Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
Segir enginn af sér? Enginn sóttur til saka?
7.2.2008 | 09:57
Skýrsla stýrihópsins sem fjallaði um samruna REI og GGE er ekki aðeins áfellisdómur "um alla stjórnsýslu málsins" eins og segir í frétt mbl.is. Skýrslan leiðir einnig í ljós alvarlega bresti ákveðinna einstaklinga. Umboðssvik er líklega rétta orðið yfir gjörðir þáverandi borgarstjóra Reykvíkinga, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Maðurinn starfaði í umboði almennings - hann átti að gæta milljarða verðmæta í almenningseigu - hann brást því trausti. Hann sagði vísvitandi ósatt, oftar en einu sinni, eins og kom fram í greinargóðri Kastljóssumfjöllun í gærkvöld.
Nú hefur fengist staðfest að ekki aðeins voru verkferlar og valdmörk óskýr, heldur voru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir teknar án fullnægjandi umræðu eða samþykkis kjörinna fulltrúa. Í ljós er komið að fulltrúi FL-Group hafði beina aðkomu að gerð þjónustusamningsins milli REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Aðkoma FL-Group var mikil og jafnvel ráðandi í samningagerðinni. Stýrihópurinn er sammála um að trúnaðarbrestur hafi orðið milli æðstu stjórnenda REI og OR annars vegar og ákveðinna borgarfulltrúa hins vegar.
Og samt segir í skýrslunni að hún sé "málamiðlun" meðlima hópsins og að farinn hafi verið "meðalvegur" í orðalagi hennar.
Detta mér nú allar dauðar lýs - ætlar enginn að segja neitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem ítrekað fór með ósannindi? Eða þurfa sveitarstjórnarmenn ekki að axla ábyrgð þegar þeir verða uppvísir að vísvitandi blekkingum? Og hvað með stjórnir þessara fyrirtækja sem tóku þátt í samsærinu - eða aðra sem þarna spiluðu með? Allir þessir aðilar eru rúnir trausti. Þeir hafa brotið af sér - alvarlega. Mál Árna Johnsens er hátíð miðað við þetta.
Hér kemur engin "málamiðlun" til greina. Á sama tíma og mönnum er varpað í fangelsi fyrir að stela sér skiptimynd á bensínstöðvum, neitaég að trúa því að þessi skýrsla verði látin duga sem endapunktur þessa máls. Ef svo fer, þá búum við ekki í lýðræðislegu réttarríki.
![]() |
REI skýrslan áfellisdómur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Maðurinn er ljósbrigði - mikil og tvenn
6.2.2008 | 09:04
Í framhaldi af þeirri umræðu um skólamál sem spunnist hefur á síðunni minni síðasta sólarhringinn - með hugleiðingum um fjölgreind og þarfir barna - langar mig að sýna ykkur ljóð eftir Ólínu Andrésdóttir skáldkonu. Hún komst oft vel að orði um ýmislegt - þessi fjarfrænka mín, og alnafna ömmu minnar, sem augljóslega hugsaði margt og átti sínar heimspekilegu stundir í einrúmi. Á slíkri stundu hefur þetta ljóð orðið til - það er þrungið speki:
Allir kunna að brosa, þó augun felli tár,
allir reyna að græða sín blæðandi sár,
alltaf birtist gleðin þótt eitthvað sé að,
allir þekkja ástina, undarlegt er það.
Maðurinn er steyptur úr misjöfnum málm,
maðurinn á skylt við hinn blaktandi hálm.
Maðurinn er knörr, sem klýfur ölduföll,
kraftur sem rís hátt eins og gnæfandi fjöll.
Maðurinn er vetur með myrkur og tóm,
maðurinn er sumar með geisla og blóm,
maðurinn er ljósbrigði, mikil og tvenn,
maðurinn er tími og eilífð í senn.
(Ólína Andrésdóttir)
Ljóð | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Er skólakerfið (enn) eins og herþjónusta?
5.2.2008 | 10:43
Félagi minn sendi mér að gamni viðtal sem birtist við Jón Gnarr í blaði um daginn - það hafði farið framhjá mér. Þarna ræðir Jón Gnarr meðal annars reynslu sína af skólakerfinu - og líkir henni við herþjónustu. Sjálfur átti Jón við athyglisbrest og ofvirkni að stríða sem barn og unglingur, og í viðtalinu kemur fram að hann hefur mátt vinna mikið í sjálfum sér. Það er því athyglisvert að lesa um reynslu hans af íslensku skólakerfi - og satt að segja heyrði ég í lýsingum hans enduróm af ýmsu sem ég minnist sjálf frá minni skólagöngu. Nú er spurningin - hafa hlutirnir mikið breyst?
Hér kemur búturinn sem mér fannst áhugaverður. Jón segir um skólakerfið:
„Það kennir þér ákveðin gildi sem þú mátt aldrei efast um. Þú mátt aldrei efast um mikilvægi þess að kunna dönsku. Það er ekki til umræðu, þetta eru reglur sem þú hlýðir. Þeir sem stunda vel kjarnafögin sem eru grundvallarstoðir skólakerfisins hljóta umbun, beina og óbeina. Velþóknun leiðbeinanda - þeir sýna þér velþóknun, hrós. Þeir sem á einhvern hátt vilja ekki eða geta ekki tileinkað sér námið mæta afgangi. Stuðningskennsla fellur niður vegna veikinda starfsfólks eða tímaleysis. Það segir manni að þetta er bara hlutur sem mætir afgangi.
