Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Boltum léttum blaka rjóð ...

solheimajokull07Í vetur hef ég verið að upplifa alveg nýja hluti í lífi mínu – atburði, félagstengsl og athafnir sem mig hefði aldrei órað fyrir að ég ætti eftir að verða þátttakandi í. Ég er orðin meðlimur í björgunarsveit Vestfjarða, farin að spila blak með Skellunum á Ísafirði, hef verið að syngja í tveimur kórum, Sunnukórnum og nýstofnuðum kvennakór sem nefnist Valkyrjurnar.

Dæmigerð vikan hjá mér gæti sumsé byrjað með fræðslufundi á mánudagskvöldi, þá er blakæfing og kór á þriðjudegi, síðan kóræfing og leitaræfing á miðvikudegi, blak á fimmtudegi og svo leitaræfing á sunnudegi. Þessu verður eiginlega best lýst svona: 

  • Boltum léttum blaka rjóð, 
  • brölti milli fundanna. 
  • Í kórum frem ég fögur hljóð
  •  og fer svo beint "í hundana"!

 snjoleit

Fyrst langar mig að segja ykkur frá Björgunarhundasveitinni á Ísafirði.

Í haust fór ég að æfa tíkina mína hana Blíðu með björgunarhundasveitinni. Blíða er 18 mánaða dalmatíu-hundur, orkumikill og sterkur. Alla sunnudaga höfum við æft með sveitinni ásamt sex öðrum unghundum og eigendum þeirra, allt að fjóra klukkutíma á dag. Það kom mér á óvart hve öflug þessi leitarsveit er hér á Ísafirði – en þarna fer fram öflugt starf af miklum dugnaði og áhuga, eins og sjá má á heimasíðu sveitarinnar http://www.simnet.is/bjorgunarhundar, en þar er að finna bæði frásagnir og myndir af starfinu. Við höfum til dæmis haft æfingar á Mýrdalsjökli í janúar og Snæfellsjökli í febrúar. Um miðjan mars verður svo farið í fimm daga æfingabúðir upp á öræfi, og haldið til við Kröflu. Þetta stjákl í snjó og kulda reynir talsvert á okkur vinkonurnar, en við erum býsna stæltar orðnar báðar tvær.

Fundabröltið 

Nokkru áður en ég gekk til liðs við leitarsveitina tók ég að mér formennsku í Vestfjarða-akademíunni, en það er félagsskapur fræðimanna á Vestfjörðum sem ég átti þátt í að stofna fyrir rúmu ári. Félagið beitir sér fyrir umræðu og fyrirlestrum í samstarfi við ýmsa aðila, einkum Háskólasetur Vestfjarða. Það er gaman að taka þátt í þessu starfi. Nú erum við komin með vísi að heimasíðu sem Háskólasetur Vestfjarða hefur verið svo elskulegt að vista fyrir okkur http://www.hsvest.is/vak .  

Blakið 

Jæja, svo skellti ég mér til liðs við blak-liðið Skellurnar, en það er hópur kjarnakvenna sem æfa tvisvar í viku. Ég hef svosem aldrei verið mikil íþróttakona (nema þá helst í hestamennskunni) svo ég var eiginlega algjör byrjandi. Þær hafa hinsvegar sýnt mér mikla þolinmæði á meðan ég hef verið að komast upp á lag með blak-listina, smöss og fingurslög með meiru. Um næstu helgi er stefnan tekin á  Akranes til þess að taka þátt í blakmóti á laugardeginum. Þetta verður mitt fyrsta keppnismót í þessari íþrótt. Ég reikna með að verða mest á varamannabekknum, enda “yngst” í liðinu (þó ég sé líklega elst í árum) – en ég mun ekki draga af mér á bekknum við að hvetja.

Svo er það kórastarfið

Já, því fylgir nú ýmislegt. Hver hefði t.d. trúað því fyrir fáum mánuðum að Ólína Þorvarðardóttir stæði upp fyrir haus að baka ofan í togaráhafnir í fjáröflunarskyni fyrir kvennakór. En það er svo mikill hugur í Valkyrjunum að nú eru allar klær hafðar úti við að afla aura til að fjármagna þátttöku í kóramótum og fleiru. Í fyrradag komum við saman sex konur heima hjá mér og bökuðum einhver ósköp fyrir áhöfnina á Júlíusi Geirmundssyni. Næst á dagskrá er svo “hatta-ballið”, en það verður árshátíð kórsins sem jafnframt verður fjáröflunardansleikur þann 24. mars. Það verður fjör! 

