverulega hafi verið vilji til þess að ná birninum lifandi.
Fram kom í fréttum að það hefði tekið sólarhing að fá deyfilyf til landsins til þess að svæfa dýrið - og af því mátti skilja að vá hafi verið fyrir dyrum að ætla að bíða svo lengi með lausan ísbjörn á vappi um hlíðar Þverárfjalls. En .... var þetta athugað nógu vel? Héraðsdýralæknirinn segist vera með svona deyfilyf í bílnum hjá sér. Líka byssuna sem til þarf!
Eiginlega finnst mér að deyfilyf af þessu tagi eigi að vera tiltækt á lögreglustöðvum landsins og/eða hjá héraðsdýralæknum. Og varla getur verið svo mikið mál að koma því þannig fyrir.
Eiginlega finnst mér líka að það þyrfti að vera til viðbragðsáætlun fyrir uppákomur af þessu tagi. Hvítabirnir eru alfriðaðir - við getum alltaf átt von á því að þeir gangi á land hér, þó það gerist ekki oft.
Þá er vel hugsanlegt að grípa þurfi til svæfingarlyfja með skömmum fyrirvara vega fleiri dýrategunda en ísbjarna. Ég minnist þess þegar hreindýrskýr gat ekki losnað frá kálfi sínum og gekk með hann í burðarliðnum meðfram veginum í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði um árið. Framan af þorði enginn að fella dýrið af því það var ekki veiðitímabil - og engin deyfibyssa var tiltæk heldur. Kýrin var þó skotin um síðir, en þá var hún búin að ganga sárkvalin sólahringum saman og var að dauða komin.
Gætu stjórnvöld til dæmis ekki átt samstarf við alþjóðleg náttúruverndarsamtök um viðbrögð og aðgengi að sérfræðingum þegar eitthvað þessu líkt kemur upp? Ég segi nú svona.
Ísbjörninn felldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Vonandi verður notuð deyfibyssa
3.6.2008 | 10:37
Nú væri óskandi að menn gripu til deyfibyssunnar en ekki riffilsins - og að þessum ísbirni yrði hjálpað til heimkynna sinna. Það veltur á því hversu fljótir menn verða í að samhæfa aðgerðir án þess að fólki sé stefnt í voða. Spurning hvort vilji er til þess yfirleitt - eða geta. Við Íslendingar erum svosem ekkert mjög vanir því að taka á móti ísbjörnum ... eða hlífa þeim.
Ég vona samt að þetta endi ekki með hinu hefðbundna blóðbaði og birninum uppsoppuðum einhversstaðar. Vona að það verði hægt að setja vakt á hann meðan útvegað er deyfilyf.
En það er bara von .... ég óttast að þetta muni hafa önnur málalok.
Ísbjörn við Þverárfjall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin aftur :-)
3.6.2008 | 00:09
Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina.
En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur.
Tengslanetið á Bifröst
Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.
Dásamlegur dagur við Þingvallavatn
Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.
Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.
Útkallsæfing á Hellisheiði
Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.
Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur.
Ekkert bloggað af viti
Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.
Sjáumst.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)