Grunnfög eins og stærðfræði ganga fyrir og tekst vel að fylla upp í vöntun á kennurum þar. Mér finnst miskunnarlaust hvernig farið er að því að aðgreina þá sem geta tileinkað sér og þá sem geta ekki tileinkað sér. Verið er að búa til einstaklinga sem vert er að veðja á fyrir samfélagið. Maðurinn með dönskuna, stærðfræðina og íslenskuna á og sýnir að hann er „player" hann spilar með og er góður hermaður."
Jón þú munt aldrei verða...
„Ég var í opnum skóla, Fossvogsskóla. Auðvitað tekur maður til sín það sem að sagt er við mann í skóla hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Það var sagt við mig mjög snemma að ég ætti að verða leikari og rithöfundur. Mér fannst það gaman. Mig langaði mjög ungur til þess að verða bæði. Ég sá fyrir mér að í framtíðinni væri ég að skapa hugmyndir því að þær sköpuðust sjálfkrafa í hausnum á mér. Ég gat matreitt hugmyndir sem voru ýmist fyndnar og athyglisverðar en ég vissi ekki með hvaða hætti ég gæti notað þær. Kennarar sögðu við mig alla barnaskólagöngu mína: „Þú kemst aldrei neitt áfram á kjaftavaðli Jón. Jón, þú munt aldrei ná árangri í lífinu með fíflagangi." Þetta var kolrangt. Ég hef náð árangri í lífinu með þessu tvennu; kjaftavaðli og fíflagangi."
Í lok viðtalsins kemur Jón Gnarr inn á umhugsunarvert atriði. Hann segir:
„Óeðlileg hegðun er oft eðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum. Óeðlilegu aðstæðurnar eru oft duldar þegar hegðunin verður auðsjáanleg. Ég er ekki að segja að það sé alltaf. En oft er vandamálið miklu stærra en einn einstaklingur. Það verður að skoða hann sem hluta af þeirri heild sem hann tilheyrir. Ég í Fossvogsskóla gekk ekki upp. Ef ég hefði verið í Skemmtilega skóla Reykjavíkur þá hefði ég brillerað. Ég hefði fengið að tala og vera fyndinn og skemmtilegur og fengið að segja sögur allan daginn og læra á hljóðfæri og setja upp leikrit. Ég hefði verið aðalkrakkinn í þeim skóla. Hvort var rangt skólinn eða ég? Þar sem ég er manneskja en skólinn ekki þá hallast ég að því að þeir hafi haft rangt fyrir sér."
Umhugsunarvert
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
GSM-samband á Ströndum - en hvað með Ísafjarðardjúp?
3.2.2008 | 12:32
"Ekkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd" segir á fréttavef Strandamanna nú um helgina. Þeir eru harla kátir yfir þessu Strandamenn, sem vonlegt er. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga. Sendirinn dregur um 100 km en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.
Gott - ég óska Strandamönnum til hamingju.
En hvenær skyldi röðin koma að Ísafjarðardjúpi sem enn er sambandslaust að mestu? Nýlega fór þungaflutningabíll þar út af fyrir skömmu í vonskuveðri. Ökumaðurinn vissi ekki hvar hann var staddur, svo mikill var snjóbylurinn. Hann taldi það guðsmildi að hafa þó náð símasambandi. Venjulegur farsími hefði ekki náð sambandi á þessum slóðum. Komið hefur fyrir að bílar hafa lent í óhöppum þarna og farþegar og ökumenn þurft að bíða tímunum saman eftir aðvífandi aðstoð, vegna þess að ekki er hægt að hringja eftir hjálp.
Ekki er ýkja langt síðan bæjarstjórinn í Bolungarvík mátti dúsa dágóða stund með börn í aftursætinu hjá sér eftir bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði - hann náði ekki farsímasambandi - og því hreinasta mildi að ekki höfðu orðið umtalsverð slys á fólki við óhappið.
Þetta er umhugsunarefni fyrir alla þá sem málið varða: Fjarskipafyrirtæki og -yfirvöld.
*
PS: Ég tók mér það bessaleyfi að birta þessa mynd af strandir.is - það fylgir því miður ekki sögunni hver tók hana.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Rándýr þorramatur
1.2.2008 | 14:49
Jæja, þá er komið að fyrsta verðlagspistlinum á bloggævi minni - það er neytandinn sem nú lætur til sín heyra: Mér er nóg boðið. Þrettánhundruð krónur fyrir tvær sneiðar af hrútspungum og hvalspiki - samanlagt ein lófafylli af mat
Þegar við bætist lifrarpylsukeppur (350 kr), sneið af nýrri svínasultu (226 kr. - helmingi ódýrari en sviðasultan sem var að sjálfsögðu ekki keypt), pakki af flatkökum (108 kr) hálfur sviðakjammi (299 kr) og sletta af rófustöppu (566), þá kostaði þessi auma þorramáltið sem dugði rétt fyrir tvær fullorðnar manneskjur um þrjúþúsund krónur!
Til frekari upplýsingar þá er það verslunin Samkaup á Ísafirði sem verðleggur svona. Kallið mig nískupúka - en sú var tíðin að slátur og innmatur voru ódýrasti matur sem hægt var að fá, enda ekki mikið lagt í sviðasultu eða súran mat. Samanborði við Ora-fiskibollur eða annan unninn mat er þessi verðlagning fáránleg.
Og hvað gerð ég svo? Neytandinn sjálfur? Hundþreytt eftir leiðinlegan dag lét ég mig hafa það. Nennti ekki að keyra inn í Bónus til að gera ódýrari innkaup - vildi komast heim - nennti ekki að elda. Get því auðvitað sjálfri mér um kennt og er ósátt við bæði sjálfa mig og verslunina
Bloggar | Breytt 2.2.2008 kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)