Jamm, enginn veit sína ævina ... og dag skal að kveldi lofa!


Hinar hljóðu hamfarir

Ísafjordur-vetur  Náttúruhamfarirnar sem gengu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995 voru þungt högg fyrir byggðarlagið. Þær dundu yfir á einni nóttu og afleiðingarnar voru öllum ljósar. Enda vafðist ekki fyrir landsmönnum, stjórnvöldum og öllum sem vettlingi gátu valdið að rétta fram hjálparhönd. Samtakamáttur og samhugur þjóðarinnar allrar varð þess valdandi að heimamönnum tókst að endurreisa tvö byggðarlög, nánast úr rústum.  Það sem hefur verið að gerast í atvinnumálum hér á svæðinu undanfarna áratugi eru annarskonar hamfarir. Það eru hinar þöglu hamfarir sem ekki blasa við í fljótu bragði þar sem þær hafa átt sér stað á löngum tíma. Þess vegna hefur heldur ekki verið risið upp að heitið geti, hvorki í vörn né sókn.   

Linsoðinn froskur í vatni. 

Hlutskipti vestfirskra byggða hefur eiginlega verið hið sama og frosksins sem soðinn er rólega í vatninu. Hann áttar sig ekki á því hvað er gerast vegna þess að hann sjálfur hitnar með vatninu, verður máttfarinn og soðnar svo til bana.  Lítum á hver þróunin hefur verið: 

1)       Íbúum hefur fækkað um 25% á 25 árum.

2)       Útgerð og fiskvinnsla eru ekki svipur hjá sjón eftir að margumrædd “hagræðing í sjávarútvegi” náði fram að ganga á landsvísu í kjölfar óréttláts kvótakerfis. Af níu togurum sem gerðir voru út frá norðanverðum Vestfjörðum á áttunda áratugnum eru 2 eftir (mætti með góðum vilja segja 3).

3)       Hagvöxtur á svæðinu hefur verið neikvæður á sama tíma og hann hefur verið jákvæður í öðrum landshlutum (nema Norðurlandi vestra). Til dæmis var hagvöxtur Vestfirðinga -6% en +29% á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1998-2004.

4)       Flest sveitarfélögin á Vestfjörðum berjast í bökkum og hafa neikvæða rekstrarstöðu.

5)       Vegakerfi landshlutans er enn ófrágengið og sum svæði enn ekki komin í vegasamband að heitið geti. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun er enn 2-3 ára bið eftir bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, og enn lengri bið fyrir suðurhluta svæðisins.

6)       Flutningskostnaður er  hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, lætur nærri að hann sé um 30-40% hærri en á Akureyri, svo dæmi sé tekið.

7)       Menntunarstig er lágt miðað við aðra landshluta.   

Samstöðuskortur  

Þrátt fyrir þetta hefur ekki tekist að mjaka ráðamönnum svæðsins, hvorki á þingi né í sveitarstjórnum, til þess að sameinast um þau baráttumál sem mestu skipta fyrir byggðarlagið. Því miður hafa varðhundar stjórnmálaflokkanna í heimabyggð einatt komist upp með að hlaupa í skotgrafirnar og vefja mál í flokkspólitískar þrætur, þegar veigamikil mál ber á góma. Það er tími til kominn að velunnarar þessa svæðis taki saman höndum, teygi sig hver í átt að öðrum yfir skotgrafirnar, og beiti sér í sameiningu fyrir björgun þessa byggðarlags.Annar vandi er stefnuleysið, til dæmis eins og það hefur birst í samgöngumálum. Ég leyfi mér að nefna ákvörðun og nýafstaðin fagnaðarlæti yfir Óshlíðargöngum sem skyndilega eru komin framfyrir Arnarfjarðargöng – bráðnauðsynlega samgöngubót sem beðið hefur verið eftir árum saman - á samgönguáætlun.  

 Gleðisöngskrafan 

Og svo er það gleðisöngskrafan. Þá sjaldan eitthvað næst fram er fjöldanum skipað að fagna – hátt og lengi, í nafni jákvæðrar umræðu. Annars eru menn sakaðir um “niðurrif”, hvorki meira né minna. Menn skulu kvaka og þakka hvað lítið sem gerist. Þessi gleðisöngskrafa er orðin að svipu sem svífur yfir höfðum íbúa á Vestfjörðum, því ekki má ræða það sem miður fer eða “skaða ímynd svæðisins” með því að tala um vandamálin eins og þau eru. Jæja, ég er búin að fá nóg af því að þegja – ég tek ekki þátt í þessari vitleysu lengur. Gleðisöngsveitin verður að horfast í augu við þá staðreynd að ímynd Vestfjarða hefur beðið hnekki! Hvenær sem samgöngur ber á góma, hvenær sem starfsemi er lögð niður eða hagvaxtartölurnar eru rifjaðar upp, þá er ímyndarvandi á ferðum fyrir Vestfirði. Það er líka ímyndarvandi á ferðum þegar ótíðindin eiga sér stað beint í kjölfar fagnaðarláta af litlu tilefni, beint ofan í lofsyrði um “uppsveiflu” og “framfarir” sem lítil eða engin innistæða reynist svo fyrir. Þetta er grafalvarlegt mál.   

Stökkvum upp úr! 

Þegar þessi orð eru skrifuð skín sól á snæviþakin fjöllin umhverfis Ísafjörð. Djúpið blasir við mér út um gluggann fagurblátt og glitrandi í sólskininu. Ég vil búa hér – hér líður fjölskyldu minni vel, hér er gott fólk og fallegt umhverfi. Það er til nokkurs að vinna að berjast fyrir framtíðinni á þessum fallega stað.  En, ég vil ekki vera linsoðinn froskur í potti fullum af hálfvelgjuloforðum og skammtímalausnum. Þetta landssvæði hefur skapað þjóðarbúinu verðmæti, verið undirstaða sjávarútvegs og þar með þjóðartekna. Nú er röðin komin að okkur að fá almennilega vegi sem eru samanburðarhæfir við það sem gerist í öðrum landshlutum; strandsiglingar og jarðgöng undir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði til þess að lækka flutningskostnað og tengja saman byggðarlög. Síðast en ekki síst þurfum við Háskóla á Ísafjörð! 


Þjóðin þarf mömmu

Trúnó á laugardaginn. 

 

Á laugardaginn sótti ég ársfund kvennarhreyfingar Samfylkingarinnar sem haldinn var á hótel Loftleiðum. Margar konur mættar til leiks, góð stemning og fjörlegar umræður. Um kvöldið gerðum við okkur glaðan dag yfir kvöldverði – ég í hlutverki veislustjóra að þessu sinni - enn meira fjör og enn fjörlegri umræður.

 

Það er endurnærandi að hitta gáfaðar og skemmtilegar konur víðsvegar að og eiga með þeim stund í glaðværum hópi. Ræða stjórnmál, kvenréttindi, velferðarmál, þjóðfélagsþróun – gera saklaust grín að sjálfum sér og öðrum, skiptast á skoðunum og reynslusögum, hlæja. Svona “trúnó” stemning án þess þó að mærðin eða værðin fari úr hófi. Eftir situr góð tilfinning – ýmsu ólokið og mörg vígi að vinna, vissulega – en aukið baráttuþrek og skýrari sýn á verkefnin framundan. Þannig er það bara.

 

Þarf þjóðin landsfeður?

 

Ég fór að hugsa um það eftir þessa ánægjulegu samveru með samfylkingarkonunum á laugardagskvöldið hvers þjóðin þyrfti við um þessar mundir. Hugurinn reikaði ósjálfrátt aftur í stjórnmálasöguna, til allra landsfeðranna sem við sjáum á svarthvítum myndum í Íslandssögubókum.

Af lestri þeirra bóka má ýmislegt læra um þróun samfélagsins undanfarnar aldir. Þó  rúma þær engan veginn allar breytingarnar sem orðið hafa á íslenskum þjóðfélagsháttum, svo ör sem þróunin hefur verið. Ekki er saman að jafna lífskjörum og tækifærum fólks í dag eða við upphaf síðustu aldar. Hinsvegar hafa þjóðfélagsbreytingarnar líka tekið sinn toll. Tæknidýrkun, neysluhyggja, skeytingarleysi markaðsafla fyrir samfélagslegum gildum, náttúruauðlindum og mannauði, eru bara örfá dæmi um þær vár verjast þarf.  

Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og barátturþek

til þess að vinna “Íslandi allt” eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir eru komnir til starfa í stórfyrirækjum og farnir í “úrásir” erlendis – og þeim fækkar stöðugt sem horfa umhyggjuaugum á landið sitt.

Ég held satt að segja að tími landsfeðranna sé liðinn – þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig – en hver ætlar að sjá um fólkið?

 

 Þjóðin þarf “mömmu”. 

Það er tími til kominn að leiða umhyggjuna til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin þarf ekki fleiri landsfeður. “Þjóðin þarf mömmu”, svo ég vitni til orða flokksbróður míns, Guðmundar Steingrímssonar sem hann lét falla á fundi hér fyrir vestan nýlega. Mæli hann manna heilastur. Það sem íslensk þjóð þarf sárlega á að halda um þessar mundir er einmitt umhyggja.

Þau vita það sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma, áfalla, vanrækslu, ellihrörnunar, fátæktar eða atvinnuleysis – svo dæmi séu tekin. Þau vita það sem standa frammi fyrir kerfinu og bíða úrlausnar mánuðum, jafnvel árum saman. Við vitum það sem fylgjumst með fréttum af málefnum öryrkja, lesum um hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu, verðum vitni að ráðaleysi í skólakerfinu,   misréttinu á vinnumarkaðnum eða arðsemisákvörðunum stórfyrirtækja – svo einungis fátt eitt sé upp talið af öllu því sem aflaga hefur farið í samfélagi okkar.

 

Nú er verk að vinna

 

 

Í fyrsta skipti frá upphafi lýðveldis stöndum við frammi fyrir því sögulega tækifæri að geta leitt konu til valda sem forsætisráðherra. Sú kona hefur sýnt og sannað við ótal tækifæri að hún hefur bæði hugrekki og heiðarleika til þess að vinna þau verk sem vinna þarf. Hún talar hreint út, hún stendur við orð sín og hún hikar ekki við að skoða hluti í nýju ljósi ef aðstæður breytast. Hvers vegna? Vegna þess að Ingibjörg Sólrún ber umhyggju fyrir landi sínu og þjóð – hún er nefnilega kona sem gegnt hefur bæði móðurhlutverki á heimili og forystuhlutverki í opinberu lífi. Hún býr yfir þeim samþætta streng sem góður stjórnmálaleiðtogi þarf að hafa.

 Við megum ekki láta þetta tækifæri úr greipum renna.


Hver er ábyrgð Marels?

Marel ber margvíslega samfélagslega ábyrgð“ sagði talsmaður fyrirtækisins í sjónvarpsviðtali sama dag og tilkynnt var um að Marel hefði ákveðið að loka starfsstöð sinni á Ísafirði. Það vafðist ekki fyrir stjórnendum Marels að svipta þar með 25 starfsmenn atvinnunni; svipta fámennt byggðarlag mikilvægri máttarstoð í atvinnulífinu. Eftir sitja 25 fjölskyldur í uppnámi, uggandi um framtíðina – heilt byggðarlag felmtri slegið yfir ótíðindum enda viðbúið að atgerfisflótti og búseturöskun fylgi í kjölfariðHví skyldu stjórnendur stórgróðafyrirtækis velta slíkum hlutum fyrir sér? Þess væntir trúlega enginn. En að þeir skuli hafa kjark til þess að tala í sama orðinu um „samfélagslega ábyrgð“ það er meiri ósvífni en maður hefði búist við að óreyndu.

Hagræðingarkrafan?

Í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar, framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels, kom fram fram að miklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi Marels undanfarin tvö ár. Á síðasta ári keypti fyrirtækið tvö stór fyrirtæki, AEW Delford Systems á Englandi og Scanvægt í Danmörku. Við þetta tvöfaldaðist Marel að stærð og rekur nú á fimmta tug starfsstöðva í 22 löndum, eins og fram hefur komið í fréttum.

Var helst á manninum að skilja að vegna þessarar velgengni fyrirtækisins væri nú öldungis óhjákvæmilegt annað en að stefna á frekari „samþættingu“ fyrirtækjanna í eigu Marels, „finna samlegðaráhrif og hagræða í rekstrinum“ eins og það var orðað. Já, þegar velgengnin er sem mest, þá er um að gera að hagræða og græða meira.

Ekki eru mörg ár síðan talsmenn þessa sama fyrirtækis komu hingað vestur í þeim erindum að innlima annað, rótgróið tæknifyrirtæki, Póls – einmitt til þess „að ná fram samlegðaráhrifum í innkaupum og sölukerfi“ eins og það var orðað á þeim tíma. Fram hefur komið að forsvarsmenn Marels fullvissuðu þá ráðamenn bæjarins um að Marel stundaði ekki uppkaup fyrirtækja til þess að leggja þau niður. Við sjáum nú hve mikið var að marka það tal. Nú vitum við að það var álíka öfugmæli og tafsið um „samfélagslega ábyrgð“ sem hraut af vörum framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels í sjónvarpsviðtalinu nú síðast.

Ímyndin?

Á síðustu árum hefur athygli markaðsfræðinga beinst í vaxandi mæli að ímynd fyrirtækja. Góð ímynd er yfirleitt talin jafngildi hagnaðar eða gróða – enda verja mörg þeirra háum fjárhæðum til ímyndarsköpunar. Marel er fyrirtæki sem hefur haft á sér þokkalegt orð til þessa. Meðal annars þess vegna hef ég, líkt og margir, keypt í því hlutabréf. Minn hlutur er að sjálfsögðu hverfandi lítill á mælikvarða þeirra fjármuna sem höndlað er með í rekstri Marels. En sem hluthafa og velunnara fyrirtækisins til þessa, svíður mér að horfa upp á þessar aðgerðir. Þær eru skeytingarlausar gagnvart samfélagslegum og mannlegum gildum – gerðar í hagnaðarskyni á kostnað annarra verðmæta. Auk alls annars trúi ég því að þær séu skaðlegar fyrir ímynd fyrirtækisins – en yfir því græt ég þurrum tárum úr því sem komið er.

Siðferðileg ábyrgð?

Hafi stjórnendur Marels nokkurn tíma leitt hugann að „samfélagslegri ábyrgð“ hefðu þeir að sjálfsögðu aldrei lagt niður starfsstöð í byggðarlagi sem sárlega þarf á slíkum atvinnurekstri að halda. Þeir hefðu frekar látið þetta byggðarlag njóta góðs af samlegð og hagræðingu, t.d. með því að færa hingað aukin verkefni. Því miður virðist deginum ljósara að ekkert slíkt hefur hvarflað að þeim.

Samfélagsleg ábyrgð?

Stjórnendur Marels virðast ekki vita hvað samfélagsleg ábyrgð er. Og samfélagið – sem nært hefur starfsemi þeirra, komið undir þá fótunum, fært þeim þekkingu, mannauð og tækifæri í hendur – það hverfur í mistur gleymskunnar jafnóðum og það hefur skilað sínu hlutverki. Þegar útrásin er orðin að veruleika og viðskiptin farin að ganga greitt, þá eru það sko „stjórn fyrirtækisins“ og „hluthafarnir“ sem sýna þarf hagnaðinn, ekki samfélagið. Þetta eru nefnilega stórir kallar í alvöru bissness. Þeir keyptu upp tvö erlend stórfyrirtæki og urðu svo stórir að nú þurfa þeir að „hagræða“.

Svei. Ég vil ekki eiga hlut í þessu fyrirtæki og mun selja mín bréf í Marel við fyrsta tækifæri.



Loksins farin að blogga!

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband